4.10.2019 | 13:17
Orkusambandið og loftslagsstefnan
Þegar hlýtt er á fyrirlestur sérfræðings í hinum flóknu loftslagsvísindum, prófessors Richards Lindzen, við hinn sögufræga tækniháskóla í Bandaríkjunum, MIT:
, þá er ekki hægt að verjast þeirri hugsun, að viðbrögð samtímans við "loftslagsvánni" einkennist af "hjarðhegðun".
Þegar litið er til þeirra gríðarmörgu, öflugu þátta, sem áhrif hafa á tilviljanakennda hegðun loftslags jarðar, væri með ólíkindum, ef hækkun á einni breytu, koltvíildisstyrk andrúmslofts, úr 0,03 % í 0,04 % (núverandi) eða jafnvel 0,05 % síðar á þessari öld, gæti framkallað "hamfarahlýnun". Í þessu sambandi ber að hafa í huga, að lofthjúpur jarðar hefur hitnað um 1°C frá "Litlu ísöld", og þótt hitastigsaukningin yrði 2°C, er það alls ekki fordæmalaust og þarf ekki að leita lengra aftur en til landnáms Íslands til að finna viðlíka hitastig.
Líkan IPCC hefur haft tilhneigingu til að spá hærra hitastigi á jörðu en raungerzt hefur. Hins vegar verður að hafa í huga, að hafið hefur tekið upp hluta losaðs koltvíildis út í andrúmsloftið af mannavöldum og varmaaukninguna líka. Hvernig þróunin verður í þessum efnum, veit hins vegar enginn.
Að þessu skrifuðu er rétt að taka fram, að blekbónda er ljóst, að núverandi orkunotkun heimsins er ósjálfbær. Bæði eru olíubirgðir heimsins takmarkaðar, þær eru að talsverðu leyti staðsettar á pólitískum óróasvæðum, þar sem m.a. trúarbrögð tröllríða pólitíkinni, og bruni jarðefnaeldsneytis orsakar mengun, sem veldur skaðlegu andrúmslofti fyrir fólk, dýr og jurtir, einkum í þéttbýli. Þess vegna er blekbóndi sammála þeirri stefnu að gera gangskör að orkuskiptum.
Ef Parísarsáttmálinn frá 2015 gengur eftir, munu loftgæði fljótlega skána, en það eru litlar líkur á því, sumir segja engar líkur á því; meira að segja ESB virðist munu mistakast það, þrátt fyrir öflugt stjórnkerfi sitt, Orkusamband Evrópu, sem á að sjá um að ná markmiðunum fyrir EES.
Íslendingar eru mun betur í stakkinn búnir til orkuskiptanna með ónýttar endurnýjanlegar orkulindir sínar, jarðhita, vatnsföll og vindasamt veðurfar. Sjávarföll og hafstraumar koma síðar til greina. Ef að auki á að flytja út raforku um sæstreng, mun mörgum kotbóndanum þykja fara að þrengjast fyrir dyrum sínum, og þá má búast við hörðum deilum í landinu. OP#3 er sáðkorn harðra deilna, og OP#4 er verri, horft frá sjónarhóli íslenzkra heildarhagsmuna (staðbundin umhverfisvernd og orkuvinnsla).
Orkuskiptin munu styrkja viðskiptajöfnuðinn, sem aftur styður við sterkan gjaldmiðil, eins og nú er reyndin. Sterk ISK er undirstaða góðra lífskjara í landinu í samanburði við aðrar þjóðir.
Flestar aðrar þjóðir eiga mun erfiðara uppdráttar við framkvæmd orkuskiptanna, en sumar þeirra hafa þó metnaðarfull áform á prjónunum. Taka má dæmi af Evrópusambandinu (ESB), af því að EFTA-þjóðir EES-samningsins (ekki Svisslendingar) eru í samkrulli við ESB um úthlutun losunarheimilda koltvíildis til alþjóðlegra greina á borð við flug, millilandaskip og orkukræfa stóriðju.
Þar (í ESB) hefur verið sett háleitt markmið fyrir orkugeirann um, að árið 2030 verði losun CO2 40 % minni en árið 1990 og að orkunotkun úr endurnýjanlegum orkulindum nemi þá 27 % af heildarorkunotkun. Til samanburðar nam þetta hlutfall af heildarorkunotkun í ESB um 12 % árið 2005 og markmiðið er að meðaltali um 21 % árið 2020, er lægst 10 % á Möltu og hæst 49 % í Svíþjóð. Á Íslandi nemur sambærileg tala um 70 %.
Til að knýja á um að ná markmiðum í loftslagsmálum hefur ESB gefið út Orkupakka 4 (OP#4), sem færir leyfisveitingum varðandi nýtingu endurnýjanlegra orkulinda mikinn forgang í öllu stjórnkerfinu, og hefur jafnframt stofnað til Orkusambands Evrópu (European Energy Union). Orkusambandið er samfélag þeirra aðila í Evrópu, sem semja reglugerðir og tilskipanir um orkumál og hafa síðan eftirlit með framkvæmdinni. Hlutverk Orkusambandsins er að uppfylla Parísarsamkomulagið frá desember 2015, eins og það snýr að orkugeiranum. Framkvæmdastjórn ESB stjórnar Orkusambandinu með tilskipunum og reglugerðum, og nýtur við það liðsinnis tveggja vinnuhópa, sem skilgreindir eru í reglugerð 182/2011, Loftslagsbreytinganefndar og Orkusambandsnefndar.
Reglugerð ESB nr 2018/1999 frá 24.12.2018 fjallar um starfsemi Orkusambandsins. Hún er hluti OP#4-"Hreinorkupakkanum". Þar er grunnur lagður að því, hvernig aðildarlöndin og ESB eiga að ná loftslagsmarkmiðum ESB 2030. Íslenzki Landsreglarinn er aðili að ACER og þar með fulltrúi Íslands í Orkusambandi Evrópu. Í 2018/1999 er m.a. kveðið á um, að orkuflutningar á milli landa innan Orkusambandsins skuli vaxa um 50 % frá 2020-2030.
Fer einhver lengur í grafgötur um, að Ísland verður ekki "stikk-frí" á næsta áratugi, hvað þetta varðar ? Sú tenging verður ekki eina fjárfestingin, heldur mun verða fjárfest mikið í endurnýjanlegum orkulindum Íslands, ef ESB meinar eitthvað með að veita slíkum virkjunum forgang fram yfir annars konar hagsmuni í OP#4, og auðvitað er ESB full alvara. Það sést í 2018/1999.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Umhverfismál | Facebook
Athugasemdir
Við erum að mörgu leyti á svipuðu róli í þessum efnum og ég undrast hve lítt því er haldið á lofti, að jafnvel þótt við afneitum því sem er að gerast í loftslagsmálunum blasir við nauðsynin á orkuskiptum vegna rányrkjunnar á jarðefnaeldsneytislindum jarðar.
Sömu menn og fannst alveg sjálfsagt að farið væri í orkuskipti í húsahitun fyrir hálfri öld hamast nú á sams konar orkuskiptum í samgöngum og á fleiri sviðum.
Ómar Ragnarsson, 4.10.2019 kl. 23:30
Við erum að mörgu leyti á svipuðu róli í þessum efnum og ég undrast hve lítt því er haldið á lofti, að jafnvel þótt við afneitum því sem er að gerast í loftslagsmálunum blasir við nauðsynin á orkuskiptum vegna rányrkjunnar á jarðefnaeldsneytislindum jarðar.
Sömu menn og fannst alveg sjálfsagt að farið væri í orkuskipti í húsahitun fyrir hálfri öld hamast nú á sams konar orkuskiptum í samgöngum og á fleiri sviðum.
Í greinum mínum um vegvísana þrettán er rakið hvernig orkupakkarnir ásamt 12 öðrum einbeittum stefnumarkandi aðgerðum og ummælum valdamann munu stefna ómetanlegum og einstæðum náttúruverðmætum Íslands í bráða hættu, sem er alveg á skjön við skilning þjóða bæði vestan hafs og austan á mikilvægi þess að hrófla ekki við "heilögum véum" eins og Yellowstone.
Ómar Ragnarsson, 4.10.2019 kl. 23:33
Þótt hagsmunir okkar í orku- og umhverfismálum séu að mörgu leyti gjörólíkir hagsmunum meginlandsfólks Evrópu, er samt búið að flækja okkur inn í Orkusamband Evrópu. Þar með höfum við gengið undir jarðarmen um að standa með Evrópumönnum í baráttu þeirra fyrir orkuskiptum. Þetta mun óhjákvæmilega þýða pólitískan þrýsting á okkar ístöðulitlu pólitíkusa um að virkja hér sem allra mest og gefa Innri markaði ESB kost á að keppa við okkur sjálf um raforkuna. Einkageirinn á að stjórna nýtingu orkulindanna samkvæmt ESB. Sérvizka á borð við Rammaáætlun mun í nýju lagaumhverfi orkupakkanna á Íslandi þurfa að víkja fyrir meiri hagsmunum að Evrópurétti. Það er grafalvarlegt að fórna fullveldisréttinum yfir auðlindum landsins á grundvelli úreltrar Evrópuhugsjónar.
Bjarni Jónsson, 5.10.2019 kl. 13:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.