19.3.2019 | 11:40
Fjórði orkupakkinn
Fjórði orkumarkaðslagabálkur Evrópusambandsins er enn í umsagnar- og umræðuferli innan sambandsins, enda sýnist þar sitt hverjum. Pakkinn hefur þó verið reifaður opinberlega, og fylgir stutt lýsing hér í viðhengi (á ensku).
Tveimur árum eftir gildistöku samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, EES, kom út Orkupakki #1, eða 1996. Hlutverk hans var að rífa niður einokunaraðstöðu nokkurra risa á raforkumarkaðinum, sem áttu bæði flutningskerfið, orkuver og jafnvel dreifiveitur. Með Orkupakka #1 fyrirskrifaði ESB, að dreifiveiturnar skyldi gera sjálfstæðar frá hinum þáttum orkugeirans, og aðaldreifiveitunum á hverju svæði var veitt sérleyfi á skilgreindum athafnasvæðum, og þannig var komið í veg fyrir tvöfalt eða þrefalt kerfi á sumum svæðum. Ætla mátti, að einfalt dreifikerfi myndi draga úr sóun og þar með verða neytendum hagkvæmara, enda skyldu orkuyfirvöld fara í saumana á gjaldskránum og þurfa að staðfesta þær. Dreifiveiturnar í Evrópu eru nú yfir 2000 talsins. Samkeppni dreifiveitna er með þessu móti lítil sem engin, en þær geta misst sérleyfið sitt og mörk sérleyfissvæðisins má endurskoða.
Flutningsfyrirtækið átti að vera óháð virkjanafyrirtækjunum og dreifiveitunum, og er það málefnalegt sjónarmið til að tryggja öllum, einnig nýliðum, t.d. vindorkufyrirtækjum, frjálsan aðgang að stofnkerfinu. Á Íslandi var farin sú leið að stofna flutningsfyrirtækið Landsnet með því að skilja flutningshluta Landsvirkjunar, RARIK, OR og OV frá þeim, og þessi fyrirtæki urðu þannig stofneigendur Landsnets í hlutfalli við eignamat á framlaginu til hins nýja fyrirtækis.
Þetta eignarhald er óeðlilegt fyrir lögbundið einokunarfyrirtæki, enda hafa nýir aðilar á markaðnum kvartað undan þessu og talið samkeppnishindrandi. Nú hefur ríkisstjórnin loks tekið þá stefnu, að ríkið kaupi Landsnet. Það er fagnaðarefni og óþarfi að gera því skóna, að með þessu sé verið að undirbúa sölu á Landsvirkjun. Verði Orkupakka #3 hafnað hér, er ólíklegt, að tillaga um sölu Landsvirkjunar verði lögð fyrir Alþingi og enn ólíklegra, að Alþingi samþykki slíkt.
Ef Alþingi glepst á að samþykkja Orkupakka #3, þá verður stofnað hér embætti Landsreglara. Erlend fyrirtæki gætu þá vissulega fengið augastað á Landsvirkjun með útflutning raforku fyrir augum, en hún verður þá væntanlega seld í bútum á samkeppnisforsendum, óháð eignarhaldi sínu í Landsneti. Það er líka óvíst, að undanþága ESA um núverandi eignarhald Landsnets verði áfram í gildi eftir sölu ríkissjóðs á hluta af Landsvirkjun.
Þannig lagði Orkupakki #1 grunninn að frjálsri samkeppni á orkumarkaði (þetta átti líka við eldsneytisgaskerfi), enda var rafmagn skilgreint þarna í fyrsta kipti á Íslandi sem vara. Noregur hafði innleitt þetta fyrirkomulag um 1990, e.t.v. að fordæmi Breta, og hafa vafalaust verið þess mjög fýsandi í Sameiginlegu EES-nefndinni, að hin EFTA-ríkin, Ísland og Liechtenstein, samþykktu og innleiddu þetta fyrirkomulag, þótt á ýmsu hefði gengið í Noregi við innleiðinguna (sum gamalmenni höfðu ekki ráð á rafmagnsreikninginum). Íslenzk stjórnvöld sáu þess vegna ekki ástæðu til að streitast á móti þessum Fyrsta orkupakka. Í okkar litla samfélagi leiddi þessi uppskipting orkugeirans 2003 hins vegar til meiri yfirbyggingar (fleiri silkihúfur) og dýrara kerfis, sem endurspeglaðist í rafmagnskostnaði almennings og síðar í langtímasamningum um raforku. Að þessu leyti höfðu t.d. vinstri grænir á þingi rétt fyrir sér, en þeir voru á móti þessum orkupakka á Alþingi, e.t.v. vegna markaðsvæðingarinnar, sem að baki lág.
Með Orkupakka #2 var orkumarkaðurinn skilgreindur nákvæmlega og mælt fyrir um það fyrirkomulag, sem gæfi orkukaupendum beztu kjörin til lengdar. Mælt var með uppboðsmarkaði fyrir raforku og gas í Orkukauphöll, þar sem afleiðuviðskipti með orkuna væru leyfð. Ekki var gert að skyldu að innleiða þetta. Sýnt hefur verið fram á, að þetta kerfi hentar afleitlega á Íslandi til að lágmarka orkuverð og hámarka afhendingaröryggi innan skynsamlegra marka. Þvert á móti býður þetta fyrirkomulag upp á skjótfenginn gróða orkuseljenda og spákaupmanna, þótt hinir síðarnefndu geti snögglega tapað háum fjárhæðum líka á orkuviðskiptum, jafnvel orðið gjaldþrota, eins og dæmin sýna erlendis frá.
Mismunurinn á Íslandi og meginlandi Evrópu að þessu leyti er fákeppnismarkaður hér, dyntótt náttúruöfl sem frumorka í stað þróaðra eldsneytismarkaða. Bann við sameiginlegri auðlindastýringu samkvæmt þessum orkupakka getur valdið misnotkun markaðarins á orkulindunum, miðlunarlónum, árrennsli og jarðgufuforðageymunum. Orkupakki #2 hefur verið innleiddur hér, en hann felur að þessu leyti í sér alvarlega anmarka fyrir íslenzkar aðstæður.
Með Orkupakka #3 var gert að skyldu að innleiða þetta frjálsa markaðskerfi, jafnframt skal stofna embætti Landsreglara, sem verður hæstráðandi orkumála í hverju landi, óháður stjórnvöldum hvers lands, og þjónar hann beint undir ACER, sem er Orkustofnun ESB og er beint undir Framkvæmdastjórninni. Fyrir EFTA-löndin verður ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) milliliður Landsreglara og ACER, en breytir engu um skilyrðislausa hlýðniskyldu Landsreglara við stofnanir ESB og Evrópurétt. Með Orkupakka #3 tekur Evrópulöggjöf gildi um millilandatengingar, en gildir um allan innlenda raforkugeirann frá og með orkulögum 2003 og um frjálsan orkumarkað frá innleiðingu Orkupakka #2 2007. Lög frá Alþingi verða eftir innleiðingu Orkupakka #3 sett til hliðar í öllum orkugeiranum, ef þau stangast á við Evrópuréttinn. Þetta er ekki ásættanlegt, þegar litið er til mikilvægis orkuvinnslu og orkusölu fyrir hagkerfi landsins. Ef ágreiningur verður við ESB á raforkusviðinu, er næsta víst við þessar aðstæður, að hagsmunir þeirra verða ofan á.
Orkupakki #4 mun sennilega taka gildi í ESB 2020. Hann er saminn af ríkri þörf Evrópusambandsins til að ná tökum á orkuskiptunum, sem fólk þar á bæ telur forsendu fyrir því, að ESB geti staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt Parísarsamkomulaginu 2015, þ.e. 20 % heildarorkunotkunar verði frá endurnýjanlegum lindum 2020 og 27 % árið 2030, og síðan verði kolefnishlutleysi náð 2050.
Það horfir nú mjög illa með að ná þessum markmiðum. Hitt veldur meiri áhyggjum í Berlaymont, hversu einhæfir orkuaðdrættirnir eru, og hversu háð ESB-löndin eru og verða á næstu árum Rússum um eldsneyti. Þess vegna er gríðarleg áherzla lögð á að komast í endurnýjanlegar orkulindir, hvar sem hönd á festir. Norðurlöndin Svíþjóð, Noregur og Ísland eiga öll miklar endurnýjanlegar orkulindir, og tvö hin síðarnefndu eru talin vera aflögufær.
Auðvitað hefur ESB nákvæmar upplýsingar um Rammaáætlun um orkulindir hérlendis, nýtingarflokk, biðflokk og verndarflokk, svo og um verkefni, sem þangað hafa ekki ratað, s.s. djúpborunarverkefni með tífalt afl í holu. Hvernig á að koma í veg fyrir, að fyrirtæki einhvers staðar að, innan EES, komi höndum yfir orkulindir og hefji nýtingu á þeim, þegar bannað er að mismuna einstaklingum og lögaðilum innan EES, þegar hvers konar viðskipti og leyfisveitingar eiga í hlut ? Það er jafnframt þannig, að náttúruvernd er ekki lögmæt ástæða fyrir útflutningshindrun á vöru, en ESB og Þórdís Kolbrún hafa skilgreint rafmagn sem vöru, illu heilli fyrir okkur, þótt slíkt sé fjarri skilningi almennings á rafmagni. Það hefur lengi verið skilningur almennings á Íslandi og í Noregi, að rafmagnið sé afurð náttúruauðlinda, sem nýta eigi til að bæta hag heimila og fyrirtækja hvarvetna á landinu til samkeppnishæfrar verðmætasköpunar.
"Hrein orka fyrir alla Evrópumenn" er slagorð Fjórða orkupakkans. Fjárfestingar í endurnýjanlegum orkulindum í ESB-löndunum á tímabilinu 2015-2030 eru áætlaðar TriEUR 1,0 eða tæplega 70 mrdEUR/ár. Að leggja einn 1200 MW sæstreng frá Íslandi um 1200 km leið til Bretlands er áætlað, að muni kosta tæplega mrdEUR 6. Fjárfesta í endurnýjanlegum orkulindum mun því lítið muna um að leggja í slíka sæstrengslög. Fái þeir áhuga, sem margt bendir til, m.a. sú staðreynd, að "Ice-Link" hefur komizt gegnum nálarauga ESB inn á PCI-forgangsverkefnaskrá ACER/ESB og inn á Kerfisþróunaráætlun sambandsins, getur í raun ekkert stöðvað þá framkvæmd, eftir að Alþingi hefur innleitt Evrópurétt á sviði millilandatenginga fyrir orku (Þriðji orkupakkinn).
Þau, sem halda því fram, að slíkt valdaafsal innlends ákvörðunarvalds í hendur yfirþjóðlegrar stofnunar, ACER/ESB, skipti sáralitlu máli, eru algerlega úti að aka um það, sem ESB gengur til með umfangsmikilli löggjöf og stjórntækjum til að fylgja henni eftir. Þar ræður ekki illur hugur, heldur brýn þörf, en augljósir hagsmunaárekstrar við eyjarskeggja norður í Atlantshafi fá þá hins vegar marga hverja til að reisa burst gegn því arðráni, sem flutningur á orku frá eyjunni eðli máls samkvæmt mun hafa í för með sér.
Í Fjórða orkupakkanum eru höfð uppi áform um að stofna svæðisstjórnstöðvar fyrir raforkuflutninga. Væntanlega þýðir það, að Stjórnstöð Landsnets (á Gylfaflöt í Reykjavík), þaðan sem helztu virkjunum, aðveitustöðvum og raun- og launaflsflæði stofnkerfisins, er stýrt, yrði sett undir slíka ROC-Regional Operational Centre, í norðanverðri Evrópu. Með þessu á að fást betri stjórn á millilandaflutningum og e.t.v. að ryðja einhverjum hindrunum fyrir þeim úr vegi.
Það kemur jafnframt fram í viðhengdu skjali með þessum pistli, að þessar svæðisstjórnstöðvar kunni í framtíðinni að ryðja kerfisstjórn hvers lands úr vegi og yfirtaka hlutverk þeirra í löndunum, sem svæðisstjórnin spannar. Hvernig hugnast mönnum það, að Landsnet, sem ríkisstjórnin vill núna, að verði í ríkiseign, verði gleypt með húð og hári og að stofnkerfi landsins ásamt millilandatengingum rafmagns verði stýrt frá stjórnstöð á meginlandi Evrópu, t.d. í Hamborg ?
Ef Alþingi samþykkir Orkupakka #3, mun engin fyrirstaða verða fyrir Orkupakka #4, og þá verða hagsmunir "heildarinnar" að ráða, þar sem heildin er allt EES, og sá sem framkvæmir hagsmunamatið, verður ACER.
Í viðhengdu skjali segir svo um framtíðaráformin, sem Alþingismenn eru nú að velta fyrir sér, hvort sé ekki bara allt í lagi, að Íslendingar verði hluti af:
"Stronger regulatory cooperation within ACER is seen as a prerequisite to achieving the EU Energy and Climate goals."
Höfundur þessa pistils túlkar þennan texta þannig, að öflugri miðstýring á orkumálum aðildarlandanna að hálfu ACER (Orkustofnunar ESB) sé talin forsenda þess að ná orku- og loftslagsmarkmiðum ESB. Nú hníga öll vötn til Dýrafjarðar. Tilhneigingin er öll til að færa lýðræðislega ákvarðanatöku í aðildarlöndunum til landsreglaranna og búrókrata Framkvæmdastjórnarinnar í ACER. Vilja Alþingismenn fara inn á þessa braut ? Til þess hafa þeir enga heimild. Stjórnarskrá lýðveldisins bannar þessa þróun mála. Samt hóta 2 ráðherrar ríkisstjórnarinnar enn að óska eftir því við þingið, að það lyfti stjórnskipulegum fyrirvara af máli, sem búrókratar þeirra í blindni eru búnir að samþykkja í Sameiginlegu EES-nefndinni. Þetta heitir að skíta í eigið hreiður.
Samkvæmt Fjórða orkupakkanum á að styrkja millilandasamstarf dreifiveitnanna. Með endurnýjanlegum orkulindum í eigu almennra viðskiptavina dreifiveitnanna, á borð við sólarhlöður og vindmyllur, er komið fram nýtt hugtak, "prosumer", framleiðandi og notandi, í sama viðskiptavini. Koma á á laggirnar nýrri stofnun innan ESB við hlið ACER fyrir "Distribution System Operators"-DSOs, samstarfsstofnun dreifiveitna. Ekki er ólíklegt, að með tímanum þróist þetta samstarf í átt að samræmingarstöð og að lokum verði til einhvers konar yfirstjórn dreifiveitnanna í anda ESB-stjórnkerfisins. Það er greinilega sannfæring fyrir því innan Berlaymont, að bezt fari á því að miðstýra flutnings- og dreifikerfum orku innan EES af Framkvæmdastjórninni og stofnunum hennar. Höfundur þessa pistils hefur aldrei verið á móti fjölþjóðasamvinnu, en þetta stjórnkerfi ESB á einfaldlega ekki heima á Íslandi.
Eignarhald dreifiveitnanna á endurhleðslustöðvum rafmagnsfartækja verður bannað eftir innleiðingu Fjórða orkumarkaðslagabálksins. Það er af samkeppnisástæðum. Dreifiveiturnar starfa samkvæmt sérleyfum hins opinbera, Orkustofnunar, og gjaldskrár þeirra mun Landsreglarinn rýna. Samkvæmt Fjórða orkupakkanum eiga aðeins einkafyrirtæki að þjónusta endurhleðslumarkaðinn. Að opinbert fyrirtæki á borð við dótturfyrirtæki OR hérlendis leiki talsvert hlutverk á þessum vettvangi, skekkir frjálsa samkeppni. Dreifiveitur eiga að halda sig við sitt hlutverk, og Veitum væri nær að gera rausnarlegt átak í að styrkja heimtaugar fjölbýlishúsa, svo að þær beri fyrirsjáanlega aukið álag af völdum endurhleðslu rafgeyma.
Almennt er ekki von á auknum framförum með aukinni miðstýringu. Sízt af öllu á það við, þegar um er að ræða að fjarstýra þróun raforkukerfis á eyju lengst norður í Atlantshafi frá meginlandi Evrópu. Stöðva ætti þessa óheillaþróun með því að hafna Orkupakka #3. Til þess þurfa Alþingismenn örlítið hugrekki til að feta nýjar slóðir. Til þess virðast þeir njóta stuðnings kjósenda, sem ætlast til slíks sjálfstæðis af þeim. Heybrækur eiga lítið erindi á þing. Það verður enginn fyrir tjóni, þótt ESB felli þá úr gildi Orkupakka #1 og #2 í EES-samninginum. Alþingi getur eftir það hagað orkumálunum eins og því sýnist.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt 21.3.2019 kl. 11:34 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.