3.2.2019 | 13:33
Tvenns konar rök
Í megindráttum hafa komið fram tvenns konar rök gegn innleiðingu Orkupakka #3. Í fyrsta stjórnlagaleg rök, sem snúa að of víðtæku og íþyngjandi framsali ríkisvalds fyrir þegnana, sem íslenzka Stjórnarskráin heimilar ekki, og í öðru lagi fæli innleiðing Evrópuréttar á sviði orkuflutninga á milli landa í sér undirtök Evrópusambandsins, ESB, á raforkumarkaðinum hér, og að því hafa verið leidd traust rök, að markaðskerfi ESB á Íslandi mundi hafa í för með sér viðsjárverða hækkun rafmagnsverðs án sæstrengstengingar og enn meiri hækkun með sæstrengstengingu, eins og dæmin sanna frá Noregi.
Iðnaðarráðherra heldur því blákalt fram, að Orkupakki #3 feli ekki í sér marktækt frávik frá stefnu íslenzkra stjórnvalda hingað til. Þar á hún áreiðanlega við innleiðingu Orkupakka #1 og #2. Þetta er þó mikill misskilningur og vanmat á ætlunarverki ESB hjá henni og ráðuneytisfólki hennar, því að frá Orkupakka #2 og til Orkupakka #3 varð eðlisbreyting á stefnu ESB í orkumálum. Lissabon-samningurinn, stjórnarskrárígildi ESB, þar sem m.a. er kveðið á um tilfærslu valda yfir orkumálunum frá aðildarlöndunum og til stofnana ESB, gekk í gildi. Forskrift ESB um tilhögun orkumálanna varð ekki lengur valkvæð fyrir aðildarlöndin, heldur skylda að viðlögðum refsingum, eins og þegar hafa komið fram sem sektir ACER/ESB í milliríkjadeilum aðildarlandanna um millilandatengingar. Tilgangurinn helgar meðalið hjá Framkvæmdastjórninni ("Der Erfolg berechtigt das Mittel"), þegar um er að ræða forgangsmál á borð við orkumálin hjá ESB. Vegna ógnvænlegrar stöðu orkumálanna í ESB verður einskis svifizt að hálfu Framkvæmdastjórnarinnar við að fá vilja sínum framgengt um að nýta alla tiltæka endurnýjanlega orku í Evrópu vestan Rússlands fyrir vöruframleiðslu sambandsins. Evrópuréttinum verður beitt til hins ýtrasta með ESB- og EFTA-dómstólinum sem úrskurðaraðila og spilað verður á hagsmunaöfl innan hvers ríkis. Öllu, nema vopnaðri innrás, verður beitt.
Með Orkupakka #3 var hert á "samrunaferlinu". Í Orkupakka #2 er hverju ríki eftirlátið að ákveða sjálft með hvaða hætti það aðlagast innri orkumarkaðinum. Í tilviki Íslands þýddi þetta, að svigrúm til að þróa auðlindastýringu að þörfum hins sérstæða íslenzka raforkukerfis var fyrir hendi. Með Orkupakka #3 er miðstýringarvald Framkvæmdastjórnarinnar aukið verulega með stofnun ACER og handlangara hennar í hverju landi, Landsreglaranum, sem þýðir m.a., að engin grið eru gefin við að samræma orkumarkaði aðildarlandanna. Á frjálsum raforkumarkaði í anda ESB telst það vera brot á samkeppnisreglum að viðhafa miðstýrða auðlindastýringu, sem felur í sér að nýta tiltækt miðlunarvatn sem bezt fyrir orkukerfið allt árið um kring og að nýta virkjuð jarðgufusvæði með sjálfbærum hætti. Þess vegna hentar frjáls raforkumarkaður í anda ACER (Orkustofnunar ESB) illa hérlendis og getur leitt til hækkaðs raforkuverðs vegna orkuskorts og fákeppni. Samþykkt Orkupakka #3 jafngildir tilræði við hagsmuni almennings á Íslandi í bráð og lengd.
Ein róttækasta nýjungin með Orkupakka #3 er embætti Landsreglara, sem verður framlengdur reglusetningararmur ESB á Íslandi, hvað sem líður milliliðnum EES (Eftirlitsstofnun EFTA). Landsreglarinn verður í raun með ráðherravald, og til hans færast völd iðnaðarráðuneytisins yfir orkumálum á Íslandi. Hann verður í orðsins fyllstu merkingu Trójuhestur í íslenzkri stjórnsýslu. Meginhlutverk Landsreglarans er að vera farvegur fyrir bein áhrif Framkvæmdastjórnarinnar á alla þætti, er varða viðskipti með rafmagn á innri markaðinum. Slíkt framsal ríkisvalds er í blóra við Stjórnarskrána.
Þótt íslenzki markaðurinn sé ótengdur öðrum raforkumörkuðum með aflsæstreng, verður hann samt að lúta sömu lögmálum og markaðir meginlandsins eftir innleiðingu Orkubálks #3, þannig að hann sé að fullu aðlagaður Innri markaðinum, ef/þegar til kemur, og notendur venjist miklum orkuverðssveiflum. Bæði miðlun vatns um virkjanir úr miðlunarlónum og gufuflæði úr forðageymum jarðgufuvirkjana eru algerlega háð ákvörðunum um raforkuvinnslu, sem teknar eru á ESB-markaðinum. Er þá lengur hægt að halda því fram, að nýting orkulinda Íslands verði í höndum íslenzkra stjórnvalda ? Landsreglarinn hefur daglegt eftirlit með virkni markaðarins og hefur þannig hönd í bagga með auðlindanýtingunni. Markaðshlutdeild Landsvirkjunar verður án efa þyrnir í augum Landsreglarans, enda í blóra við samkeppnisreglur Evrópuréttarins, að eitt fyrirtæki hafi svo ríkjandi stöðu á markaðinum, sem hæglega getur leitt til misnotkunar hans. Verði gengið til bols og höfuðs á fyrirtækinu, opnast auðvitað möguleiki fyrir orkufyrirtæki eða aðra fjárfesta í EES að eignast hér virkjanir. Orkulind og virkjun verður ekki sundur skilin á Íslandi. Ætla þingmenn að bjóða hættunni heim ?
Um muninn á orkustefnu ESB fyrir Orkupakka #3 frá 2009 og eftir hann skrifaði Elías B. Elíasson á minnisverðan hátt í lokaorðum í Morgunblaðsgrein sinni,
"Að misskilja "rétt"",
þann 25. janúar 2019:
"Þegar orkulögin voru samþykkt árið 2003, blasti við allt annar veruleiki en nú á innri orkumarkaði ESB. Þriðji orkupakkinn mun veita ESB raunyfirráð yfir íslenzkum auðlindum, sem gera eignarrétt okkar að sýndarrétti, þegar fram líða stundir.
Við sjáum sívaxandi miðstýringaráráttu ESB í orkumálum, en sjáum enga enda á þeirri þróun. Sú stefna ESB, sem kemur fram í þriðja orkupakkanum, er sjálfræði okkar hættuleg, og því verður að fella pakkann."
Það er engum blöðum um það að fletta af þessum lýsingum, að fullveldisframsalið til Framkvæmdastjórnar/ACER og Landsreglarans verður verulegt á lykilsviði íslenzks efnahagslífs og má líkja við það að afhenda Framkvæmdastjórninni réttinn til fiskveiðistjórnunar í íslenzku landhelginni ásamt yfirstjórn Landhelgisgæzlunnar. Landsreglarinn mun í raun ráða gjaldskrám dreifiveitnanna og Landsnets, og hann getur krafizt upplýsinga frá öllum orkufyrirtækjunum að viðlögðum sektum, ef þau bregðast ekki rétt við í tæka tíð. Valdframsalið er þess vegna verulega íþyngjandi fyrir fyrirtæki og íbúa landsins. Slíkt framsal ríkisvalds er með öllu óheimilt samkvæmt Stjórnarskrá Íslands. Vissara er að taka mark á varúðarráðstöfunum, sem í henni eru fólgnar, en láta ekki skeika að sköpuðu.
Þar að auki flyzt dómsvaldið úr landi með innleiðingu Evrópuréttar á sviði millilandatenginga fyrir rafmagn. Heyrzt hefur um áhuga á Bretlandi fyrir "Icelink", sem er verkefnisheiti aflsæstrengs á milli Íslands og Bretlands, og er þetta verkefni í Kerfisþróunaráætlun ESB. Sem kunnugt er, er Bretland á leið út úr ESB, og það er ekki vitað enn, hvernig aðild þeirra að ACER-Orkustofnun ESB mun reiða af. Það gæti farið svo, að ESB felli þessa sæstrengstengingu út úr Kerfisþróunaráætlun sinni eða flytji syðri lendingarstað strengsins annað, t.d. til Írlands. Ef ESB fellur alfarið frá stuðningi við þetta verkefni, minnka líkur á, að fjárfestar fáist til verksins. Það er þó alls ekki útilokað, því að líkurnar á umtalsverðum orkuverðhækkunum í Evrópu vestan Rússlands eru enn fyrir hendi, og við u.þ.b. 50 % hækkun gætu strengur og orkusala frá Íslandi staðið undir fjárfestingunum, þótt orkusalan verði víðs fjarri því að verða þjóðhagslega hagkvæm hérlendis. Enginn aðili á Bretlandi hefur tjáð sig fúsan til að ábyrgjast fast verð, sem verkefnið þarfnast, og þess vegna er mikil óvissa um þetta verkefni ríkjandi.
