Til hvers að virkja orkulindir ?

Orkumál Íslands eru í öngstræti.  Sú staða er algert sjálfskaparvíti, því að utan frá séð eru Íslendingar að mörgu leyti öfundsverðir af orkumálunum.  Þar ber auðvitað hæst, að nánast öll raforkan kemur úr endurnýjanlegum orkulindum, ef fallizt er á, að jarðgufan sé endurnýjanleg orkulind.  Mjög lítið myndast af gróðurhúsalofttegunum samfara þessari orkuvinnslu, eitthvert metan, CH4, stígur upp af miðlunarlónum og ýmis gös, þ.á.m. gróðurhúsagös, losna úr læðingi við nýtingu jarðgufu, en unnið er að því að fanga þau og breyta í steintegundir neðanjarðar. Á heildina litið virðast virkjanir landsins falla mjög vel að umhverfinu, en samt hafa sumir allt á hornum sér, þegar ný virkjunarverkefni eru annars vegar.

Unnið er að því, að jarðstrengir yfirtaki hlutverk megnsins af loftlínunum, en hinar stærstu þeirra er of dýrt að leysa af hólmi með jarðstrengjum, nema á völdum köflum.  Þegar svona er í pottinn búið, er alveg stórfurðulegt, að nú spretti fram aðilar, sem sækjast eftir leyfum til að setja upp vindorkuvirkjanir, sem augljóslega stórspilla víðáttumiklum svæðum. Linkind umhverfis- og auðlindaráðherra gagnvart reglusetningu um vindorkuver stingur í stúf við herskáa stefnu hans gagnvart vatnsorkuverum.  

Staða íslenzkra orkumála er sérstaklega öfundsverð utanfrá séð í ljósi lágs meðalkostnaðar við raforkuvinnsluna.  Þegar haft er í huga, að rafmagnið mun leysa jarðefnaeldsneytið að mestu leyti af hólmi, "með einum eða öðrum hætti", þá verður ljóst, að rafmagnið mun og myndar nú þegar hornstein traustrar samkeppnisstöðu landsins frá náttúrunnar hendi, en mennirnir eru mistækir, og í seinni tíð hefur verið sveigt af réttri leið, og verðlagningin dregið dám af löggjöf, sem sótt er í gjörólíkar aðstæður.  Hingað á þessi löggjöf ekkert erindi, en hún miðar að því að hámarka hagnað orkufyrirtækjanna.  Slík stefna verður auðvitað á kostnað neytendanna, stórra og smárra.  Hér er auðvitað átt við "orkupakka" Evrópusambandsins, en réttast væri að fá undanþágu frá meginatriðum þeirra allra.

Þann 9. júní 2020 rituðu Jónas Elíasson, prófessor, og Viðar Guðjohnsen, lyfjafræðingur, merka grein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni:

"Með fallvötnin í farteskinu".

Fyrirsögnin er óræð, en túlka má hana á þann veg, að höfundarnir telji, að nú séu orkulindirnar undir í hráskinnaleik stjórnmálanna. Það má til sanns vegar færa með skírskotun til kröfugerðar ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA, um markaðstengda úthlutun nýtingarréttar á landi ríkisins og þeim auðlindum, sem þar er að finna.  Á þetta féllst ríkisstjórn Íslands í maí 2016, en núverandi ríkisstjórn treystir sér ekki í framkvæmdina, enda hefur norska ríkisstjórnin tekið gagnstæðan pól í hæðina og mun ekki eftirláta miðevrópskum fyrirtækjum erfðasilfur Norðmanna.

Tilvitnaðir höfundar vilja eðlilega endurvekja fyrri orkustefnu, sem felst í að virkja hagkvæmt og að halda raforkuverði í lágmarki (rétt yfir kostnaði).  Þeir rekja þessa stefnu til Bandaríkja (Norður-) Ameríku, BNA:

"Viðbrögð Roosevelts við kreppunni voru New Deal-stefnan, sem hann hafði boðað í kosningabaráttu sinni.  Hún var að koma fólki í vinnu við verðmætasköpun í stað atvinnuleysis.  Virkasti þátturinn í þeirri aðgerð var virkjun fallvatna og sala á raforku til heimila og iðnaðar á hagstæðu verði.  Lágt orkuverð var órjúfanlegur hluti af hugmyndafræði forsetans.  Þegar honum var bent á, að rekstur orkuveranna mundi skila engum eða mjög takmörkuðum hagnaði, svaraði hann: Tekjur ríkisins koma á hinum endanum.  Þar átti hann við, að framleiðsla og sala raforku eykur ekki verðmætasköpun að neinu marki umfram það, sem byggingu orkuveranna nemur.

En notkun á raforku gerir það; flestir þekkja, hvað orkureikningur heimilisbílsins lækkar, þegar hann er kominn á rafmagn [lækkar um a.m.k. 60 % - innsk. BJo], áhrifin í iðnaðinum eru enn sterkari [af því að þar vegur orkukostnaður meira af heildarkostnaði en hjá fjölskyldu á Íslandi - innsk. BJo], svo [að] þessi spá FDR rættist.  

Lágt orkuverð til heimila og atvinnuvega varð snögglega að atvinnuauðlind, sem átti eftir að reisa við efnahag Bandaríkjanna og gera þau að mesta iðnveldi heims."

Hér er rétt farið með áhrif orkuverðs á atvinnulíf, atvinnustig, hagvöxt og lífskjör almennings.  Þetta eru ómótmælanlegar staðreyndir.  Ef þingmenn ætla að standa í ístaðinu og beita auðlindum í eigu ríkisins fyrir vagn endurreisnar hagkerfisins eftir efnahagsáfall kórónaveirunnar, SARS-CoV-2, þá munu þeir nú gera gangskör að því, að samin verði eigendastefna fyrir virkjanafyrirtæki ríkisins, Landsvirkjun, RARIK og Orkubú Vestfjarða, sem dragi dám af ofangreindum kjarnaþætti í "New Deal" stefnu FDR.  Þar með verði núverandi stefnu Landsvirkjunar snúið á haus, en hún snýst um að selja raforkuna á eins háu verði og fyrirtækið kemst upp með.  Þetta hefur stjórn Landsvirkjunar kallað að hámarka virði orkulindanna.  Sú einkunn er fölsk.  Þjóðhagsleg hámörkun virðisaukningar af nýtingu orkulindanna fæst með sem lægstu, en þó arðbæru, verði til heimila og atvinnustarfsemi. 

Þar sem stóriðjan er hryggjarstykki iðnaðar og orkunýtingar á landinu, verður að ganga fram af þekkingu og sanngirni varðandi lágmarksverð til stóriðju, sem samt lækki orkukostnað almennings, og tryggi samkeppnishæfni orkuverðsins á þeim orkumörkuðum, sem stóriðjufyrirtækin almennt starfa á.  Allt eru þetta tiltölulega auðfáanleg gögn, þótt nokkur leynd hvíli víða yfir orkuverðum.  

Eftir að hafa sýnt fram á, að margar aðrar þjóðir hafi fetað í fótspor Bandaríkjamanna í orkumálunum, þá sneru höfundarnir sér að íslenzkum orkumálum:

"Stefna Íslands í orkumálum undir forystu Sjálfstæðisflokksins var sambærileg.  Raforkulögin frá 1946 meitluðu í stein upphaf þeirrar orkustefnu, sem við þekkjum og varð burðarstoð íslenzku atvinnuveganna, en í þeim sagði m.a., að "ríkinu einu er heimilt að reisa raforkuver, sem eru stærri en 100 hestöfl" og að "Rafmagnsveitur ríkisins skulu hafa það verkefni að afla almenningi og atvinnuvegum landsins nægrar raforku á sem hagfelldastan og ódýrastan hátt". Fyrrnefnd stefna varð ríkjandi hérlendis og hefur reynzt okkur Íslendingum vel, styrkt fyrirtækin í landinu og létt landsmönnum heimilisstörfin.  Með stefnunni varð mjög jöfn dreifing á náttúruauðnum og sátt ríkti um virkjanirnar."

Of mikillar einokunarhyggju ríkisins varðandi virkjanaleyfi gætir í þessum lögum.  Nú er staða ríkisins á raforkumarkaðinum svo sterk, að með ofangreindri eigendastefnu ríkisins væri tryggt, að verð á raforku héldist rétt ofan við meðalkostnað í landinu við að framleiða hana.  Öðru máli gegnir þó í orkuskorti.  Þá gæti verðið rokið upp, og það ætti þess vegna jafnframt að koma fram í eigendastefnunni, að virkjanafyrirtæki ríkisins sjái til þess, að í landinu sé jafnan nægt framboð raforku.  Allt er þetta á öndverðum meiði við boðskap orkupakka Evrópusambandsins, en vert er að láta á þetta reyna.

"Stóriðjustefnan var rökrétt framhald af þessu.  Stórar virkjanir framleiða ódýrari raforku en litlar, ef markaður er nægur. Landsvirkjun var stofnuð til að útvega markað og virkja eins stórt og hægt var án þess, að raforka til almennings hækkaði.  Þetta hefur gengið mjög vel.  Það var ekki fyrr en ríkið fór að innleiða flókið lagabákn Evrópusambandsins og skilgreina orku sem almenna vöru, sem málaflokkurinn fór að ókyrrast hérlendis.  Fyrst stuttlega upp úr aldamótum með setningu nýrra raforkulaga til þess að innleiða fyrstu tvo evrópsku orkupakkana, en svo með innleiðingu þriðja orkupakkans, sem var í raun óskiljanlegur gjörningur, þvert á mikilvægustu hagsmuni þjóðarinnar.  

