5.3.2019 | 18:47
Háskaleg tilhneiging til kæruleysis
Loftslagsmál og orkumál eru óaðskiljanleg nú á dögum. Það er beint samband á milli aukningar í orkunotkun heimsins og losunar gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið. Þótt Íslendingar losi tiltölulega lítið af gróðurhúsalofttegundum við raforkuvinnsluna, nota þeir tiltölulega mikið jarðefnaeldsneyti á mann vegna samgöngutækja á láði, á legi og í lofti og vegna fastra og hreyfanlegra atvinnutækja. Varðandi losun málmiðnaðarins, sem notar mikið af kolum í sínum framleiðsluferlum, verður jafnan að hafa í huga, að það er stærsta framlag Íslendinga, enn sem komið er, til að hægja á aukningu styrks koltvíildisjafngilda í andrúmsloftinu, og þar með að hægja á súrnun sjávar, að hýsa ál- og kísiliðnað, því að sú framleiðsla erlendis hefur í för með sér allt að 10 sinnum meiri losun gróðurhúsalofttegunda á hvert framleitt tonn Al eða Si en hérlendis.
Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur og fyrrverandi ráðherra, reit hugvekju um vána, sem að lífi á jörðunni í núverandi mynd steðjar, í Morgunblaðið 18. febrúar 2019:
"Loftslagsháskinn, uppreisn æskufólks og íslenzk viðhorf".
Hann beindi orðum sínum að gefnu tilefni sérstaklega að æskunni, en það er þó óvíst, að varnaðarorð Hjörleifs hafi náð til hennar, því að hún virðist vera föst inni í farsímanum sínum í tíma og ótíma við ólíklegustu athafnir frá 5 ára aldri og beinir athyglinni hvorki að bókum né blöðum, enda tíminn eðlilega takmarkaður eftir langdvalir í netheimum. Þetta er ógæfuleg þróun, sem er varla fallin til víðsýni og gagnrýninnar hugsunar. Slík þróun er hættuleg lýðræðinu, og óprúttnir náungar kunna að notfæra sér slíkt til eigin framdráttar.
Um loftslagsvána skrifaði Hjörleifur m.a.:
"Samkvæmt Parísarsamkomulaginu á árið 2030 að vera viðmiðun fyrir þjóðir heims, sem þá eiga að hafa náð tökum á aukningu í losun, þannig að meðalhiti [meðalhitastigsaukning frá 1850-innsk. BJo] fari ekki yfir 1,5°C fyrir miðja öldina og framvegis. Aðeins áratugur er þannig til stefnu, og hann verður að nota til markvissra ákvarðana, eigi ekki allt að fara á versta veg. Enn er allt í óvissu um, hversu til tekst, og á síðasta ári mældist meðalhiti hærri en nokkru sinni fyrr. Nýlegir útreikningar brezku veðurstofunnar (MetOffice) benda til, að á næstu 5 árum kunni meðalhiti eitthvert þessara ára að ná umræddum 1,5-gráðu mörkum, og eykur það ekki bjartsýni á framhaldið."
Það er vonlaust að halda hitastigshækkuninni innan við 1,5°C, því að til þess hefði viðsnúningur í losun gróðurhúsalofttegunda þegar þurft að hafa átt sér stað, en losunin eykst hins vegar enn, eins og fram kemur hér að neðan. Það þarf kraftaverk til að halda hlýnuninni innan 2°C markanna. Slíkt kraftaverk væri t.d. gegnumbrot í þróun nýrra orkugjafa, sem fjárfestar eru tilbúnir til að ráðstafa um 100 mrdUSD/ár í smíði og uppsetningu á í a.m.k. tvo áratugi.
Það er þess vegna úr þessu viturlegt að verja fjármunum í varnaraðgerðir gegn afleiðingum mikillar losunar CH4-metans úr freðmýrum Síberíu, en sú gastegund er öflug gróðurhúsalofttegund, yfir 20 sinnum öflugri en CO2. Þetta mun leiða til mikillar bráðnunar jökla og pólíssins með hækkun sjávarborðs og kólnun sjávar, minni seltu og hugsanlega minni krafts í Golfstraumnum sem afleiðingu.
Árið 2017 varð eftirtalin breyting á losun þeirra 5, sem minnkuðu mest, og þeirra 5, sem juku hana mest, samkvæmt "BP Statistical Review of World Energy, 2018", í milljónum tonna CO2:
- Minnkuðu losun mest 2017, Mt/ár:
- Bandaríkin 40
- Úkraína 20
- Mexíkó 15
- Bretland 10
- Suður-Afríka 7
- Alls 92
- Juku losun mest 2017, Mt/ár:
- Íran 35
- ESB 45
- Tyrkland 50
- Indland 95
- Kína 120
- Alls 345
Mismunurinn, þ.e. nettóaukning losunar þessara 10 ríkja og ríkjasambanda, er um 50-föld öll losun frá orkutengdri starfsemi Íslendinga, sem sýnir, að hún hefur engin merkjanleg áhrif á hlýnun jarðar.
Kína og Indland geta hins vegar með ábyrgðarlausri fjölgun kolakyntra orkuvera sinna komið í veg fyrir, að heimsbyggðinni takist að halda hlýnun andrúmslofts jarðar undir 2°C. Athygli vekur árangur Bandaríkjamanna á fyrsta valdaári Donalds Trumps, sem þó hefur lýst sérstakri velþóknun sinni á kolanámum og kolabrennslu. Markaðurinn hefur hins vegar ekkert hlustað á þetta lýðskrum, heldur leyst fjölmörg kolaorkuver af hólmi með gasorkuverum, sem menga minna, eru ódýrari í stofnsetningu og rekstri, og álagsstýring þeirra spannar auk þess víðara svið en kolaorkuveranna. Sem dæmi var 11,2 GW afkastageta í kolaorkuverum tekin úr rekstri 2018 í BNA, sem er um 4,5-föld afkastageta núverandi íslenzkra orkuvera.
Þannig dró úr losun Bandaríkjanna á CO2 árið 2017 um 2,7 %, en losun ESB jókst mun meira að tiltölu. Samt var hagvöxtur meiri í BNA en í ESB. Hverju sætir þetta ? Það eru 2 meginskýringar. ESB-löndin hafa skekkt orkumarkað sinn (Innri markaðinn) með niðurgreiðslum á vind- og sólarorku, sem hafa hrakið gasorkuverin út af markaðnum, því að þau eru þar ekki til að sinna grunnaflsþörf, heldur toppaflsþörf. Hins vegar ríkir ótti í ESB-löndunum við að verða enn háðari erlendum ríkjum, t.d. Rússlandi, um gasaðdrætti, en Bandaríkjamenn hafa ekki vílað fyrir sér að þróa nýja tækni, "fracking", leirsteinsbrot, sem gefið hefur af sér mikið jarðgas og jarðolíu, en nýtur ekki velvildar í ESB af umhverfisástæðum.
Í ESB eykst nú örvænting yfir skuldbindingum sambandsins á Parísarráðstefnunni í desember 2015, sem eru í uppnámi, eins og nærri má geta. Þess vegna eykst ásókn sambandsins í endurnýjanlegar orkulindir, hvar sem þær er að finna, t.d. á Norðurlöndunum. Við þessar aðstæður er hættulegt og skaðlegt fyrir orkuskiptin hérlendis að afhenda ESB ákvörðunarvald, hverju nafni sem það nefnist, yfir orkumálum hérlendis og yfir tengingum raforkukerfis landsins við útlönd. Þrýstingur úr þessari átt um virkjanir hérlendis til stórfellds raforkuflutnings utan þjónar ekki hagsmunum landsmanna, því að nýting orkulindanna innanlands er landsmönnum mun hagfelldari.
Í Bandaríkjunum hefur þróun losunarmála verið miklu jákvæðari en í Evrópu, sem er áfellisdómur yfir orkustefnu ESB. Árið 2007 var notað svipað magn af kolum og eldsneytisgasi í BNA, en nú er framleitt tvöfalt meira af rafmagni með gasi en kolum þar. Þetta gas kemur að mestu leyti úr iðrum jarðar í BNA. Hins vegar standa endurnýjanlegar orkulindir undir aðeins 10 % raforkuvinnslunnar í BNA, en t.d. tæplega 30 % í Þýzkalandi. Það er ekkert einhlítt í þessum efnum.
Frá árinu 2010 hefur 40 % bandarískra kolaorkuvera verið lokað eða lokun þeirra er ákveðin á næstunni, en í ESB-löndunum hefur kolaorkuverum í rekstri fjölgað á sama tímabili. Þetta er þungur áfellisdómur yfir orkustefnu ESB. Með sama áframhaldi verður koltvíildislosun Bandaríkjamanna 17 % minni árið 2025 en árið 2005. Minnkunin nær þó ekki markmiði Parísarsamkomulagsins um 26 %-28 % minnkun á þessu tímabili, enda losaði Donald Trump Bandaríkin undan þessum skuldbindingum, en árangur Bandaríkjamanna skín samt eins og gull af eiri í samanburði við ömurlegt árangursleysi ESB-ríkjanna, sem hafa barið sér á brjóst með hástemmdum viljayfirlýsingum, sem reynzt hafa verið orðin tóm.
Ef Bandaríkin mundu setja á kolefnisskatt, þá gætu kjarnorkuver orðið þar hagstæðari en gasorkuverin. Núverandi húsbóndi í Hvíta húsinu hefur ekki léð máls á því, en nú eru nýkjörnir þingmenn demókrata á Bandaríkjaþingi farnir að vinna að mótun "Grænnar nýbreytni", "Green New Deal", þar sem boðskapurinn er að gera Bandaríkin kolefnishlutlaus árið 2030. Fyrir þessum hópi fer Alexandria Ocasio-Cortez, sem hefur verið orðuð við forsetaframboð árið 2020. Hér er um gríðarlega metnaðarfullt markmið að ræða, næstum ofurmannlegt, en þannig leit líka markmið Bandaríkjamanna út um að verða fyrstir til að lenda mönnuðu geimfari á tunglinu og ná geimförunum til baka heilum og höldnum, sem tókst árið 1969.
Það eru þrátt fyrir allt ekki öll sund lokuð í loftslagsmálunum, ef menn eru fúsir til að ganga á hólm við vandamálin og að beita beztu tækni fordómalaust við lausn viðfangsefnanna. Fyrir okkur hér ríður á að nýta endurnýjanlegar orkulindir okkar af skynsamlegu viti í þessu augnamiði og að beita beztu tækni við þá iðju. Að fá fleiri kokka til að hræra í þeim potti, kokka með gjörólíkan bakgrunn og hagsmunavörzlu á vegum Evrópusambandsins, kann ekki góðri lukku að stýra og mun verða þeim ófagur bautasteinn, sem að slíku standa. Sérstaklega yrði slíkt skammarlegt fyrir sjálfstæðismenn, ef ráðherrar Sjálfstæðisflokksins standa að slíku glapræði á níræðisafmæli flokks þeirra, sem er í ár.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Umhverfismál | Facebook
Athugasemdir
Bjarni. Mjög góð grein og gaman að vita að BNA hafi komið svo vel út síðustu árinn. Rétt að þetta er einn hrærigrautur af skoðunum en það virðir samt vera að vinstri sinnaður séu með minni skilning varðandi gróðurhúsa efnin. Þeir eru það lokaðir að skilja ekki að hér keyrum við með CO2 í flest öll gróðurhús og sjá heldur ekki stóru CO2 tankanna.
Spurning. Þar sem ég er allur fyrir metan gas . Hefir þú eða einhver gert úttekt á hve mikið magn af metan gasi væri hægt að framleiða á Íslandi. Þá ég við úr sorpi og úrgang frá landbúnaðinum og jafnvel úrgang frá sjávarútveginum en tel að það sé stór möguleiki þar líka.
Þökk og kveðja Valdimar.
Valdimar Samúelsson, 6.3.2019 kl. 13:11
Sæll, Valdimar;
Ég hef ekki svar við því, hversu mikla orku væri hægt að fá úr hérlendu metani, en bendi þér á www.metan.is og www.orkusetur.is .
Bjarni Jónsson, 6.3.2019 kl. 16:32
Þakka Bjarni.
Valdimar Samúelsson, 6.3.2019 kl. 20:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.