Fari hins vegar svo, að umsókn um lagningu og tengingu sæstrengs, sem lýtur reglum Evrópuréttarins, berist íslenzkum yfirvöldum, og þau hafni umsókninni á forsendum, sem Landsreglarinn/ACER telur stangast á við reglur Evrópuréttarins, þá er komin upp réttaróvissa, sem verður varla vísað til íslenzkra dómstóla, heldur til ESA, og deiluaðilar geta þá aðeins afrýjað úrskurði ESA til EFTA-dómstólsins.
Þannig mun innleiðing Orkupakka #3 ásamt seinni gerðum og tilskipunum, sem eru eðlilegt framhald lagasetningar ESB frá 2009, t.d. gerðar 347/2013, leiða til framsals dómsvalds á málefnasviði, sem hefur grundvallar þýðingu fyrir þróun íslenzks efnahagslífs og þar með fyrir hag fólksins í landinu. Það er óásættanlegt, að íslenzkur réttur verði tekinn úr sambandi varðandi deilumál, þar sem svo mikið er í húfi, enda stríðir það að margra mati gegn Stjórnarskránni.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Evrópumál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Vonandi les Iðnaðarráðherra þessa góðu grein þína og kannski hverfur hún frá villu síns vegar?
Jóhann Elíasson, 3.2.2019 kl. 17:17
Frábær og skýr rökstuðningur fyrir málinu öllu, Bjarni, þessu mikla og brýna varnar- og hagsmunamáli Íslands.
Svo blaðrar ekki aðeins iðnaðarráðherra með léttvægum hætti um 3. orkupakkann sem hættulausan, heldur hefur ófaglegan, illa upplýstan og jafnvel hagsmunatengdan Björn Bjarnason sér til trausts og haglds til þess bæði að (1) hún líti skár út en ella og ekki eins ábyrgðarlaus og hún raunverulega er, og (2) til að afla 3.orkupakkanum stuðnings meðal fleiri Sjálfstæðisflokks-þingmanna; þar liggur t.d. hinn ungi Vilhjálmur Árnason nú þegar sem skotinn, fallinn fyrir áróðrinum.
Svo er annar Moggabloggari en Björn Bjarnason gjammandi hér sífelldlega eins og húsbóndahollur fjárhundur þessa ESB-meðvirka liðs, hann Þorsteinn Siglaugsson, og afar leitt að sjá hann kominn í hóp þeirra sem vilja gambla með hagsmuni og jafnvel fullveldisréttindi Íslands.
En þjóðhollir standa með þér og kollega þínum Elíasi, Bjarni.
Jón Valur Jensson, 3.2.2019 kl. 19:43
Sælir báðir tveir, hér að ofan.
Þetta mál er að sínu leyti prófsteinn á lýðræðið. Embættismannakerfið reynir allt hvað af tekur að telja þingmenn á að samþykkja það, sem úti í Brüssel er búið að telja þeim sjálfum trú um, að breyti litlu fyrir Ísland, en miklu fyrir EES. Sannleikurinn er sá, að þessi lagabálkur er sniðinn til þess að færa völd úr höndum lýðræðislega kjörinna fulltrúa í hverju landi og til embættismanna. Hérlendis verður fulltrúi þessa erlenda valds, Landsreglarinn, æðsti valdsmaður orkumála í landinu. Það er þetta, sem átt er við, þegar sagt er, að Orkustofnun verði "sjálfstæðari" eftir innleiðinguna og stofnun Landsreglaraembættisins. Það, sem gagnast kann meginlandinu, getur ekki gagnast hérlendis, heldur orðið stórskaðlegt, vegna gjörólíkra aðstæðna á orkusviðinu.
Bjarni Jónsson, 3.2.2019 kl. 20:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.