23.3.2019 | 18:51
Ráðherra um víðan völl
Iðnaðarráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, kom víða við í ræðu sinni á ársfundi Landsvirkjunar, 28. febrúar 2019, eins og eðlilegt er. Það var hins vegar varla eðlilegt hjá henni að nota tækifærið til að gera lítið úr þeim viðvörunarorðum, sem höfð hafa verið í frammi á fullkomlega málefnalegum grundvelli. Sízt af öllu var það viðeigandi af henni í ljósi þeirra "undanþága", sem hún og utanríkisráðherra flagga með í fréttatilkynningu 22. marz 2019. Gagnvart Evrópusambandinu eru þessar "undanþágur" haldlausar, en meira um það síðar.
Ef Þórdís myndi spyrja kjósendur í NV-kjördæmi, þangað sem hún sækir umboð sitt, hvort þeir hafi átt í erfiðleikum með að fylgja umræðunni "út um víðan völl", mundu þeir líklega velflestir svara því neitandi og hafa á þessu máli þá bjargföstu skoðun, að ekki eigi að stíga skref til frekara valdframsals yfir raforkumarkaðinum í hendur Evrópusambandsins með því að samþykkja Orkumarkaðslagabálk #3. Orkumálum sínum eiga, vilja og geta Íslendingar stjórnað sjálfir án atbeina Landsreglara, sem stjórnað er af ESB (gegnum ESA).
Það skuggalegasta við þessa ræðu ráðherrans var áróður hennar fyrir því að samþykkja aflsæstreng til Íslands frá útlöndum. Rökin eru eins veigalítil og hugsazt getur:
"Afgangsorka fer til spillis". "Það er ekki hægt að selja hana, af því að það er ekki hægt að tryggja, að hún verði til reiðu í óvenjulega þurrum árum."
Hún sagði í ræðunni, að hér væri um að ræða 2,0 TWh/ár (meira en 10 % af heildarorkuvinnslu landsins) í meðalári og líkti því við "brottkast" af fiskiskipum að nýta ekki þessa orku.
Þessi samlíking ráðherrans er út í hött. Með brottkasti er verið að fleygja mat og má í mörgum tilvikum líkja við að kasta útsæðinu á glæ. Í staðinn þarf að afla annars fiskjar. Ekkert af þessu á við um þá vatnsorku, sem annaðhvort stendur eftir í miðlunarlóni eftir veturinn, þegar leysingar hefjast, eða fer á yfirfall framhjá virkjun síðsumars.
Það er góð auðlindastýring, ef tekst að nýta miðlunargetu lóna, þannig að innan við 10 % sé eftir af hámarks vatnsmagni í lóni, þegar vatnsstaðan er í lágmarki að vori. Þegar stefnir í vatnsskort, er vatnshæðinni stýrt með því að draga úr sölu á "ótryggðri" orku, sem er mun ódýrari en forgangsorkan.
Af einhverjum ástæðum hefur Landsvirkjun undanfarin ár dregið úr framboði "ótryggðrar" orku, og er það vissulega vottur af orkuskorti. Í því ljósi skýtur skökku við, að Landsvirkjun skuli ekki standa í neinum virkjanaframkvæmdum nú um stundir. Þótt hingað yrði lagður aflsæstrengur frá útlöndum, væri algert óráð að tæma miðlunarlónin á vorin, því að þá myndast "venesúelskt" ástand á Íslandi við strengbilun. Það er þannig ekkert vit að ganga meir á miðlunarforðann en nú er venjulega gert.
Það, sem iðnaðarráðherra sennilega er aðallega með í huga í þessu sambandi, er yfirfallsorkan úr miðlunarlóni. Það er hins vegar af og frá, að þessi orka nemi að jafnaði um 2 TWh/ár. Hér er mestmegnis um að ræða 2 miðlunarlón, Þórisvatn og Hálslón. Í fyrra var lokið við nýja virkjun, Búrfell #2. Henni er ætlað að nýta yfirfallsvatn úr Þórisvatni og annað vatn, sem fyrri virkjanir ekki geta nýtt. Búrfell #2 er miklu minni en ofangreind orkutala ráðherrans gefur til kynna, að til ráðstöfunar sé í efri Þjórsá, eða 100 MW að afli og 300 GWh/ár að orku. Framhjá þessum virkjunum mun sáralítið vatn renna eftir þetta í venjulegu árferði. Ef aðrennslið eykst marktækt á næstu árum vegna hlýnunar, þá er ólíkt nærtækara að stækka miðlunarlónið Þórisvatn en að leggja aflsæstreng til útlanda. Það væri vissulega að fara yfir lækinn að sækja vatnið.
Þá víkur sögunni að Fljótsdalsvirkjun, stærstu virkjun landsins, með aflgetu 690 MW og orkuvinnslugetu 5000 GWh/ár. Aðalálagið á þessa virkjun er frá Fjarðaáli. Það er um 550 MW og núverandi orkuþörf versins er um 4800 GWh/ár. Þetta þýðir að auka má álag Fljótsdalsvirkjunar um allt að 140 MW frá grunnálagi álversins og keyra inn á stofnkerfið, gegn álagslækkun, t.d. í jarðgufuvirkjunum, á móti, og verður þá hægt að "hvíla" jarðgufugeyminn og stunda viðhald á búnaði. Lítil flutningsgeta núverandi Byggðalínu takmarkar mjög möguleikana á aflkeyrslu á milli landshluta. Þegar 220 kV loftlína/jarðstrengur verður komin frá Fljótsdalsvirkjun og til Akureyrar og jafnvel vestur fyrir Eyjafjörð, þá verða engin vandkvæði á að keyra Fljótsdalsvirkjun á fullum afköstum, þegar vel gengur að fylla Hálslón og koma þannig í veg fyrir megnið af yfirfalli úr Hálslóni og grugg í Jökuldalsá, sem nú rennnur í farvegi Jöklu, er tær og orðin þokkaleg veiðiá. Þarna fengjust e.t.v. 200 GWh í góðum vatnsárum.
Þessi aðgerð kallar ekki á neinar fjárfestingar, því að styrking Byggðalínu er nauðsynleg, hvort sem er. Þannig er ljóst, að yfirfallsorka verður ekki fyrir hendi í neinum umtalsverðum mæli í nánustu framtíð. Hugmyndir um hana sem einhvers konar undirstöðu fyrir orkusölu inn á sæstreng eru úr lausu lofti gripnar. Að líkja umframorkunni við "brottkast" og réttlæta raforkusölu inn á sæstreng með henni er algerlega óboðlegt á Íslandi og hneisa að iðnaðarráðherra skuli bera þetta á borð á ársfundi Landsvirkjunar.
Getur verið, að ráðuneytisfólkið hafi heyrt röksemdir Norðmanna fyrir aflsæstrengjum og haldið, að hægt væri að yfirfæra þær hráar á milli þessara tveggja vatnsorkulanda ? Það eru 2 meginástæður fyrir því, að það er ekki hægt. Önnur er gríðarleg umframaflgeta í norska kerfinu utan kaldasta tímans, af því að húsnæði er yfirleitt rafhitað í Noregi. Á Íslandi er umframaflgeta nánast engin. Hin er umframmiðlunargeta lóna í 9 af hverjum 10 árum að jafnaði í Noregi. Þetta veldur því, að Noregur hefur undanfarin ár haft úr að spila 8-16 TWh/ár (góð vatnsár) inn á sæstrengina, sem er um 9 % af vinnslugetu kerfisins.
Það er þó önnur hlið á þessu íslenzka sæstrengsmáli, sem er miklu alvarlegri en sú gloppa eða vanþekking á afgangsorku/yfirfallsorku, sem lýst er að ofan. Hún snýr að fjárhagshlið málsins. Formælendur aflsæstrengstengingar við útlönd fullyrða, án þess að leggja fram nokkra útreikninga því til stuðnings, að orkuseljendur muni hagnast mikið á því að selja raforku inn á slíkan sæstreng. Er þá reynt að halda því að þjóðinni, að verkefnið sé þjóðhagslega hagkvæmt og að hér sé um fundið fé fyrir eigendur orkufyrirtækjanna að ræða, sem að mestu er hið opinbera á Íslandi. Þarna er maðkur í mysunni.
Hér er um eintóma loftkastala að ræða samkvæmt norska hagfræðiprófessornum Anders Skonhoft, en ritgerð hans um þetta efni, "Kraftkabler, samfunnsnytten, miljöet og industrien", er birt sem viðhengi við þennan pistil. Niðurstaða hagfræðilegrar greiningar prófessors Skonhoft er sú, að aukinn hagnaður norskra orkuseljenda af orkusölu inn á næsta aflsæstreng frá Noregi verði alfarið sóttur til verðhækkunarinnar innanlands, sem af viðbótar tengingu við hærra verðlagssvæði leiðir. Þetta er afar athyglisverð niðurstaða og stingur algerlega í stúf við málflutning talsmanna raforkusölu frá Íslandi.
Orðrétt segir í ritgerð prófessors Skonhft:
"Merk ellers, at gevinsten for produsentene utelukkende er knyttet til, at innenlandsk pris öker som fölge av utvekslingen. Uten ökt innenlandsk pris har kraftprodusentene dermed ikke noe ökonomisk motiv for å önske utenlandsk kraftutveksling velkommen."
Þessu snarar pistilhöfundur þannig:
"Veitið annars athygli, að hagnaður raforkuvinnslufyrirtækjanna [af orkusölu inn á sæstreng] er alfarið tengdur því, að innanlandsverð [raforkunnar] hækkar vegna utanlandsviðskiptanna. Án raforkuverðhækkunarinnar innanlands hafa raforkuvinnslufyrirtækin enga fjárhagslega ástæðu til að bjóða utanlandsviðskipti með rafmagn velkomin."
Þetta eru vissulega stórtíðindi, en þá er spurningin, hvort hægt sé að yfirfæra þessa niðurstöðu á Ísland ? Noregur er vatnsorkuland með vaxandi vinnnslu raforku með vindmyllum, með margar millilandatengingar fyrir raforku og frjálsan samkeppnismarkað fyrir hana. Á Íslandi koma yfir 70 % raforkunnar frá vatnsorkuverum, tæplega 30 % frá jarðgufuverum og vindorkuver ásamt frjálsum samkeppnismarkaði raforku eru í undirbúningi. Flutningsgeta fyrsta aflsæstrengsins frá Íslandi gæti numið meiri orku en þeirri, sem hér verður í byrjun á frjálsum markaði. Í Noregi verður þetta hlutfall aðeins um 10 % fyrir næsta sæstreng (Þýzkalandsstrengur-NORGER).
Af þessu er hægt að draga þær ályktanir, að sömu lögmál muni gilda á Íslandi og í Noregi um fjárhagslegar afleiðingar sæstrengstengingar, en þær munu þó verða miklu stórtækari á Íslandi, rýra lífskjör almennings, veikja samkeppnishæfni og launagreiðslugetu fyrirtækjanna, og þetta mun vafalaust verða mörgum þeirra, ekki sízt þeim minni, um megn. Að tala um þjóðhagslega hagkvæmni af aflsæstreng héðan til útlanda stenzt ekki skoðun. Af honum verður stórfellt þjóðhagslegt tap.
Verður þá enginn hagnaður af utanlandsviðskiptunum með rafmagn ? Hér á Íslandi verður ónýtanleg afgangsorka í miðlunarlónum og yfirfallsorka sáralítil eftir tilkomu Búrfells #2 og 220 kV tengingar Fljótsdalsvirkjunar við Norðurland. Þessi tenging mun gera kleift að keyra Fljótsdalsstöð á fullum afköstum inn á Fjarðaál og stofnkerfið, þegar þess gerist þörf, t.d. til að hindra myndun fossins Hverfanda niður í Jökulsárgljúfur í góðum vatnsárum fyrir austan. Af þessum sökum verður að reisa nýjar virkjanir fyrir útflutning um sæstreng frá Íslandi (í Noregi eru það litlar vatnsvirkjanir og vindmyllur). Kostnaður þessara framkvæmda verður miklu hærri en núverandi meðalkostnaður í orkuöflunarkerfinu. Útflutningurinn sjálfur leiðir þess vegna ekki til hagnaðarauka hjá vinnslufyrirtækjunum, heldur lendir allur hagnaður útflutningsins, ef einhver verður, hjá eigendum millilandatengingarinnar.
Í Noregi á norska Landsnet, Statnett, allar núverandi millilandatengingar raforku og hefur notað hagnaðinn af þeim m.a. til að byggja upp flutningskerfið innanlands, enda hefur verulegur kostnaður fallið til við að tengja sæstrengina við stofnkerfið. Líklega þykir framkvæmdastjórn ESB óeðlilegt, að Günther og Hildegard í Þýzkalandi borgi uppbyggingu flutningskerfis Noregs, því að í Orkupakka #3 er búið að reisa skorður við þessari ráðstöfun hagnaðar, og hert á í Orkupakka #4, og aðalreglan verður þá sú, að allur hagnaður mililandatenginga gangi til endurnýjunar og fjölgunar millilandatenginga við ESB-löndin. Þetta veldur ekki hrifningu í Noregi.
Þessi greining hins norska prófessors í hagfræði sýnir, að það er maðkur í mysunni, þegar kemur að þeim málflutningi, að raforkusala um sæstreng til útlanda sé fundið fé fyrir íslenzka virkjanaeigendur, sem að mestu eru í eigu opinberra aðila á Íslandi, og íslenzka hagkerfið. Hið síðara er ekki rétt. Samkvæmt Skonhoft kemur aukinn hagnaður alfarið úr vasa innlendra raforkukaupenda, og slíkur sæstrengur virkar þá eins og viðbótar skattheimta á heimilin og fyrirtækin í landinu. Alþingi á við þessar aðstæður ekki að stíga neitt skref, sem auðveldar erlendum fjárfestum að fá heimild til lagningar aflsæstrengs til útlanda. Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn er tvímælalaust tæki Evrópusambandsins til að fá á framkvæmdastig verkefni, sem það hefur sett á forgangsverkefnalista sinn, PCI, þ.á.m. "Ice-Link".
Þessi sæstrengur verður ekki fjarlægður af forgangs verkefnalista ESB/ACER með einu pennastriki, eins og látið er að liggja í fréttatilkynningu ríkisstjórnarinnar 22.03.2019. Hann hefur verið staðfestur þar inn með undirritun margháttaðra skjala, sem farið hafa einnig ril Ráðherraráðsins og ESB-þingsins. Það er að líkindum ekki skilyrði, að yfirvöld viðkomandi landa óski eftir verkefni inn á PCI. Það eru verkefniseigendurnir (Sponsors-hvatamennirnir), sem gera tillögur um verkefnaval til Framkvæmdastjórnarinnar, ekki löndin, og aðildarlöndin eru þá bara einn af mörgum aðilum, sem ákveða valið. Út frá þessu er engin trygging fyrir því, að "Ice-Link" geti ekki staðið áfram á PCI-listanum, þrátt fyrir óskir íslenzku ríkisstjórnarinnar. Löndin virðast ennfremur ekki hafa neitunarvald í þessum efnum.
Valið inn á PCI-listann er grundvallað á Kerfisþróunaráætlun ESB/ACER ásamt samevrópskri áætlun um meginflutningaleiðir (corridors) orku (Trans European Network for Energy). Allt þetta mælir gegn því, að framkvæmdastjóri hjá ESB geti tekið ákvörðun um að fjarlægja verkefnið. Er verið að reyna með lúðrablæstri og söng að slá ryki í augu Alþingismanna og almennings ?
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Þakka þér fyrir fróðlegt yfirlit yfir þetta málefni !
Þórhallur Pálsson, 23.3.2019 kl. 23:35
Já, stórkostlegt yfirlit, Bjarni, og enn áttu skildar allar þakkir okkar.
Kindarleg má hún Þórdís iðnaðarráðherra nú vera að lesa þessa ýtarlegu yfirferð og margþættu, stálstyrktu röksemdafærslu sem hana hefur greinilega ekki órað fyrir blessaða konuna. Og samt var hún nógu djörf til að mæta ábúðarmikil á ársfund Landsvirkjunar 28. f.m., ætlandi sér að kenna sérfróðum verkfræðingum og virkjanafræðingum sín nýju, ESB-vænu áróðursfræði! Vesalings konan, allt fór það hér í vaskinn hjá henni!
Og hvað ætli greyið hann Björn Bjarnason sé að hugsa -- eða þá Guðlaugur Þór, sem áður gekk um með glott á vör!
Jón Valur Jensson, 24.3.2019 kl. 00:41
Meiriháttar góð grein Bjarni. Ég komst því miður ekki þegar Morten Harper var með umfjöllun sína í Háskólanum á fimmtudaginn, var Iðnaðarráðherra ekki þar? Hún hefði nú haft gott af því. En viðtalið við hann á útvarpi Sögu (sem þú þýddir) var mjög gott og þá sérstaklega hlutinn um brotin á Norsku stjórnarskránni. GETUR VERIÐ AÐ NORÐMENN SKERI OKKUR ÚR "SNÖRUNNI" MEÐ ÞVÍ AÐ FELLA ORKUPAKKA ÞRJÚ, þegar málið hefur farið fyrir Norska dómstóla? Það yrði þá í fyrsta skipti sem Norðmenn yrðu Íslendingum til einhvers gagns.
Jóhann Elíasson, 24.3.2019 kl. 08:30
Þakka ykkur fyrir innlitið og áhugann, allir hér að ofan. Ríkisstjórnin hefur nú viðurkennt, að hún var á rangri braut. Hins vegar vinnur hún að þessu máli með öfugum klónum. Hún hefur viðurkennt, að gerð nr 713/2009 er ekki hægt að innleiða án þess að brjóta Stjórnarskrána. Í stað þess að fresta málinu, þar til niðurstaða verður fyrir hendi úr dómsmáli "Nei til EU" gegn norska ríkinu (sigur "Nei til EU" mun fella Orkupakka #3 í Noregi), þá þjösnast ríkisstjórnin áfram með því að undanskilja þessa gerð, sem er ekki hægt og hefur ekkert gildi gagnvart ESA/ESB. Allt einn blekkingaleikur til heimabrúks aðeins.
Bjarni Jónsson, 24.3.2019 kl. 18:58
Vaá, þetta er svakalegt ástand á þessari ríkisstjórn, hvernig hún hræsnar og hringlar með þetta mál og ætlar ekki að láta sér staðreyndir að kenningu verða, snýr þá bara upp á sig og þykist geta tekið sér billega "undanþágu" sem ekkert hald er í og hefur ekkert þjóðréttargildi fyrir okkur! -- otar þessu þó að þjóðinni til að blekkja hana!
Jón Valur Jensson, 25.3.2019 kl. 10:18
Hvers vegna er fyrirvari ríkisstjórnarinnar við Þriðja orkupakkann haldlaus ? Það er vegna þess, að það er ekki hægt að Evrópurétti að innleiða aðeins hluta af samþykktum Sameiginlegu EES-nefndarinnar. Annaðhvort allt eða ekkert. Verði staðið vitlaust að þessu, þá mun kæra til ESA leiða til hruns þessarar innleiðingar. Hvaða staða verður þá uppi ? Allur Orkupakki #3 verður hluti af EES-samninginum og íslenzkum lögum, einnig sá hluti, sem brýtur Stjórnarskrána. Ríkisstjórnin er á leiðinni með okkur út í kviksyndi og orkan okkar er undir.
Bjarni Jónsson, 25.3.2019 kl. 15:07
Hræðilegt! Og nú hafa jafnvel fáeinir góðir menn fallið fyrir áróðursfléttunni!
Jón Valur Jensson, 25.3.2019 kl. 17:10
Fyrirvarar hafa ekkert að segja gagnvart ESB, það hefur sýnt sig svo ekki verður um villst. ANNAÐ HVORT ERU TILSKIPANIR SAMÞYKKTAR EINS OG ÞÆR KOMA FRÁ ESB EÐA ÞEIM ER HAFNAÐ. ÞETTA EIGA MENN AÐ VITA........
Jóhann Elíasson, 26.3.2019 kl. 11:08
Þakka þér fyir frábært yfirlit. Er ekki kominn timi fyrir gott fólk að koma á undirskrifta lista (Icesave 2) fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu gegn þessum 3. orkupakka
Hákon Ólafur Ísaksson, 26.3.2019 kl. 21:44
Einmitt, Jóhann. Samkomulag við einn kommissar í Brüssel dugar engan veginn. Þess vegna eru það látalæti að undanskilja eina reglugerð í Orkupakka #3, þar til fundin hefur verið lausn á "stjórnskipulegum vanda". Pakkinn felur í sér stjórnarskrárbrot, basta. Þess vegna á að fella hann.
Bjarni Jónsson, 26.3.2019 kl. 22:16
Þingsályktunin fer ekki í undirskrift hjá forseta lýðveldisins. Þar stendur hnífurinn í kúnni.
Bjarni Jónsson, 26.3.2019 kl. 22:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.