28.6.2020 | 11:41
Sóknarfæri í landbúnaði
Í einu vetfangi hefur mannfrekasta atvinnugreinin, ferðaþjónustan, hrunið af orsökum, sem spekingar, spámannlega vaxnir og hinir, sáu ekki fyrir. Engum datt í hug, að á örfáum sólarhringum yrðu yfir 90 % allra farþegaflugvéla kyrrsettar á jörðu niðri vegna rétt einnar öndunarfæraveirunnar, sem frá Kína hefur borizt um heiminn. Þetta gerðist samt í marz 2020 og hvorki ferðaþjónustan né hagkerfi heimsins hafa borið sitt barr síðan, enda eru viðbrögð stjórnvalda í ríkjum heimsins fordæmalaus. Aðallega virðast þau hafa helgazt af ótta við, að heilbrigðisþjónustan myndi oflestast og engu öðru geta sinnt, eins og sást daglega í fréttum, m.a. frá Evrópu.
Landbúnaðurinn hefur gríðarlegu hlutverki að gegna við heilsueflingu, og þar með eflingu ónæmiskerfis einstaklinganna, í hverju þjóðfélagi. Íslendingar eiga því láni að fagna, að nægilega margir á meðal þeirra eru enn fúsir að yrkja jörðina og gera það með heilnæmari hætti en flestir starfsbræðra þeirra og -systra á Vesturlöndum. Óværan SARS-CoV-2 frá Kína beinir athyglinni að nauðsyn þess, að hér sé ræktað og framleitt það, sem hægt er aðstæðna vegna. Það er furðulegt, að fólk skuli ekki vanda betur til matarinnkaupanna og neyzlunnar í ljósi þeirrar vitneskju, sem fyrir hendi er um tilurð og grundvöll landbúnaðarafurða víða erlendis, t.d. í Evrópu.
Gríðarleg tækniþróun og framleiðniaukning hefur átt sér stað í íslenzkum landbúnaði á þessari öld. Enn geta innlendir framleiðendur aukið markaðshlutdeild sína á flestum sviðum starfseminnar, e.t.v. mest á grænmetis- og blómamarkaði. Gæði innlendrar framleiðslu fara ekki á milli mála, og heilnæmi matvæla verður stöðugt þungvægara við val neytandans, ekki sízt eftir mikla umræðu í Kófinu um mismunandi styrk ónæmiskerfisins eftir lifnaðarháttum fólks. Það, hversu þungt veiran lagðist á fólk, fór að miklu leyti eftir styrk ónæmiskerfisins og getu þess til að mynda mótefni gegn veirunni. Ef höfundur túlkar rétt, er þetta ein af niðurstöðum rannsókna Íslenskrar erfðagreiningar, sem hún, í samstarfi við fyrirtæki vestanhafs, notar nú við þróun bóluefnis, sbr einkaþotu, sem flutti þessi efni í byrjun júní 2020 vestur um haf úr "sterkum" Íslendingum, sem höfðu sýkzt.
Eftir gosið í Eyjafjallajökli 2010 gripu bændur gæsina og efldu mjög getu sína til móttöku ferðamanna. Þeir ásamt fjölskyldum sínum eru kjörnir til þess verks, enda hefur mikil framleiðniaukning skapað þeim sumum svigrúm til þess í tíma. Nú hefur hins vegar illilega sýnt sig, að ekki er á vísan að róa með erlenda ferðamenn. Nýjar stoðir undir starfsemina væru því mörgum bændum kærkomnar.
Á flestum hinna Norðurlandanna er skógarhögg og skógrækt mikilvæg atvinnugrein, og er stóriðnaður í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Ýmsir Íslendingar hafa kynnzt þessari starfsemi þar. Næg grundvallarþekking er fyrir hendi í landinu til að hefja þessa starfsemi til vegs og virðingar í landinu undir forystu Skógræktarinnar og Landbúnaðarháskóla Íslands. Það er lag núna og sjálfsagt að ganga á lagið.
Albert Þór Jónsson, viðskiptafræðingur, hefur skrifað mikið í Morgunblaðið um landsins gagn og nauðsynjar. Þann 18. maí 2020 birtist í blaðinu grein eftir hann undir fyrirsögninni:
"Íslenzk skógrækt er verðmætasköpun og snjöll atvinnugrein".
Hún hófst þannig:
"Mikil verðmætasköpun gæti átt sér stað, ef markmið rætast um að fimmfalda þekju skóga á Íslandi á næstu 20 árum og fara úr t.a.m. [rúmlega] 1 % í 6 % af flatarmáli Íslands, og ná þannig að standa undir atvinnusköpun og sjálfbærri byggðaþróun.
Verðmæti lands eykst verulega með aukinni skógrækt, en öll ræktun í skjóli skóga verður hagkvæmari og verðmætari. [Þetta á ekki sízt við um hina vaxandi kornrækt á Íslandi - innsk. BJo.]
Landsbyggðin á Íslandi er sannkallaður óslípaður demantur, og það er ljóst, að skógrækt með skipulögðum hætti hefur mikil áhrif til styrkingar byggðar um allt land. Það er ekki ólíklegt, að vörzlumönnum muni fjölga, sem gæta ómetanlegra verðmæta, sem eru í náttúru og náttúruauðlindum Íslands. Gæta þarf að mikilvægi sjálfbærrar þróunar, sem hefur að leiðarljósi að byggja upp og varðveita skógarauðlind, sem þjónar hagrænum umhverfismarkmiðum og lækkar samfélagskostnað."
Skilyrði til landbúnaðar hafa batnað á Íslandi frá náttúrunnar hendi og vegna tækniþróunar, þróunar verkmenningar og meiri eftirspurnar á innlendum markaði (fleiri munnar að metta) og erlendis (aukin kaupgeta og versnandi ræktunarskilyrði). Skapazt hefur spánýr markaður með gasið koltvíildi, CO2, sem íslenzkir skógarbændur verða í góðum færum að keppa á.
Nokkru seinna í greininni skrifaði Albert um fjárfestingarhliðina:
"Ef skógræktarverkefni, þar sem horft er til lengri tíma og ávöxtun m.t.t. áhættu er innan þeirra marka, sem lífeyrissjóðir gera, væri hægt að hefjast handa við stórfellda skógrækt á Íslandi í samstarfi íslenzkra lífeyrissjóða, stjórnvalda, skógræktarfélaga og bænda um allt land. Þjóðarátak í skógrækt á Íslandi með aðkomu helztu aðila, s.s. stjórnvalda, opinberra fyrirtækja eins og Landsvirkjunar, einkafyrirtækja og einstaklinga um allt land, getur gert það mögulegt að hefja stórsókn í skógrækt og ná þannig metnaðarfullum markmiðum um sjálfbærni og verðmætasköpun fyrir Ísland og Íslendinga."
Málið er, að með markaðsmyndun fyrir koltvíildiskvóta er skógrækt orðin arðsöm á Íslandi. Trjátegundirnar eru mjög misjafnar, og það þarf að velja þær af kostgæfni m.v. aðstæður, þ.e. landsins, sem planta á í og nytjanna, sem ætlunin er að hafa af skóginum. Á meðal fagfólks á þessu sviði er fyrir hendi öll nauðsynleg þekking og mælitækni, sem völ er á. Er þar ólíku saman að jafna við endurvætingu uppþurrkaðra mýra, sem er í raun fát út í loftið og ætti að stöðva nú þegar, nema þar sem Landbúnaðarháskólinn mælir með því og hefur eftirlitið með höndum.
Karl Gauti Hjaltason, Alþingismaður Miðflokksins, ritaði um skógrækt í Bændablaðið 4. júní 2020 undir fyrirsögninni:
"Sveiflum haka og ræktum nýjan skóg".
Hún hófst þannig:
""Í þá tíð var Ísland viði vaxið milli fjalls og fjöru", ritaði Ari, prestur fróði, Þorgilsson í upphafskafla Íslendingabókar. Talið er, að við landnám hafi um þriðjungur landsins verið þakinn birkiskógum og kjarri, en nú vex birki á um 1,5 % landsins, og ræktaðir skógar þekja 0,5 % þess. Íslendingar eru í þeirri óvenjulegu stöðu, að nær allir skógar landsins eyddust, og á eftir fylgdi hrikaleg jarðvegseyðing og hnignun landgæða, sem er okkar alvarlegasta umhverfisvandamál."
Hér er hvergi hallað réttu máli, en samt mætti af almennri umræðu ráða, að núlifandi kynslóð manna á Íslandi, starfsemi hennar og inngrip í náttúruna, oftast til að beizla krafta hennar til verðmætasköpunar, sé alvarlegasta umhverfisvandamálið. Þá hafa margir malarbúar gripið á lofti hráan áróður um, að endurvæting lands sé mikilvægari en að kljást við jarðvegseyðingu og endurheimt skóganna. Sá áróður ber keim af heilaþvotti loftslagsumræðunnar, þar sem látið er í verðri vaka, að mokstur ofan í framræsluskurði á Íslandi hafi einhver áhrif á þróun loftslags á jörðunni. Allt er það bull og vitleysa.
"Skógrækt er ung búgrein á Íslandi, og vöxtur trjáa er til muna öflugri en menn hafa þorað að vona. Fyrir hendi er mikið ónýtt landnæði, og trjárækt getur auðveldlega komið til stuðnings og viðbótar við aðra atvinnuvegi landsmanna."
Hér kemur Karl Gauti að samkeppnisstöðu Íslendinga á þessu sviði, sem er einstök vegna mikils landrýmis, sem hægt er að leggja skógræktinni til án þess að ganga á hlut annarrar starfsemi. Vaxtarhraðinn fer vaxandi með hækkandi meðalhitastigi, hærri koltvíildisstyrk í lofti og aukinni úrkomu, svo að hér er kjörið sprotatækifæri.
"Afurðir nytjaskóga verða að verðmætu lífrænu hráefni, timbri og smíðaviði. Á líftíma sínum skapar skógur margvísleg efnisleg verðmæti, fyrst brennsluvið, girðingarstaura, jólatré, trjákurl og arinvið, og síðar meir timbur og aðrar viðarafurðir, sem nýta má á ótal vegu. Verð á timbri hefur lengi farið hækkandi á heimsmarkaði, og ekkert, sem bendir til, að draga muni úr eftirspurn á næstunni. Sumar spár gera reyndar ráð fyrir því, að trjáviður muni í æ ríkari mæli koma í stað steinsteypu sem byggingarefni."
Loftslagsumræðan ýtir undir hið síðast nefnda hjá Karli Gauta, því að hvert tonn sements skilur eftir sig stórt kolefnisspor, sem ekki minnkar með aldri steypunnar, eins og á við um t.d. álið, sem hægt er að endurvinna takmarkalaust, og notkun þess í t.d. samgöngutæki minnkar í raun kolefnisfótsporið, sem myndast við frumvinnsluna. Það væri óskandi, að hér mundu skapast skilyrði fyrir skógariðnað, sem er mikilvægur þáttur í hagkerfi flestra hinna Norðurlandanna og er gjaldeyrissparandi.
Nú sjáum við, hversu atvinnustigið á Íslandi er hverfult. Að reiða sig á ferðaþjónustu í þeim efnum er ekki hægt. Ef skógariðnaður gæti komið sem aukabúgrein í landbúnaði, myndi hann bæta bæði atvinnuöryggi og afkomuöryggi á landsbyggðinni. Hvað skrifaði Karl Gauti um þetta ?:
"Nú með þverrandi atvinnu er unnt með aðgerðum stjórnvalda að skapa fólki arðbær störf við að undirbúa stórátak til að efla skógrækt. Strax má vinna að því að hirða um og grisja þá skóga, sem fyrir eru, og auka þannig gæði þeirra og hámarka árangur. Arður af skógi kemur reyndar ekki í sviphendingu, en býsna skjótt má fá tekjur af skógi vöxnu landi vegna grisjunar. Með vexti skógar aukast tekjur af honum og störfum fjölgar, og trjáviður er uppspretta ótal tækifæra til nýsköpunar á ýmsum sviðum iðnaðar. Skógrækt sem tiltölulega ný atvinnugrein mun þannig stuðla að jákvæðri byggðaþróun og skapa fjölmörg afleidd störf og vera framtíðarauðlind fyrir komandi kynslóðir landsmanna."
Varðandi tekjuhlið skógræktarinnar má ekki gleyma umtalsverðum þætti, sem vara mun svo lengi, sem mannkynið berst við að draga úr koltvíildisstyrk andrúmsloftsins, en það er sala á bindingu CO2 í viði og jarðvegi. Rannsóknir hafa sýnt nettó bindingu í mjög ungum ræktunarskógi. Það er engum blöðum að fletta um mátt trjáa til bindingar CO2, því að af 560 mrdt kolefnis í gróðri jarðar eru um 390 mrdt í skógunum eða 70 %. Alaskaöspin er langöflugusta trjátegundin hérlendis í bindingu og bindur að jafnaði yfir 20 t CO2/ha á ári. Barrtrén afkasta rúmlega 40 % af því, en birkið er hægvaxnast og bindur aðeins um 3,5 t CO2/ha á ári. Með fjórföldun á fjölda núverandi gróðursetningarplantna á ári má fljótt fá bindingu, sem nemur 535 kt CO2 ár, sem er 11 % af skráðri losun Íslands. Það er ekki vafi, að þetta er hjálplegt við að ná markmiði Íslands í samflotinu með EES gagnvart Parísarsáttmálanum, en það er enn óljóst, hversu mikið Ísland má telja fram á sviði bindingar.
Losun frá umferðinni fer nú minnkandi og sama má segja um útgerðirnar. Landsmenn ættu þess vegna ekki að þurfa að lenda í miklum þvinguðum kaupum á koltvíildiskvóta. Samt verður þörf á bindingu til viðbótar við minnkandi bruna jarðefnaeldsneytis, því að millilandaskip, flugvélar og ýmsar greinar iðnaðarins munu fram yfir árið 2030 verða háð orku úr jarðefnaeldsneyti. Á þessum sviðum geta þó orðið óvænt gegnumbrot, t.d. á sviði áliðnaðar, þar sem rannsóknir fara fram á kolefnisfrírri rafgreiningu súráls. Við rafgreininguna verður þá til súrefni, O2, í stað koltvíildis, CO2. Með Elysis verkefni Rio Tinto og Alcoa í Voreppe í Frakklandi er ráðgert að hefja framleiðslu áls með kolefnisfríum hætti fyrir árslok 2021 með fullum iðnaðarstraumi, sem er 1000 sinnum hærri en straumur í tilraunaverkefni, sem nýlega var kynnt hérlendis til sögunnar og er í raun 20 árum á eftir tímanum og getur því varla nokkurn tímann orðið barn í brók, en meira um það síðar.
Í lokin skrifaði Karl Gauti:
"Gróðursetning hefur dregizt verulega saman hér á landi frá efnahagshruni, og í fyrra [2019] voru aðeins gróðursettar 3 M trjáplantna. Nauðsynlegt er að auka þar verulega við og margfalda plöntun. Undirbúningur þess tekur nokkur ár og því mikilvægt að hefjast þegar handa. Aðgerðir stjórnvalda eru því miður í hænuskrefum að þessu leytinu, á sama tíma og innan fárra ára kemur að uppgjöri á kolefnisbókhaldi landsins.
Fram undan eru því tækifæri til að draga úr áhrifum niðursveiflu í efnahagslífinu, ná verulegum árangri í loftslagsmálum og byggja upp auðlind til hagsbóta fyrir land og þjóð í framtíðinni. Á erfiðum tímum þarf að horfa til framtíðar og byggja upp. Fátt eykur bjartsýni fólks eins mikið og gróðursetning trjáa. Nýtum það lag og blásum til grænnar sóknar - og ræktum skóga."
Það er óskandi, að þessi herhvöt Karls Gauta gangi eftir nú, þegar harðnandi samkeppni verður um fjármagnið. Efnahagur hins opinbera og atvinnulífsins er mjög aðþrengdur og allt gert með bullandi skuldsetningu. Flýtur á meðan ekki sekkur. Nú ríður á að fara vel með fé. Falskenningar eru á lofti um langmesta skilvirkni endurvætingar lands til að draga úr gróðurhúsaáhrifunum. Nýjar rannsóknir sýna, að ávinningurinn er mun minni en áður var talið, og hann er auk þess alveg undir hælinn lagður og getur jafnvel snúizt upp í andhverfu sína vegna þess, að land, sem þurrkað var fyrir meira en 50 árum, er komið í jafnvægi og sendir ekki frá sér koltvíildi af völdum þurrkunar. Réttast væri að hætta að svo stöddu fjárveitingum til ofanímoksturs skurða og beina fénu til skógræktar.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Fjölmiðlar, Stjórnmál og samfélag, Umhverfismál | Facebook
Athugasemdir
Það verður nú aldrei skógur sem heitið geti hér á Íslandi, samanborið við til að mynda Svíþjóð, Finnland og Rússland, þar sem hægt er að aka í marga klukkutíma án þess að sjá nokkuð nema gríðarlega hávaxinn skóg.
Meira en helmingur Svíþjóðar er skógi vaxinn og þrír fjórðu hlutar finnsks lands.
"The overall tree leader is clearly Russia, with 642 billion total trees, followed by Canada with 318 billion and Brazil with 302 billion."
Hvað eiga menn að gera ef þeir villast í íslenskum skógi? Þeir standa einfaldlega upp, er gamall brandari.
22.6.2020 (síðastliðinn mánudag):
"Rather than benefiting the environment, large-scale tree planting may do the opposite, two new studies have found.
One paper says that financial incentives to plant trees can backfire and reduce biodiversity with little impact on carbon emissions.
A separate project found that the amount of carbon that new forests can absorb may be overestimated.
The key message from both papers is that planting trees is not a simple climate solution."
Climate change: Planting more forests can do more harm than good - BBC
Þar að auki verður hitastigið hér á Klakanum og veðurfar yfirleitt seint hagstætt mörlenskum landbúnaði.
Þorsteinn Briem, 28.6.2020 kl. 15:42
Mikil er Þórðargleði mörlenskra hægrimanna ef þeir halda að ferðaþjónustan hér á Íslandi eða annars staðar í heiminum muni ekki ekki bera sitt barr eftir Covid-19 og þeir hafa aldrei haft rétt fyrir sér hvað varðar spár um ferðaþjónustuna.
Ungverjaland, sem er í Evrópusambandinu, á landamæri að sjö ríkjum og þau hafa öll verið opnuð, nema landamærin að Úkraínu, sem er ekki í Evrópusambandinu, en þau verða opnuð á morgun.
Landamærum Íslands hefur aldrei verið lokað alveg vegna Covid-19 og hægt að fljúga til að mynda beint frá Íslandi með Wizz Air til Búdapest.
Þar er allt opið og öll þjónusta veitt eins og venjulega en menn verða að vera með grímur í matvöruverslunum og þegar þeir nota almenningssamgöngur.
Í Búdapest er nú allt krökkt af fólki í miðbænum, bæði heimamönnum og erlendum ferðamönnum, í verslunum, veitingahúsum, kaffihúsum, krám og almenningsgörðum, 33 stiga hiti og sólskin.
Þorsteinn Briem, 28.6.2020 kl. 16:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.