12.5.2020 | 13:15
Margt riðar til falls og víða
Samkvæmt AGS (Alþjóða gjaldeyrissjóðnum), sem við höfum ekki enn þurft aftur að segja okkur til sveitar hjá, og losnum vonandi við að þessu sinni, verður enginn hagvöxtur í Asíu sem heild á árinu 2020 í fyrsta skipti í 60 ár. Þetta sýnir grafalvarlegt efnahagsástand í kjölfar Wuhan-veirunnar, SARS-CoV-2, og veitir smjörþefinn af því, sem koma skal, því að þessi veira er aðeins ein af nokkrum, sem komið hafa fram frá síðustu aldamótum í Kína, Afríku og í Mið-Austurlöndum.
Mannkynið slapp fyrir horn með SARS, MERS og ebóluna. Ef SARS og MERS hefðu verið meira smitandi, hefðu þær getað dreifzt um heim allan. Ebóla var bráðsmitandi, og um 60 % sýktra lézt af hennar völdum, en með stórkostlegu átaki tókst að kveða hana niður á þeim svæðum Afríku, þar sem hún herjaði. Af þeim dæmum, sem hér hafa verið nefnd, má leiða líkum að því, að veirufaraldrar verði alvarlegasti vágestur heimsbyggðarinnar á næstu áratugum, og auðvitað hverfur þá losun CO2 í skuggann, enda munu breyttir lifnaðarhættir í kjölfar COVID-19 líklega leiða að einhverju leyti til minni losunar. Aukin áherzla á sjálfbærni samfélaga og "sjálfsþurftarbúskap" með lífsnauðsynjar (minni flutningar) kann að verða eitt af einkennum næstu ára.
Þótt smit Wuhan-veirunnar virðist af fréttum frá Kína að dæma aðallega hafa verið í héraðinu, þar sem Wuhan er aðalborgin, virðast Kínverjar hafa tekið smithættuna föstum tökum á öllum helztu framleiðslu- og viðskiptasvæðum Kína. Til marks um það er bæði árangur þeirra við að hefta útbreiðslu veirunnar og, að í fyrsta skipti frá upphafi skráninga á hagvexti í Kína 1992, skrapp verg landsframleiðsla þeirra saman á fyrsta ársfjórðungi 2020. Þetta er gríðarlegt efnahagshögg, því að hún hefur oftast numið 6 %-12 % á ári frá 1992. Hún minnkaði um 6,8 % á fyrsta ársfjórðungi m.v. sama tíma árið áður, en þá jókst hún um 6,0 %.
Bretar fara mjög illa út úr þessum veirufaraldri. Þeir reyndust óviðbúnir og brugðust seint við. Spáð er 35 % samdrætti landsframleiðslu þeirra í júní 2020. Hagkerfi þeirra er mjög þjónustudrifið. Þjóðverjar virðast munu fara út úr COVID-19 viðureigninni með minna tapi en Bretar, enda voru þeir betur undirbúnir ("alles muss ganz gut vorbereitet sein" er enda viðkvæði þeirra). Smit hjá þeim eru færri en hjá öðrum meginþjóðum Evrópu, og dauðsföll í Þýzkalandi af völdum COVID-19 eru tiltölulega fá. Undirbúningur, skipulag og þjálfun borgar sig, en mestu skiptir þolgæði og seigla í allri baráttu.
Launagreiðslur til stórs hluta atvinnulífs á Vesturlöndum eru nú á höndum ríkisins, á sama tíma og tekjur hins opinbera dragast stórlega saman. Í ESB hefur triEUR 3 (trilljón = 1000 milljarðar) verið veitt til atvinnulífsins og í BNA var í marzlok samþykkt að veita triUSD 2 til stuðnings atvinnulífinu. Þar hefur æðsti maður landsins ekki veitt landslýðnum gagnlega leiðsögn, og stundum hefur slegið svo alvarlega út í fyrir honum, að margir hljóta að efast um, að hann verðskuldi endurkjör í ár, þótt hinn öldungurinn í framboði sé ekki mikið gæfulegri, og þó. Hann sætir nú ásökun fyrir kynferðislega áreitni fyrir löngu.
Hér á þessu vefsetri var í einni vefgrein vitnað til Morgunblaðsgreinar Ragnars Árnasonar 21. apríl 2020:
"Covid-kreppan: Mesta efnahagshögg í heila öld",
og verður nú gripið niður í síðari hluta greinarinnar:
"Stóra spurningin er, hvernig við sem þjóð bregðumst við þessari vondu stöðu. Ef brugðizt er við af skynsemi og fyrirhyggju, er unnt að lágmarka tjónið, sérstaklega þegar til lengri tíma er litið. Sé hins vegar ranglega við brugðizt og rasað um ráð fram, er hætta á, að þetta upphaflega efnahagsáfall leiði til langvarandi uppdráttarsýki í þjóðarbúskapnum. Hvað þetta snertir, er rétt að hafa hugfast, að framleiðslugeta þjóðarinnar hefur ekki minnkað. Efnahagskreppan nú stafar stafar annars vegar af minni eftirspurn erlendis og hins vegar þeim takmörkunum, sem við höfum sjálf sett á atvinnulífið innanlands til að draga úr áhrifum Covid-veirunnar. Þjóðarframleiðslan getur því frá tæknilegu sjónarmiði vaxið aftur hratt og vel. Hvort hún gerir það, fer eftir því, hvernig tekið verður á vandanum."
Þetta er satt og rétt, svo langt sem það nær, og þarfnast nokkurrar útlistunar lesandans til að tengja við raunstöðuna. Í fyrsta lagi hefur COVID-19 hjaðnað hraðar hérlendis en sóttvarnaryfirvöld áttu von á. Landlæknir boðaði það nálægt toppi faraldursins (hámarksfjölda sjúklinga), að farsóttin myndi láta hægar undan síga en hún sótti á. Það var ekki rökstutt sérstaklega, en spekin reyndist vera ættuð frá WHO-Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni. Þarna vanmátu sóttvarnaryfirvöld áhrifamátt eigin ákvarðana og fyrirmæla, en Íslendingar virðast hafa fylgt þessum fyrirmælum út í æsar, þó sjálfsagt með einstaka undantekningum. Þetta hefur komið mörgum landsmönnum þægilega á óvart, en sams konar sögu er að segja af Grikkjum, sem ekki hafa verið þekktir af yfirþyrmandi hlýðni við yfirvöld sín.
Í byrjun 2020 ber ekki á öðru en búið sé að uppræta smit, þótt talsverður fjöldi sé enn í sóttkví, og þá verða yfirvöld auðvitað að endurskoða fyrri áform sín og flýta afléttingu kvaða á hegðun fólks og starfsemi fyrirtækja og stofnana. Það er t.d. óþarflega íþyngjandi að miða samkomubann við 50 eftir 4. maí 2020, og sjálfsagt að opna sundstaði sem fyrst til heilsueflingar. Nær væri að miða við t.d. 500, og þegar ekkert smit hefur greinzt í 2 vikur, ætti hreinlega að aflétta öllum hömlum af starfsemi í landinu. Áfram munu auðvitað flutningar fólks á milli landa verða háðir sóttkví um sinn, en tvíhliða samningar um óhefta flutninga kunna að verða gerðir á milli þjóða, sem treysta sér til þess. Þó er líklegt, að við verðum í aðalatriðum að fylgja ákvörðunum Schengen-samningsins.
Gríðarlegt fé streymir úr ríkissjóði til ferðaþjónustunnar, eins og hún var í febrúar 2020. Þessi ferðaþjónusta var í stakk búin til að taka við 2,0 M ferðamanna á ári hið minnsta. Það er algerlega útilokað, að svo margir erlendir ferðamenn leggi leið sína til landsins á þessu ári, og afar ólíklegt á árinu 2021. Það er ekki sennilegt, að slíkt geti orðið fyrr en í fyrsta lagi 2023, og þá sitjum við uppi með ofvaxinn ferðamannageira í 4 ár í höndum ríkisins. Það gengur auðvitað ekki. Þegar reiðarslag af þessu tagi ríður yfir þjóðfélagið og af mestum þunga yfir eina atvinnugrein, er óhjákvæmilegt, að sársaukafullar breytingar og endurskipulagning eigi sér stað. Það hefur í för með sér minnstar almannafórnir að horfast í augu við líklegustu sviðsmyndina strax, en gæla ekki lengur við snögga endurræsingu á öllum vélunum, og að rándýr auglýsingaherferð stjórnvalda og greinarinnar muni valda kraftaverki á viðhorfum væntanlegra ferðamanna.
Prófessor emeritus í hagfræði, Ragnar Árnason, varaði reyndar við þessu sama í næstu undirgrein, þar sem hann skrifaði:
"Mikilvægt er að átta sig á því, að hið opinbera, þ.e. ríki og sveitarfélög, getur ekki verið hjálpræði í þessari stöðu."
Á öðrum Vesturlöndum eru þó uppi hafðir miklir tilburðir af hálfu ríkisvaldsins til að dæla fé í atvinnulífið "til að viðhalda ráðningarsambandi" á milli vinnuveitanda og launþega. Forsendan er þó væntanlega oftast sú, að þörf verði á lítt breyttri afkastagetu viðkomandi atvinnugreinar, eftir að ósköpin eru um garð gengin. Þeim fækkar táknum á lofti um það, að slíkt geti átt við um spurn erlendra ferðamanna eftir þjónustu á Íslandi. Stóra spurningin í þessu viðfangsefni er þó, hvernig þróun millilandaflugsins verður, svo að úr afar vöndu er að ráða fyrir stjórnvöld.
Það kom þess vegna eins og skrattinn úr sauðarleggnum, þegar haft var eftir formanni Framsóknarflokksins, Sigurði Inga Jóhannssyni, að Icelandair yrði að bjarga sér sjálft. Þetta félag er þó eins konar grunnstoð íslenzkrar ferðaþjónustu, þannig að fjárstuðningur og ábyrgðir ríkisins til annarra ferðaþjónustufélaga virðast verða unnin fyrir gýg, ef Icelandair getur svo bara étið, það sem úti frýs. Þarna hlýtur eitthvað að fara á milli mála.
Í lokin reit Ragnar:
"Þjóðin á einn sjóð raunverulegra verðmæta. Það er gjaldeyrisvarasjóðurinn. Í honum liggur mjög há upphæð, nálægt mrdISK 800, á litlum sem engum vöxtum. Sjálfsagt virðist að nota hluta þessa sjóðs til að brúa óhjákvæmilegan gjaldeyrishalla vegna kreppunnar og koma þar með í veg fyrir enn frekari gengislækkun krónunnar og verulega verðbólgu í framhaldinu."
Taka skal undir þetta. Tímabundinn halli á viðskiptum við útlönd virðist nú valda allt of hröðu gengissigi fyrir kaupmáttinn innanlands. Viðsnúningur virðist reyndar orðinn. Kaupgetan er verulega skert nú hjá þorra fólks vegna tekjumissis, og ef ekki á að láta gjaldeyrisvarasjóðinn halda genginu í skefjum núna, t.d. við 10 % sig frá febrúarlokum 2020, hvenær á þá eiginlega að nota hann almenningi til hagsbóta ?
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Fjármál, Kjaramál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.