9.5.2020 | 18:08
Stefnubreyting hjá Landsvirkjun er þjóðhagsleg nauðsyn
COVID-19 umræðan yfirgnæfir annað nú um stundir. Með samstilltu átaki þjóðarinnar og ofboðslega kostnaðarsömu hefur sóttvarnaryfirvöldum og heilbrigðisstarfsfólki með Landsspítalann í broddi fylkingar tekizt ágætlega upp í baráttunni við vágestinn. Til marks um það er aðallega þetta:
Sýkingum fjölgaði mjög ört í upphafi faraldursins hérlendis, og fjöldi sýkinga sem hlutfall af mannfjölda hérlendis var um hríð sá hæsti í heimi, en fjöldi sýkinga á sólarhring sveigði mjög af uppleið vegna ráðstafana til að draga úr smithættu, svo að hámarksfjöldi sjúklinga (virkra smita af SARS-CoV-2) varð aldrei meiri en 1096. Það var 06.04.2020. Þá nam fjölgun smitaðra 76 og fjölgun sjúklinga 42. Þá nam fjöldi á sjúkrahúsum (af völdum C-19) 37, en sá fjöldi varð mestur 45, dagana 3. og 4. apríl, en nam aðeins 4,4 % af af fjölda sjúkra, og á gjörgæzlu varð fjlöldinn mestur 13, þann 7. apríl.
Af þessum tölum er ljóst, að ráðstafanir til fækkunar smitum hafa leitt til viðráðanlegs álags á heilbrigðiskerfið, og hlutfallslegur fjöldi sjúkra, sem þurfti innlögn, þegar mest mæddi á, var aðeins 4,4 %, sem er óvenjulág tala á heimsvísu. Hún er til vitnis um árangursríka stjórnun, þ.e. fylgzt var með sjúklingum í einangrun. Það var stjórnunarlegt snilldarbragð. Fjöldi látinna er líklega lægstur hér sem hlutfall af sýktum, eða innan við 0,6 %, og hann er aðeins 27 á milljón íbúa, sem er á meðal þess lægsta, sem þekkist. Nú er fyrsta bylgja þessa faraldurs afstaðin, þótt sjúklingar séu enn 18 talsins. Áhrif sóttvarnaaðgerðanna voru meiri en yfirvöldin reiknuðu með, en faraldurinn hér hefur fylgt vel kenningunni um 40 daga að toppi og 70 daga varanleika alls. Á meðan landið er enn "einangrað", er óþarft að hafa uppi íþyngjandi takmarkanir á starfsemi í samfélaginu. Staðfest smit í samfélaginu eru um 0,5 % af mannfjölda, sem er lægra hlutfall en búast mátti við. Raunveruleg smit gætu verið um 1 %, þannig að landsmenn verða viðkvæmir fyrir næstu bylgju sýkinga, komi hún á undan almennri bólusetningu. Ekkert hjarðónæmi hefur myndazt. Það er afleiðing mótvægisaðgerðanna. Á tímabili faraldursins á Íslandi hefur dauðsföllum fækkað m.v. meðaltal 2017-2019. Þannig er það sjaldnast, og sum lönd, einnig í Evrópu, hafa orðið hrottalega illa úti í faraldrinum. Þar hafa heilbrigðiskerfin farið á hliðina. Það vildi enginn sjá þá stöðu uppi hér.
Sársaukafyllstu afleiðingar þessa veirufaraldurs á Íslandi verða á efnahagssviðinu, og þær verða langvinnar. Aðallega stafar þetta af ósamræmdum ákvörðunum einstakra þjóða um lokun flugvalla fyrir farþegaflug. Íslendingar verða fyrir sérlega hörðum skelli af þessum sökum, þar sem landið heimsóttu meira en 5 erlendir ferðamenn á hvern íbúa landsins á ári, en leitun er að svo háu eða hærra hlutfalli í heiminum, þótt þau dæmi finnist.
Það er vandasamt að setja réttar hömlur á þjóðfélög á réttum tíma, en það er ekki síður vandasamt að aflétta þeim til að lágmarka byrðar samfélagsins. Þá má hafa hliðsjón af niðurstöðu stærðfræðingsins í Ísrael, Isaac Ben-Israel, sem samkvæmt "Times of Israel" 14. apríl 2020 komst að því, að COVID-19 fjaraði út eftir 70 daga frá fyrsta staðfesta smiti. Það þýðir, að leyfa ætti atvinnustarfsemi hérlendis að hefja venjulegan rekstur að viðhafðri almennri smitgát (um hreinlæti og snertingu), þegar eftir v.19 2020, sem endar 9. maí 2020. Hópsamkomur þarf þó áfram að banna, þar til engin smit hafa greinzt á landinu í a.m.k. 2 vikur.
Efnahag landsmanna ríður á að önnur starfsemi en ferðaþjónusta, sérstaklega gjaldeyrisskapandi eða gjaldeyrissparandi starfsemi, geti gengið á þeim afköstum, sem markaðurinn leyfir. Það er líklegt, að fiskmarkaðirnir taki fljótlega við sér, þegar lífið færist í samt horf, og vonandi taka álmarkaðir við sér, þegar bílaverksmiðjurnar og byggingariðnaðurinn fara í gang aftur. Það er veik von um, að Kínverjarnir hrúgi ekki sinni niðurgreiddu framleiðslu inn á markaðinn, og e.t.v. verður nú tekið fyrir það.
Jónas Elíasson, prófessor, reit merka grein í Morgunblaðið 14. apríl 2020 um heimatilbúinn vanda álvinnslunnar á Íslandi, sem gert hefur illt verra:
"Raforkuvinnsla á Íslandi: Aftur á byrjunarreit ?"
Þar gat m.a. á að líta eftirfarandi:
"Íslendingar báru til þess gæfu að setja í forystu þessa verks afburðamann, Jóhannes Nordal, seðlabankastjóra, sem stjórnaði aðgerðum úr stóli formanns stjórnar Landsvirkjunar. Hann markaði stefnu uppbyggingarinnar að öðrum ólöstuðum, sem líka lögðu hönd á plóginn. Sú stefna markar reit nr 1 í nútímavæðingu raforkukerfis Íslands."
Sú stefna að beita stórsölu raforku til langs tíma (45 ára með endurskoðunarákvæðum) til að fjármagna stórvirkjanir á íslenzkan mælikvarða, sem sæju viðsemjandanum, öðrum iðnaði, öllum atvinnugreinum um allt land ásamt heimilunum, fyrir ódýru rafmagni, var mörkuð af Viðreisnarstjórninni og líklega öðrum framar dr Bjarna Benediktssyni, iðnaðarráðherra og síðar forsætisráðherra, og Jóhanni Hafstein, iðnaðarráðherra og síðar forsætisráðherra. Þessir menn fengu dr Jóhannes til að gegna stöðu formanns samninganefndar um stóriðju, sem náði að brjóta ísinn í samskiptum við erlenda fjárfesta og gera samning við svissneska álfélagið, Alusuisse, um raforkukaup til ISAL í Straumsvík, sem stofnað var 1966, ári á eftir Landsvirkjun. Dr Jóhannes náði vissulega góðu sambandi við Svisslendingana, sem treystu honum, og það hafði úrslitaþýðingu um, að samningar tókust.
"Það, sem öðru fremur skipti sköpum, var sú ákvörðun að selja rafmagnið á rúmu kostnaðarverði gegn tryggum greiðslum í formi kaupskyldu. Þetta losaði Ísland nánast algerlega undan allri áhættu, en takmarkaði gróðann um leið. Í þessu skjóli hafa nánast engin vandamál komið upp, gagnrýnisraddir þagnað, nema hjá einstaka furðufuglum, og eignauppbygging í raforkukerfinu verið ótrúlega hröð.
Þessi stefna á sér rætur í New Deal stefnu F.D. Roosevelt, forseta BNA. Svo hefur raforkuverðið hækkað með tímanum og endurnýjun samninga. Stóriðjan hefur reynzt [vera] ágætur viðskiptavinur, og allir fordómar um stórfellda eitrun umhverfis og yfirvofandi fjárhagstap, jafnvel gjaldþrot, löngu dottnir fyrir borð."
Það var ekki uppfinning dr Jóhannesar í "stóriðjunefndinni" að selja Svisslendingunum rafmagnið "á rúmu kostnaðarverði". Þetta var þá alsiða, einnig í Evrópu, og t.d. vel þekkt frá Frakklandi og Noregi. "Stóriðjunefnd" dr Jóhannesar náði einfaldlega hagstæðustu samningum, sem þá stóðu Íslendingum til boða. Íslendingar voru óskrifað blað á meðal iðnjöfra þess tíma, og slíkt er stór óvissuþáttur, sem virkaði til lækkunar rafmagnsverðs miðað við markaðsverð til álvera á sinni tíð, t.d. í Noregi. Íslenzka raforkukerfið var á þessum tíma vanþróað, og það voru efasemdir um, að Íslendingar gætu veitt rafmagninu nægt afhendingaröryggi m.v. þarfir álvers. Það var þá einsdæmi í Evrópu, að treysta þyrfti á eina flutningslínu 100-200 km leið fyrir heilt álver í storma- og ísingasömu landi, enda kom fljótlega að því, að Búrfellslína 1 slitnaði (á hafinu yfir Hvíta í ísingarveðri) með þeim afleiðingum, að nokkurra sólarhringa framleiðslustöðvun varð í Straumsvík og mörg ker voru "svæfð" (ekki þó svefninum langa), en nokkur töpuðust (frusu).
Ofan á línuvandræðin bættist svo innrennslistregða Búrfellsvirkjunar vegna ísingar við inntaksmannvirkin. Mikið svartagallsraus hafði farið fram um þetta vandamál, sem reyndist samt ekki jafnalvarlegt fyrir rekstur virkjunarinnar og svartsýnir höfðu spáð, enda náðu starfsmenn Landsvirkjunar smám saman undirtökunum í viðureigninni við þetta viðfangsefni. Þegar Íslendingar höfðu náð tökum á þeim byrjunarörðugleikum, sem hér hafa verið tíundaðir, skapaðist grundvöllur til að leita hófanna um að hækka raforkuverðið, enda hafði heimsmarkaðsverð hækkað mikið í fyrstu olíukreppunni 1973.
"Stjórn Landsvirkjunar hefur lýst því yfir, að markmið þeirra [hennar] sé að auka verðmæti auðlindarinnar. Þetta er illframkvæmanleg[t], nema hækka rafmagnið, en sú stefna er þvert á tilganginn með stofnun Landsvirkjunar, sem var að tryggja raforku á sem lægstu verði til almennings og iðnaðar. Þetta hefur tekizt, þó [að] ekki hafi verið eins langt gengið og hjá FDR á sínum tíma, sem nánast gaf rafmagnið, en fékk í staðinn skattana af gríðarlegri iðnaðaruppbyggingu, sem reif Ameríku upp úr kreppu þriðja áratugarins á undraverðum hraða."
Hér er komið að aðalásteytingarsteininum núna varðandi Landsvirkjun. Árið 2010 setti "fyrsta tæra vinstri stjórnin" til valda í Landsvirkjun nýtt fólk, sem kúventi upphaflegri og þágildandi stefnu Landsvirkjunar og aðlagaði hana að gildandi orkulöggjöf landsins, sem mótaðist af orkulöggjöf Evrópusambandsins (ESB), s.k. orkupökkum 1 og 2, sem miða að einkavæðingu orkuvinnsluhluta raforkukerfisins, og að hvert fyrirtæki innan hans eigi að miða alla sína starfsemi við að hámarka hagnað sinn án tillits til annarra hagsmuna, s.s. atvinnuþróunar og hámörkunar verðmætasköpunar í landinu.
Þessi stefna er sniðin við frjálsan orkumarkað, þar sem frjáls samkeppni margra fyrirtækja ríkir um viðskiptavinina, og samkeppnin heldur þá verðlagi orkunnar í skefjum til hagsbóta fyrir neytendur, en bezt reknu orkufyrirtækin ná að auka markaðshlutdeild sína og fjárfesta í nýjum orkuverum. Ef þetta markaðskerfi er hins vegar innleitt í einokunarumhverfi, eins og íslenzki raforkumarkaðurinn er í raun og veru á sviði stórsölu raforku og að miklu leyti á öllum heildsölumarkaði raforku, þá losnar fjandinn úr grindum. Það er einmitt það, sem hefur gerzt á Íslandi, með voveiflegum afleiðingum fyrir atvinnulífið og þar með heimilin í landinu.
Reynslan hérlendis hefur sýnt, að ávöxtun arðs af orkulindunum er ekki bezt komin hjá Landsvirkjun, heldur hjá almenningi, rafmagnsnotendum, atvinnulífi og heimilum, með því að halda rafmagnsverði í landinu samkeppnishæfu, þ.e. lægra en yfirleitt er annars staðar í boði, óniðurgreitt þó, og standandi vel undir meðalkostnaði Landsvirkjunar, jafnvel að næstu virkjun meðtalinni.
"Nú stefnir í, að Rio Tinto vilji loka Ísal [ISAL]. En það er bara byrjunin, hin álverin sitja í sömu súpunni, þó [að] minna heyrist frá þeim. Þau geta líka tekið ákvörðun um að loka, þó [að] þau hjari e.t.v. út kaupskyldutímann. Taki þau slíka ákvörðun, verður öll viðhaldsvinna lágmörkuð, og menn fara frá útkeyrðum, verðlausum iðjuverum. Eftir sitja Íslendingar með gríðarlega verðmætar orkulindir, en enga kaupendur og engar tekjur.
Við verðum aftur komin á reit nr 1, árið 1969. Er þetta stefnan að klára núverandi samninga og hætta svo ? Hvernig er öðruvísi hægt að skilja skæting frá Landsvirkjun um arðgreiðslur og kjarasamninga hjá Ísal; mál, sem henni kemur ekkert við ? Er það stefnan að hækka rafmagnið fram í rauðan dauðann ? Sitja út samningstímann, [á] meðan kaupskyldan varir, og fara svo ánægðir á eftirlaun ?"
Þetta er hárrétt athugað hjá Jónasi. Mesti viðhaldskostnaður álvers er fólginn í endurfóðrun kera. Sú starfsemi hefur verið aflögð í Straumsvík. Með fækkandi rafgreiningarkerum í rekstri minnkar rafmagnsnotkunin vikulega og framleiðslan og þar með raforkunotkunin.
ISAL verður ekki einsdæmi, heldur kanarífuglinn í námunni, fyrsta fórnarlambið, af því að Straumsvíkurverksmiðjan er elzt, og þar var orkusamningurinn útrunninn og þarfnaðist endurnýjunar fyrst. Iðnaðarráðherrann og ríkisstjórnin ásamt Alþingi verða að gera sér grein fyrir þeirri háskalegu þróun, sem nú á sér stað yfir hausamótunum á þeim. Núverandi stefna Landsvirkjunar mun leiða til þess, að hún stendur yfir höfuðsvörðum allra orkusæknu fyrirtækjanna í landinu. Er það virkilega þróun, sem Íslendingar þurfa á að halda, að hefjist nú, þegar umsvifamesta atvinnugrein landsins er í rúst og mun fyrirsjáanlega ekki ná vopnum sínum á næstunni ?
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt 10.5.2020 kl. 17:42 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.