Traust Landsvirkjunar

Það hefur komið fram, áður en SARS-COV-2 eyðilegði alla markaði, að Landsvirkjun er að tapa stórfé með því að heimta árið 2016, að í stað álverðsvísitölu á orkuverð til Norðuráls (NÁ) skyldi taka upp viðmiðun við raforkuverð á Nord Pool - uppboðsmarkaði raforku. Ennfremur tapar þessi stærsti orkubirgir landsins  stórfé á framleiðsluminnkun í Straumsvík, sem stafar af viðleitni ISAL til að minnka tap fyrirtækisins, sem stafar af svimandi háu raforkuverði frá Landsvirkjun, verði, sem er algerlega ósamkeppnisfært við núverandi aðstæður og líklega einstætt í heiminum um þessar mundir.  Fram hefur komið, að kjarasamningar fyrirtækisins ná aðeins til 30.06.2020, svo að ljóst má vera, að þá vofir stöðvun fyrirtækisins yfir, eins og væntanlega mun koma í ljós eftir páskana með enn minni orkukaupum fyrirtækisins vegna hægfara framleiðsluminnkunar í átt að stöðvun.    

Framkoma forstjóra Landsvirkjunar við fréttum af því, að kjarasamningurinn í Straumsvík yrði framlengdur fram á næsta ár, ef nýr samningur næðist við Landsvirkjun um orkuverð, er stórfurðuleg í ljósi þess, að fram hefur komið, að slík endurskoðun væri skilyrði áframhaldandi rekstrar.  Hélt þessi forstjóri, að ekkert væri að marka slíkar yfirlýsingar og að aðrar skuldbindingar fyrirtækisins tækju ekkert mið af raunveruleikanum. Það eru vægast sagt ómálefnaleg viðbrögð þessa forstjóra að láta nú eins og alþjóðlegt stórfyrirtæki stilli fyrirtæki íslenzku þjóðarinnar upp við vegg.  Það er engu líkara en þessi dæmalausi forstjóri sé í persónulegu stríði við aðalviðskiptavini Landsvirkjunar. Þá sýna dylgjur hans um óeðlilega fjármagnsflutninga frá dótturfyrirtæki til móðurfyrirtækis 2017, að maðurinn stundar bara sína persónulegu pólitík. Slíkt er með öllu ábyrgðarlaust í þeirri grafalvarlegu efnahagsstöðu, sem þjóðin stendur frammi fyrir núna.  Svona riddarar eru ekki til mikils gagns, þegar á bjátar.

Fleira mætti nefna, sem rýrt hefur traust til þessa fyrrum virta orkufyrirtækis landsmanna undanfarið, og snýr það flest að hegðun og dylgjum forstjóra þessa fyrirtækis,t.d. um misferli helztu viðskiptavina þess gagnvart skattalöggjöf landsins (Kastljósþáttur í marz 2020) og dylgjum um að setja í gang áróðursstríð gegn Landsvirkjun með Straumsvíkuryfirlýsingunni frá 12.02.2020. 

Nú hefur Landsvirkjun að gefnu tilefni lýst yfir fullu traustu sínu í garð CRU (brezks greiningarfyrirtækis á sviði náma-, málma- og áburðarvinnslu) og starfsmanns þess, Martins Jackson.  Sá hélt erindi á opnum fundi Landsvirkjunar í janúar 2020 og komst þar á röngum og úreltum forsendum að villandi niðurstöðu um orkuverð Landsvirkjunar, sem var þó fyrirtækinu þóknanleg.  Samtök iðnaðarins bentu þegar í stað á veikleikana í málflutningi Jacksons, og það gaf Landsvirkjun tilefni til traustsyfirlýsingar á hann.  Þá vaknar spurningin: hvers virði er traustsyfirlýsing þess, sem rúinn er trausti ?

Nú verður rakinn lunginn úr frásögn Fréttablaðsins 18. janúar 2020 undir fyrirsögninni:  

"Landsvirkjun ber fullt traust til Martins Jackson og CRU":

"Landsvirkjun hafnar málflutningi Samtaka iðnaðarins um, að myndin, sem Martin Jackson, álsérfræðingur hjá greiningarfyrirtækinu CRU, dró upp á morgunverðarfundi Landsvirkjunar, sé ekki lýsandi fyrir stöðuna."

Þegar enginn rökstuðningur fylgir slíkri höfnun, er ekki annað um hana að segja en hún lýsir rökþrota og hrokafullum stjórnendum, sem hreiðrað hafa um sig hjá stóru ríkisfyrirtæki í einokunaraðstöðu á þeim markaði, sem hér um ræðir.  Öðru máli gegndi um málflutning gagnrýnandans, SI.  Þar á bæ hafa menn ítrekað bent á, að margt bendir til, að hæsta orkuverðið til stóriðjunnar, svo og það, sem minni stórnotendum býðst, t.d. gagnaverum, sé með öllu ósamkeppnishæft.  Enn hvílir þó leyndarhula yfir verðinu, og á meðan eiga SI erfitt um vik.

"Líkt og Fréttablaðið greindi frá í gær, segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins [SI], að samkeppnisstaða Íslands sé að versna, orkuverð á Íslandi hafi hækkað á sama tíma og það fari lækkandi annars staðar í Norður-Evrópu."

Þetta er staðreynd með þeirri undantekningu þó, að raforkuverð Landsvirkjunar til Norðuráls (NÁ) hefur lækkað frá gildistöku nýs orkusamnings í nóvember 2019 í takti við lækkun á markaði Nord Pool vegna ranghugmynda innan Landsvirkjunar um alþjóðlega þróun orkuverðs, sem leiddi starfsmenn þar á bæ til að veðja á stöðuga hækkun verðs á Nord Pool markaðinum. 

"Stefanía Guðrún Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunar Landsvirkjunar, segir Landsvirkjun bera fullt traust til Jacksons og CRU.  "Landsvirkjun ber fullt traust til sérfræðiþekkingar CRU og telur, að greiningar fyrirtækisins hafi í gegnum tíðina gefið raunsæja mynd af álmörkuðum og samkeppnisstöðu íslenzkra álfyrirtækja", segir Stefanía."

Spyrja má til hvers Landsvirkjun fékk téðan sérfræðing CRU til að messa hérlendis um samkeppnisstöðu íslenzkra álfyrirtækja.  Eins og staðan er núna er vitað, að ástæðulaust er að kvarta undan raforkuverði Landsvirkjunar til tveggja stærstu álveranna, en vandamálið er hins vegar hjá minnsta álverinu, ISAL í Straumsvík, þar sem mikil hækkun fór fram árið 2011 og raforkuverðið hefur síðan stigið stöðugt vegna tengingar þess við neyzluverðsvísitölu í Bandaríkjunum.  Það er nú meira en tvöfalt verðið til hinna álveranna hérlendis að flutningskostnaði meðtöldum. Á sama tíma hefur álverðið lækkað, svo að einfaldir útreikningar sýna, að til þess að halda óbreyttu kostnaðarhlutfalli raforku og skráðs markaðsverðs áls, þá þarf raforkuverð til ISAL að lækka um 30 % eða um 12 USD/MWh. 

Það er ekki þar með sagt, að samkeppnishæfnin mundi verða, eins og hún var 2011, þótt þessi lækkun færi fram.  Það stafar af því, að heimsmarkaðsverð á orku hefur lækkað síðan þá í bandaríkjadölum talið og sömuleiðis hefur verðlag launa og þjónustu hækkað mikið á Íslandi. Þá þarf að kanna þróun flutningskostnaðar líka. Þetta eru engin geimvísindi, eins og sagt er, og það á að vera óþarfi að fá hingað rándýran ráðgjafa frá útlöndum til að komast að hinu rétta í þessu máli.  Málið versnar verulega, þegar í ljós kemur, að honum mistókst hrapallega við úrlausn og framsetningu málsins. 

Út frá þessari reynslu er e.t.v. skiljanlegt, að iðnaðarráðherra hafi gripið til þess ráðs að fá til liðs við sig annan (rándýran) ráðgjafa, Fraunhofer, til að komast til botns í þessu máli um samkeppnishæfni íslenzkrar raforku til iðnaðar á Íslandi.  Vonandi verður hvorki fljótaskrift né slagsíða á rannsókn Fraunhofers, en það gæti verið orðið einu álveri færra í rekstri hérlendis, loksins þegar iðnaðarráðherra kynnir þessa skýrslu.  Svifasein stjórnsýsla getur verið verri en engin stjórnsýsla.