Innleiðing þriðja orkupakkans var einstaklega slæm ákvörðun, sem byggðist á ótta, örlagahyggju og undirlægjuhætti gagnvart skriffinnaher Brussels. Við sjáum afleiðingarnar í fyrirhugaðri ákvörðun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að styrkja grænmetisiðnaðinn hér á landi með sértækum ríkisstyrkjum.  Eðlilegri ráðstöfun hefði auðvitað verið að lækka raforkuverð, en með slíkri almennri aðgerð skapast efnahagshvati, sem byggist á jafnræði og grunngildum Sjálfstæðisflokksins um, að dugnaður eigi að fá að njóta sín."

 Önnur skýring á afspyrnu lélegri hagsmunagæzlu íslenzka utanríkisráðuneytisins gagnvart þeim málum, sem framkvæmdastjórn ESB merkir sem viðeigandi til umfjöllunar og eftir atvikum innleiðingar í EFTA-löndum EES, er sú, að ráðuneytið hafi tamið sér að fylgja leiðsögn norskra stjórnvalda í hvívetna.  Þetta er einfeldningsleg og hættuleg afstaða, því að meirihluti Stórþingsins er iðulega hallur undir aðild Noregs að ESB, þótt þjóðin sé það ekki.  Af augljósum ástæðum fara hagsmunir Íslands og Noregs ekki alltaf saman, en gera það þó stundum.  Þeir fóru ekki saman í orkupakkamálunum, en hafa ber í huga, að meirihluti norsku þjóðarinnar var andvígur innleiðingu OP#3 samkvæmt skoðanakönnunum, og verkalýðshreyfingin lagðist gegn honum.

Dæmi um EES-mál, þar sem hagsmunir Íslands og Noregs fara saman, reyndar á sviði orkumála, en Ísland flaskaði á, af því að ESA gerði athugasemd  við íslenzku ríkisstjórnina löngu á undan athugasemd við þá norsku, er stefnumál framkvæmdastjórnar ESB um markaðsvæðingu á leyfisveitingum til nýtingar náttúrugæða í eigu ríkisins.  Íslenzku ríkisstjórnirnar, sem um þetta fjölluðu 2009-2016, tóku ekki afstöðu með vörn íslenzkra hagsmuna, og gengið var að öllum kröfum ESA í maí 2016, þótt málið hafi síðan legið á ísi.  Fyrir rúmlega einu ári fékk norska ríkisstjórnin svipað erindi frá ESA, en hún hafnaði réttmæti þeirra krafna að bragði, og við það situr.  Þarna beittu Norðmenn "frelsissvigrúmi", sem þeir hafa áskilið sér í viðskiptunum við ESA/ESB.  Íslenzka Stjórnarráðið, hins vegar, sýndi af sér þau miður eftirsóknarverðu einkenni, sem tilvitnuðu höfundarnir nefna: "ótta, örlagahyggju og undirlægjuhátt gagnvart skriffinnaher Brussels" (ESA hefur aðsetur í Brüssel.) Þessu verður að linna.  Málsmeðferð Orkupakka #4 verður prófsteinn á það.

 

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk Bjarni.

Uppí huga mér kemur sena úr breskri þáttarröð um annan hrópanda, sem ekki beint fékk undirtektir.

Spurði sig spurningar hvort þetta væri fyrirhafnarinnar virði, tíðarandinn hafði um annað að hugsa. 

Greypt mér í minni ungur maður sem sagði, "við lesum", ef það væri ekki þú, þá væri enginn.

Þannig séð getur hlutverkið ekki orðið mikið stærra.

Allt er rétt sem hér er sagt að ofan.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 2.7.2020 kl. 10:22

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

17.5.2016:

"Rafmagnsreikningur íslenskra heimila er sá langlægsti í Vestur-Evrópu, eða um 6.200 krónur á mánuði sé miðað við dæmigert heimili. cool

Til samanburðar má nefna að sambærilegt danskt heimili greiðir 14.800 krónur á mánuði.

Sé miðað við lönd innan EES [Evrópska efnahagssvæðisins] greiða heimili í Búlgaríu og Ungverjalandi lægri reikning en á Íslandi og í Litháen er hann jafnhár.

Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Eurostat fyrir árið 2015 og miðast við heildarreikning, þ.e. raforku, skatta, flutning og dreifingu.

Sé rafmagnreikningurinn sundurliðaður má sjá að skattar á raforkunotkun eru með lægsta móti hérlendis. cool

Athygli vekur að í Danmörku, þar sem skattar eru hæstir á raforkunotkun, er oft um að ræða skatta á brennslu jarðefnaeldsneyta.

Þeir eru svo nýttir til niðurgreiðslu á framleiðslu raforku með endurnýjanlegum orkugjöfum.

Hér á landi eru engar slíkar niðurgreiðslur til staðar, enda öll raforkuvinnsla byggð á endurnýjanlegum orkugjöfum."

Rafmagnið ódýrast á Íslandi - Samorka

Þorsteinn Briem, 2.7.2020 kl. 10:44

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

14.12.2018:

"Samkvæmt verðlagsvísitölu fyrir neysluútgjöld heimilanna er Ísland dýrasta landið í Evrópu. cool

Niðurstöðurnar eru á vegum Eurostat, Hagstofu Evrópusambandsins, og byggja á umfangsmiklum verðmælingum í 38 löndum, þar sem yfir 2.000 vöru- og þjónustuliðir voru kannaðir.

Það er nánast sama hvor borið er niður, Ísland kemur yfirleitt verst út.

Eini flokkurinn þar sem Ísland kemur þokkalega út, í evrópskum samanburði, er sameiginlegur flokkur fyrir rafmagn, eldsneyti og aðra orkugjafa. cool

Þar spilar lágt raforkuverð lykilrullu.

Húsgögn og innréttingar, heimilistæki og raftæki eru dýrust á Íslandi.

Vöruflutningar eru hvergi dýrari en hér og verðlag á veitingastöðum og hótelum er hæst á Íslandi. cool

Sömu sögu er að segja þegar verðlag á skóm og fatnaði er skoðað.

Aðeins í Noregi er áfengi og tóbak dýrara en hér, en þar munar litlu.

Matvara er dýrari í Sviss og Noregi en Ísland er í þriðja sæti."

Ísland er dýrasta landið í Evrópu

Þorsteinn Briem, 2.7.2020 kl. 11:06

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

29.6.2020 (síðastliðinn mánudag):

Hér á Íslandi var heildarlosun í iðnaði rúmlega 1,8 milljónir tonna í CO2-ígildum árið 2019 (þar af 1,6 milljónir tonna frá álverum), eða rúmlega þrisvar sinnum meiri en í flugi, sem þá var tæplega 600 þúsund tonn, samkvæmt viðskiptakerfi Evrópusambandsins. cool

"Þá var heildarlosun frá flugi íslenskra flugrekenda, sem fellur undir kerfið, innan við 1% af heildarlosun allra evrópskra flugrekenda innan kerfisins."

Losun íslenskra flugfélaga minnkaði á milli áranna 2018 og 2019

Þorsteinn Briem, 2.7.2020 kl. 11:37

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Denmark was a pioneer in developing commercial wind power during the 1970s, and today a substantial share of the wind turbines around the world are produced by Danish manufacturers such as Vestas and Siemens Wind Power along with many component suppliers.

In Denmark electricity sector wind power produced the equivalent of 47% of Denmark total electricity consumption in 2019, increased from 43.4% in 2017, 39% in 2014, and 33% in 2013. cool

In 2012, the Danish government adopted a plan to increase the share of electricity production from wind to 50% by 2020, and to 84% by 2035.

Denmark had the 4th best energy architecture performance in the world in 2017 according to the World Economic Forum, and the second best energy security in the world in 2019 according to the World Energy Council.
" cool

Þorsteinn Briem, 2.7.2020 kl. 11:44

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

Stóriðjan notar um 80% af þeirri raforku sem framleidd er hér á Íslandi en heimilin um 5% og rafbíll þarf einungis hluta af þeirri raforku sem meðalstórt heimili kaupir. cool

Heimilin greiða hins vegar miklu hærra verð fyrir raforkuna en stóriðjan.

Meðalakstur einkabíla í Reykjavík er um 11 þúsund kílómetrar á ári, eða 30 kílómetrar á dag, en miðað við 12.500 kílómetra akstur á ári er raforkukostnaður vegna rafbíls, sem hlaðinn er heima, einungis um 1.700 krónur á mánuði hér á Íslandi, fyrir utan kostnað við rafmagnsdreifingu, sem er innheimtur af þeirri dreifiveitu sem tilheyrir hverju sveitarfélagi. cool

Raforkunotkun heimila og rafbíla - Orka náttúrunnar

Þorsteinn Briem, 2.7.2020 kl. 12:31

7 Smámynd: Erla Magna Alexandersdóttir

Islenskir ráðamenn eru búnir að ákveða þvert á vilja landsmanna að selja eða gefa erlendum auðhringum orkuna okkar svo getum við keypt hana af þeim á uppsprengdu verði eins og Norðmenn gera- sem nota nú kolaofna.

Erla Magna Alexandersdóttir, 2.7.2020 kl. 21:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband