29.4.2020 | 13:47
Stærsta höggið
Lömun íslenzks atvinnulífs af völdum kóróna-veirunnar SARS-COV-2 verður líklega meira efnahagsáfall hérlendis en hrun fjármálakerfisins 2008 vegna þess, hversu vel Neyðarlögin vernduðu landsmenn þá. Líklega er þetta hlutfallslega meira efnahagsáfall en reið yfir þjóðina, þegar síldin hvarf 1967, og í Kreppunni miklu, sem hófst 1929, og erfiðara áfall en Fyrri heimsstyrjöldin, Spænska veikin og vandræðin í kjölfar erfiðleikaskeiðsins 1914-1918.
Gæti jafnvel þurft að leita aftur til Móðuharðindanna 1783-1785 til að finna hlutfallslega meira tekjutap sem hlutfall af vergri landsframleiðslu en nú ríður yfir, um 15 %. Þar með er ekki sagt, að afleiðingarnar verði jafnalvarlegar og í þessum fyrri efnahagsáföllum. Það er vegna þess, að nú eiga landsmenn drjúga sjóði og ríkissjóður var orðinn skuldlítill. Þau búmannshyggindi, sem í hag koma síðar, verða einfaldlega að halda áfram, þegar hjól atvinnulífsins fara aftur að snúast á eðlilegum hraða. Það er alveg öruggt, að aftur mun ríða yfir efnahagsáfall, sem verður dýrkeypt, en það er skylda okkar að verða svo vel brynjuð, að ekki þurfi að segja landið til sveitar á meðal þjóðanna, hvað þá að til þjóðargjaldþrots komi.
Allir vita, að það er ekkert skjól að hafa í EES eða ESB. Hið eina, sem hjálpar er eiginn styrkur, lágar skuldir, öflugur gjaldeyrisvarasjóður og mikill hagvöxtur. Til þess þarf lágt raforkuverð í landinu, áherzlu á innlenda framleiðslu, aðhald í öllum rekstri og miklar (skynsamlegar) fjárfestingar.
Nú eru um 50 þúsund manns á atvinnuleysisskrá með einum eða öðrum hætti. Það er meira en fjórðungur vinnuaflsins og um þriðjungur vinnuafls einkageirans, en höggið lendir langþyngst á honum. Ekki getur orðið sátt í þjóðfélaginu um annað en allir geirar samfélagsins taki á sig kjaraskerðingar af þessum völdum, því að kjaraskerðing er óumflýjanleg í öllum löndum. Verkfallsboðun nú er hrópleg tímaskekkja, skemmdarverk og félagslegur vanþroski. Það má búast við, að tekjutap landsins nemi a.m.k. mrdISK 500 eða tæplega 40 % af árlegum gjaldeyristekjum landsins, því að samdráttur gjaldeyristekna mun vara mun vara mun lengur en eitt ár. Þetta högg lendir á þjóðinni, en ríkisstjórnin deyfir það með feiknarlegum lántökum, sem þarf að borga upp sem fyrst. Alþýðusamband Íslands hefur enn ekki horfzt í augu við þennan vanda, heldur stungið hausnum í sandinn. Þar með bregst forystan félagsmönnum sínum. Fyrr en síðar verður hún að draga hausinn upp úr sandinum og horfa raunsæjum augum á viðfangsefnið, sem er að lágmarka tjón almennings núna og að búa hann fjárhagslega sem bezt undir næsta áfall í stað þess að grafa sig ofan í enn dýpri holu.
Iðnaðurinn hefur náð því að standa undir 30 % útflutningstekna landsins. Áliðnaðurinn hefur í þokkalegu árferði staðið undir um 70 % af þessum tekjum. Hann stendur mjög illa núna, reyndar víðast hvar í heiminum, þó misvel, svo að búizt er við fækkun álvera í rekstri. Það mun draga markaðinn í átt að jafnvægi framboðs og eftirspurnar. Hvað er að gerast hjá Landsvirkjun. Í hádegisfréttum RUV í gær, 28.02.2020, var sagt frá 25 % lækkun raforkuverðs til stóriðju, en síðan ekki söguna meir. Hvers konar reykmerki var þetta ? Er bálköstur í háhýsinu ofarlega á Háaleitisbraut ?
Ekki er nóg með, að fyrrnefnd veira komi frá Kína, heldur voru Kínverjar búnir að eyðileggja þennan markað með offramboði, og vegna eftirspurnarleysis hefur botninn nú gjörsamlega fallið úr markaðinum, svo að CRU (brezkt ráðgjafarfyrirtæki) spáir því, að verðið eigi enn eftir að lækka um 100 USD/t eða niður í 1350 USD/t Al. Alls staðar hefur samfara þessu raforkuverðið lækkað, nema hjá ISAL í Straumsvík, enda er fyrirtækið nú í andarslitrunum, eins og fram hefur komið. Verður nú vitnað í nokkrar fréttaskýringar um þetta:
"Álverin í miklum vanda" var heiti baksviðsfréttar Baldurs Arnarsonar í Morgunblaðinu 2. apríl 2020. Hún hófst þannig:
"Íslenzkur áliðnaður hefur sjaldan eða aldrei staðið frammi fyrir jafnkrefjandi markaðsaðstæðum [og nú]. Vegna kórónuveirufaraldursins hefur eftirspurnin hrunið og við það safnazt upp miklar birgðir.
Áður en faraldurinn breiddist út til Evrópu var mikil umræða um rekstrarvanda álversins í Straumsvík. Til skoðunar var [og er] að loka álverinu vegna taprekstrar árum saman.
Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samtaka álframleiðenda (Samáls), segir ekki hægt að útiloka, að dregið verði enn frekar úr álframleiðslu á Íslandi vegna erfiðra aðstæðna."
Þessi sérstöku vandræði áliðnaðarins auka enn aðsteðjandi vanda landsmanna. Hvorki verkalýðshreyfing né aðrir geta litið undan og látið sem ekkert sé, enda gilda nýir kjarasamningar í Straumsvík aðeins til 30.06.2020. Þeir innihalda framlengingarákvæði, en það er skilyrt samkomulagi við Landsvirkjun fyrir þann tíma. Þar sem hvorki virðist ganga né reka í viðræðum Rio Tinto/ISAL við Landsvirkjun, stefnir nú í lokun eins af hryggjarstykkjum atvinnumarkaðarins á höfuðborgarsvæðinu. Veigamikil veiking iðnaðarins við þessar ömurlegu aðstæður mun gera endurreisnarstarfið enn erfiðara.
Baldur sýnir graf um verð áls á LME 01.03.2020-31.03.2020, þar sem það lækkar frá 1890 USD/t Al í 1489 USD/t Al, og nú er það komið nálægt 1450 USD/t Al og hefur þess vegna lækkað um tæpan fjórðung á rúmu ári. ISAL var rekið með um mrdISK 18 tapi árin 2018-2019, og þess vegna eru engar forsendur fyrir rekstri áfram að óbreyttu. 10 % lækkun raforkuverðs dugar ekki þar, svo að dæmi sé tekið.
Í lok baksviðsfréttaskýringarinnar vitnaði Baldur í Pétur Blöndal:
"Á þessum fordæmalausu tímum er mikilvægt sem aldrei fyrr að standa vörð um samkeppnishæfni íslenzks orkusækins iðnaðar. Það liggur fyrir, að ekki er framleitt á fullum afköstum í Straumsvík, en ISAL hefur bent á, að orkuverðið sé ekki samkeppnishæft. Ekki er heldur framleitt á fullum afköstum hjá Norðuráli, en samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu er það vegna þess, að ekki er í boði orka á samkeppnishæfu verði. Þetta hefur ekki einungis í för með sér tap fyrir álverin og orkufyrirtækin, heldur verður þjóðarbúið af miklum gjaldeyristekjum.
Það hlýtur að vera verkefnið að tryggja orkusæknum iðnaði á Íslandi sjálfbærar rekstrarforsendur, til þess að hann haldi áfram að blómgast hér á landi. Sú staða, sem komin er upp í viðskiptalífinu, er fordæmalaus og getur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar. Íslenzkur áliðnaður er þar auðvitað ekki undanskilinn, og skapazt hefur mikil óvissa á mörkuðum. Ég hef hins vegar þá trú, að áliðnaður á Íslandi eigi framtíðina fyrir sér, ef rekstrarforsendur eru sjálfbærar til framtíðar og samkeppnishæfnin treyst", segir Pétur."
Ef það er stefna Landsvirkjunar, þá getur hún vissulega gengið á milli bols og höfuðs á iðnaðinum. Orkulögin á Íslandi fría orkufyrirtækin ábyrgð á afdrifum viðskiptavina sinna og uppáleggja þeim einvörðungu að hámarka eigin gróða. Við fordæmalausar aðstæður kemur skýrt í ljós það, sem þó mátti öllum vera ljóst fyrir, að orkulöggjöf innflutt frá ESB og auðvitað sniðin við gjörólíkar markaðs- og orkukerfisaðstæður þeim, sem hér ríkja, að þessi orkulöggjöf samrýmist ekki hagsmunum atvinnulífs og almennings á Íslandi. Það má jafnvel búast við endurskoðun orkustefnunnar á meginlandi Evrópu í kjölfar COVID-19, því að til að knýja endurreisnina áfram mun þurfa tiltölulega lágt orkuverð. Stefna ESB hefur verið hátt orkuverð til að ýta undir virkjanir endurnýjanlegra orkugjafa. Er þá ekki Orkupakki 4 sjálfdauður ?
Þetta krystallaðist í efstu forsíðufrétt Morgunblaðsins nú í dymbilvikunni, 7. apríl 2020, en dymbill getur verið kólfur í bjöllu eða kirkjuklukku. Þarna glumdi sú klukka landsmönnum, að undirbúningur eiganda ISAL-verksmiðjunnar að stöðvun hennar um árabil eða að endanlegri lokun væri í fullum gangi.
Hvaða áhrif ætli stöðvun starfseminnar í Straumsvík hefði á þjóðarhag ? Það kom m.a. fram í baksviðsfrétt Baldurs Arnarsonar í Morgunblaðinu 14. febrúar 2020:
"Lokun álvers hefði víðtæk áhrif":
""Lokun álversins í Straumsvík myndi hafa víðtæk efnahagsáhrif á Íslandi. Bæði mun það draga úr hagvexti og auka atvinnuleysi, sem þegar er mikið", sagði Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins, og vísar til lykilstærða. Álverið skapi um 60 mrdISK/ár í gjaldeyristekjur og af þeim tekjum fari um 22-23 mrdISK/ár í að greiða fyrir innlenda þætti á borð við laun og raforku."
""Til að undirbyggja nýja uppsveiflu efnahagslífsins þarf að auka gjaldeyristekjur. Lokun álversins í Straumsvík færi þvert gegn því og myndi gera okkur erfiðara fyrir að snúa hagkerfinu frá samdrætti yfir í vöxt", segir Ingólfur."
Hver eru svo viðbrögð öflugasta ríkisfyrirtækis landsins, Landsvirkjunar, við fordæmalausum aðstæðum á Íslandi ? Af viðbrögðum forstjóra Landsvirkunar við aðalfrétt Morgunblaðsins 7. apríl 2020 að dæma eru þau bæði óyfirveguð, vanstillt og fálmkennd. Í viðtali Stefáns E. Stefánssonar við hann í Morgunblaðinu á bls. 12, 3. apríl 2020, kom ekkert handfast fram. Bara reykur til að villa stjórnvöldum sýn. Þessi sömu stjórnvöld verða nú að taka af skarið:
"Hann segir, að Landsvirkjun vinni náið með viðskiptavinum sínum og vilji tryggja samkeppnishæfni sína til lengri tíma litið. Því leiti fyrirtækið leiða til að koma til móts við viðskiptavini sína, m.a. með lengri gjaldfresti, þar sem það á við.
Fyrir skemmstu var greint frá því, að Rio Tinto í Straumsvík hefði kallað eftir samtali um endurskoðun á raforkusamningi við LV vegna breyttra markaðsaðstæðna. Hörður segir, að það samtal standi enn yfir."
Það er ekki langur tími til stefnu að leiða þetta mál til lykta, og tíminn hleypur frá landsmönnum og fyrirtæki þeirra, Landsvirkjun, vegna þess, hvernig þar er haldið á málum. Stjórnvöld ættu nú að vera meðvituð um, hvað þarf að gera.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Fjármál, Fjölmiðlar, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.