Innviðagerðin, "NorthConnect og Ice-Link"

Hvað gerist, ef Ísland eða Noregur hafnar umsókn um leyfi til að leggja sæstrengingina Ice-Link og NorthConnect ?  Höfnun er ekki hægt að rökstyðja með því, að Íslendingar og/eða Norðmenn vilji koma í veg fyrir verðhækkun á raforku.  Slíka yfirlýsingu mun Evrópusambandið, ESB, líta á sem mismunun (eftir búsetu), sem er ólögleg að Evrópurétti.  

Í Noregi hefur fyrirtækið NorthConnect sótt um leyfi fyrir sæstreng til Skotlands (Petershead).  Enn hefur engin umsókn borizt hingað til lands um Ice-Link, svo að vitað sé, en fyrirhuguð lega hans er frá Suðaustur-Íslandi til Skotlands. Eðlilega bíða fjárfestar eftir BREXIT.  Hvort Bretar verða áfram í Orkusambandi ESB (ACER) veit enginn, en hitt er öruggt, að þeir munu halda áfram miklum orkuviðskiptum gegnum aflsæstrengi til meginlandsins. 

Í Noregi var það eitt átta skilyrða Verkamannaflokksins fyrir samþykki Þriðja orkumarkaðslagabálksins á Stórþinginu í marz 2018, að ekkert skyldi verða af NorthConnect verkefninu, a.m.k. ekki fyrr en reynsla hefði fengizt af áhrifum sæstrengja til Þýzkalands og Bretlands, sem fara eiga í rekstur 2020-2021.  Hérlendis boðaði iðnaðarráðherra haustið 2018 framlagningu lagafrumvarps um, að Alþingi skuli eiga síðasta orðið um leyfisveitingu fyrir aflsæstreng til útlanda, en ekkert bólar á því, enda mundi slíkt verða á skjön við samþykki Orkubálks ESB #3.  Þannig bærust gagnstæð skilaboð frá Reykjavík til Brüssel. Hún virðist nú hafa haft buxur með, að slík lagasetning verði út í loftið, því að hún hefur haft á orði, að ákvæði EES-samningsins, sem banna hömlur á inn- og útflutningi vöru og þjónustu, ógildi slíka lagasetningu Alþingis. 

  Hins vegar eru bæði NorthConnect og Ice-Link innfærðir í Kerfisþróunaráætlun ESB, og báðir eru á forgangsverkefnaskrá (PCI) um sameiginleg hagsmunaverkefni ESB.  Að búa í haginn fyrir vel virkt orkukerfi og orkumarkað í ESB, með innviðauppbyggingu, er verkefni nr 1 hjá Orkusambandi ESB og orkustofnun þess, ACER. 

Innviðagerðin á að mynda snurðulausan feril fyrir samtengiverkefnin.  

Það eru þó áfram orkustofnanirnar, t.d. OS og NVE, sem eiga að afgreiða umsóknir um millilandatengingar, en Innviðagerð ESB torveldar mjög höfnun eða frestun.  Innviðagerðin frá 2013 (#347/2013) er ekki hluti af Orkupakka #3, en er ein af mörgum ESB-reglugerðum á orkumálasviði, sem hafa verið settar í bið á skrifstofum EES, þar til Ísland, Noregur og Liechtenstein ganga í ACER án atkvæðisréttar. Það gæti staðið í þeim, ef þau væru látin gleypa of stóra munnbita í einu. Hér birtist enn hin alræmda spægipylsuaðferð ESB, einnig nefnd gúrkuaðferðin, sem slævir vitundina í þjóðríkjunum gagnvart ásælni hins fjölþjóðlega valds.  

Engum blöðum er þó um það að fletta, að verði Orkupakki #3 felldur inn á EES-samninginn, mun koma þrýstingur á þessi EFTA-lönd að innleiða orkutengdar reglugerðir og tilskipanir, sem hafa verið settar í  bið.  Orkupakki #3 kann því að líta sakleysislegri út í augum einhverra en efni standa til.  Hér eru nokkur atriði úr téðri innviðagerð:

  • Samkvæmt grein 7 í #347/2013 skulu PCI-verkefni njóta forgangs í Kerfisáætlun viðkomandi lands, hér Landsnetsáætlun til skemmri og lengri tíma, og við afgreiðslu leyfisumsókna.  Þetta þýðir, að Landsnet og Orkustofnun hafa ekki lengur (eftir innleiðinguna) frjálsar hendur um röðun verkefna og fjárveitingar, heldur verður að taka flutningsmannvirki innanlands fyrir Ice-Link fram fyrir önnur verkefni í þeim mæli, sem nauðsynlegt er, til að gæta samræmis við tímaáætlun ESB. Það vitnar um skammsýni orkumálayfirvalda hérlendis, að þau skyldu fallast á, án ráðfærslu við Alþingi, að aflsæstrengur til útlanda færi inn á verkefnaskrá ESB.  Eftir aðild að ACER verður þess ekki langt að bíða, að ACER taki sjálfstæða ákvörðun um slíkt, jafnvel þótt viðkomandi yfirvöld séu því ósamþykk. Íslendingar fá ekki atkvæðisrétt í ACER fyrr en við inngöngu í ESB.  Vilja Íslendingar með þessum hætti láta spenna sig fyrir vagn ESB, sem bráðvantar endurnýjanlega orku frá Norðurlöndunum, þar til nýjar, sjálfbærar orkulindir hafa verið þróaðar í ESB ?  Það er ekkert vit í því og alger óþarfi. Þeir, sem vilja þetta, eru með bundið fyrir bæði augu.
  • Samkvæmt grein 10 skal ekki vera neitt sleifarlag á afgreiðslu umsókna um PCI-verkefni hjá orkustofnunum, heldur skal afgreiða umsókn innan 18 mánaða frá móttöku. Þó má fresta afgreiðslu um 9 mánuði upp í 27 mánuði að hámarki, en þá þarf að rökstyðja frestunina rækilega fyrir ACER. Þannig á ACER að fylgja forgangsverkefnum ESB fast eftir. Nú er í vinnslu hjá NVE umsókn frá NorthConnect.  Statnett (norska Landsnet) hefur lagzt gegn þessum sæstreng að svo komnu máli.  Hér verður um prófmál að ræða, ef Alþingi samþykkir inngöngu Íslands í ACER, því að Noregur og Liechtenstein hafa þegar samþykkt, en samþykki Íslands þarf til staðfestingar. 
  • Grundvöllur mats á umsókn um millilandaverkefni er samfélagsleg arðsemi þess.  Samfélagið í þessu sambandi er hvorki Noregur né Ísland, heldur EES.  Samkvæmt grein 11 skal rafmagnsflutningsfélag Evrópu, ENTSO-E, þar sem Landsnet og Statnett eru aðilar, semja samræmdar matsreglur, sem bæði ACER og framkvæmdastjórn ESB verða að staðfesta. Þessar samræmdu matsreglur munu þess vegna alveg áreiðanlega þjóna hagsmunum ESB framar öðru.  Það verður lítil sem engin hagsmunagæzla fyrir Ísland sjáanleg í skjali, þar sem gæta á hagsmuna 500 milljóna. Að láta sér detta í hug að undirgangast þetta vitnar um fullkomið dómgreindarleysi.  
  • Samkvæmt grein 6 skal útnefna evrópska samræmingaraðila fyrir verkefni, sem steyta á skeri, þ.e. mæta andstöðu í einhverju landi. Það þarf ekki að hafa mörg orð um það, að lítið land verður ekki tekið neinum vettlingatökum, ef það verður með uppsteyt.  
  • Í viðkomandi landi skal mynda faglegt yfirvald, sem ber ábyrgð á að undirbúa og samræma rekstur PCI-verkefnis. Landsreglarinn, sem gefur skýrslur beint til ESA/ACER, en ekki til íslenzkra yfirvalda, mun áreiðanlega gegna lykilhlutverki við þetta verkefnaeftirlit.

Hvað gerist, ef Ísland eða Noregur hafnar umsókn og skozki meðeigandinn kærir höfnunina til framkvæmdastjórnar ESB og ESA ?

 

Þá kemur ACER til skjalanna. Í Skotlandi eiga einkafyrirtæki helmingshlut í aflsæstrengjum og þurfa að fjármagna þá samkvæmt því. Þau hafa nú þegar lagt í útgjöld vegna strengjanna, sem hér eru til umræðu, a.m.k. vegna NorthConnect,  sem kominn er lengra í undirbúningi, og ekki er við því að búast, að þau taki höfnun Noregs eða Íslands góða og gilda.  

ACER var stofnuð til að fjölga millilandatengingum innan ESB og til að leysa úr deilum þeirra vegna á milli ríkja.  Ef PCI-verkefni rekst á hindranir, sem er alvarlegt, ef þær eru af pólitískum toga, á ACER að gefa strax um málið skýrslu til framkvæmdastjórnar ESB, sem mun áreiðanlega bregðast skjótt við til að kveða andstöðu niður, andstöðu, sem vanvirðir Kerfisþróunaráætlun ESB og hundsar forgangsverkefnaskrána, PCI.  Halda menn, að íslenzk stjórnvöld muni hafa bein í nefinu til að standa gegn þrýstingi Framkvæmdastjórnarinnar ?  Ekki núverandi utanríkisráðuneyti, sem þegar er gengið í björg (ESB).

