Lítil frétt um stórmál og klúður

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) hefur í um 3 áratugi reynt að koma í kring innan Sambandsins markaðsvæðingu á ríkiseignum í náttúrunni, t.d. ríkisjörðum, námum og orkulindum. Framkvæmdastjórn ESB telur sig hafa lögsögu um nýtingu náttúruauðlinda, sbr sameiginlega fiskveiði- og landbúnaðarstefnu Sambandsins (CAP), en styr hefur staðið við einar 8 aðildarþjóðir um nýtingu vatnsréttinda til raforkuvinnslu.  Ætlaði Framkvæmdastjórnin með ágreininginn við Frakka, sem eru mesta vatnsorkuþjóðin innan ESB, fyrir Evrópudómstólinn.  Nú er spurning, hvort þetta stefnumál verður eitt þeirra, sem lendir undir exi Úrsúlu von der Leyen í kjölfar COVID-19.  Ástæðan er sú, að aðferðarfræði ESB hefur óhjákvæmilega í för með sér orkuverðshækkanir, og það er einmitt ætlun ESB til að knýja á um frekari fjárfestingar í dýrum mannvirkjum endurnýjanlegrar orku.  Hagkerfi ESB-landa þarf hins vegar nú, eins og annars staðar, framar öðru á að halda ódýrri orku til að knýja endurreisn hagkerfa aðildarlandanna, sem eru mjög veikburða eftir lömun af völdum aðgerða til að hamla smiti á COVID-19, og loftslagsmarkmiðin verða einfaldlega að sitja á hakanum á meðan hjól atvinnulífsins eru að komast aftur á fyrri snúningshraða hið minnsta. 

 Innan EFTA-ríkjanna í EES (Evrópska efnahagssvæðinu) er staðan lítið eitt önnur að því leytinu til, að EES-samningurinn fjallar ekki um orkulindirnar og reglur um stjórnun þeirra, en Lissabon-sáttmálinn veitir Framkvæmdastjórninni víðtækar heimildir til yfirstjórnunar á orkumálum ríkjanna.  E.t.v. þess vegna hefur EFTA-dómstóllinn teygt sig ískyggilega langt inn á þetta svið, og dæmdi hann t.d. gegn norska ríkinu, að það væri að mismuna einkafyrirtækjum og ríkisfyrirtækjum með gamalli lagasetningu um það, sem Norðmenn kalla "hjemfall av vannkraftsressurser" eða þjóðnýtingu vatnsréttinda og vatnsaflsvirkjana eftir fyrst 80 ár og nú 60 ár í rekstri. Norðmenn breyttu þessari lagasetningu sinni, nýttu sér "frelsissvigrúmið", sem Carl Baudenbacher hefur gagnrýnt þá fyrir, og gerðu 2/3 eign ríkisins á þessari auðlind landsins að meginreglu, þannig að ekki gæti misréttis gagnvart einkaaðilum, og sú skipan hefur haldizt athugasemdalaust af hálfu ESA. Ríkisstjórnarlögmaðurinn (regjeringsadvokat) Sejersted, tefldi fram sínu "frelsissvigrúmi" og komst upp með það. Það sorglega er, að Íslendingar eiga engan Sejersted enn þá.  

ESA, sem EFTA-megin er spegilmynd Framkvæmdastjórnar ESB, ákvað að ráðast á garðinn, þar sem hann var lægstur hjá EFTA  með afskiptm af úthlutunarreglum nýtingarréttinda auðlinda á landi í eigu ríkisins með bréfi til íslenzku ríkisstjórnarinnar á þeim tíma, þegar hún átti fullt í fangi með að lágmarka neikvæðar afleiðingar bankahrunsins með undirbúningi Neyðarlaganna.  Fyrsta bréfið var dagsett 14.10.2008.

Síðan gengu mörg bréf á milli, en varnir ríkisstjórnanna, sem í hlut áttu á Íslandi, hafa verið vegnar og léttvægar fundnar í Brüssel, enda alls ekki reynt að nýta sér neitt "frelsissvigrúm".  Bréf ríkisstjórnanna íslenzku til ESA hafa ekki verið gerð aðgengileg almenningi, en af bréfum ESA, sem aðgengileg eru á vefsvæði Eftirlitsstofnunarinnar, má ráða í efni þeirra. Þessum ríkisstjórnum virðist ekki hafa hugkvæmzt sú djarfa og árangursríka leið Norðmanna, þegar þeir síðar fengu bréf svipaðs efnis, að efast hreinlega um lögsögu ESA yfir ráðstöfun náttúrulegra orkulinda til raforkuvinnslu. Vonandi sér íslenzka ríkisstjórnin að sér með aðstoð Alþingis og gengur í skóla prófessors Sejersteds.  Atbeini Alþingis er eðlilegur og nauðsynlegur í stórmáli, sem stjórnvöld hafa frá upphafi gert sér far um að drepa á dreif. 

Úrskurður ESA, nr 075/16/COL, í þessu máli var gefinn út 20.04.2016, og íslenzk stjórnvöld vöktu ekki sérstaka athygli þjóðarinnar á honum, þótt hann fæli í sér kröfu um fullveldisafsal á megninu af orkulindum Íslands með því að fyrirskrifa markaðssetningu á Innri markaðinum á nýtingarrétti orkulinda í ríkiseigu.  Hvernig í ósköpunum ríkisstjórninni kom til hugar að fallast alfarið á þetta fullveldisframsal er eftir að útskýra fyrir þjóðinni.  Tveir ráðherranna, sem þá áttu hlut að máli, sitja í núverandi ríkisstjórn, svo að þingmönnum er í lófa lagið að leita skýringa hjá þeim.  Þessir ráðherrar fá falleinkunn, ef þau svara þannig, að embættismenn hafi sagt þeim, að EES-samningurinn legði Íslendingum þær skyldur á herðar að framselja markaðnum nýtingu orkulindanna eða að embættismenn hafi haldið því fram, að Stjórnarskráin eða almenn löggjöf bannaði stjórnvöldum það ekki. Kenningar Sejersteds voru þá löngu kunnar.

Þessir ráðherrar eru: 

Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, 07.04.2016-11.01.2017

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra, 08.04.2016-11.01.2017.

Þann 15.12.2016 fór síðan bréf frá ríkisstjórninni með tímasettri framkvæmdaáætlun, og skyldi lúkning verða 30.05.2017.  Á þessum grundvelli lauk þessu máli af hálfu ESA með bréfi til ríkisstjórnar: 010/17/COL, en ekkert hefur verið framkvæmt í málinu og verður sennilega ekki úr þessu.  Þessi vinnubrögð íslenzkra stjórnvalda eru afspyrnuléleg og gæti kæra ESA fyrir EFTA-dómstólinum þar af leiðandi verið yfirvofandi fyrir skort á efndum.  

Um hvað fjallaði litla fréttin í Mogganum 11.04.2020 ?  Hún bar fyrirsögnina:

"Fresta frumvarpi um nýtingu auðlinda"

og hófst þannig:

"Upp hafa komið rökstuddar efasemdir um, að tilskipun Evrópuþingsins og -ráðsins um þjónustu á innri markaðinum, og til vara grein EES-samningsins um staðfesturétt, eigi við um raforkuframleiðslu.  

 Því hafa íslenzk stjórnvöld ákveðið að fresta fyrirhuguðum lagabreytingum uns betri vissa verður fengin fyrir því, hvaða þjóðréttarlegu skuldbindingar hvíla á íslenzka ríkinu að þessu leyti.  Frumvarpið verður því ekki lagt fyrir Alþingi á þessum vetri."

Frestur er á illu beztur má um þessa niðurstöðu ríkisstjórnarinnar segja. Hún vísar augljóslega beint til málatilbúnaðarins gegn Noregi og snöfurmannlegs svars Sejersteds eða a.m.k. í anda "frelsissvigrúms".  Málatilbúnaðurinn gegn gegn Íslandi var af öðrum toga, þótt afleiðingarnar yrðu hinar sömu, næði ESA sínu fram. 

Það vafðist ekki eitt andartak fyrir norskum stjórnvöldum, hvort Noregur væri að þjóðarétti bundinn við að hlýða ESA og framselja náttúrulegar orkulindir sínar, aðallega virkjaðar vatnsorkulindir, í hendur Innri markaði EES, sem í einu og öllu lýtur regluverki ESB. Þegar mikilvægir ríkishagsmunir eru í húfi, grípa Norðmenn til "frelsissvigrúmsins", sem þeir reyndar nefna "handlingsrommet". 

Bréf ESA til norsku ríkisstjórnarinnar (orku- og olíumálaráðuneytisins) barst ekki fyrr en 30.04.2019.  Málatilbúnaður þar var af öðru tagi en gegn Íslandi, en krafan þó sams konar, og afleiðingar uppgjafar yrðu eins.  ESA kvað norska ríkið verða að finna óyggjandi markaðsverð á vatnsréttindum í eigu ríkisins og leyfa jafnan aðgang allra fyrirtækja, óháð eigendum og rekstrarformi.  Ljóslega er hér átt við allan Innri markað EES.  Var vitnað í þrenns konar lögskýringargögn ESB kröfunni til fulltingis:

  • Þjónustutilskipun nr 2006/123/EB
  • Tilskipun um opinber innkaup nr 2014/23/EB
  • TFEU (stofnsáttmáli ESB) gr. 49 og 56

Norska ríkisstjórnin svaraði snöfurmannlega rúmum mánuði síðar, bar svarið undir Stórþingið og fékk fullan stuðning þess.  Bréf orku- og iðnaðarráðuneytisins var vel ígrundað og stutt sannfærandi lagalegum rökum.  Niðurstaða þess var höfnun á þeim grundvelli, að ofangreindar tilskipanir og greinar stofnsáttmála ættu ekki við raforkuvinnslu og Norðmenn hefðu tekið það fram á sínum tíma, þegar þjónustutilskipunin var í burðarliðnum, að þeir teldu orkuvinnslu úr náttúruauðlindum Noregs alls ekki falla undir gildissvið hennar.   

Svona eiga sýslumenn að vera.  Það er eitthvað annað en klúðursleg vinnubrögð íslenzka Stjórnarráðsins í þessu máli.  Hvað skyldi valda því, að hér eru flækjufætur einar settar til verka og dagskipun ráðherra virðist vera að bukka sig og beygja fyrir Brüssel (einnig aðsetur ESA).  Þessu verður að linna, og það verður að draga línu í sandinn. Það er Sejersted-línan.  EES-samningurinn snertir ekki stjórnun auðlinda landsins. 

Í viðhengi er ítarlegri grein um þetta mál eftir pistilhöfund.  

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erla Magna Alexandersdóttir

HJÁ ÍSLENSKUM stjórnmálamönnum er allt í felum- og allt falt fyrir mútur.

 Þjóðin fær svo frettir af- löngu seinna að fullir aular seldu orkuna- landið og miðiðin.    við borgum og þegjum. 

Erla Magna Alexandersdóttir, 6.5.2020 kl. 21:11

2 Smámynd: Óskar Kristinsson

Takk fyrir þessar upplýsingar Bjarni, ómetanlegt að hafa möguleika á að filgjast með staðreinum mikilvægra mála.

Það kemur lítið af þeim í stóru miðlunum. Okkur vantar svona menn á þing eins og þig.

Kv Óskar

Óskar Kristinsson, 8.5.2020 kl. 12:07

3 Smámynd: Snorri Hansson

Ómetanlegar upplýsingar, kærar þakkir.

Snorri Hansson, 10.5.2020 kl. 01:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband