21.5.2020 | 17:47
"Aðgerða er þörf"
Hér hefur í síðustu tveimur vefpistlum verið gerð grein fyrir afhjúpunum Carls I. Baudenbachers (CIB) í Morgunblaðinu 23. apríl 2020 undir fyrirsögninni "EES í kreppu". Þar afhjúpaði hann rotna starfshætti EES síðan 2008, þegar norska embættiskerfið, og sérstaklega handhafar dómsvaldsins, mótuðu sér "aðgerðasvigrúm" innan EES í krafti fjármagns, sem tryggja skyldi hagsmuni norska ríkisins, hvað sem tautaði og raulaði innan ESA og EFTA-dómstólsins. Innan Sameiginlegu EES nefndarinnar og á undirbúningsstigum innan ESB hafa Norðmenn verið duglegir við að koma ár sinni fyrir borð og sínum sjónarmiðum að. Sé ekki tekið tillit til sjónarmiða þeirra við mótun tilskipana og reglugerða ESB, vísa þeir síðar í athugasendir sínar og telja sig þar með óbundna af gerðum ESB. Svona eiga sýslumenn að vera, en gallinn er sá, að það gengur ekki eitt yfir öll EFTA-löndin í EES-samstarfinu í þessu sambandi. Það felur í sér gríðarlegt misræmi og beinlínis misrétti, sem ekki verður við unað. Að aflokinni gerð fríverzlunarsamnings við Breta, þurfa Íslendingar að losa sig af klafa EES. Ef EFTA vill ekki gera fríverzlunarsamning við ESB, verður íslenzka utanríkisþjónustan að hefja þá vinnu. Ákjósanlegast væri, að öll 4 EFTA-ríkin stæðu að slíkum samningi undir fána EFTA, því að aðild Svisslendinga myndi styrkja samningsstöðu EFTA.
Hvað skrifaði CIB í lok Morgunblaðsgreinar sinnar. Millifyrirsögnin var:
"Aðgerða er þörf":
"RFM-stefna Noregs [um "aðgerðasvigrúm norska ríkisins"], sem er mesta ógnin við, að EES virki sem skyldi, stangast á við hagsmuni Íslands (og Liechtenstein). Eins og segir í þekktu orðatiltæki, opnar maðurinn frá Hamborg regnhlíf sína, þegar það byrjar að rigna í London. Íslendingar verða því að gæta sín, ef Noregur lendir í krísu gagnvart EES. Það er hafið yfir vafa, að norska RFM-stefnan er ósamrýmanleg grundvallarreglum EES-réttar - sem eru einsleitni, gagnkvæmni, tryggð og meðalhóf. Þess vegna verður að hverfa frá þessari stefnu.
Sú spurning vaknar hins vegar einnig, hvort Eftirlitsstofnun EFTA og EFTA-dómstóllinn séu nægilega öflug til að gegna því hlutverki, sem þeim er ætlað samkvæmt EES-samningnum. Fyrrverandi forseti Eftirlitsstofnunarinnar, Sven Svedman, hefur réttilega sagt, að þar sem hvert aðildarríki hafi 3 fulltrúa, séu Eftirlitsstofnunin og EFTA-dómstóllinn ekki veikburða, þótt stofnanirnar séu viðkvæmar. Að mati greinarhöfundar ætti hver stofnun að hafa 5 fastafulltrúa, og þar af komi nýir 2 óháðir fulltrúar frá löndum utan EES/EFTA-ríkjanna."
CIB vill þurrka út sem mest af sérkennum og sérhugmyndum frá EFTA-ríkjunum, þannig að þau verði sem mest að haga sér sem ESB-ríki. Þetta sýnir ofangreind tillaga hans. Þá er ekki nóg fyrir CIB að tilfæra manninn í Hamborg til sönnunar því, að "aðgerðasvigrúmsstefna" norskra stjórnvalda sé andstæð hagsmunum hinna EFTA-landanna. Þegar þau hins vegar hvorugt reka slíka stefnu, er komið upp mikið misræmi innan EES, og löndin verða þá ójafnsett gagnvart Evrópuréttinum. Þegar þetta er látið viðgangast, má jafnvel líkja því við rotna stjórnarhætti.
CIB gerir of mikið úr því, að ríkisstjórnarlögmaðurinn (regjeringsadvokat) Sejersted grafi undan EES og Evrópurétti innan EFTA-landanna. Sejersted vill, að Norðmenn uppfylli skýlausar lagaskyldur sínar samkvæmt EES-samninginum, en hann er mjög andsnúinn því, að Norðmenn gangi of langt í þeim efnum, og hann vill að rannsakað sé ítarlega í hverju tilviki, hvert hið raunverulega svigrúm er til túlkana. Að öðrum kosti segir hann, að lýðræðislegt ákvarðanaferli þjóðríkisins geti hæglega orðið í uppnámi.
Það er mikið til í þessu hjá Sejersted, og bráðvantar okkur ríkislögmann eða lögmann í utanríkisráðuneytið af þessu tagi. Hér hefur aldrei orðið vart nokkurra lögfræðilegra rannsóknartilburða í þá átt, sem Sejersted stundar í Noregi. Þegar álit og úrskurður kom frá ESA á sinni tíð um lífshagsmuni þjóðarinnar, sem varða úthlutun á nýtingarrétti náttúruauðlinda (vatnsréttinda) í eigu ríkisins, þá var án lögfræðilegra varna fallizt á allar kröfur ESA. Þegar svipað bréf barst olíu- og orkuráðuneyti Noregs í lok maí 2019, svaraði Sejersted (eða menn af hans sauðahúsi) því á rúmum mánuði með hvössum lögfræðilegum rökum, og norska ríkisstjórnin hafnaði gjörsamlega málatilbúnaði ESA, sem augljóslega er spegilmynd málarekstrar Framkvæmdastjórnar ESB gegn einum 8 vatnsorkulöndum í ESB, þ.á.m. Frakklandi.
Annað dæmi er auðvitað dómur EFTA-dómstólsins gegn Íslandi um innflutning á hráu kjöti og ógerilsneyddum eggjum og mjólk. Þessi dómur var í andstöðu við hagsmuni Íslands, eins og Alþingi skilgreindi viðnám gegn lýðheilsuógnum og varnir gegn búfjársjúkdómum 2009. Í anda "frelsissvigrúms" hefði Alþingi átt að leysi þessi lög af hólmi með nýjum lögum, rækilega rökstudd með vísindalegum rökum fyrir nauðsyn slíkra varna.
Þess má geta til gamans, að hin lögfræðilega þróun virðist vera þjóðríkinu í hag, eftir að Hæstiréttur Þýzkalands úrskurðaði, að Evrópudómstóllinn hefði ekki lögsögu um deilumál, er varðaði það, hvort Evru-bankinn mætti kaupa þýzk ríkisskuldabréf.
"Í stjórn Eftirlitsstofnunar EFTA [ESA] og í EFTA-dómstólnum verða að vera einstaklingar, sem eru hafnir yfir vafa, ekki aðeins hvað varðar hæfni, heldur einnig hvað varðar sjálfstæði og óhlutdrægni. Í ESB er skipun framkvæmdastjóra ferli, sem vekur mikla athygli fjölmiðla. Í EFTA-ríkjunum gerist þetta án þess, að almenningur verði þess var, í eins konar reykfylltu bakherbergi. Við skipun dómara í EFTA-dómstólinn er engin yfirþjóðleg nefnd til að kanna hæfni, sjálfstæði og óhlutdrægni þeirra, sem ríkin leggja til, að hljóti starfið.
EFTA-dómstóllinn óskaði þegar árið 2011, þegar Skúli Magnússon var skrifstofustjóri dómstólsins, eftir því, að slík nefnd yrði sett á fót, og hafa stjórnvöld á Íslandi og í Liechtenstein tekið vel í þá tillögu. Noregur hefur hins vegar staðið í vegi fyrir þessu, til að kleift sé að koma að fólki, sem búast má við, að standi vörð um hagsmuni þess [hans Noregs-innsk. BJo] í dómsstörfum. Þetta verður að breytast. Í ljósi stærðar (eða smæðar) EFTA er það ekki heldur viðunandi lengur, að einstök ríki samþykki gagnrýnislaust þá, sem eru tilnefndir eða endurtilnefndir af öðrum ríkjum til setu í stjórn Eftirlitsstofnunar EFTA og í EFTA-dómstólnum. Þess í stað verða öll aðildarríkin að skoða allar tilnefningar vandlega - í þágu eigin hagsmuna."
Það er ljóst, að CIB er mjög óánægður með, hvernig trippin hafa rekin verið af hálfu ríkisstjórna EFTA-landanna í EES. Hann er mjög óánægður með "frelsisvigrúmið", sem norska ríkisstjórnin ein hefur tekið sér. Það er skammsýni og dómgreindarleysi af hálfu íslenzkra stjórnvalda að hafa ekki líka tekið upp norsku Sejersted-línuna og áskilið Íslandi "frelsissvigrúm" í lífshagsmunamálum, sem stundum koma til kasta ESA og EFTA-dómstólsins.
CIB vill, að Evrópurétturinn njóti forgangs fram yfir landsrétt í ágreiningsmálum. Nú er farið að draga þetta sjónarmið alvarlega í efa innan Evrópusambandsins. Þann 05.05.2020 kvað Stjórnlagadómstóll Þýzkalands í Karlsruhe upp stefnumarkandi úrskurð um dóm Evrópudómstólsins varðandi hópákæru Þjóðverja á hendur Evru-bankanum (ECB) um það, hvort bankanum væri heimilt að kaupa ríkisskuldabréf Þýzkalands nú í kjölfar COVID-19 faraldursins. Stjórnlagadómstóllinn gaf ECB þriggja mánaða frest til að sýna skriflega fram á, að Seðlabanki evrunnar hefði og ætlaði að gæta meðalhófs við þessa útgáfu. Er hér kominn upp gamall ágreiningur germanskra og rómanskra þjóða um leyfilega seðlaprentun til stuðnings ríkissjóðum. Þýzki Stjórnlagadómstóllinn hélt því fram, að Evrópuréttur væri óæðri stjórnarskrám aðildarlandanna og að það hefði ekki breytzt með Lissabonsáttmálanum, sem er stjórnarskrárígildi ESB. Framkvæmdastjórn ESB hefur lengi haldið hinu gagnstæða fram, og þess vegna er hér augljóslega komin fram ný og skörp átakalína innan ESB á versta tíma fyrir Sambandið.
Hagsmunir Íslendinga og Norðmanna eru hinir sömu og Þjóðverja í þessum efnum. Annars væru fyrrnefndu þjóðirnar fyrir löngu gengnar í ESB. Ef ESA og EFTA-dómstóllinn úrskurða og dæma þvert á ákvæði Stjórnarskráar Íslands, þá er sá úrskurður eða dómur að engu hafandi á Íslandi, og þannig ber íslenzkum dómstólum að dæma. Það er einmitt Sejersted-línan frá Noregi. Ísland og Noregur eiga samleið í þessum efnum, en Carl I. Baudenbacher hefur alla tíð verið á andstæðri línu. Höfundur hefur ekki kynnt sér, hvort það samræmist hagsmunum flestra íbúa furstadæmisins Liechtensteins, sem CIB er fulltrúi fyrir og sem hefur stundum verið nefnt skattaparadís, og það er kannski meginástæða þess, að hagsmunir ríkisins og ESB hafa ekki verið taldir fara nægilega vel saman fyrir fulla aðild.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Fjölmiðlar, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.