Einn stjórnarþingmaður hélt því fram í þingumræðu um OP#3 í lok ágúst 2019, að Orkusamband Evrópu væri ekki til. Það er sjálfsblekking á háu stigi, því að Orkusamband Evrópu er að verða meginstjórntæki Evrópusambandsins (ESB) til að fást við loftslagsvandann að sinni hálfu og til að gera ESB-löndin óháð eldsneytisaðdráttum í framtíðinni.
Rússar hafa skapað sér svo sterka stöðu sem orkubirgjar fyrir ESB, að Sambandið á bágt með að beita sér á hinum pólitíska vettvangi gegn Rússlandi, þótt það telji mikla þörf á því, svo að ekki sé talað um það, ef slær í brýnu á milli NATO og Rússlands. Þá verður Evrópa strax lömuð af orkuskorti m.v. núverandi hlut jarðefnaeldsneytis frá Rússlandi og löndum hliðhollum þeim.
Þess vegna er forgangsmál hjá ESB að uppfylla Parísarsamkomulagið. Það er áfangi á vegferðinni til sjálfbærrar orkunýtingar í ESB og á Íslandi. Lokatakmarkið er báðum í hag, Íslandi og ESB, en áfangarnir á leiðinni ekki endilega. Þess vegna er hið gríðarlega ójafnræði aðilanna í EES-samstarfinu áhyggjuefni. ESB skrifar allar reglurnar og samkvæmt utanríkisráðherra og taglhnýtingum hans er úti um EES-samninginn, ef eitthvert EFTA-land hafnar þessari löggjöf. Sú staða er óviðunandi, enda skrumskæling á raunveruleikanum. Málið er, að ráðuneytin þurfa að vinna heimavinnuna og gera athugasemdir við málefni, sem Framkvæmdastjórnin hefur merkt EES, áður en þau eru lögð fyrir Sameiginlegu EES-nefndina. Ráðuneytin sofa hins vegar á verðinum, eins og dæmin sanna.
Íslendingar eru nánast með lausnirnar í hendi sér til að fullnusta orkuskiptin, a.m.k. í miklu betri stöðu en ESB, ef þeir spila rétt úr gjöfinni, sem þeir hafa fengið. Það er alls ekki vitað með hvaða hætti orkuskipti Evrópusambandsins munu fara fram, og þar á bæ mun ekki takast að ná losunarmarkmiði og markmiði um hlutdeild endurnýjanlegrar orku ársins 2020. Það er reyndar undir hælinn lagt með þessi markmið hérlendis líka, en Þjóðverjar eru í mun betri aðstöðu en Íslendingar að þessu leyti, því að viðmiðurárið, 1990, endursameiningarár Þýzkalands, er þeim "hagfellt" vegna mikillar losunar í DDR-Deutsche Demokratische Republik, sem fljótlega í kjölfar endursameiningar var bundinn endi á, en Íslendingar voru nýbúnir að leysa olíukyndingu húsnæðis af hólmi að miklu leyti með hitaveituvæðingu, fjarvarmaveitum og rafhitun.
Með innleiðingu OP#3 varð Ísland aðili að Orkusambandi Evrópu. Þannig er búið að rígnegla Ísland á stjaka Evrópusambandsins. Við erum skuldbundin til að styðja stefnu Orkusambands Evrópu, þótt ósannað sé, að hún verði okkur hagfelld, t.d. beinn útflutningur rafmagns.
Hlutdeild Íslands í Orkusambandinu stafar af aðild (án atkvæðisréttar) Landsreglarans (forstjóra Orkustofnunar) að tæknilegri stjórn ACER-Orkustofnunar ESB, sem gegnir eftirlitshlutverki með öllu orkutengdu regluverki ESB og hefur talsverð og vaxandi völd til gagnaðgerða, þótt oft sé aðeins send skrifleg tilkynning um frávik til Framkvæmdastjórnarinnar, sem er hinn raunverulegi valdhafi Orkusambandsins. Það getur orðið erfitt að búa á hjáleigu stórbýlisins, ef höfðinginn telur sig eiga hönk upp í bakið á kotbóndanum.
Hlutverk Orkusambandsins er fimmþætt:
- Að tryggja orkuöryggi, samstöðu aðildarríkjanna (EES) um orkumálin, og traust á milli þeirra. - Orkuöryggi á Íslandi verður bezt tryggt með varaforða í miðlunarlónum síðvetrar, nægu uppsettu afli til að mæta toppálagi, þótt stærsta eining kerfisins bili, og öflugu flutnings- og dreifikerfi. Með tengingu landsins við Innri markað EES, fær ESB töglin og hagldirnar varðandi orkuöryggið, og það er ekki góðs viti.
- Að tryggja að fullu samvirkni á Innri orkumarkaði EES með frjálsu og tæknilega óhindruðu orkuflæði, hvaðan sem er og til allra staða innan EES. - Þetta kallar á 2 aflsæstrengi til Íslands, svo að tenging við Innri markað meginlandsins sé jafnan virk. Flutningsgeta hvors um sig verður sennilega aðeins um 600 MW af tæknilegum ástæðum. Að rjúfa þannig rafmagnslega einangrun Íslands mun fyrirsjáanlega hafa slæm áhrif á hagkerfið vegna óhjákvæmilgra raforkuverðhækkana, sem draga úr samkeppnismætti atvinnulífsins og rýra lífskjörin. Engin almennileg greining hefur farið fram hérlendis á efnahagslegum og umhverfislegum afleiðingum sæstrengstenginga við útlönd, en sterkar vísbendingar eru um, að hvorar um sig verði mjög alvarlegar.
- Að draga úr orkuþörf á hvern íbúa með bættri orkunýtni og minni orkutöpum. - Hér bjátar mest á í flutningskerfinu, þar sem 132 kV Byggðalína er allt of veik fyrir það álag, sem nú er á kerfinu og bíður eftir að koma. 220 kV sunnan frá Brennimel í Borgarfirði og austur að Hryggstekk í Skriðdal er bráð nauðsyn í þessu sambandi. Einnig má nefna brýna spennuhækkun á Vestfjörðum og víðar til að auka flutningsgetu og draga úr töpum.
- Að EES verði kolefnishlutlaust árið 2050 og skuli með öllum tiltækum ráðum standa við losunarskuldbindingar sínar árið 2030 (40 % minnkun m.v. 1990). - Í ljósi þess, að enn fer losunin vaxandi í Orkusambandinu, einnig á Íslandi, verður þetta erfitt markmið, en þó sennilega framkvæmanlegt á Íslandi, ef taka má bindingu kolefnis með í reikninginn, eins og nú stefnir í. Þá þarf hið opinbera að styrkja nýsköpun á sviði eldsneytisframleiðslu, t.d. repjuolíu.
- Að efla rannsóknir, nýsköpun og samkeppnishæfni innan EES til að styrkja stoðir kolefnislausrar og hreinnar orkutækni til að hraða orkuskiptum eftir föngum. - Þróun og olíuvinnsla úr repju er mjög áhugaverður kostur fyrir Íslendinga, því að það verður hægt að gjörnýta repjuna innanlands með fóðurframleiðslu. Annað áhugavert svið er metan- og metanólvinnsla.
Stjórntæki Orkusambandsins er viðamikil áætlanagerð til 10 ára um orku- og loftslagsaðgerðir og stöðluð skýrsluform um framvindu í hverju landi. Skýrsluform og innihald eru skilgreind í tilskipunum og reglugerðum, og ACER hefur eftirlit með öllu saman, safnar saman gögnum og vinnur úr þeim. ACER fylgist líka náið með, að reglur frjálsrar samkeppni séu virtar og þar með, að ríkisvaldið skipti sér ekki af þessum markaði með inngripum, sem skekkja samkeppnisstöðu og styðja ekki við stefnu Orkusambandsins hér að ofan. ESB hefur hannað markaðsstýringu raforkuvinnslunnar til að tryggja frjálsa verðmyndun, en stundar þó jafnframt bullandi framleiðslustýringu með niðurgreiðslum á raforku frá vindmyllum og sólarhlöðum ásamt koltvíildisskatti.
Það verður því ekki um að ræða neina séríslenzka útfærslu á OP#3 né OP#4, og hætt er við, að Alþingismönnum bregði mörgum hverjum í brún, þegar þeir sjá afleiðingar gjörða sinna í verki. Þá mun eiga við orðtakið, að of seint er að iðrast synda sinna eftir dauðann.
Nokkrar tilskipanir og reglugerðir hafa verið gefnar út auk 2018/1999 til að stjórna Orkusambandinu, t.d. tilskipun 2018/2001, sem aðildarlöndin eiga að lögleiða hvert um sig fyrir 30.06.2021 og eru hluti af "Hreinorkupakkanum". Hún felur í sér bindandi markmið um hlutdeild endurnýjanlegrar orku af heild 32 % árið 2030. Augljóslega mun verða þrýstingur á alla aðila Orkusambandsins um að sýna samstöðu til að ná þessu marki. Engum mun líðast að liggja eins og ormur á gulli á ónýttum, endurnýjanlegum orkulindum eða að hamla því, að þær nýtist öðrum. Orkusambandið felur í sér gagnkvæmar skuldbindingar aðildarþjóðanna, sem verða að fórna staðbundnum hagsmunum sínum, t.d. náttúruperlum, á altari baráttunnar gegn hlýnun jarðar yfir 1,5°C-2,0°C m.v. "Litlu ísöld", þótt hún líklega sé fyrirfram töpuð, af því að sínum augum lítur hver á Parísarsamkomulagið og enn eykst losunin, þó ekki í Bandaríkjunum.
Með tilskipun 2009/28/EB hafði ESB-ríkjunum 28 verið sett markmið um 20 % hlutdeild endurnýjanlegra orkulinda árið 2020, en nú er ljóst, að 16 lönd eða 57 % munu ekki ná þessu markmiði, og í heild mun það ekki nást. Af hinum stærri ríkjum ESB eru það aðeins Frakkland og Spánn, sem ná munu þessu markmiði. Það mun þess vegna þurfa meiri háttar efnahagslegt og pólitískt átak innan Orkusambands Evrópu til að ná markmiðinu 2030, og reynt verður að virkja og fullnýta allar endurnýjanlegar orkulindir, sem Orkusambandið ræður yfir.
Tilskipun 2018/2001 er sniðin að þessu. Samkvæmt þessari tilskipun á að koma upp vettvangi fyrir ríki, sem náð hafa árangri yfir markmiði til að selja hinum lakar settu hlutdeild í árangri sínum. Þetta mun væntanlega herða enn meir á og bæta heildarárangur.
Í tilskipun 2018/2001 er að finna upptalningu á viðurkenndum tegundum endurnýjanlegrar orku. Þær eru 11:
vindur, sól, jarðhiti, umhverfishiti (fyrir varmadælur), sjávarföll, öldur, vatnsföll, lífmassi, gas frá urðun, gas frá skólphreinsun og almennt lífrænt gas. Síðan kemur skuldbindandi krafa á aðildarríkin: þau skulu tryggja, að allar reglur (þar með taldar reglur um staðbundna umhverfisvernd og skipulag) varðandi orkustöðvar og tengd mannvirki fyrir flutning og dreifingu orku fyrir upphitun eða kælingu, framleiðslu lífræns eldsneytis eða annars konar orku og fyrir vinnslu eldsneytis af óendurnýjanlegum uppruna til flutninga séu hæfilegar og nauðsynlegar og fullnægi jafnframt skilyrðinu um að setja orkunýtni í forgang.
Það verður eftirlitsaðilans, ACER, að ákveða, hvað eru hæfilegar og nauðsynlegar reglur.
Fleiri reglur má tilfæra úr hreinorkupakkanum, sem eru skuldbindandi fyrir ríki Orkusambandsins og draga að sama skapi úr völdum staðbundinna yfirvalda.
Orkunýtni á öllum sviðum er mjög mikið keppikefli Orkusambands Evrópu. Það vísar til lágmörkunar orkutapa í raforkuvinnslu, flutningi, dreifingu og í notendabúnaði.
Á Íslandi eru flutnings- og dreifikerfin í mörgum tilvikum of veikburða til að fullnægja kröfum Orkusambandsins um skilvirkni, og hluti kerfanna hreinlega oflestaður og annar ekki flutningsþörfinni. Þetta samræmist engan veginn aðild að Orkusambandinu, og Landsreglarinn mun örugglega leggja áherzlu á, að enginn dragi lappirnar eða leggi stein í götu úrbóta á þessu sviði. Tilskipun 2018/2002 setur aðildarþjóðunum markmið um að minnka orkutöpin um 20 % árið 2020 og 32,5 % árið 2030 miðað við viðmiðunarárið (1990). Þetta kallar á miklar fjárfestingar í innviðum, ekki síður en óskilvirkt gatnakerfi höfuðborgarsvæðisins.
Áhættugreiningar eru mikilvægar til að unnt sé að semja markvissar viðbúnaðar áætlanir og fara í mótvægisaðgerðir. Reglugerð 2019/941 fjallar um þetta, og að ríkin í Orkusambandinu sýni samstöðu, ef orkuskortur verður, til að lágmarka tjónið. Ef til Íslands verður lagður sæstrengur, er mikil áhætta fólgin í að reiða sig á einn sæstreng til að bæta upp lága vatnsstöðu í miðlunarlónum. Þótt tveir verði og flutningsgetan verði 1200 MW, hrekkur hún ekki til að fullnægja þörfinni með tóm miðlunarlón.
Markaðsstýring raforkuvinnslunnar með sæstrengstengingu kallar á nýjar lausnir til að varðveita orkuöryggið í landinu.
Reglugerð 2019/942 fjallar um ACER. Meginhlutverk þessarar samstarfsstofnunar landsreglara er að tryggja frjálst flæði orku yfir landamæri og að ná markmiðum Orkusambandsins á hverjum tíma um orkuflutninga yfir landamæri.
Reglugerð 2019/943 fjallar um reglur Innri markaðarins fyrir rafmagn, og hvernig hann á að hjálpa til við að ná losunarmarkmiðum og markmiðum um hlutdeild endurnýjanlegrar orku af heild.
Rafmagnstilskipun 2019/944 kveður m.a. á um, að innlend löggjöf megi ekki hindra framgang stefnu ESB. Tekið er fram í gr. 3, að ekki megi hindra raforkuviðskipti yfir landamæri. Þetta er mjög varasamt að innleiða hérlendis, því að það þýðir, að innlend yfirvöld mega ekki hægja á útflutningi raforku, þótt mjög lækki í lónum. Í sömu grein er hamrað á, að ekki megi koma í veg fyrir millilandatengingar fyrir raforku, sem fjárfestar hafa lýst áhuga á og landsreglarar beggja enda samþykkt.
Samkvæmt gr. 58 ber landsreglara að fjarlægja hindranir í vegi nýrra verkefna við nýtingu endurnýjanlegra orkulinda. Hérlendis getur þetta þýtt, að Landsreglarinn þrýsti á um færslu virkjanakosta úr biðflokki yfir í nýtingarflokk og kæri óeðlilegar tafir við veitingu framkvæmdaleyfis út af flutningslínum, svo að dæmi séu tekin. Það er augljóst, að verði "Hreinorkupakki" Orkusambands Evrópu innleiddur hér, þá verður það ávísun á ófrið, sem ella yrði ekki efnt til. Er það umhugsunarvert í ljósi atburða 13. aldarinnar, þegar erlent vald tók að ráðskast með hag landsmanna.
Kanna þarf samstöðugrundvöll með Norðmönnum um undanþágur við OP#4. Ef hann næst ekki, þarf utanríkisráðuneytið að koma kröfum sínum um undanþágur á framfæri við ESB og EFTA áður en OP#4 verður tekinn til umfjöllunar í Sameiginlegu EES-nefndinni.
Athugasemdir
Það skyldi þó ekki vera að Norðmenn skeri okkur niður úr orkupakka þrjú snörunni? Það yrði þá alveg óviljandi, því hingað til hafa þeir frekar verið til ama og leiðinda frekar en hitt og sannast kannski þar máltæki "Frændur eru frændum verstir". En það er eftir að taka mál NEI TIL EU fyrir og ef svo fer að NEI TIL EU vinni málið er ekki sjálfgefið að ORKUPAKKI ÞRJÚ fari í gegnum þingið.........
Jóhann Elíasson, 8.10.2019 kl. 18:19
Það er einmitt í þessari viku, 41/2019, sem búizt er við úrskurði þingréttarins um það, hvort kæra "Nei til EU" er dómtæk eða ekki. Ef málið verður úrskurðað dómtækt, gæti komið niðurstaða í málið seint á næsta ári frá Hæstarétti. OP#3 verður líklega felldur, ef hann fer aftur fyrir Stórþingið, sem þá krefst 3/4 af mættum, sem minnst mega vera 2/3 af heildarfjölda þingmanna. Pólitískir vindar blása gegn EES í Noregi núna. Fellesforbundet, stærstu verkalýðssamtökin, munu halda landsþing um helgina, og þar verður hugsanlega samþykkt ályktun um uppsögn EES-samningsins.
Bjarni Jónsson, 8.10.2019 kl. 21:30
ESB getur leyst vandann með kolefnahlutlausu eldsneyti (Carbon neutral) sem er viðurkennt og hvatt til notkunnar á.
Hvað er kolefnahlutlaust eldsneyti? Jú, timbur, strá og annar gróður. Af hverju er það í lagi? Jú, segja þeir, tré hefur þegar kolefnisjafnað sig. Það hefur dregið til sín jafn mikið kolefni og það lætur af sér við brunann. 1x1=0
Ef einhver heldur að ég sé að grínast eða fara með einhverja þvælu, þá endilega flettið þessu upp.
Að grunni þessu liggja líklega mannúðarástæður, því ekki er hægt að heimta kolefnaskatta af fátækasta fólki heims, sem ekkert á og því enginn business í, hvort sem er.
Kol þarf að kolefnisjafna í topp í gegnum veski okkar þótt þau séu úr trjám sem hafa gert yfirbót. Kannski of langt síðan sú yfirbót var gerð. Veit ekki. :)
Jón Steinar Ragnarsson, 10.10.2019 kl. 05:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.