Rotið samstarf

Hvað á að kalla "samstarf", þar sem aðili A tekur við löggjöf frá aðila B gegn réttindum og skyldum til "fjórfrelsisins" hjá B (ESB), en land innan A (EFTA-stoðar EES) ákveður einhliða og án nokkurs samráðs að virða að vettugi úrskurði þess aðila, EFTA-dómstólsins, sem á að úrskurða í deilumálum um framkvæmd EES-samningsins ?  Hvað er eiginlega til rotið í fjölþjóðlegu "samstarfi", ef þetta fyrirkomulag verðskuldar ekki þá einkunn ?

Ofan af þessu fletti Carl I. Baudenbacher (CIB), fyrrverandi dómari við EFTA-dómstólinn og mjög áhrifamikill þar um langa hríð, í Morgunblaðsgrein 23. apríl 2020, "EES í kreppu",

sem byrjað var á að fjalla um í síðasta vefpistli, og nú verður tilvitnunum og umfjöllun haldið áfram.  Málið snýst um RFM (Room For Manoeuvre) eða "handlingsrom" á norsku, sem þó sér hvergi stað í EES-samninginum sjálfum, en Norðmenn tala um sem eins konar fullveldisrétt ríkisins í þessu undarlega EES-samstarfi, sem hinar þjóðirnar hafa ekki tileinkað sér, enda skrifar CIB, að þetta komizt Norðmenn upp með í krafti mikilla fjárframlaga sinna í sjóði ESB.

CIB gerir hér grein fyrir RFM:

  "Við Háskólann í Ósló, þar sem kennsla og rannsóknir eru að mestu í höndum fólks, sem tengist RFM-stefnunni, hefur meira að segja verið mælzt til virkrar andstöðu við EES-rétt, sem er talinn utanaðkomandi, og við stofnanir EFTA-stoðarinnar, Eftirlitsstofnun EFTA [ESA] og EFTA-dómstólinn. Í kennslubók, sem var skyldulesning í mörg ár, var kallað eftir því, að EFTA-dómstóllinn yrði lagður niður og í stað hans kæmi eins konar gerðardómur, þar sem dómarar frá ríkjunum skiptust á um að taka sæti í dómi. Hinn öflugi rannsóknarstyrkur þýzka orkurisans Ruhrgas féll einnig í hendur andstæðinga EES í Ósló.  Í útgefnum ritum á vegum rannsóknarstyrksins var eftir mætti reynt að halda EES-rétti eins langt frá norskum rétti og mögulegt var.  Árið 2018 var birt á vegum Ruhrgas-samstarfsins gríðarmikið skýringarrit um EES-rétt.  Pólitísk úrslitaatriði á borð við grundvallarréttindi, einsleitni, gagnkvæmni og tengsl á milli EFTA-dómstólsins og Dómstóls Evrópusambandsins, voru sett í hendur þekktra aðildarmanna RFM-stefnunnar.  Skýringarriti[nu] og ritstjór[um] þess, sem allir eru RFM-fólk, er grímulaust beint að norskum lesendahópi, en gegn ritum, þar sem öðru er haldið fram.  Á Íslandi og í Liechtenstein hefur miklu meira verið lagt af mörkum til þróunar EES-réttar með mun minni tilkostnaði."

  Í ljósi þessarar sérgæzku Norðmanna, sem hér er flett ofan af, er alveg sérstaklega ógeðfelld framkoma norskra stjórnvalda, t.d. utanríkisráðherrans Eriksens, sem lögðu sig í líma við að sannfæra Íslendinga og íslenzk stjórnvöld um mikilvægi þess fyrir eininguna og eindrægnina innan EES, að Alþingi felldi sem fyrst á brott stjórnskipulega fyrirvara við samþykki Sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 5. maí 2017 um innleiðingu Orkupakka #3 í íslenzka löggjöf. Tvískinningurinn og stórveldistilburðirnir ríða röftum.

Síðan rekur CIB s.k. NAV-hneyksli:

"Í lok október 2019 kom í ljós, að Atvinnumála- og velferðarstofnun Noregs (NAV) hafði frá upphafi mistúlkað EES-reglur um ferðafrelsi. Gert var að skilyrði fyrir greiðslum frá stofnuninni, að þiggjendur þeirra væru staddir á norskri grund.  Þeir, sem höfðu ferðazt til útlanda án leyfis voru saksóttir og margir saklausir dæmdir í fangelsi.  Jafnvel Hæstiréttur Noregs varð sér til skammar með því að staðfesta ranga dóma á lægri dómstigum.  Þegar þetta hneyksli varð og almenningur brást ókvæða við, grétu andstæðingar EES innan stjórnkerfisins og háskólanna krókódílatárum og kvörtuðu sáran undan skorti á grundvallarþekkingu á EES-rétti innan stjórnkerfisins og dómstólanna. Sumir þeirra voru hinir sömu og höfðu áður hrósað Hæstarétti Noregs fyrir "fullveldistilburði", þegar hann braut gegn EES-rétti með því að neita að fylgja niðurstöðum EFTA-dómstólsins.  Sömu einstaklingar höfðu einnig tryggt, að embættismenn og dómarar fengju ekki fullnægjandi þjálfun í EES-rétti.  Að mati greinarhöfundar verður að skoða NAV-hneykslið í samhengi við almenna stórveldistilburði norskra ríkisstarfsmanna og einkum RFM-stefnunnar."

    Innan norska stjórnkerfisins eru sem sagt við lýði stórveldistilburðir, og er RFM-stefnan innan EES angi af þeim.  Við Íslendingar höfum orðið fórnarlömb þessara stórveldistilburða innan Sameiginlegu EES-nefndarinnar, þar sem Norðmenn marka stefnu EFTA-landanna og íslenzku fulltrúarnir eru eins og mýs undir fjalarketti.  Í Orkupakka #3 (OP#3) málinu fór fram heilaþvottur af hálfu Norðmanna, þar sem íslenzka stjórnkerfinu var talin trú um, að OP#3 skipti Íslendinga engu máli, en innleiðing hans væri Norðmönnum gríðarlegt hagsmunamál.  Hvort tveggja var rangt, eins og rækilega var bent á bæði hérlendis og í Noregi, þar sem andstæðingar OP#3 voru fjölmargir og sennilega í meirihluta á meðal þjóðarinnar, þótt "elítan" styddi innleiðingu OP#3, og sú afstaða endurspeglaðist á Stórþinginu, eins og vant er. 

Nú fjarar hins vegar undan þessum undarlega EES-samningi í Noregi.  Grein Carls I. Baudenbachers (CIB) er nagli í líkkistu EES.  Norðmenn vinna nú að gerð víðtæks fríverzlunarsamnings við Breta, og sú spurning verður æ ágengari í Noregi, hvers vegna ekki má gera slíkan samning líka við ESB, og losna  þannig  við allt EES-moðverkið og þann "monkey business", sem viðgengst innan EES og er norskri alþýðu mjög á móti skapi, því að hún ber í brjósti sér ríka réttlætiskennd, eins og sú íslenzka.

Síðan kemur trúverðug skýring á því, hvernig Norðmenn hafa komizt upp með þetta framferði gagnvart ESB og hinum EFTA-löndunum.  Enginn veggur er svo hár, að asni, klyfjaður gulli, komist ekki yfir hann."

 "Að mati greinarhöfundar hafa Norðmenn hingað til komizt upp með RFM-stefnu sína, sem er framkvæmd grímulaust og af ákafa, vegna þess að Noregur er ekki aðeins öflugt ríki, heldur borgar það líka brúsann.  Á tímabilinu 2014-2021 hefur norska ríkið skuldbundið sig til að leggja mrdEUR 2,8 af mörkum til verkefna Evrópusambandsins, eða 97,7 % af öllu fjármagni frá EES.  Þetta er líklega ástæða þess, að ESB hefur hingað til haldið sig til hlés.  Sú staðreynd, að framkvæmdastjórn ESB hefur aldrei rætt neitun Noregs í Sameiginlegu EES-nefndinni um að koma á fót hæfnisnefnd til að meta umsækjendur um dómaraembætti við EFTA-dómstólinn, verður aðeins skýrð í þessu ljósi.  

Þegar  mesti æsingurinn yfir NAV-hneykslinu var um garð genginn, fóru stjórnmál og stjórnsýsla í Noregi skjótt aftur í fyrri farveg.  Loforð Ernu Solberg, forsætisráðherra, um að afhjúpa öll mistök varðandi EES-rétt, og þá ekki aðeins í tengslum við NAV-hneykslið, reyndust orðin tóm.  Ríkisstjórnin setti á laggirnar 7 manna nefnd til að rannsaka NAV-hneykslið, undir forystu Finn Arnesen, sem er líklega næstmikilvægasti fulltrúi RFM-stefnunnar.  Í nefndinni er annar áberandi talsmaður RFM-stefnunnar, lögmaðurinn dr Karin Flöistad.  Þannig er ljóst, að margir norskir lögfræðingar, jafnvel þeir, sem eru vel þekktir, skilja ekki hugtökin hagsmunaárekstur og hlutdrægni [vanhæfi-innsk. BJo].  Svo lengi sem (ætlaðir) hagsmunir ríkisins eru í húfi, eru nánast öll meðul réttlætanleg.  Umboð nefndarinnar er takmarkað við NAV-málið, og enn er óvíst, hvort hún hefur styrk til að varpa ljósi á ástæður þess hörmungarmáls og þátt ríkislögmannsins í því."

Hér er flengjandi gagnrýni hámenntaðs lögfræðings í Evrópurétti á norska lögmannastétt.  Sumt, eins og að skella skollaeyrum við meintu vanhæfi, er þekkt úr íslenzku lögmannaumhverfi, en íslenzkir lögmenn virðast aldrei í þessu dæmalausa EES-lagaumhverfi hafa haft uppi nokkra "fullveldistilburði", hvað þá að hafa áskilið sér "aðgerðasvigrúm" til varnar hagsmunum íslenzka ríkisins. (Undantekning er skýrsla tveggja lögfræðinga um OP#3, sem bentu á, að hann stangaðist líklega á við Stjórnarskrána.) Þessi mikli munur er sláandi.  Íslenzkir lögmenn og dómarar virðast hafa talið skyldu sína að fylgja EES-samninginum, sem veitir Evrópurétti forgang á íslenzkan rétt, þar sem þessi réttarkerfi stangast á.  Í krafti mikilmennsku og fjárhagsstyrks hefur norsk lögmannastétt og dómarar tekið allt annan pól í hæðina og hundsað erkibiskups boðskap.  Þetta skapar Íslendingum óþolandi misrétti.  Þeir eiga aldrei að sætta sig við einhvers konar hjálenduhlutverk.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Svona ´´samstarf´´ væri kallað kynferðisleg áreitni í mítúinu, eða jafnvel nauðgun.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 20.5.2020 kl. 00:11

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þetta "samstarf" minnir á hlutskipti hjáleigunnar í viðskiptum við höfuðbólið, enda var þessu sambandi aldrei ætlað að endast.  EES var hannað fyrir EFTA sem aðlögun í biðsal væntanlegra aðildarríkja ESB.

Bjarni Jónsson, 20.5.2020 kl. 10:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband