24.5.2019 | 18:08
Leiðin er vörðuð með samþykkt OP#3
Allar þjóðir, sem gangast undir jarðarmen Orkupakka#3, OP#3, ganga í Orkusamband ESB, sem hefur að stefnumiði að tengja aðildarlöndin saman traustum flutningslínum við þungamiðju orkunotkunarinnar í Evrópu. Til hvers er þetta gert ?
Þetta er gert til þess að skapa 5. frelsið í ESB, frjálst flæði orku, jarðgass og rafmagns, á milli allra aðildarlandanna. Slíkt bætir nýtingu fjárfestinganna (a) og er fallið til að flýta fyrir orkuskiptunum (b). Það leiðir líka til samfélagslega hagkvæmrar nýtingar orkunnar, því að hún fer þangað, sem hæsta verðið er greitt fyrir hana (c). Þetta jafnar líka orkuverðið innan Orkusambandsins (d). Hvernig horfir þetta við frá sjónarhóli Íslendinga ?
(a) Nýting íslenzkra virkjana og flutningskerfis raforku er með því hæsta, sem þekkist. Sama má segja um virkjaða orku, þ.e. vatnið í miðlunarlónum og jarðgufuforða gufuvirkjananna. Þetta helgast af tiltölulega jöfnu álagi yfir sólarhringinn og yfir árið, þar sem iðnaðarálagið vegur langmest (80 %), og það er stöðugt. Tvö miðlunarlónanna yfirfyllast flest árin. Til að fanga hluta þeirrar orku Þórisvatns var Búrfell#2 reist, og með væntanlegri 220 kV línu frá Fljótsdalsvirkjun til Norðurlands verður hægt að koma megninu af umframorku Hálslóns í lóg. Bætt nýting fjárfestinga getur þess vegna ekki orðið röksemd fyrir tengingu Íslands við innri orkumarkað ESB.
(b)Tenging Íslands við innri markað ESB mun tefja fyrir orkuskiptum á Íslandi. Það er út af því, að raforkan mun þá snarhækka í verði, og orkuskiptin verða miklu dýrari. Þau geta jafnvel orðið óhagkvæm á sumum sviðum og vetnisframleiðsla verður þá ekki samkeppnishæf hér. Að vissu leyti munum við hafa val á milli vetnisframleiðslu og sæstrengs. Við getum létt undir með orkuskiptum t.d. Englendinga með því að selja þeim vetni, en á NA-Englandi eru áform um að leysa jarðgas til húshitunar af hólmi með vetni. Það er þó engum blöðum um það að fletta, að mest leggja Íslendingar að mörkum til loftslagsmálanna með því að hýsa hér orkukræfan iðnað. Því má svo bæta við, að vafalaust verður keypt rafmagn hingað um aflsæstrenginn, og það er að miklu leyti unnið úr jarðefnaeldsneyti.
(c)Samfélagið í skilningi ESB eru EES-þjóðfélögin. Það, sem er hagkvæmt fyrir ESB-löndin í rafmagnsmálum, er næsta víst ekki hagkvæmt fyrir Ísland. Hagsmunirnir eru á öndverðum meiði. Eftir samtengingu Íslands mun íslenzkt athafnalíf og íslenzk heimili lenda í beinni samkeppni við athafnalíf og heimili í ESB. Þetta er ósanngjarnt vegna þess hagræðis, sem evrópskt athafnalíf nýtur af nálægð við markaðina, þróaðra innviða og góðs aðgengis að mannauði. Upphitun á Íslandi er eðli málsins samkvæmt orkukræfari en í ESB, og þess vegna er orkuþörf íslenzkra heimila meiri en heimila í ESB. Hitaveitukostnaður er háður rafmagnskostnaði hitaveitnanna, sem er umtalsverður hluti rekstrarkostnaðarins. Við munum því fara halloka í samkeppninni um þá lífsnauðsyn, sem orkan er. Fyrir hana er engin staðgönguvara, og við þurfum meira á henni að halda en aðrar þjóðir. Þess vegna ber að líta á rafmagnið sem samfélagslega grunnþjónustu, en ekki eins og hverja aðra vöru, sem gengur kaupum og sölum og verði flutt utan við fyrsta hagstæða tækifæri.
(d) Þegar tæknilegir flöskuhálsar verða ekki lengur fyrir hendi í flutningskerfi raforkukerfa Evrópu og flutningskostnaðurinn á milli landa (svæða) hefur annaðhvort að mestu verið afskrifaður eða honum dreift jafnt á öll flutningskerfin, þá jafnast rafmagnsverð til allra raforkunotenda út. Þetta er stefnumið ESB og leiðir augljóslega til mikilla verðhækkana á Íslandi.
Af þessum sökum á orkulöggjöf Evrópusambandsins, ESB, illa við hérlendis. Ef OP#3 verður innleiddur hér, að líkindum í blóra við vilja meirihluta þjóðarinnar, verður að spyrna fótum við OP#4, sem allir valdsaðilar ESB hafa nú samþykkt, að hljóti innleiðingu í ESB-löndunum árið 2020.
Orkugeirinn á Íslandi og í Noregi hefur tekið orkulöggjöf ESB fagnandi. Í Noregi er reynt að þvo yfirstandandi samtengingu raforkumarkaðar ESB með "grænsápu". Þessi samtenging hefur þó nú þegar steytt á skeri, t.d. í Þýzkalandi, þar sem vaxandi andstöðu gætir gegn nýjum, stórkarlalegum loftlínum, og fólk er hvarvetna að fá sig fullsatt af vindmylluvæðingunni. Vafalítið verður "grænþvotturinn" reyndur hérlendis, þegar að því kemur, að vinna þurfi sæstreng brautargengi.
Hugmyndafræði Evrópusambandsins í orkumálum er m.a. sú, að með virkjunum í Noregi og á Íslandi og með öflugum tengingum við sameiginlegan raforkumarkað ESB skuli endurnýjanleg orka Íslands og Noregs koma í stað mengandi jarðefnaorkulinda í Evrópu. Hér gleymist að minnast á hlutföllin, þ.e. að framlag þessara landa verður aldrei yfir 1 % af orkuþörf ESB, nema ætlunin sé að leggja orkukræfan iðnað landanna tveggja í rúst með raforkuverðshækkunum, sem gera orkukræfum iðnaði þessara landa ókleift að keppa á alþjóðamörkuðum.
Þarna fara hagsmunir Norðurlandanna tveggja ekki saman við hagsmuni ESB, því að afleiðingarnar verða veikari samkeppnisstaða allra framleiðslugreina, aukinn orkukostnaður heimilanna, lakari lífskjör landsmanna og miklar umhverfisfórnir.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Umhverfismál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.