Vandamál tveggja elztu verksmiðjanna, ISAL og Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga (Elkem á Íslandi), er hins vegar svo brýnt úrlausnar, að ráðherrann og ríkisstjórnin hafa ekki margra mánaða umþóttunartíma.  Því miður hafa nú risavandamál ferðaþjónustunnar bætzt ofan á málahrúgu ríkisstjórnarinnar, en þeim mun mikilvægara er að keyra iðnaðinn á fullum afköstum.  

"Hún segir niðurstöðuna, sem Jackson kynnti á miðvikudag, vera skýra.  "Raforkuverð til álvera á Íslandi er vel samkeppnishæft við það, sem álverum býðst annars staðar í heiminum, og vegna baráttunnar við loftslagsbreytingar mun samkeppnisforskot íslenzku endurnýjanlegu raforkunnar líklega aukast enn meira í framtíðinni, bæði orkufyrirtækjum og stórnotendum á Íslandi til hagsbóta", segir Stefanía." 

Það er rangt, að niðurstaðan sé skýr í þeim skilningi, að hún kasti ljósi á vandamálið, sem nú er við að etja.  Í fyrsta lagi eru notuð gögn frá árinu 2018, og síðan þá hefur raforkuverð til ISAL sætt vísitöluhækkun, gerðardómur hækkað raforkuverðið til Elkem á Íslandi og farið þar bil beggja deiluaðila, og Landsvirkjun og NÁ hafa endursamið um 30 % raforkunotkunar NÁ.  Í síðasta tilvikinu samdi Landsvirkjun reyndar af sér árið 2016, þannig að skörp lækkun hefur orðið á raforkuverðinu til NÁ. 

Eina álverið á Íslandi, sem býr við gjörsamlega ósamkeppnishæft raforkuverð um þessar mundir, er þannig ISAL í Straumsvík, og það var villandi umfjöllun hjá Jackson á téðum morgunverðarfundi Landsvirkjunar að breiða yfir það.  Þar að auki hefði hann átt að gera grein fyrir þeim niðurgreiðslum (á orkuverði), sem tíðkast á meginlandi Evrópu og í Noregi.

Athafnir verða að fylgja orðum hjá Landsvirkjun.  Það er ekki nóg að vegsama framlag Íslands til baráttunnar við loftslagsbreytingar, ef á sama tíma er lagður steinn í götu landsins við framkvæmd áhrifamestu aðgerðarinnar til að draga úr losun koltvíildis á heimsvísu, sem er að framleiða ál með raforku úr kolefnisfríum orkulindum.  

"Áliðnaðurinn í heiminum býr sannarlega við krefjandi markaðsaðstæður um þessar mundir, sem má fyrst og fremst rekja til aðstæðna á alþjóðamörkuðum, minni eftirspurnar og mikils vaxtar í framleiðslugetu álvera í Kína, sem eru fyrst og fremst knúin af mengandi kolaorkuverum", segir Stefanía ennfremur."

Það er rétt hjá téðri Stefaníu, að vandamál álmarkaðarins var ekki eftirspurnarskortur fyrir COVID-19, því að spurn eftir áli hefur að jafnaði aukizt um 4 %/ár undanfarinn áratug og lengur, heldur hefur verið um offramleiðslu að ræða vegna gríðarlegrar ósjálfbærrar framleiðsluaukningar Kínverja.  Ákvörðun um hana er ekki tekin á markaðslegum forsendum, heldur eru þetta klóför kínverska kommúnistaflokksins, sem hefur stjórnað framsókn Kínverja á málmmörkuðum heimsins og námuvinnslu víða um heim. Nú veit enginn, hvað við tekur eftir stöðvun margra verksmiðja í Kína vegna sóttkvíar og einangrunar af völdum pestarinnar.  Gervitunglamyndir sýna, að loftið yfir Kína er nú mun hreinna en í fyrra.  Viðhorf breytast við atburði eins og baráttuna við þessa veiru, og ekki er hægt að útiloka, að Kínverjar dragi nú úr álútflutningi sínum. 

Það er engu að síður þannig, að þróun raforkuverðs hjá ISAL hefur frá gerð nýs samnings 2011 verið allt önnur og óhagstæðari en hjá keppinautunum.  Ef tryggja á áframhaldandi rekstur verksmiðjunnar og fjárfestingar fyrir tímabilið til 2036, þegar samningurinn rennur út, er nauðsynlegt að færa raforkuverðið í það horf, að raforkukostnaður fyrirtækisins á hvert áltonn nemi ekki stærra hlutfalli af skráðu álverði en var við samningsgerðina 2011. Framhjá þessu kemst Landsvirkjun ekki með orðagjálfri stjórnenda hennar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæl Bjarni

Það er með ósköpum hversu vegið er að þeim tveim stóriðjufyrirtækjum landsins er gerðu okkur kleift að byggja upp það raforkukerfi er við búum við, hér á landi. Samningur við Alusviss um byggingu álvers við Straumsvík var forsenda fyrir uppbyggingu raforkuvera hér á landi og stofnunar Landsvirkjunar. Samningur við Union Carbide um byggingu kísilmálmverksmiðju við Grundartanga, sem reyndar Elkem gekk síðan inní, var forsenda fyrir enn frekari uppbyggingu raforkuvera og tengingar um allt land. Fyrsta áratuginn, rúmlega, var Járnblendiverksmiðjan á Grundartanga nýtt sem einskonar dempari fyrir raforkukerfið í landinu. Ofnarnir keyrðir á fullu þegar næg orka var, lækkað á þeim þegar mikil almenn notkun var í landinu eða erfiðleikar með framleiðslu eða dreifingu orkunnar og slökkt alveg á ofnum hennar ef vafi var á að lón orkuveranna dygðu til næsta vors. Stundum stóðu slík stopp yfir í mánuði, með engri innkomu en miklum föstum kostnaði.

Og nú vill Landsvirkjun þessi fyrirtæki úr landi!

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 9.4.2020 kl. 07:23

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Gunnar;

Íslendingar gátu ekki ráðizt í að virkja stór vatnsföll, nema hafa í hendinni samning um sölu á orku frá viðkomandi virkjunum, sem stæði undir afborgunum og vöxtum af lánum.  Með þessum skilyrðum veitti Alþjóðabankinn hagstætt lán til Búrfellsvirkjunar, og framkvæmdir þar og í Straumsvík fluttu nýja verkþekkingu til landsins.  Þannig varð orkukræfur iðnaður undirstaða stórfelldrar iðnþróunar í landinu.  Nú eru við völd í Landsvirkjun öfl, sem misskeilja herfilega hlutverk Landsvirkjunar í þessu kerfi og styðjast auðvitað við orkulöggjöf frá ESB, sem tekur ekkert tillit til mats á þjóðhagslegri hagkvæmni, en einblínir á hámörkun gróða orkufyrirtækjanna.  Þegar þessari stefnu er beitt í kolröngu umhverfi, verður hún þjóðhagslega skaðleg og hættuleg þar, eins og nú er að opinberast á Íslandi, sbr forsíðufrétt Morgunblaðsins þriðjudaginn 7. apríl 2020.  

Bjarni Jónsson, 9.4.2020 kl. 10:01

3 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Þakka þér fyrir allar greinarnar þínar. Þessi eftirfylgni hefur lýst upp málefnið. 

 Við erum farnir að skilja, hvað stóriðjan eykur þekkingu og tækniþróun í landinu. 

Þú hjálpar stjórnendum fyrirtækja og stjórnvöldum að átta sig á málefninu.

Þú ert með heildar sýn. Við verðum allir að laga okkur að aðstæðum hvers tíma. 

Egilsstaðir, 10.04.2020  Jónas Gunnlaugsson  

Jónas Gunnlaugsson, 10.4.2020 kl. 17:59

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Jónas.  

Þakka þín hlýju orð í minn garð.  Það er hárrétt, að aðstæður breytast og hafa nú breytzt skyndilega, en eitt breytist ekki.  Það verður að hafa tekjur fyrir útgjöldum.  Stóriðjan er ein leið til að nýta náttúruauðlindir landsins og skapa úr þeim peningaleg verðmæti.  Einar Benediktsson, skáld, hefur bent landsmönnum á þá leið með stórbrottnustum hætti.  Önnur leið er sú, sem þið farið á Egilsstaðabúinu.  Öll fer þessi starfsemi ákaflega vel saman.  

Bjarni Jónsson, 10.4.2020 kl. 18:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband