Gaslögn veldur uppnámi í Evrópu

 

Með Nord Stream 2 (NS2-steypuhúðuð stállögn fyrir jarðgas, yfir 1,1 m í innra þvermál, á botni Eystrasalts) er rofin samstaða ESB-ríkjanna í orkumálum og á pólitíska sviðinu. Reglur Fyrsta orkumarkaðslagabálks ESB um aðskilnað eigenda flutningsmannvirkja og orkuvinnslu eru brotnar.  Afkastageta núverandi gaslagna inn í hjarta iðnaðarframleiðslunnar í Evrópu kallar ekki á viðbótar gaslögn á næstunni.  Það er maðkur í mysunni, og Vladimir Putin, hinn gerzki, er grunaður um græzku.

Í janúar og framundir miðjan febrúar 2019 tókust ríkisstjórnir og þingmenn ESB á um breytingar á  tilskipun ESB um gaslagnir frá öðrum ríkjum inn í ESB, af því að Þjóðverjar vildu aðlaga reglurnar að þörfum NS2-verkefnisins.  Eftir snerru ("contretemps") á milli Þjóðverja og Frakka var síðan í viku 7/2019 gert samkomulag um, að samkeppnisreglur ESB fyrir gas skuli gilda um NS2, eftir að lögnin kemur á land í ESB-landi, og þýzka landsreglaranum var falið að útfæra þessar samkeppnisreglur. 

Undanþágur frá ströngum ákvæðum í  samkeppnisreglum ESB má veita, en Framkvæmdastjórnin verður þó að staðfesta þær. Þetta getur gert Gazprom, eiganda lagnar og linda, lífið leitt og seinkað gangsetningu gasflutninganna.  Rosneft, rússneskur olíurisi, svermir fyrir að hlaupa í skarðið með því að kaupa lögnina á þýzku landi og víðar, ef þýzki landsreglarinn heimtar annað eignarhald.  Einhverjir mundu segja, að með slíku ráðslagi fari frjáls samkeppni með eldsneytisgas í Evrópu úr öskunni í eldinn.  Yfirburðastaða Rússa á orkusviðinu í Evrópu veita þeim gríðarlega sterka pólitíska og í næstu umferð hernaðarlega stöðu gagnvart Evrópu, eins og Bandaríkjamenn hafa opinberlega bent á.  

  Sannleikurinn er sá, að Nord Stream 2 brýtur reglur Fyrsta orkumarkaðslagabálks ESB um eigendaaðskilnað flutningsfyrirtækis og orkuvinnslufyrirtækis, af því að hvort tveggja er í eigu Gazprom, sem er að meirihluta í eigu rússneska ríkisins.  Nord Stream 2 er stórverkefni, 1200 km löng gaslögn, sem mun kosta mrdUSD 11. Hún liggur frá Vyborg á vesturströnd Rússlands til Greifswald í austurhluta Þýzkalands. Verkið hófst 2018 og gæti lokið um áramótin 2019/2020.

Þótt gríðarleg óánægja sé á meðal gömlu austantjaldslandanna og norrænu ríkjanna innan ESB með staðsetningu lagnarinnar og þessi viðskipti yfirleitt, er ekki talið, að ESB muni stöðva verkefnið og viðskiptin.  Það sýnir, að Þjóðverjar hafa nú komið ár sinni þannig fyrir borð, að þeir ráða því, sem þeim sýnist, þar á bæ.  Nú hafa þeir hvorki aðhald frá Bretum né stuðning, þegar "dirigiste"-miðstjórnartilhneiging Frakka ætlar allt að kæfa.  Norðursjávargas Breta og Hollendinga er á þrotum, en Norðmenn viðhalda framleiðslu sinni með því að bora stöðugt norðar úti fyrir strönd Noregs við æ háværari mótmæli umhverfisverndarsinna. 

Rússar og Þjóðverjar hafa ekki samið um NS2 vegna hörguls á flutningsgetu fyrir jarðgas til Þýzkalands.  Lagnirnar frá Rússlandi um Úkraínu og Pólland ásamt Nord Stream 1, sem liggur líka beint til Þýzkalands, munu anna þörfinni um fyrirsjáanlega framtíð.

Það liggur fiskur undir steini.  Pútín hefur ekki hikað við að loka fyrir gasstreymi til að ógna Úkraínu og Póllandi.  Eftir NS2 getur hann ógnað þessum þjóðum og kúgað með því að stjórna gasstreyminu til þeirra, án þess að slíkt ógni beint hagsmunum Þjóðverja, og þegar NS2 kemst í gagnið, tapa Úkraínumenn og Pólverjar af flutningsgjaldi fyrir gasið til Þýzkalands. Í Úkraínu nemur það um þessar mundir 2 % af VLF landsins, sem jafngildir 55 mrdISK/ár tapi fyrir þjóðarbúið á íslenzkan mælikvarða (þetta er mun meira en tvöfalt höggið af loðnubrestinum, því að töluverður kostnaður er við að afl loðnunnar, en sáralítill fyrir Úkraínumenn vegna gaslagnarinnar).

Með þessu móti lækkar verðið á gasinu til Þýzkalands og flutningarnir verða öruggari.  Þetta er mikilvægt fyrir Þjóðverja nú, þegar á að loka síðustu kjarnorkuverum Þýzkalands 2021.  Með Nord Stream 2 verður hagkvæmara að reisa gaskynt orkuver en kolakynt orkuver í stað kjarnorkuveranna, og mengun mun minnka ásamt losun gróðurhúsalofttegunda, ef gaskynt raforkuver munu þar að auki leysa kolakyntar rafstöðvar af hólmi, eins og gerzt hefur í Bandaríkjunum. 

Helmingur húsnæðis í Þýzkalandi er hitaður upp með gasi. Gasverð hefur hefur af þessum sökum veruleg áhrif á lífskjör almennings í Þýzkalandi.  Með Nord Stream 2 eftir miðjum Eystrasaltsbotni fá Rússar átyllu til aukinnar hernaðarlegrar viðveru úti fyrir Eystrasaltsríkjunum. Í ljósi árásar Rússa á Úkraínu 2014 er slíkt eðlilega mikill þyrnir í augum Eystrasaltsþjóðanna. 

Þessi staða hefur valdið ágreiningi innan ESB, þar sem Rússum hefur tekizt að reka fleyg á milli Þjóðverja og annarra ríkja ESB.  Stefna ESB hefur verið sú að fá orku eftir fjölbreytilegum aðdráttarleiðum.  Nú hefur einhæfnin aukizt og einn birgir, rússneska ríkisfélagið Gazprom, verður með yfirgnæfandi markaðshlutdeild. 

ESB skipaði norskum gasbirgjum eftir samþykkt Orkupakka #2 að hætta að koma fram sem ein heild og heimtaði aðskilið eignarhald lagna og linda.  Nú hafa Þjóðverjar brotið Orkulagabálk ESB #1, sem fjallar um aðskilnað eignarhalds, og #2, sem fjallar um frjálsa samkeppni, en með einn aðila með bróðurpart markaðshlutdeildar, verður ekki frjálsri samkeppni við komið. 

Þjóðverjar reyna nú að klóra í bakkann og vona, að áætlun þeirra um að byggja 2 móttökustöðvar fyrir LNG (eldsneytisgas á vökvaformi) á norðurströnd Þýzkalands, sem samþykkt var um miðjan febrúar 2019, muni lægja öldurnar, einnig í Washington DC. Þetta eldsneyti er hins vegar 20 % dýrara en eldsneytisgasið frá Rússlandi, svo að bandaríska gasið mun eiga erfitt uppdráttar við venjulegar aðstæður, en er bráðnauðsynlegt af öryggisástæðum.  Verður það greitt niður ?  Slík ríkisafskipti eru bönnuð á Innri orkumarkaði ESB.  Hvað rekur sig á annars horn í ESB núna.  

 Þetta ævintýri Rússa og Þjóðverja er eitur í beinum Bandaríkjamanna af öryggisástæðunum, sem að ofan eru taldar, og af þeim viðskiptalegu ástæðum, að þeir eru aflögufærir um jarðgas og vilja gjarna selja það bandamönnum sínum í Evrópu, sem eru algerlega háðir öðrum um orkuaðdrætti.  Þjóðverjar snúa nú upp á hendur Frakka til að kaupa gas frá NS2. Þannig nær klofningur út af Nord Stream 2 inn í NATO. 

Frú Merkel viðurkenndi í byrjun febrúar 2019 hina pólitísku vídd NS2 og hefur nú krafizt þess, að gas haldi áfram að streyma um lagnir í Úkraínu eftir gangsetningu NS2.  Það er þó engin trygging komin fyrir slíku.  Víð áhættugreining á áhrifunum af NS2 er ekki fyrir hendi í Berlín. Þjóðverjar virðast hafa einblínt á viðskiptalega þáttinn, sem reistur er á trausti gagnvart Rússum. Slíkt kemur öðrum á óvart, og Þjóðverjar eru nú um síðir að fá kalda fætur út af þessu máli, þar sem jafnaðarmenn eru í aðalhlutverki, hafa stutt málið í ríkisstjórninni og í sambandsþinginu í Berlín og í viðkomandi fylkisþingi, og fyrrverandi leiðtogi þeirra, Gerhard Schröder, er stjórnarformaður í NS2 félaginu, sem Gazprom á að mestu.

Stefan Meister í þýzka utanríkismálaráðinu segir: "Þetta mál ber vott um sjálfhverfa afstöðu, og það hefur skaðað ímynd Þýzkalands í Evrópu".

Hvað getum við Íslendingar lært af þessu ? Það verður allt undan að láta, þegar orkumál orkuhungraðra þjóða eru annars vegar.  "Der Erfolg berechtigt das Mittel"-tilgangurinn helgar meðalið-í þessu tilviki eru samdar nýjar reglur og meginreglur jafnvel sveigðar, ef hagsmunir valdamikilla ríkja í ESB eru taldir krefjast þess. Slíkir hagsmunir eru t.d. að flýta sem mest orkuskiptunum í Þýzkalandi án þess að gera iðnaði landsins erfitt fyrir á samkeppnismörkuðum.

Það gefur auga leið, hversu hættulegt er fyrir fámenna þjóð norður í Dumbshafi í landi mikilla og verðmætra orkulinda að láta teygja sig út í þá ófæru að fela slíku ríkjasambandi lykilstöðu á orkumálasviði landsins og játast undir löggjöf þess, sem er sífelldum breytingum undirorpin, en oftast sveigð að hagsmunum fjölmennustu ríkjanna þar.

Þær breytingar eru allar á sömu bókina lærðar, því að allar miða þær að auknum völdum Framkvæmdastjórnarinnar á kostnað þjóðríkjanna. Framkvæmd EES-samningsins er með þeim ósköpum að hálfu íslenzkra stjórnvalda, að þeim er hreinlega ekki treystandi til að standa gegn sífelldum þrýstingi frá EFTA/ESB.  Þess vegna má alls ekki færa ESB tangarhaldið á mótun orkustefnu hér.

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Jónsson

Kollege Bjarni

Ekki  læturðu Einar s. Hálfdánarson komast upp með þaðsem hann segir  um 3.orkupakkann og ACER í Mogganum i dag?

Er ekki andinn í honum í þá veru að við getum ekki verið á móti lagningu sæstrengs ef einhver vill leggja hann hingað oh kaupa af okkur rafmagn?

Halldór Jónsson, 9.3.2019 kl. 17:32

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Kollega Halldór;

Það er langt seilzt að kalla sendiherra ESB, Michael Mann, til vitnis um það, að Íslendingum stafi ekki nokkur hætta af Þriðja orkupakkanum, eins og téður hæstaréttarlögmaður gerir.  Það er varla hægt að grípa til lélegri röksemdafærslu.  Einari S. finnst ég ekki vísa nógu nákvæmlega í kafla téðs orkupakka, þegar ég bendi á hætturnar, sem af honum stafar.  Ég bæti úr því í næsta pistli, þar sem ég mun í lokin minnast á þessa grein hans.

Hann heldur því meira að segja fram, að reglur EES um frelsi útlendinga til fjárfestinga í orkugeiranum séu ekki fyrir hendi.  Þær eru það nú þegar.  Það má meira að segja halda því fram, að EES gr. 12 banni stjórnvöldum að hafna umsókn um sæstreng til landsins, því að slíku banni má jafna við útflutningsbann á vöru.  Orkubálkur #3 bætir um betur og skikkar Landsnet til að reisa flutningsmannvirki frá virkjunum að lendingarstað sæstrengs.  Þetta má sjá í Raforkumarkaðstilskipun 2009/72/EB og í ESB gerð 714/2009 um Kerfisþróunaráætlunina. 

Bjarni Jónsson, 9.3.2019 kl. 21:19

3 Smámynd: Ívar Pálsson

Takk fyrir þessa góðu greinargerð um gaslagnirnar inn í Þýskaland og víðar, Bjarni. ESB hyglir sínum stærstu aðilum og vill neyða hina smærri, þmt. EES- löndin til fylgispektar með 3. orkutilskipuninni. Megi það aldrei gerast hér.

Ívar Pálsson, 12.3.2019 kl. 18:30

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Einmitt, Ívar: ESB snýst um hagsmunagæzlu fyrir Frakka og Þjóðverja.  Hvað gerði Framkvæmdastjórnin, þegar ljóst var, að Macron mundi brjóta Maastricht-regluna um hámark 3 % halla á fjárlögum af VLF til að friða Gulvestunga.  Hún slakaði á sömu kröfu gagnvart Ítölum.  Hagsmunir íbúa á jöðrum ESB/EES verða alltaf að láta í minni pokann fyrir hagsmunagæzlu iðnaðarmiðjunnar.  Ísland yrði einfaldlega að aðlaga orkustefnu sína að orkustefnu ESB.  Hagsmunir iðnaðarmiðju ESB, þ.e. að fá sem mest af raforku úr endurnýjanlegum lindum, yrðu ráðandi hérlendis.  Ný orkustefna Þórdísar Reykfjörð verður að vera í samræmi við markmið ESB, ef hún fær Orkupakka #3 samþykktan.

Bjarni Jónsson, 12.3.2019 kl. 21:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband