3.7.2019 | 11:49
Erfðasilfrið í hendur ESB um embætti Landsreglarans
Samkvæmt rafmagnstilskipun Orkupakka #4, OP#4, gr. 51.1, verður Landsreglarinn einráður orkustjórnandi á Íslandi. Aðrir hlutar greinar 51 leiða óyggjandi í ljós, hver stjórnar Landsreglaranum. Í hverri greininni á fætur annarri er tryggilega bundið um hnútana, að Landsreglarinn, allir starfsmenn hans, stjórn embættisins og kvörtunarnefnd vegna gjörða hans, verða fullkomlega óháð pólitískum yfirvöldum á Íslandi, einnig fjárhagslega.
Landsreglaranum ber samkvæmt grein 58:
- að koma á innri ESB-markaði fyrir rafmagn í nánu samstarfi við önnur aðildarlönd, ACER og framkvæmdastjórn ESB
- að þróa svæðisbundinn raforkumarkað á milli landa
- að fjarlægja tálmanir úr vegi raforkuviðskipta á milli landa, t.d. með eflingu flutningsmannvirkja á milli landa
- að fjarlægja hindranir í vegi nýrra virkjana endurnýjanlegra orkulinda.
Með OP#4 er undirstrikað hlutverk Landsreglarans við að koma á markaðskerfi fyrir raforku, sem falli vel að kerfum nágrannalandanna. Hérlendis þýðir þetta fortakslaust stofnun orkukauphallar með "augnabliksverði" á raforkunni, sem fram kemur á snjallmæli hjá hverjum raforkuviðskiptavini, sem samþykkir uppsetningu slíks mælis hjá sér. Slík snjallmælavæðing á Íslandi kostar allt að mrdISK 10, mun hækka dreifingarkostnaðinn, sem er ærinn fyrir, og verður mjög lengi að borga sig upp hérlendis. Snjallmælar eiga við í löndum, þar sem framboð raforku er sveiflukennt og álagið tiltölulega breytilegt eftir tíma sólarhringsins, eftir dögum og eftir árstíðum. Sýnt hefur verið fram á, að eðli íslenzka raforkumarkaðarins leiði líklegast til hækkunar á meðalverði raforku til almennings við þessa gerð markaðsvæðingar, af því að nauðsynleg miðlæg auðlindastýring verður bönnuð. Hvers konar inngrip að hálfu ríkisvaldsins í þennan frjálsa markað verður óleyfilegt, og mun Landsreglarinn hafa eftirlit með því.
Hvers konar niðurgreiðslur á orkuverði og gjaldskrám flutnings- og dreififyrirtækja stríða gegn þessu kerfi. Það verður engin leið að styðja við innlend framleiðslufyrirtæki vegna hás dreifingarkostnaðar, því að slíkt skekkir samkeppnisstöðu við erlenda framleiðendur, þótt þeir búi við aðrar og hagsfelldari aðstæður. Þetta kerfi þjónar ekki íslenzkum hagsmunum á nokkurn hátt, enda er það alls ekki sniðið við íslenzkar aðstæður, sem hvergi annars staðar í Evrópu er að finna. Yfirvöld sýna af sér dómgreindarleysi og óvitaskap með því að ætla að innleiða OP#3 (og síðar væntanlega OP#4) án nauðsynlegra aðlögunarsamninga við ESB, sem þau hafa ekki haft vit á að fara fram á, t.d. um miðlæga auðlindastýringu.
Svíar hafa nú áratugsreynslu af Landsreglara, og hún er skelfileg fyrir sænska raforkukaupendur, því að dreifingarkostnaðurinn vegna hárra arðsemiskrafna Landsreglarans hefur hækkað um 55 %. Sænskur ráðherra reynir að vinda ofan of þessu, en þá slær Framkvæmdastjórnin á puttana á honum. Viljum við innleiða þennan ESB-sirkus á Íslandi ?
Allar lagalegar hindranir í vegi millilandatenginga verða brotnar á bak aftur, og engar óeðlilegar tafir á hvers konar leyfisveitingum verða liðnar. Þetta á líka við um nýjar virkjanir af öllu tagi. Standi vilji Evrópusambandsins til þess, verða ráðin gjörsamlega tekin af landsmönnum með OP#4, frá virkjun til sæstrengs. Eftir samþykki OP#4, hefur ESB töglin og hagldirnar í raforkumálum landsmanna. Þessa vegferð er öruggast að stoppa við OP#3.
Lítum nú á fleiri uggvænlegar greinar OP#4, sem lýsa inn í hugmyndaheim höfunda orkupakkanna og eru víti til varnaðar við ákvarðanatöku um OP#3:
Samkvæmt grein 59.1 ber landsreglaranum:
- að ákvarða gjaldskrár flutnings- og dreififyrirtækjanna
- að sjá til þess, að Landsnet og dreifiveiturnar fari eftir þessari tilskipun (rafmagnstilskipun OP#4), netskilmálum og reglum, sem framkvæmdastjórn ESB setur og Evrópuréttur tilgreinir - að meðtöldum málefnum orkuflutninga á milli landa - og samþykktum ACER.
- að sjá til þess, að Landsnet komi sér upp mannvirkjum, sem duga til flytja þá orku til og frá millilandasæstrengjum, sem markaðurinn biður um
- að rýna og gefa skýrslu um það, hvort fjárfestingaráætlun Landsnets sé í samræmi við kerfisþróunaráætlun ESB.
Hér er ekki skafið utan af því, heldur er því lýst skilmerkilega, að Landsreglarinn, algerlega óháður íslenzkum yfirvöldum, verður æðsta yfirvald orkumála á Íslandi. Eitt aðalhlutverka hans verður að framfylgja ákvörðunum Evrópusambandsins, en hvorki íslenzku ríkisstjórnarinnar né Alþingis, um millilandatengingar og framfylgja því í krafti Evrópuréttar, að reist verði hérlendis mannvirki með flutningsgetu í samræmi við flutningsgetu þeirra sæstrengja, sem fjárfestum þóknast að leggja hingað að uppfylltum skilyrðum Evrópusambandsins.
Markaðurinn á hins vegar að sjá um að reisa nýjar virkjanir, vatnsafls- og jarðgufuvirkjanir ásamt vindrafstöðvum. Umhverfisvernd víkur fyrir Evrópurétti, þar sem allt verður undan að láta í baráttunni við loftslagsvána.
KOMIST LANDSREGLARINN AÐ ÞVÍ, AÐ TAFIR VERÐI VIÐ VERKEFNI, SEM VARÐA MILLILANDATENGINGAR, OG EF MÁLIÐ ER ÓLEYST EFTIR 4 MÁNUÐI, Á LANDSREGLARI AÐ GEFA SKÝRSLU UM ÞAÐ TIL ACER, OG ACER TEKUR ÁKVÖRÐUN UM MÁLIÐ Í FRAMHALDINU.
Hér sjá menn skriftina á veggnum. Það verður engum vettlingatökum beitt, ef skipulagsyfirvöld í landinu ætla að draga lappirnar eða að leggja stein í götu leyfirveitinga fyrir mannvirki til orkuflutninga að sæstreng, sem flytja á orku inn á innri raforkumarkað ESB. Hér er ekkert gamanmál á ferðinni, heldur grímulaus valdataka Evrópusambandsins á Íslandi, ef Alþingi glepst á að samþykkja þessi ósköp, sem OP#3 og OP#4 eru. Er nema von, að Viðreisn hamist við að fá Orkupakka #3 samþykktan ? Sovét-Ísland, hvenær kemur þú, var einu sinni sungið.
Í viðhengi með þessum pistli er handhægt minnisblað um rafmagnstilskipun Orkupakka #4.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Fjármál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Thakka gódan og skilmerkilegan pistil Bjarni.
Hafdu thakkir fyrir ad standa vaktina og taka saman afleidingar thessa óthverragjörnings, sem forysta Sjálfstaedisflokksins hyggst keyra í gegn, ásamt fullveldisafsalssamstarfsflokkum sínum, sama hvad tautar eda raular.
Landrád er fyrsta ordid sem kemur upp í hugann, thegar tíundadar eru afleidingar thess ad samthykkja thennan ófögnud. Hvad vakir fyrir forystumönnum ríkisstjórnarinnar med thessu, er med öllu óskiljanlegt og kominn tími til ad forystumenn stjórnarflokkanna geri almennilega grein fyrir sínum málum. Fullvíst má telja ad ekki einungis stór hluti Sjálfstaedismanna sé algerlega á móti thessu, heldur hlýtur stór hluti, ef ekki meirihluti grasrótar VG og Framsóknar einnig ad hafa blendnar tilfinningar í gard thessa fullveldisafsals okkar. Thad er ekki haegt ad nefna thetta neinu ödru ordi. Vidreisn og hitt draslid getur sig varla hamid af kaeti, enda andskotans sama um sjálfstaedi Íslands, eins og margoft hefur sýnt sig frá thví kúlulánahyski.
Their sem aetla sér ad keyra thetta ofan í thjódina aettu virkilega ad nota sumarfríid sitt til ad endurmeta stödu sína og huga ad thjódarhag, en ekki eigin stundarhagsmunum. Thad mun hefnast grimmilega fyrir thennan gjörning, nái hann fram ad ganga. Icesave mun blikkna í samanburdi vid afleidingar OP3 og OP4, thví áhrifin munu vara um ókomna tíd og engin leid ad vinda ofan af vitleysunni.
Orkan er okkar! Vid eigum hana sameiginlega og höfum í sameiningu byggt upp gott raforkukerfi, sem thjódin á öll saman. Thad vita allir hvad felst í taumlausri markadsvaedingu. Tala nú ekki um ef henni er stjórnad erlendis frá. Er ríkisstjórnin ordin algerlega galin?
Trúi thví ekki ad thjódin samthykki ad annad eins og gerdist med einkavaedingu bankanna á sínum tíma, fái ad gerast aftur og nú í enn varanlegri mynd. Barasta hreinlega trúi thví ekki.
Bjarni Benediktsson, ertu madur eda mús, formadur Sjálfstaedisflokksins, eda lítil og medfaerileg lús? Hundskastu til ad standa í lappirnar og ganga fram fyrir skildi, í nafni Sjálfstaedisstefnunnar, ella komdu thér úr flokknum og thá helst út í hafsauga drengur!
Gódar stundir, med kvedju ad sunnan.
Halldór Egill Guðnason, 6.7.2019 kl. 11:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.