ACER á að leita lausnar á deilunni, en um þetta hlutverk halda meðmælendur ACER-aðildar því fram, að ACER geti aðeins úrskurðað um tæknileg viðfangsefni og deilur um skiptingu útgjalda og tekna. Er það rétt ?

Austurríki gerði ágreining við Þýzkaland um mörk flutningsgjalds millilandatenginga.  ACER tók ákvörðun, og nú er deilumálið hjá ESB-dómstólnum.  Þetta er alls ekki "bara tæknilegt" viðfangsefni, heldur í hæsta máta rekstrarlegs og viðskiptalegs eðlis.  Meðmælendum ACER-aðildar er alveg sama um hætturnar, sem hag landsins stafar af ACER-aðild.  Allt verður undan að láta, þegar þjónkun við Sameiginlegu EES-nefndina og Framkvæmdastjórnina er annars vegar.

Þann 7. febrúar 2018 samþykkti framkvæmdastjórn ESB heimild til takmarkana á orkuflutningum til 6 ESB-landa.  Það voru útflutningstakmarkanir m.t.t. afhendingaröryggis orku í viðkomandi löndum, sem málið snerist um.  Þýzkaland og Belgía höfðu sitt fram, en aðeins um stundarsakir.  Hér kom ACER ekki við sögu, þótt merkilegt megi telja, heldur úrskurðaði Framkvæmdastjórnin á grundvelli banns við ríkisstyrkjum.  Framkvæmdastjórnin tók sem sagt ákvörðunina á þeim grundvelli, að afskipti hins opinbera af orkuútflutningi mætti jafna til ríkisstyrkja til atvinnurekstrar í viðkomandi landi.  

Gagnvart Íslandi þýðir þetta, að hlutist íslenzk stjórnvöld til um takmörkun á orkuútflutningi um sæstreng til að draga úr líkum á orkuskorti í landinu og um málið rís ágreiningur, sem fer fyrir dómstól, t.d. EFTA-dómstólinn, þá ríkir óvissa, eins og sakir standa, um dómsniðurstöðuna, þótt túlkun Framkvæmdastjórnarinnar á reglunum sé ljós. Hún vegur þungt og er í þessu tilviki ógnvænleg fyrir Íslendinga.

Almennt er líka lagt bann við takmörkunum á millilandaviðskiptum með vöru og þjónustu í EES-samninginum.  Með öflugan aflsæstreng á milli Íslands og útlanda, þar sem íslenzk yfirvöld mega ekki grípa í tauma rekstrarins fyrr en allt er komið í óefni, setur allt þjóðlífið í uppnám. Þetta er aðeins eitt af mörgum atriðum, sem gera lögsögu ACER/ESB yfir millilandatengingum orkuríkrar eyjar norður í Atlantshafi gjörsamlega óaðgengilega fyrir eyjarskeggja.

Hvernig verður að rökstyðja höfnun á Ice-Link eða NorthConnect ?:

Það er aðeins hægt, ef kostnaðar- og nytjagreining leiðir til þeirrar niðurstöðu, að verkefnið sé ekki samfélagslega arðsamt, þar sem samfélagið er EES, og ACER viðurkennir, að niðurstaðan sé rétt fengin.   Samkvæmt samræmdri aðferðarfræði kostnaðar- og nytjagreiningar, sem mælt er fyrir um í gerð #347/2013, má ganga út frá því sem vísu, að öll PCI-verkefni, og ofangreind verkefni eru slík forgangsverkefni, séu samfélagslega arðsöm.  

Höfnun er t.d. ekki unnt að rökstyðja með því, að yfirvöld í viðkomandi landi vilji halda tiltölulega lágu orkuverði til almennings.  Frá sjónarhóli ESB jafngildir slíkt ríkisstuðningi og mismunun ESB-borgara og ESB-iðnaðar.  Íslendingar virkjuðu orkulindir og iðnvæddust af takmörkuðum efnum, en samt án þess að láta af hendi stjórn á erfðasilfrinu.  Nú ætla stjórnvöld að glopra þessari stjórn úr höndum sér með endemis klaufagangi og færa hana á silfurfati til ACER og framkvæmdastjórnar ESB. Þetta er í senn hneyksli og sorgarsaga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband