20.2.2020 | 11:39
Þokukennd umræða um heildsöluverð raforku
Fáum blandast hugur um, að ágreiningur ríkir á milli Landsvirkjunar og viðskiptavina hennar um það, hvort verðlagning Landsvirkjunar á raforku í heildsölu í langtímasamningum sé samkeppnishæf við verðlagninguna á hinum Norðurlöndunum og annars staðar í Evrópu, hvað þá alþjóðlega. Þessi ágreiningur hefur birzt m.a. í blaðagreinum starfsmanna Landsvirkjunar og framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins. Starfsmenn Landsvirkjunar bentu reyndar á í blaðagrein, sem vitnað verður til í þessum pistli, að stórfelldar niðurgreiðslur ýmissa ríkisstjórna í EES (utan Íslands) á raforkuverði til iðnaðar ætti sér stað. Er það mjög athyglisvert samkeppnisumhverfi, sem þannig viðgengst í EES, þegar ESA og Framkvæmdastjórn ESB umbera niðurgreiðslur ríkissjóða á orkuverði stóriðju (orkukræfs iðnaðar), t.d. í Noregi.
Þessi ágreiningur um samkeppnishæfni íslenzks raforkuverðs til stórnotenda birtist einnig í tilkynningu Rio Tinto Aluminium (RTA), sem birt var í Straumsvík á starfsmannafundi kl. 0800 miðvikudaginn 12.02.2020, og yfirlýsingum Rannveigar Rist, forstjóra ISAL, og Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, í hádegisfréttum RÚV þann sama dag.
Það verður alltaf erfitt að henda reiður á umræðunni um verðlag, ef aldrei eru gefnar upp tölur, nema meðaltal margra fyrirtækja, t.d. allra stóriðjufyrirtækjanna á Íslandi. Samningsaðilar ættu að geta náð samkomulagi um að opinbera t.d. meðalraforkuverð á ári til hvers kaupanda. Báðir ofangreindir forstjórar lýstu sig hlynnta þessu í ofangreindum fréttatíma. Hver stendur þá í vegi þess, að raforkuverð og flutningsgjald til ISAL séu birt ? Kannski stjórnir fyrirtækjanna ?
Þann 5. febrúar 2020 riðu 2 galvaskir riddarar Landsvirkjunar inn á ritvöllinn á vettvangi Fréttablaðsins í því skyni að andmæla staðhæfingum framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins um, að raforkuverð Landsvirkjunar væri í tilviki samninga frá 2010-2011 og síðar ekki samkeppnishæft. Þess má geta, að Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, lýsti í ofangreindum fréttatíma yfir miklum áhyggjum vegna þess, að raforkuverðið til ISAL væri ósjálfbært. Höfundar Fréttablaðsgreinarinnar, Valur Ægisson, forstöðumaður viðskiptagreiningar, og Sveinbjörn Finnsson, sérfræðingur í viðskiptagreiningu, skrifuðu m.a.:
"Raforkusamningar Landsvirkjunar eru gerðir á viðskiptalegum forsendum. Það þýðir, að verð í þeim þarf að vera yfir kostnaðarverði fyrirtækisins og samkeppnishæft fyrir viðskiptavini okkar, en stórnotendur á Íslandi starfa almennt á hörðum alþjóðlegum samkeppnismarkaði."
Það þarf ekki að fara í neinar grafgötur með það, að núverandi raforkuverð til ISAL er ósamkeppnisfært, þvert á það, sem forstjóri Landsvirkjunar staðhæfir (út í loftið). Af ósvífni þess, sem skákar í skjóli leyndar, fullyrðir hann reyndar jafnframt, að verðið sé sanngjarnt, og er það sem blaut tuska framan í elzta viðskiptavin Landsvirkjunar, sem veit betur. Þar sem raforkuverðinu hefur verið leyft að hækka hömlulaust samkvæmt samningi 2011 eftir vísitölu í Bandaríkjunum, CPI, þótt álverðið hafi snarlækkað á sama tímabili (2011-2020), hefur hlutfall raforkukostnaðar af skráðu álverði hækkað úr tæplega 24 % í rúmlega 34 %. Það er bersýnilega ekki sanngjarn samningur, sem inniheldur engan varnagla við því, að svo mikið halli á annan aðilann, að óbærilegt geti talizt.
Það má nefna 2 aðrar röksemdir fyrir því, að raforkuverðið er ósamkeppnisfært, og eru þær skyldar. Önnur er, að ISAL er óseljanlegt, og er það orkusamningurinn, sem fælir lysthafendur frá kaupunum. Hin er, að Landsvirkjun getur ekki bent á neina aðila, sem séu fúsir til að kaupa svipað orkumagn og ISAL með þeim skuldbindingum, sem eru í núverandi raforkusamningi ISAL við Landsvirkjun.
Landsvirkjun hefur rekið ýtinn áróður fyrir tengingu Íslands með aflsæstreng við stóran raforkumarkað, og þar beittu menn sér fyrir því, að ESB tæki "Ice-Link" inn á forgangs innviðaverkefnaskrá sína, PCI, á sínum tíma. Til þess voru refirnir skornir að geta við atburði eins og þann, sem varð í Straumsvík 12. febrúar 2020 (tilkynning Rio Tinto Aluminium í tilefni mikils fjárhagstaps ISAL 2012-2019), lýst því yfir, að raunveruleg samkeppni væri um orkuna, sem ISAL kaupir af Landsvirkjun. Sannleikurinn er hins vegar sá, að það er engin spurn eftir um 3000 GWh/ár af raforku með þeim skilmálum, sem Landsvirkjun setur. Þess vegna er núna skák á kónginn, og Landsvirkjun og ríkisstjórnin verða að taka afstöðu til þess á næstu 3 mánuðum, hvort þær vilja missa um 16 mrdISK/ár af raforkusölutekjum og 50-60 mrdISK/ár í útflutningstekjum (gjaldeyri).
Með því að neita að endurskoða verð, sem er mjög íþyngjandi fjárhagsleg byrði fyrir viðskiptavin og sem nú er langt frá því að vera samkeppnishæft á Íslandi, er hætta á því, að Landsvirkjun glutri niður kaupskylduákvæði raforkusamningsins við ISAL í málaferlum fyrir dómi. Það er leitt upp á að horfa af hversu mikilli óforsjálni Landsvirkjun virðist tefla þessa skák. Hún hefur verið tekin í bólinu með ofangreindri tilkynningu RTA, og of takmarkaður skilningur virðist vera á alvarleika málsins.
Þegar hugtakið "kostnaðarverð" er notað í þessu samhengi, verða höfundarnir frá Landsvirkjun að gefa á því útskýringar við hvað er átt. Evrópusambandið (ESB) notar þetta hugtak yfirleitt um jaðarkostnað, þ.e. hvað kostar að framleiða viðbótar kWh, og það er ekki óeðlilegt í raforkukerfum, þar sem meginkostnaðurinn er breytilegur kostnaður. Þetta viðhorf gegnir því hlutverki þar að hvetja til byggingar nýrra orkuvera til að koma í veg fyrir aflskort í kerfinu. Margt bendir til, að í samningum sínum við nýja raforkunotendur og við endurskoðun gamalla orkusamninga við viðskiptavini sína, hafi Landsvirkjun lagt þetta viðhorf til grundvallar verðlagningu sinni, og er það í samræmi við orkulöggjöf ESB, sem hér hefur, illu heilli, verið innleidd í þremur s.k. orkupökkum. Þessi jaðarkostnaðaraðferð er hins vegar með öllu óviðeigandi á Íslandi, og er vísasti vegurinn til að glutra niður alþjóðlegri samkeppnisstöðu Íslands á orkusviðinu með þeim neikvæðu afleiðingum, sem slíkt hefur á hag landsins.
Kerfi ESB getur aðeins virkað, þar sem er virk samkeppni. Hér er engin samkeppni á framboðshlið, þegar á eftirspurnarhlið er þörf fyrir 3000 GWh/ár eða meira. Þar ríkir einokun hérlendis, og Landsvirkjun hefur neytt þeirrar stöðu sinnar með þeim afleiðingum að verðleggja raforkuna allt of dýra og taka ekkert tillit til heildarhagsmuna og hámörkunar verðmætasköpunar í landinu, eins og hér verður að gera og var jafnan gert fyrir 2010.
Afleiðingarnar voru fyrirséðar, og það var varað við þeim í umræðunum hérlendis um Orkupakka #3. Með yfirlýsingu Rio Tinto Aluminium (RTA) frá 12.02.2020 er komið í ljós, að Landsvirkjun hefur setið við sinn keip og að þá sér stjórn RTA sér þann kost vænstan að láta sverfa til stáls. Verði Landsvirkjun látin komast upp með það að bíta sig fasta við orkustefnu ESB, þá breytist hún úr uppbyggingarafli fyrir íslenzkt atvinnulíf í niðurrifsafl. Að 4 mánuðum liðnum verður þá tilkynnt um lokun ISAL, og að Landsvirkjun verði dregin fyrir dóm, þar sem RTA mun krefjast þess að losna undan kaupskylduákvæði um 85 % forgangsorkunnar á þeim grundvelli, að samningsforsendur séu brostnar og Landsvirkjun hafi sýnt ósveigjanleika, ósanngirni og hafi árin 2010-2011 við samningsgerð misnotað einokunaraðstöðu sína á íslenzka raforkumarkaðinum til að knýja fram skilmála, sem nú séu orðnir óbærilegir. Ætlar iðnaðarráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, að láta þá atburði gerast "á sinni vakt", sem hrinda mundu Íslandi út í kreppu, stóraukið atvinnuleysi, minnkun stóriðjutekna Landsvirkjunar um þriðjung og fall viðskiptajafnaðar undir 0 með þeim afleiðingum, sem það mun hafa á efnahagslegan stöðugleika í landinu.
Í íslenzka raforkukerfinu er lágur breytilegur kostnaður (rekstrarkostnaður), kostnaður er að mestu fastur (fjármagnskostnaður), og þá er s.k. langtíma jaðarkostnaður kerfisins vinnslukostnaður á hverja kWh í næstu virkjun. Ef á að nota þessa stærð sem grundvöll nýrra orkusamninga, er Ísland líklega nú þegar orðið ósamkeppnishæft á orkusviðinu. Þessi tegund verðlagningar er reist á þeim boðskap orkupakka ESB, að hvert fyrirtæki eigi að hámarka gróða sinn og ekki að sinna neinu öðru. Með þessu sjónarmiði er lögð fyrir róða sú hefðbundna íslenzka orkustefna, að orkulindirnar skuli nýta til eflingar atvinnulífi og til bættra lífskjara í landi, auðvitað einnig með hagfelldum hætti fyrir viðkomandi orkufyrirtæki. Með ESB-leiðinni er sá kostur raforkukerfisins ekki nýttur til öflunar viðbótartekna, að stór hluti orkukerfisins og þar með kostnaðar orkukerfisins er þegar bókhaldslega afskrifaður. Við gerð langtímasamninga þarf aðeins að ganga úr skugga um, að orkuverðið tryggi alltaf nauðsynlega ávöxtun eignanna.
Stöplaritið, sem höfundarnir sýna í grein sinni, bendir til, að ofangreind tilgáta um verðlagningarstefnu Landsvirkjunar sé rétt, því að verðið´með flutningsgjaldi, sem þeir sýna þar fyrir meðalstóra notendur, 10-20 MW, er svipað núgildandi verði fyrir alla orkunotkun ISAL, forgangsorku og ótryggða orku. Það verður að segja hverja sögu, eins og hún er, en þessi verðlagning á 400 MW til ISAL nær engri átt.
Höfundarnir, Sveinbjörn og Valur, leggja fram í téðri grein sinni athyglisverðar upplýsingar, sem vert væri, að Landsreglarinn á Íslandi (forstjóri OS) spyrði sinn norska starfsbróður um (sá gegnir sjálfstæðu embætti, aðskildu frá NVE, norsku orkustofnuninni, t.d. á vettvangi ACER, Orkustofnunar ESB:
"Undanfarið hafa sérstakir þættir haft áhrif á raforkumarkaði á Norðurlöndunum, sem rýra tímabundið samkeppnisstöðu raforkusölu til stórnotenda á Íslandi. Dæmi um það eru beinir ríkisstyrkir stjórnvalda, t.d. í Noregi, til vissra stórnotenda til að lækka raforku kostnað þeirra. Árið 2019 námu þessir ríkisstyrkir rúmlega 20 milljörðum ISK í Noregi."
Ef þessari upphæð er deilt með allri orku Noregs til stóriðnaðar, fæst ríkisstyrkur upp á yfir 6 USD/MWh til stóriðju, sem er meira en fimmtungur af meðalverði til stóriðju á Íslandi. Þarna er verið að veikja samkeppnishæfni Íslands þvílíkt gagnvart Noregi, að ekki er hægt að láta óátalið. Það er stórfurðulegt, að þessar upplýsingar koma þarna fram hjá Landsvirkjun, eins og ekkert hafi í skorizt. Þetta er stórmál, sem EES-ríkið Ísland og hagsmunaaðili í málinu getur ekki látið afskiptalaust. Í sambandi við athugun iðnaðarráðherra á samkeppnishæfni raforkuverðs á Íslandi liggur beint við, að ráðuneyti hennar sendi fyrirspurn til ESA-Eftirlitsstofnunar EFTA um, hverju þetta sæti, og hvernig þetta samræmist samkeppnisreglum Innri markaðar EES.
Í ljósi þessa er algerlega óþarfi fyrir iðnaðarráðherra Íslands að vera feimin við að tjá þann vilja ríkisins, að fyrirtæki þess, Landsvirkjun, gangi til samninga við RTA til að jafna samkeppnisstöðu ISAL á markaðinum.
Landsvirkjunarmennirnir, Sveinbjörn og Valur, bættu um betur í grein sinni um niðurgreiðslur frá ríkjum heims á stofnkostnaði vindorkuvera:
"Annað dæmi eru niðurgreiðslur til vindorkuvera, sem selja niðurgreidda raforku í mörgum tilfellum til stórnotenda. Stjórnvöld víða um heim hafa ráðstafað gríðarlegum fjármunum til þessara styrkja, en Alþjóða orkumálastofnunin áætlar, að árlegir styrkir til vindorkuverkefna í heiminum séu um mrdISK 6000. Það er rúmlega tvöföld landsframleiðsla Íslands."
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.