Breytt heimsmynd

Mannskæðir alheims sjúkdómsfaraldrar breyta heiminum.  Afleiðingar spænsku veikinnar, sem var víst amerísk, ef nánar er að gáð, hafa vafalaust haft djúptæk áhrif, en þau hurfu í skugga hrikalegrar lífsreynslu af Heimsstyrjöldinni fyrri og þeirra feiknarlegu þjóðfélagsátaka, sem af henni leiddu, en þá missti kirkjan mikil völd í Evrópu, og aðallinn missti fótanna. Þessir aðilar höfðu fram að því talið alþýðunni trú um guðlegt boðvald sitt yfir henni, en helvíti skotgrafanna leysti alþýðuna úr viðjum, því að guðlegur vilji og vald gat ekki legið að baki slíkum hörmungum. Byltingarástand ríkti víða, og hún tókst í Rússlandi 1917 að undirlagi þýzku hérstjórnarinnar, sem sendi kaffihúsasnatann Lenín frá Sviss til Rússlands. Þessi bylting át börnin sín, eins og sú franska 1789. Aðeins sú borgara- og bændabylting, sem varð á Englandi öld áður, tókst.  Efldist þá þingræðið á Englandi á kostnað konungsvalds, en aðlinum tókst að laga sig að breytingunum og flaut ofan á (eins og hrossataðskögglarnir).

Það er mörgum umhugsunarefni, hvað taka muni við í heiminum eftir COVID-19.  Það er líklegt, að talsvert af þeirri framleiðslu, sem vestræn fyrirtæki hafa á undanförnum áratugum flutt að heiman og til Kína og annað, muni snúa í heimahagana á næstu árum, a.m.k. sú, sem talin er varða miklu fyrir öryggi og heilsufar þegnanna.  Þetta gæti táknað endalok alþjóðavæðingarinnar, eins og við þekktum hana, þar sem þjóðir reiða sig ekki lengur á aðdrætti frá útlöndum í sama ríka mæli og verið hefur. Traust til Kínverja hefur beðið hnekki vegna upphaflegra viðbragða þeirra við SARS-CoV-2 veirunni, sem voru í ætt við viðbrögðin við SARS-CoV-1 rúmum hálfum öðrum áratugi fyrr.  Stórveldistilburðir þeirra eru líka að verða ruddalegri en góðu hófi gegnir.  Vestræn ríki munu draga úr viðskiptasamstarfi við Kínverja á "strategískum" sviðum, en vonandi getum við nýtt fríverzlunarsamninginn við þá meira til matvælaútflutnings.  Þeir eru háðir matvælainnflutningi.   

Þetta hlýtur að styrkja innlenda framleiðslu á Íslandi á nauðsynlegu viðurværi, t.d. matvælum.  Það er heldur ekki í kot vísað fyrir landsmenn að snúa sér í auknum mæli að innlendum matvælum.  Það er leitun að sambærilegum gæðum og hollustu, t.d. vegna hreins lofts, gæðavatns og mjög lítillar notkunar sýklalyfja. Hvers vegna að fara yfir lækinn til að sækja vatnið ?

Auðvitað á ríkisfyrirtækið Landsvirkjun að teygja sig langt í að bjóða ódýra raforku, bæði ótryggða orku og forgangsorku, og þursahátt stjórnenda þar í garð viðskiptavina á ekki að líða. Óljósar fréttir um verðafsláttarhugmyndir þar á bæ eru ófullnægjandi.

Guðlaugu Kristinsdóttur, stjórnarformanni Límtré-Vírnets o.fl., eru greinilega þessi mál hugleikin.  Þann 8. apríl 2020 birtist frábær grein eftir hana í Markaði Fréttablaðsins, undir fyrirsögninni:

"Sveigjanleiki skiptir sköpum"

"Hagkerfi heimsins eru nær öll á hnjánum.  Ísland er þar engin undantekning, og fram undan er mikið verk til að tryggja upprisu lands og þjóðar.  Íslenzkt hugvit og handverk mun ráða miklu um árangurinn, en ekki síður stefnan, sem við tökum í þessum skrýtnu aðstæðum.  

Á undanförnum vikum hefur komið í ljós, að þjóðir heims hugsa fyrst um sjálfar sig, þegar hætta steðjar að.  Virðiskeðja alþjóðaviðskipta er rofin, vöru- og fólksflutningar eru afar takmarkaðir, og alþjóðasamningar eru í hættu.  Aðstæðurnar kalla víða á breytt viðhorf, ekki sízt hvað varðar sjálfbærni hagkerfa. Skyndilega sjá allir mikilvægi þess, að þjóðir geti framleitt mat fyrir sjálfar sig og forgangsröðun fjármuna í þágu heilbrigðiskerfa. Allir virðast sammála um, að ríki grípi til umfangsmikilla efnahagsaðgerða, svo [að] hjól samfélagsins snúist, þrátt fyrir vírusa og innilokanir."  [Undirstr. BJo]

Staðan er einstök, því að öll hagkerfi heimsins eru í lamasessi samtímis og öll verða nú fyrir gríðarlegum tekjumissi og munu þurfa á miklu lánsfé að halda í kjölfarið.  Seðlabankar prenta peninga, og ríkisstjórnir ætla að láta verðbólguna rýra höfuðstólinn á verðbólgubáli.  Lántakendur í erlendum gjaldmiðli verða fórnarlömbin.

COVID-19 tímabilið hefur í eymd sinni verið lærdómsríkt.  Þjóðir heims hafa borið sig misjafnlega að og orðið mjög misjafnlega vel ágengt í baráttunni við SARS-COV-2 veiruna. Má nefna Suður-Kóreu sem dæmi um góðan árangur utan Evrópu, en í Evrópu virðist Þýzkaland bera af í hópi hinna fjölmennari og þéttbýlli landa.  Er munurinn rétt einu sinni sláandi á Þjóðverjum og nágrönnum þeirra, Frökkum, hinum fyrrnefndu í vil.  Þjóðverjar voru undirbúnir með fjölda sjúkrarúma og mikinn varnar- og sjúkrabúnað, þ.m.t. öndunartæki, og gripu leiftursnöggt inn í atburðarásina.  Gott skipulag, góður undirbúningur og öguð viðbrögð, gerðu gæfumuninn.  Þess vegna urðu tiltölulega fá smit í Þýzkalandi og hlutfallslega fá dauðsföll.  Fyrir vikið mun atvinnulífið fyrr verða drepið úr dróma, og heildarkostnaðurinn mun verða lægri hjá Þjóðverjum en Frökkum. Í Belgíu virðist heilbrigðiskerfið gjörsamlega hafa farið á hliðina.  Um það vitnar gríðarhátt hlutfall látinna af smituðum.  Hérlendis er þetta hlutfall aðeins um 0,6 %, en þar sem sérlega illa hefur tekizt til, er þetta hlutfall 20-40 sinnum hærra.  

Það, sem þó háir Íslendingum í þessari baráttu er skortur á hentugu húsnæði og aðbúnaði, þar sem nýi Landsspítalinn er enn í byggingu og kemst a.m.k. 5 árum of seint í gagnið m.v. þörfina.  Þar verður að  hafa til reiðu fjölda sjúkrarúma og gera ráð fyrir snöggri stækkun á gjörgæzluaðstöðu.  Það munu ekki líða 100 ár að næstu alvarlegu kórónuveiru, og aðrir enn hættulegri heimsfaraldrar gætu hæglega blossað upp á þessum áratugi.  Hin hrikalega ebóla var kveðin niður í Afríku með miklu harðfylgi vestræns heilbrigðisstarfsfólks á fyrsta áratugi þessarar aldar. Veirur eru til rannsókna og þróunar í misjöfnu augnamiði á rannsónarstofum heimsins og geta sloppið þaðan af ýmsum orsökum. Forseti Bandaríkjanna hefur fjálglega viðrað grunsemdir um uppruna Wuhan-veirunnar á rannsóknarstofu þar í borg, en hann er að vísu alræmdur blóraböggulsframleiðandi.  Það eru ekki öll kurl komin til grafar með þessa SARS-CoV-2 veiru, uppruna hennar, og hvernig hún dreifðist út fyrir Kína, til skíðasvæðanna í Ölpunum og víðar.  Seinagangur Kínverja í upphafi á sök á útbreiðslunni.  Lokun Kína í desember 2019 hefði væntanlega þýtt, að kostnaður heimsins í baráttunni við óværuna hefði aðeins orðið brot af þeim hundruða trilljóna USD kostnaði, sem heimurinn situr uppi með.  

Í þessum kórónafaraldri hefur komið í ljós, að virðiskeðjur fyrir inn- og útflutning landsins rofna auðveldlega og samkomulag og sambönd halda illa.  Nægir að nefna, að framleiðsla í "Verksmiðju heimsins", Kína, stöðvaðist á mörgum sviðum og framkallaði það skort á þessum "just-in-time" tímum, þegar enginn vill halda birgðir.  Jafnvel þýzka hernum var bannað að halda birgðir af skammsýnum stjórnmálamönnum, og hefur það valdið því, að megnið af kafbátum og orrustuþotum landsins voru ekki bardagahæf, þegar til átti að taka á æfingum. Ursula von der Leyen var landvarnarráðherra, þar til Þjóðverjar sendu hana til Brüssel.  Hún rýrði bardagahæfni hersins til muna með aðgerðum af þessu tagi, en hún gekk lengra.  Hún vildi uppræta hefðir hersins, eins og að ganga fylktu liði og syngja marsa, siði, sem rekja má allt aftur til prússneska hersins fyrir daga Friðriks, mikla, sem margan frækinn sigurinn vann í Evrópu. Þá fyrirskipaði hún að taka niður mynd af Helmut Schmidt, fyrrum kanzlara Vestur-Þýzkalands, þar sem hann var í herbúningi Wehrmacht (barðist á Austurvígstöðvunum).  Ekki þarf að spyrja að því, að forystuhæfileika í ESB sýndi téð von der Leyen enga, þegar til átti að taka, þegar SARS-CoV-2 herjaði sem verst á Evrópu í marz-apríl 2020.  Er Evrópusambandið ekki búið að bíta úr nálinni með lömun sína og aðgerðaleysi til varnar íbúunum, þegar hæst átti að hóa.  Þetta er einn naglinn í líkkistu ESB.

Nú hefur heimsmarkaðsverð olíu hrapað niður í 20-30 USD/tunnu.  Jafnframt hefur raforkuverð heimsins hrapað, og er á heildsölumörkuðum yfirleitt undir 10 USD/MWh.  Þetta grefur undan orkustefnu ESB í bráð og lengd.  Margir hljóta að spyrja sig í Evrópu: hvers vegna erum við að halda uppi gráðugu skrifstofubákni í Brüssel og víðar, sem virðist ekki vera til neins gagns, þegar mest ríður á ?  Þótt Bretar hafi farið illa út úr COVID-19, er ekkert, sem bendir til, að aðild að ESB hefði verið hjálpleg.  

 Schengen samningurinn fór fyrir lítið, því að hvert ríkið á fætur öðru lokaði landamærum sínum í trássi við von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB. Um síðir samþykkti ESB að loka ytri og innri landamærum sínum.

Alvarlegastur er ágreiningurinn innan Evrópusambandsins (ESB) um sameiginlegar hjálparaðgerðir við nauðstödd ríki innan ESB vegna kostnaðarins og tekjutapsins af völdum COVID-19.  Suðurríkin, sem Frakkar styðja, vildu, að Seðlabanki evrunnar gæfi út "Kórónubréf", en Norðurríkin snerust öndverð við því af skiljanlegum ástæðum, sbr "við greiðum ekki skuldir óreiðumanna".  Úr varð, að úr björgunarsjóði verða mrdEUR 500 til ráðstöfunar inn á við í ESB út af COVID-19. Viðtakendur verða aðallega Ítalir, Spánverjar og Frakkar, ef að líkum lætur, en upphæðin mun ekki duga til að koma efnahag þessara ríkja í samt lag.  Norðurríkin verða langt á undan Suðurríkjunum við að koma hjólum efnahagslífsins aftur á góðan snúning. Þetta mun enn auka á efnahagslega og pólitíska sundrungu á milli suðurs og norðurs, sem getur endað með ósköpum og talsverðri veikingu evrunnar. 

"Á sama hátt er ómetanlegt fyrir þjóðir að ráða sjálfar sínum efnahagsmálum, reka sína eigin peningastefnu, og eiga sinn eigin gjaldmiðil.  Kostir þess hafa sýnt sig í fyrri kreppum, og þeir munu gera það núna.

Íslenzkur iðnaður þekkir þetta vel.  Líkt og aðrar þjóðir hafa Íslendingar tekizt á við miklar efnahagssveiflur, en með sjálfstæði og sveigjanleika í farteskinu hefur okkur tekizt að að vinna vel úr áföllunum.  Nái ég kjöri sem formaður Samtaka iðnaðarins, mun ég beita mér fyrir auknu alþjóðasamstarfi iðnaðarins.  Ég vil, að iðnaðurinn efni til meira samstarfs út fyrir Norðurlöndin og Evrópu, við systursamtök í öðrum heimsálfum og löndum, sem hafa náð langt.  Tækifærin eru víða og einskorðast sannarlega ekki við innri markað Evrópusambandsins."

Fyrsti hluti þessarar tilvitnunar er hárrétt athugaður hjá Guðlaugu, en skilningi á þessu hefur verið ábótavant hjá mörgum formönnum SÍ.  Síðari hlutinn sýnir vel víðsýni Guðlaugar, og að hún er vel meðvituð um þróun viðskiptatækifæranna á næstunni.  Hún hefði orðið mikill fengur fyrir forystu Samtaka iðnaðarins. Því miður átti það ekki fyrir SI að liggja að þessu sinni.   

Sumir eru þeirrar skoðunar, að SARS-COV-2 veiran verði banabiti ESB í sinni núverandi mynd (án Breta).  Morgunblaðið fylgist vel með þessum málum, sem öðrum, og þar var 7. apríl 2020 frétt undir fyrirsögninni:

""Mesta prófraun" ESB".Hún hófst þannig:

"Angela Merkel, Þýzkalandskanzlari, varaði við því í gær, að aldrei hefði reynt jafnmikið á samheldni Evrópusambandsríkjanna og nú.  Hvatti hún ríki álfunnar til þess að vinna saman að því að endurreisa efnahag aðildarríkjanna, þegar heimsfaraldurinn verður liðinn hjá. 

"Ég tel, að Evrópusambandið standi nú frammi fyrir mestu prófraun sinni frá stofnun", sagði Merkel og bætti við, að öll ríkin hefðu fundið fyrir faraldrinum, og því væri það hagur allra, að Evrópuríkin kæmu styrkum fótum frá þessari raun."

 

 "Stjórnvöld í Frakklandi vöruðu við því í gær, að yfirvofandi væri versta efnahagskreppa, sem Evrópa hefði séð frá lokum síðari heimsstyrjaldar.  Sagði Bruno Le Maire, fjármálaráðherra Frakklands, að tryggja þyrfti, að ríkari ríki sambandsins næðu sér ekki af áhrifum kórónaveirunnar fyrr en hin verr settu, því [að] annars yrði eining aðildarríkjanna, sem og evrusvæðið [evrusvæðisins-leiðr. BJo], fyrir miklu höggi."

Þarna segja Frakkar, að þeir muni koma lamaðir út úr viðureigninni við SARS-COV2, enda ekki borð fyrir báru þar á bæ frekar en fyrri daginn.  Fjármálaráðherrann segir í raun, að Þjóðverjar megi ekki nýta hlutfallslega yfirburði sína, þegar hagkerfi þeirra kemst í gang aftur, til að auka enn forskot sitt og auka hagvöxtinn hjá sér langt umfram það, sem hin ríkin munu verða fær um. Af þessu er ljóst, að vandamálin hrannast upp fyrir ESB úti við sjónarrönd, einkum vegna þess, hversu ólíkar aðildarþjóðirnar eru að upplagi.  Evran var ótímabær og illa ígrunduð tilraun.  Framtíð hennar er í meiri óvissu núna en í kjölfar fjármálakreppunnar 2007-2008 og Grikklandsfársins 2012, enda hefur lítið verið gert til að skjóta undir hana fótum, nema brauðfótum.  

 

 Evran krosssprungin

  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk Bjarni.

Virkilega yfirgripsmikill pistill sem nær kjarna þess vanda sem við blasir og hvernig heimurinn verður eftir Covid 19.

Vonandi náum við að segja skilið við skrifræðisbáknið og hlúa að því sem við eigum.

En eitt er öruggt, gamla heimsmynd útvistunar starfa og framleiðsla er hrunin, en hins vegar óvissa um hvað tekur við.

Vonandi heilbrigð skynsemi.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 4.5.2020 kl. 07:43

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Ómar.  Til að draga umtalsvert úr skrifræðisbákninu, þarf landið að losna úr viðjum EES-samstarfsins.  Carl I. Baudenbacher, fyrrverandi dómari við EFTA-dómstólinn, afhjúpaði í Moggagrein 23. apríl 2020, rotið inntak þessa samstarfs.  Hann skýrði út, hvernig Norðmenn ákváðu í kjölfar bankakreppunnar 2007-2008 að fara sínu fram innan EES, gefa skít í ESA og EFTA-dómstólinn, ef úrskurðir þeirra hentuðu ekki hagsmunum norska ríkisins, eins og þeir voru metnir af norska ríkislögmanninum.  Þetta þýðir fullkomið ójafnræði innan EES, þar sem öll ríkin eru ekki jöfn fyrir lögunum.  Sjálfstæð þjóð getur ekki látið fara svona með sig.  

Bjarni Jónsson, 4.5.2020 kl. 09:41

3 Smámynd: Ívar Pálsson

Takk, Bjarni. Sammála þessari góðu úttekt.

Ívar Pálsson, 4.5.2020 kl. 15:34

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Nákvæmlega.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 4.5.2020 kl. 16:14

5 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Takk fyrir Bjarni,fyrir mér er þessi lærdómsríka sögustund með H-stöfum ,alveg brilljant,.. (skilnaður við ESB!) 

Helga Kristjánsdóttir, 5.5.2020 kl. 03:36

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Viðbrögð þjóða við COVID-19 hafa verið ólík eftir löndum.  Þau eru jafnvel ólík á meðal Norðurlandanna.  Bezt hefur Færeyingum og Grænlendingum tekizt upp.  Það verður mjög athyglisvert að fylgjast með, hvernig staðið verður að opnun samfélaganna að nýju.  Athyglisvert er, að Þjóðverjar hafa enn ekki opnað leik- og grunnskóla.  Sóttvarnalæknir Íslands lokaði aldrei þessum stofnunum, og það virtist ekkert koma að sök, því að hnignun veirunnar varð hraðari en sóttvarnayfirvöld landsins höfðu búizt við.  Framferði veirunnar hérlendis fellur vel að forsögninni um 40 daga í topp og 70 daga varanleika faraldursins.  Í þessari viku virðist hann munu líða undir lok hér, og þá er engin ástæða til að vera með strangar hömlur lengur á samkomum.  Ef opnað verður óvarlega á útlönd, getur faraldurinn gosið upp aftur, því að hér hefur ekkert hjarðónæmi náð að myndast.  Greiningar ÍE benda ekki til meira en 1 % smita.  Að nefna allt að 5 % ónæmi í landinu er ekki vel rökstutt.  

Bjarni Jónsson, 5.5.2020 kl. 10:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband