"Ótrúverðugur málflutningur" - hverra ?

Á opnum fundi með þingmönnum sjálfstæðismanna í Valhöll laugardaginn 10. ágúst 2019 varð formanni Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssyni, tíðrætt um það, sem hann nefndi "ótrúlega ótrúverðugan málflutning" miðflokksmanna á Alþingi.  Þessi tegund orðræðu er flótti frá málefninu sjálfu, sem er Orkupakki#3 (OP#3).  Okkur varðar lítið um, hvað fyrrverandi framsóknarmenn og aðrir sögðu og gerðu á tímabilinu 2014-2016 og jafnvel fyrr, auðvitað á grundvelli upplýsinga og athugana, sem þá voru fyrir hendi um mál, sem opinberlega lá í þagnargildi.  Það er afstaða manna hér og nú og stefnumörkun til framtíðar, sem máli skiptir.  Þetta er samt snöggtum skárri málflutningur en sá, sem utanríkisráðherra temur sér, enda verður vart neðar komizt.

Varaformaður Sjálfstæðisflokksins, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ÞKRG, notar pistilpláss sitt á Vettvangssíðu Morgunblaðsins 11. ágúst 2019 til endurtekinnar lofgjarðar um OP#3 og heldur í raun uppteknum hætti að berja hausnum við steininn.  Ekkert nýtt kemur fram hjá ráðherranum, og hún kemur ekki með nein frambærileg rök fyrir því, að Alþingi aflétti stjórnskipulegum fyrirvara af OP#3.  Þessi einstrengingsháttur er þyngri en tárum taki fyrir Sjálfstæðisflokkinn, af því að óbreytt stefna forystunnar mun leiða til kollsteypu Sjálfstæðisflokksins, en að sjálfsögðu ekki sjálfstæðisstefnunnar, sem mun rísa upp sem fuglinn Fönix, þegar búið verður að leiðrétta kúrsinn í einstaka málum.

Pistil sinn hóf ÞKRG þannig:

"Þú, lesandi góður, getur valið af hverjum þú kaupir rafmagn.  Þú getur farið á netið, hvenær sem er, gert verðsamanburð með einföldum hætti og skipt um orkusala á augabragði."

Ráðherrann þakkar OP#1 og OP#2 þetta, en með þeim var komið á samkeppni á sviði heildsölu og smásölu raforku, en rafmagnsflutningar urðu einokunarstarfsemi um allt land og dreifing til neytenda varð samkvæmt úthlutun sérleyfis á tilgreindum landsvæðum.  Kerfi þessu var komið á með fjölgun og sérhæfingu fyrirtækja, þannig að þau minnkuðu og yfirbyggingin í heild jókst. Raforkugeirinn sjálfur var andvígur þessu á sinni tíð og varaði við kostnaðarhækkunum fyrir neytendur.  Það hefur gengið eftir. 

Á tímabilinu 2003-2018 hefur raunhækkun gjaldskráa orðið 7 %- 8 % samkvæmt ritgerð Ragnars Árnasonar, prófessors í hagfræði við HÍ, í skýrslu Orkunnar okkar frá ágúst 2019.  Það er kaldhæðnislegt, að ÞKRG skuli tíunda þessa orkupakka sem sérstaka neytendavernd, af því að neytendur geti valið sölufyrirtæki. Þau eru fá og neytendum þess vegna aðeins boðið upp á fákeppni.  Við íslenzkar aðstæður snýst neytendavernd upp í andhverfu sína með orkupökkunum, og um þverbak mun keyra með OP#3, og með OP#4 mun náttúruverndin heldur betur fá að finna fyrir Evrópuréttinum, sem setur nýtingu endurnýjanlegra orkulinda í forgang.   

"Árið eftir [2000] aflétti Alþingi stjórnskipulegum fyrirvara við þessa ákvörðun [OP#1].  Það var heillaskref fyrir neytendur, sem hafa í dag valfrelsi, sem þeir höfðu ekki þá.  Og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands komst að þeirri niðurstöðu, að aðskilnaður sérleyfis- og samkeppnisrekstrar hefði leitt af sér þjóðhagslega hagkvæmara raforkukerfi."

Eins og að ofan greinir, er þetta mjög málum blandið hjá ráðherranum, og málflutningur hennar veður á súðum innantómra fullyrðinga.  Valfrelsið hefur ekki leitt til annars en óþarfa raunhækkana vegna þess, að dregið hefur úr hagkvæmni stærðarinnar og heildaryfirbygging vaxið.  Hvernig í ósköpunum HHÍ kemst að því við þessar aðstæður, að aðskilnaðurinn hafi orðið þjóðhagslega hagkvæmur, er ráðgáta.

"Ótrúlegum ósannindum hefur verið haldið að fólki um, að þriðji orkupakkinn feli í sér grundvallarbreytingar á skipan orkumála hér á landi.  Það er einfaldlega ekki satt.  Þriðji orkupakkinn breytir engu um eðli þeirrar frelsis- og markaðsvæðingar á framleiðslu og sölu rafmagns, sem ákveðin var með fyrsta orkupakkanum fyrir tuttugu árum - og sem var í fullu samræmi við stefnumörkun og aðgerðir Sjálfstæðisflokksins á þeim tíma, sem allar miðuðu að bættum hag neytenda."

Þarna fýkur moldin í logninu og ljóst, að höfundurinn er haldinn djúpstæðri vanþekkingu á viðfangsefni sínu, OP#3.  Það er róttæk breyting, sem blasir við með OP#3.  Orkusamvinna EES-ríkjanna breytist þá í Orkusamband með yfirþjóðlegu valdi yfir orkumálunum.  Ekkert tiltökumál fyrir ESB-löndin, en óviðunandi breyting fyrir Ísland og Noreg vegna valdframsals til ESA/ACER.  Orkusambandið er myndað með heimildum í Lissabonsáttmálanum, sem Ísland hefur aldrei undirgengizt.  Æðsta eftirlits- og reglusetningarvald í raforkugeira Íslands verður í höndum ESB með ESA sem afritandi millilið fyrirmæla og upplýsinga.  Þessi valdsmaður hefur hér verið nefndur Landsreglari (National Regulator). Þá var með OP#3 lagður grunnur að sameiginlegum orkumarkaði ESB, þótt tæpt hafi verið á millilandatengingum í formálsorðum OP#2.  OP#3 snýst allur um millilandatengingar og innri markað orku.  

"Voru þeir, sem þá stýrðu landinu, að afsala forræði á auðlindinni til Evrópusambandsins ?  Nei, sannarlega ekki." 

Orkupakkarnir fela í sér lögfestingu orkustefnu ESB í áföngum. Þegar EES-samningurinn var gerður 1991-1992, var rætt um orkusamvinnu á milli ríkjanna og hún sett í 4. viðauka samningsins.  Með Lissabonsamninginum 2007 var stefnan mörkuð í átt að orkusambandi, og það var stofnað með OP#3. Orkusambandinu er stjórnað af ACER, sem er undir yfirstjórn Framkvæmdastjórnarinnar. Það er pólitískt nauðsynlegt að innleiða orkustefnu ESB í áföngum, af því að engin þjóð er tilbúin að afsala völdum yfir orkumálum sínum til Framkvæmdastjórnarinnar í einum rykk. 

Með OP#3 myndast t.d skylda í stað valfrelsis til að innleiða markaðsstýringu raforkuvinnslunnar. Landsvirkjun neyðist þá til að gefa orkulindastýringu sína upp á bátinn.  Hana er hins vegar nauðsynlegt að innleiða á landsvísu við íslenzkar aðstæður til að forðast orkuskort og viðvarandi seljendamarkað.  Það mun Landsreglarinn ekki leyfa, því að orkulindastýring jafngildir opinberu inngripi, sem reglur "fjórfrelsisins" banna.  Orkuvinnslufyrirtækin munu starfa með það eitt fyrir augum að hámarka tekjur sínar, en að treina vatn í miðlunarlónum eða að girða fyrir ofálag á virkjaðan jarðgufuforða verður aukaatriði í þessu fyrirkomulagi.  Þetta verður afleiðingin af því að fórna forræði yfir orkulindunum til markaðarins undir reglusetningarvaldi ESB.  

