3.3.2019 | 10:55
BREXIT og kunnuglegt bitbein
BREXIT-ferlið hefur tekið dapurlega stefnu, þar sem nú er útlit fyrir óreiðukennda útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, ESB. Hún kann þó að verða Bretum skárri kostur en hálfvelgjulegur viðskilnaður, þegar upp verður staðið. Bretar hafa átt í höggi við forystu ESB, sem er í vörn og óttast um framtíð sambandsins og vill gjarna, að útganga Stóra-Bretlands verði öðrum innanborðs víti til varnaðar. Hvort forystan sér að sér og hægir ótilneydd á samrunaferlinu, er þó alls óvíst. Vitað er, að þjóðir, sem lengi hafa skipt mikið við Breta og hafa fylgt þeim að málum innan ESB, t.d. Danir, Svíar og jafnvel Hollendingar, gætu séð sér hag í að fylgja Bretum, ef Bretum mun vegna vel utan við ESB.
Ekki þarf að orðlengja vanda Ítala. Skuldir ríkissjóðs Ítalíu nema yfir 130 % af VLF, og Ítalir hafa flotið á lágum vöxtum hingað til, því að hagkerfið hefur ekkert vaxið í áratug. Nú hækkar skuldatryggingarálagið ört á Ítölum; eru vextirnir, sem ítalska ríkið greiðir, nú um 4 % hærri en þeir, sem þýzka ríkið greiðir. Með sama áframhaldi mun ítalska ríkið lenda í greiðsluþroti (við 7 % álag) síðar á þessu ári. Þá hrynur evran, og þá mun hrikta í innviðum Evrópusambandsins.
Pólitísk sameining Evrópu gengur ekki upp, og hún er í raun algerlega óþörf frá praktísku sjónarmiði. Skynsamlegra hefði verið að halda sig við hugmyndir Breta um samstarf á viðskiptasviðinu, sem einskorðist við tollabandalag og staðlasamræmingu á öllum sviðum.
Eitt þeirra sviða, sem pólitískir hugsuðir ESB töldu nauðsynlegt að fella undir yfirstjórn ESB, var orkusviðið. Þar hafði um áratugaskeið ríkt valfrjálst samstarf á milli grannþjóða um orkuviðskipti yfir landamæri, ekki sízt með raforku. Norðurlandaþjóðirnar stofnuðu til slíks samstarfs innan NORDEL einna fyrstar í Evrópu, og buðu Íslendingum að fylgjast með því samstarfi.
Á Evrópugrundvelli starfaði félagsskapur raforkuflutningsfyrirtækja, ENTSO-E, og er Landsnet aðili þar, en þegar ESB ákveður að taka stjórn þessa málaflokks í sínar hendur með útgáfu Fyrsta orkumarkaðslagabálksins 1996, breyttist samstarf Evrópuþjóða frá valfrjálsri tæknilegri samvinnu yfir í þvingað, miðstýrt samstarf, sem lýtur pólitískri stefnumörkun æðstu stjórnar Evrópusambandsins. Þá hættir málið að vera áhugavert fyrir eyþjóð, lengst norður í Atlantshafi, þótt það kunni að þjóna hagsmunum þjóða í miðri Evrópu.
17 milljón kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslunni á Bretlandi í júní 2016 voru þeirrar hyggju, að ókostir ESB-aðildar Bretlands væru meiri en kostirnir, og mörgum þóttu ókostirnar fara vaxandi með aukinni miðstýringu, eftir því sem samrunaferlinu til sambandsríkis Evrópu vatt fram. Steininn tók úr 2009 eftir innleiðingu stjórnarskrárígildis ESB, Lissabon-samningsins. Það var löngum vitað, að slík þróun var Bretum ekki að skapi, hvorki verkalýðsstétt Bretlands né húsráðendum í Whitehall, sem löngum hafa í utanríkismálum haft að leiðarljósi orðtak Rómverja, "divide et impera", að deila og drottna í Evrópu.
Það er reyndar sáralítið fylgi á meginlandinu við hugmyndina um sambandsríki. Ferlið er rekið áfram af búrókrötum í Brüssel á grundvelli stjórnarskrárígildisins, Lissabonsáttmálans. Fjármálamógúlar Evrópu hafa barið bumburnar. Mikillar og vaxandi óánægju gætir á meginlandinu með það, hvernig forréttindastéttin rekur trippin. Franska þjóðfylkingin, (Norður) bandalagið á Ítalíu, Alternative für Deutschland og Svíþjóðardemókratarnir eru skýr dæmi um þetta.
Í BREXIT-viðræðunum tókst ekki að ná samkomulagi um fiskveiðistjórnun innan brezku lögsögunnar. Það er eftirtektarvert fyrir Íslendinga, að samninganefnd ESB krafðist áframhaldandi fiskveiðiréttinda fyrir togaraflota ESB-landanna innan brezku lögsögunnar upp að 12 sjómílnum, brezkum sjómönnum til mikillar gremju og tjóns fyrir þá og útgerðirnar.
Þetta ber vott um óbilgirni að hálfu Barnier & Co. í ljósi þess, að fiskveiðar nema aðeins um 0,1 % af VLF ESB-landanna. Jafnvel í útgerðarhéruðum ESB, skozku hálöndunum og eyjunum, Galicíu á Spáni og grísku eyjunum á Jónahafi, er hlutdeild sjávarútvegs litlu meiri en 2 % af viðkomandi hagkerfum. Sjávarútvegurinn hefur hins vegar mun meiri pólitísk áhrif en fjárhagslegi styrkurinn gefur til kynna, og kann það að hvíla á mikilvægi greinarinnar til fæðuöflunar fyrir Evrópu, og að mikil innflutningsþörf er á fiski til flestra ESB-landanna.
Hagsmunir brezks sjávarútvegs höfðu töluverð áhrif á úrslit BREXIT-þjóðaratkvæðagreiðslunnar, þótt sömu viðhorf endurspeglist ekki í afstöðu meirihluta þjóðþingsins. Brezkir sjómenn kröfðust brottvikningar erlendra togara úr brezkri lögsögu, þar sem þeir veiða 8 sinnum meira en Bretar í erlendri lögsögu. Lausn ágreiningsins var frestað til sumars 2020, en aðlögunartíma útgöngunnar á að ljúka þá um haustið. Þessu reiddust báðar brezku fylkingarnar, og um 20. nóvember 2018 skrifuðu Íhaldsþingmenn frá Skotlandi (Skotland kaus með veru í ESB) Theresu May, forsætisráðherra, þar sem þeir lýstu sig andvíga hvers konar samkomulagi, sem gengi skemur en að ná fullum yfirráðarétti yfir brezkri lögsögu ("full sovereignty over our waters").
Það verður þó á brattann að sækja, því að ríkisstjórnir strandríkja innan ESB, þ.á.m. Frakklands, Belgíu og Portúgals, heimta tryggingu fyrir áframhaldandi aðgangi togara sinna landa. Frakkar hafa gengið lengst í yfirganginum og heimta, að slík trygging verði skilyrði fyrir útgöngusamningi. Allt þetta þref er sett á svið vegna um 6000 sjómannsstarfa á meginlandinu og geira í brezka hagkerfinu, sem skapar svipuð verðmæti og skógarhögg eða framleiðsla á leðurvörum.
Þessi deila hefur áhrif á hagsmuni Íslendinga. Verði gengið að kröfum ESB, mun brezkum fiskimiðum og brezkum sjávarútvegi enn hrörna. Eins dauði er annars brauð. Þetta mun skapa öðrum fiskveiðiþjóðum, Íslendingum, Norðmönnum, Rússum og Kínverjum, ný viðskiptatækifæri á Bretlandi. Hafi Bretar sitt fram, sem verður að vona þeirra vegna, gæti útflutningsmarkaður þeirra fyrir fisk á meginlandinu lokazt um sinn, en um 2/3 aflans fara þangað. Þessi fiskur mun þá fara á innanlandsmarkaðinn í Bretlandi, sem herða mun samkeppnina á fiskmörkuðum þar til muna. Jafnframt lokast þá sú leið Íslendinga að landa í Grimsby og Hull og flytja fiskinn á teinum undir Ermarsundið til Frakklands og víðar. Í staðinn munu beinir flutningar frá Íslandi með fisk í lofti og á sjó inn til meginlands Evrópu aukast, því að þörfin þar fyrir "villtan" fisk og eldisfisk eykst stöðugt.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Utanríkismál/alþjóðamál, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Bretum tókst ekki að "virkja" styrkleika sína í baráttunni við ESB um útgöngu sína, það er líka spurning hvort VILJI hafi verið tilstaðar hjá forystumönnum Breta í samningunum við ESB, að NOTA þessa styrkleika sína (því eins og allir vita þá var Teresa May og meðreiðarsveinar hennar á MÓTI útgöngu Breta úr ESB)? Eins og fram kemur í góðri gein þinni og forsvarsmenn ESB, virðast ekki átta sig almennilega á, þá eru hagsmunir ESB af því að Bretar verði áfram innan sambandsins alveg gríðarlega miklir (kannski er það þess vegna sem ESB gerir Bretum útgönguna eins erfiða og mögulegt er). Að mínu áliti er útganga Breta úr ESB upphafið að endalokum ESB..........
Jóhann Elíasson, 3.3.2019 kl. 13:18
Flott grein Bjarni. Því miður virðist Breska stjórnmálaelítan vera að svíkja þjóðina um BREXIT. Vandamálið er að 52% þjóðarinnar kusu "Leave" en aðeins 24% þingmanna í Westminster vilja út. 76% þingmanna vilja vera áfram í ESB og gera nú allt hvað þeir geta til þess að eyðileggja BREXIT !
Gunnlaugur I., 4.3.2019 kl. 03:28
Forystuleysi og hálfvelgja hafa hamlað Bretum við þessa útgöngu. Írland hefur orðið Þrándur í götu, því að Írar vilja ekki sjá landamærastöðvar á mörkum lýðveldisins og Norður-Írlands, jafnvel þótt þar fari aðeins fram stikkprufur. Nú er rætt um frestun útgöngu í Brüssel og London, en Theresa hefur ekki léð máls á því enn. Bretar lögðu upp með að tína rúsínur úr kökunni í stað þess að hafa hreinar línur. Engin samstaða er um, hverjar þessar hreinu línur eiga að verða. Fríverzlunarsamningur er bezta lausnin, en strandar á Írum.
Bjarni Jónsson, 4.3.2019 kl. 13:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.