14.5.2019 | 20:52
Baudenbacher-áhrifin
Svisslendingurinn prófessor dr juris Carl Baudenbacher hefur verið einn þriggja dómara við EFTA-dómstólinn frá 1995, tilnefndur af Liechtenstein, þar til nýlega, að hann hætti fyrir aldurs sakir. Liechtenstein er í tollabandalagi við Sviss og notar svissneska frankann. Lífsviðhorfum Baudenbachers er lýst sem "dökkbláum", og hann hefur gjarna þótt vera "kaþólskari en páfinn" í túlkunum sínum á Evrópuréttinum, þ.e. jafnvel gengið lengra en ESB-dómstóllinn sjálfur. Fáir efast þó um hæfni hans og kunnáttu á sviði Evrópulöggjafarinnar.
Mestallan tíma EES-samningsins hefur Carl Baudenbacher verið umdeildur maður í Noregi, eins og sjá má í viðhengi þessa pistils. Hann hefur deilt við norska samdómara sína og verið ósáttur við dómara við norska dómstóla, allt upp í Hæstarétt. Þeir hafa sjaldan leitað umsagnar EFTA-dómstólsins í málum, þar sem Evrópurétturinn hefur komið við sögu, þeir hafa hundsað umsögn EFTA-dómstólsins og jafnvel dæmt þvert á ráðleggingu hans. Baudenbacher hefur haft á orði fyrir vikið, að norskir dómarar grafi undan EFTA-dómstólnum, sem gæti síðan leitt til hruns EES-samningsins.
Baudenbacher þykir vera afar hallur undir ESB og vill helzt ekki sjá neinar undanþágur frá gerðum Sambandsins, heldur vill steypa alla í sama ESB-mótið. Þetta kann að ráða miklu um afstöðu hans til þess, hvað gerist, ef Alþingi segir nei við OP#3. Að fá slíkan "unionista" með stormasöm samskipti við eitt EFTA-ríkið í farteskinu til að veita umsögn um OP#3, er afar umdeilanleg og jafnvel skrýtin ráðstöfun.
Hvers vegna ættu Evrópusambandið og EFTA-ríkin ekki að fallast á þá ósk eyjarskeggja norður í Atlantshafi, sem núna eru ótengdir við raforkukerfi ESB og vilja flestir vera þannig áfram, að fá undanþágur frá Þriðja orkupakkanum um öll atriði, er millilandatengingar varðar ? Bezt væri að fá varanlega undanþágu frá reglugerðunum 713/2009, 714/2009, 543/2013 og tímabundna undanþágu frá tilskipuninni 2009/72/EB og leyfi til að þróa hér takmarkað markaðskerfi með nauðsynlegri auðlindastýringu. Þannig gætum við innleitt OP#3 og Norðmenn og Liechtensteinar yrðu í Orkusambandi ESB án atkvæðisréttar, eins og þjóðþing þeirra hafa samþykkt.
Eins og kunnugt er, er nú rekið mál fyrir þingréttinum í Ósló gegn norska ríkinu vegna meints brots ríkisstjórnar Noregs og meirihluta Stórþingsins á stjórnarskránni, þegar ákveðið var að fylgja ekki ákvæði stjórnarskrárinnar, sem áskilur aukinn meirihluta Stórþingsins fyrir samþykkt á tilgreindu fullveldisframsali til erlendra stofnana, þar sem Noregur ekki á aðild. Afgreiðslu dómsins er vænzt í haust, þ.e. ákvörðunar um, hvort taka á ágreiningsmálið til efnislegrar meðferðar eða að vísa því frá.
Verði það tekið til efnislegrar meðferðar, getur dómur haft mikla þýðingu fyrir EFTA-löndin í EES-samstarfinu. Málið mun þá vafalaust fara alla leið upp í Hæstarétt. Ef hann dæmir, að afgreiða hefði átt OP#3 með auknum meirihluta, mun málið hljóta slíka þinglega meðferð í Stórþinginu. Á þeim 14 mánuðum, sem liðnir eru frá atkvæðagreiðslunni í Stórþinginu um OP#3, hafa efasemdir í Noregi og ótti við afleiðingar OP#3 fyrir almannahag aukizt, svo að líklegra er en ekki, að OP#3 verði felldur í Stórþinginu.
Þeir, sem hagnast á þeirri stöðu, sem er á góðri leið með að verða ofan á í orkumálunum á Íslandi og í Noregi núna, eru raforkuvinnslufyrirtækin, nokkur orkusveitarfélög í Noregi og í fyrsta umgangi ríkissjóðirnir, en ríkissjóðirnir fórna framleiðslugreinum fyrir sjóðasöfnun, og óvíst er, að þeir ríði feitum hesti frá þessum viðskiptum, þegar upp verður staðið.
Tapararnir verða norskir og íslenzkir orkunotendur - almennir notendur rafmagns, atvinnulífið og opinberar stofnanir, en alveg sérstaklega orkusækinn iðnaður. Við munum öll þurfa að horfa fram á hærra rafmagnsverð, og iðnaðurinn missir sitt mikilvægasta samkeppnisforskot - lágt raforkuverð (heita vatnið mun líka hækka, af því að raforkuþörf hitaveitnanna er umtalsverð).
Hvers vegna mun þetta gerast á Íslandi án sæstrengs ? Væntingar um sæstreng munu virka til hækkunar, orkukauphöll mun að líkindum valda kostnaðarauka hjá fyrirtækjunum, og ef samkeppnissjónarmið leiða til minni og fleiri fyrirtækja í orkuvinnslunni, mun tilkostnaður vaxa og auðlindastýringin, sem þó er að finna núna innan Landsvirkjunar, mun hverfa með þeim afleiðingum, að nýting orkulindanna versnar. Þetta síðasta verður dýrast, en er samt fyrirferðarminnst í umræðunni.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Evrópumál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
til erlendra stofnana, þar sem Noregur ekki á aðild.
rétt er: til samtaka sem Noregur á aðild að.
Björn S Stefánsson, 14.5.2019 kl. 21:36
Takk fyrir leiðréttinguna.
Bjarni Jónsson, 15.5.2019 kl. 13:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.