Svo kemur rúsínan í pylsuenda ráðherrans:

"Í þriðja orkupakkanum felst ekkert afsal á forræði yfir auðlindinni. Ekkert raunverulegt valdaframsal á sér stað, vegna þess að Ísland er ótengt.  Engar erlendar stofnanir öðlast valdheimildir hér á landi við innleiðinguna.  Allir fræðimenn, sem fjallað hafa um málið, eru sammála um, að innleiðingin standist stjórnarskrá."

Þetta er allt saman rangt hjá iðnaðarráðherra, enda rökstuðningur vesældarlegur, þ.e.a.s. "vegna þess að Ísland er ótengt". Það má kalla þetta "hundalógikk".

Eftirlits- og reglusetningararmur ACER á Íslandi, sem virðist eiga að hýsa innan vébanda Orkustofnunar og skapa þar með stórfellda hagsmunaárekstra þar innanbúðar, hér eftir nefndur Landsreglari, fær það sem sitt fyrsta hlutverk að koma hér á markaðsstýringu raforkuvinnslunnar að fyrirmynd ESB, þótt þetta fyrirkomulag sé ófært um að tryggja hagsmuni neytenda við íslenzkar aðstæður, þar sem hér verður markaðsstýringunni bæði ætlað að sjá markaðinum fyrir nægu afli og nægri orku, en eldsneytismarkaðirnir sjá um hið síðar nefnda á meginlandinu. 

Setjum sem svo, að Íslendingar mundu fremur kjósa þrautreynt kerfi við íslenzkar aðstæður, orkulindastýringu, sem hefur verið við lýði innan Landsvirkjunar áratugum saman, en þarf að útvíkka til alls landsins (orkuvinnslufyrirtækja) með lagaheimildum, enda óvíst, hversu lengi Landsvirkjun heldur núverandi markaðsstöðu sinni.  Orkulindareglari þarf að fá lagaheimild til að treina vatnið í miðlunum vatnsorkuvera og til að takmarka álag á virkjaðan jarðgufuforða til að hámarka orkuvinnsluna til lengdar og forða landsmönnum frá orkuskorti.  

Landsreglari mun að öllum líkindum ekki heimila þetta, því að það jafngildir opinberu inngripi í rekstur fyrirtækja á samkeppnismarkaði, sem er heilög kýr í heimi "fjórfrelsis" EES.  Hvað þýðir þetta ?  Það þýðir, að Íslendingar hafa misst forræði eigin orkulinda í hendur yfirþjóðlegs valds, ACER, sem stjórnar Landsreglara gegnum "leppinn" ESA (Eftirlitsstofnun EFTA).  

Það er mjög frjálslega farið með staðreyndir að slengja því fram í pistli, að engir fræðimenn, sem fjallað hafa um málið, hafi efasemdir um, að það standist stjórnarskrá.  Nægir að nefna skýrslu Friðriks Árna og Stefáns Más frá í vor, sem er ein samfelld aðvörun til Alþingis og ráðlegging um að senda OP#3 aftur til Sameiginlegu EES-nefndarinnar. Fréttir af fundi utanríkismálanefndar Alþingis með þessum lagasérfræðingum bendir til, að þeir gefi aðferð iðnaðarráðherra falleinkunn, þ.e. að leiða OP#3 í lög með reglugerð og taka þar fram, að ákvæði millilandatenginga komi ekki til framkvæmda fyrr en sæstrengur hefur verið lagður.  Þetta er aðferð, sem býður upp á samningsbrotamál að dómi þeirra tvímenninganna.  

Í lok pistils síns ritar ráðherrann, eins og hún sé úti á þekju:

"Fremur en að hverfa aftur til hafta og einokunar ættum við að mínu viti að horfa til framtíðar og freista þess að nýta kosti samkeppninnar enn betur en hingað til, í þágu neytenda, ásamt því að tryggja betur afhendingaröryggi og auka jafnræði varðandi dreifingarkostnað raforkunnar, eins og við höfum fullar heimildir til að gera."

Aðgerðir samkvæmt OP#1-2 til að efla samkeppni hafa því miður hingað til engan árangur borið fyrir neytendur.  Þvert á móti hefur rafmagnsreikningur margra, einkum í dreifbýli, hækkað mjög mikið umfram verðbólgu síðan 2003 og um 7 % - 8 % að raunvirði að jafnaði yfir landið allt.  Með OP#3 mun keyra um þverbak, því að þá verður tekin upp markaðsstýring raforkuvinnslunnar, sem hafa mun skelfilegar afleiðingar fyrir hag allra raforkunotenda á Íslandi.  Mikil er ábyrgð þeirra, sem ætla að böðlast áfram með þetta mál þrátt fyrir alvarlegar aðvaranir.  

Dreifingarkostnaður landsbyggðarinnar er hneyksli, en á eftir að hækka umtalsvert, þegar Landsreglarinn fer að gefa út reglur sínar um útreikninga gjaldskráa.  Ef ráðherrann heldur, að hún geti loks eftir dúk og disk farið að hafa áhrif á þessa verðlagningu, eftir að hún hefur afhent Landsreglaranum völdin með innleiðingu OP#3, þá ætti hún að líta til Svíþjóðar og skoða tugprósenta hækkun hjá dreifiveitum, eftir að Landsreglari Svíþjóðar tók til starfa.  Þar ætlaði ráðherra að grípa inn og láta lækka gjaldskrána.  Hann var gerður afturreka með bréfi frá Framkvæmdastjórninni og hótun um málssókn fyrir ESB-dómstólinum.  Þannig fór um sjóferð þá.  Það eiga ýmsir eftir að iðrast innleiðingar á OP#3.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Þakka þér Bjarni fyrir þetta.

Það er sorglegt að þurfa að tyggja staðreyndir málsins svona ofan í það sem einna helst er hægt að líka við fulla barnagarðarútu af börnum undir stjórn flugnahöfðingja, þar sem rifist er á bjargbrún um hvort að þyngdarlögmálið gildi um rútuna líka.

Þetta físar bara ekki inn. Afneitun í alkahólískum stíl og draumórar ráða för.

Bestu kveðjur. 

Gunnar Rögnvaldsson, 20.8.2019 kl. 00:19

2 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 ÞKRG telur alla sem hún ræðir við annað tveggja algera  bjálfa, eða marglyttue. Dellan sem vellur upp úr henni er slík að jaðrar við heimsku. Op3 snýst ekki um kapal til útlanda úr orkuforðabúri Íslands. Op3 snýst um að á Íslandi ráði Íslendingar sér sjálfir í orkuframleiðslu sinni, eða ofurselji sig daunillum bjúrókrötum í fjarlægum löndum! Púnktur og basta!

 Eitt annað, sem alls ekki má gleymast í umræðunni um Op3 er það, að innan samfélagsins á Íslandi bíða gírugir fjármagnseigendur þess að geta yfirtekið orkumarkaðinn og lagt streng frá Íslandi á hérlendum forsendum þeirra eigin græðgi, verði Op3 samþykktur.

 Ekki gleyma því!

 Andstæðingurinn þarf ekki endilega að vera erlendur. Skíthælar finnast einnig á Íslandi! Ekki gleyma því gott fólk.

 Þakka góðan pistil, að vanda Bjarni.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 20.8.2019 kl. 00:30

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Hjartans þakkir fyrir magnaða samantekt þína um orkupakkann, Bjarni, þar sem þú skilur málflutning iðnðarráðherrans Kolbrúnar eftir í rjúkandi rúst með því að afsanna léttvægar forsendur hennar og bersýnilega bágborinn rökstuðning frá A til Ö. Glannalegar fullyrðingar hennar um að "allir fræðimenn, sem fjallað hafa um málið," séu "sammála um, að innleiðingin standist stjórnarskrá," eru, eins og þú sýnir, rakin ósannindi og með ólíkindum að einn æðsti valdamaður ríkisins geti haldið uppi slíkum blekkingartilraunum gagnvart flokki sínum og þjóð sinni. Fyrir hlutlægum rannsóknarrétti ætti hún að dæmast ósannindamaður og ekki þess verð að halda sínu embætti.

Jón Valur Jensson, 20.8.2019 kl. 10:04

4 Smámynd: Óskar Kristinsson

Takk fyrir pistilinn Bjarni!

Manni verður verulega óglatt að sjá allt þetta lekandapakk sem dregið er hér til lands þessa dagana til hjálpar við að koma óskapnaðinum í gegn.

Þetta jaðrar ekki við heimsku, Þetta fólk er EKKI starfi sínu vaxið.

Þarf að koma því Út úr þinghúsinu!!!

Óskar Kristinsson, 20.8.2019 kl. 10:34

5 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Á meðan Bjarni Benediktsson gerir ekki grein fyrir ástæðu þess að hann kúventi í afstöðu til framsals í orkumálum til ESB verða allar yfirlýsingar hans metnar sem “ótrúlega ótrúverðugan málflutning”

Ragnhildur Kolka, 20.8.2019 kl. 10:59

6 Smámynd: Guðmundur Böðvarsson

Ískalt mat?

Guðmundur Böðvarsson, 20.8.2019 kl. 13:38

7 Smámynd: Jóhann Elíasson

Ég held nú að þetta ÍSKALDA MAT HANS SÉ ORÐIÐ BOTNFROSIÐ...........

Jóhann Elíasson, 20.8.2019 kl. 14:37

8 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Já það er svo kalt að hægt verður að reisa OK upp frá dauðum!

Helga Kristjánsdóttir, 21.8.2019 kl. 02:39

9 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka kærlega fyrir ykkar innlegg hér að ofan.  Orkustefna ESB snýst um að færa öll völd yfir raforkugeira (og gasgeira) Sambandsins til Framkvæmdastjórnarinnar.  Þetta kemur fram í Lissabonsáttmálanum og er hrynt í framkvæmt með OP#3.  

Eignarréttur orkulindanna er utan gildissviðs EES-samningsins.  Hvað gera bændur þá ?   Sprengja sér leið um dómstólana að nýtingarrétti orkulindanna.  ESA er að búast til bardaga við Ísland og Noreg og sprengjan er þjónustutilskipun ESB.  

Framkvæmdastjórnin ákærði ríkisstjórn Belgíu 25.07.2019 fyrir að hafa ekki innleitt OP#3 rétt í belgískan rétt.  Þegar ESB-dómstóllinn verður búinn að dæma belgísku innleiðinguna ógilda, verður komið fordæmi fyrir EFTA-dómstólinn að dæma íslenzku innleiðinguna ógilda.  Þar með verður utanríkisráðherra með allt á hælunum, og allar varnir landsins gegn sæstrengsfjárfesti hrynja.  

Með orkulindirnar undir stjórn markaðarins (risafyrirtækja í Evrópu) og landið gengið í Orkusamband ESB, verður stutt í, að orkuviðskipti hefjist á Nord Pool með raforku til og frá Íslandi.  Þessi mál verður að ræða í næstu kosningabaráttu og svipta þá þingsetu, sem standa fyrir þessari fórn íslenzkra hagsmuna í bráð og lengd. 

Bjarni Jónsson, 21.8.2019 kl. 22:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband