Hagkerfi í ógöngum

Umsvif hins opinbera hafa þanizt út meira en góðu hófi gegnir á þessari öld.  Á 6 ára tímabilinu 2013-2019 jókst rekstrarkostnaður hins opinbera (ríkis og sveitarfélaga) um 4,5 %/ár að jafnaði á föstu verðlagi 2019.  Þetta er talsvert meira en nam meðalhagvexti á tímabilinu (3,8 %), og þess vegna er þetta ávísun á skattahækkanir í framtíðinni.  Þetta er óæskileg þróun, sem þarf að snúa við, því að opinber umsvif hérlendis voru og eru hlutfallslega á meðal þeirra hæstu í OECD (Alþjóða efnahagssamvinnustofnunin í París). Þjóðir með mest opinber umsvif búa ekki við beztu lífskjörin, og þær eru yfirleitt skuldugastar.  Að lifa á kostnað framtíðarinnar er ósiðlegt og heimskulegt, því að fjármagnskostnaðurinn hamlar lífskjarabata í núinu líka. Skuldasöfnun er áfellisdómur yfir valdhöfum.  

Nú hefur heldur betur snarazt á meri ríkisbúskaparins vegna sóttvarnaraðgerða hér og um heim allan vegna COVID-19. Óli Björn Kárason gerir grein fyrir því í Morgunblaðsgrein sinni 26. ágúst 2020 ásamt því, hvernig opinberi geirinn hefur að raungildi vaxið að umsvifum (rekstrarútgjöldum) um yfir 87 % tímabilið 2000-2019.  Núverandi skuldasöfnun er svakaleg.  Með henni verður ekkert borð fyrir báru til að mæta næsta áfalli, sem þá skellur af fullum þunga á þjóðinni strax. 

Núverandi aðferð að láta ríkissjóð taka skellinn í upphafi er varasöm og kallar á mjög trausta hagstjórn á næstu árum, því að þessi mikla skuldasöfnun skapar hættu á vítahring lítils hagvaxtar og skattahækkana.  Þess vegna ríður nú meira á en oftast áður að efla útflutningsgreinarnar og skapa nýjar.  Það útheimtir lækkun raforkuverðs til atvinnuveganna og að liðka fyrir útgáfu starfs- og rekstrarleyfa fyrir fiskeldið. Stjórnmálamenn eiga að hætta fikti sínu með sérálögur á sjávarútveginn.  Hann þarf á öllu sínu að halda til fjárfestinga til að standast alþjóðlega samkeppni.

  Mikil eftirspurnaraukning hefur orðið eftir íslenzku grænmeti í Kófinu, og mundi landbúnaðurinn, og þar með neytendur, njóta góðs af orkuverðslækkun, eins og aðrir atvinnuvegir. Það er með öllu óskiljanlegt við þessar aðstæður, að ríkisstjórnin skyldi ákveða að rífa í neyðarhemilinn þann 19.08.2020 á landamærunum og kæfa þar með aðalgjaldeyrislind þjóðarinnar algerlega að þarflausu. Þrátt fyrir það gaus upp "Bylgja 3" af COVID-19 smitum tæpum mánuði síðar í landinu.  Slíkum "bylgjum" má búast við í þjóðfélaginu, á meðan hjarðónæmi hefur ekki myndazt. Bóluefni mun ekki leysa vandann næstu 2 árin. Erlendir ferðamenn eru ekki sekir um þessa stöðu, enda nýgengi smita miklu lægra á landamærunum en á meðal landsmanna.  Orsökin er breytt hegðunarmynztur.  Fólk slakar á persónulegum sóttvörnum og er þá oft í slagtogi við Bakkus, sem aldrei hefur tileinkað sér sóttvarnir af neinu tagi.  Af þessum sökum má búast við slíkum "bylgjum", þar til hjarðónæmi hefur myndazt.  Að rembast, eins og rjúpan við staurinn, við að gera Ísland "veirulaust" er fánýt barátta, ofboðslega dýrkeypt og jafngildir harðsvíraðri ofstjórnun og meiri inngripum í persónulega hagi fólks en stjórnvöld hafa leyfi til samkvæmt Stjórnarskrá, þar sem alls engin neyð er á ferðum, fremur en í harðvítugum flensufaraldri.  Tveir COVID-19 sjúklingar á sjúkrahúsi sýna fram á þetta.

Óli Björn skrifaði:

"Á örfáum mánuðum hefur staða efnahagsmála gjörbreytzt til hins verra.  Í stað hagvaxtar er samdráttur.  Ríkissjóður safnar skuldum í stað þess að greiða, líkt og gert hefur verið á síðustu árum. 

Reiknað er með því, að halli á ríkissjóði (A-hluta) verði um 10 % af vergri landsframleiðslu á þessu ári og um 8 % á því næsta.  Samtals verða gjöld ríkissjóðs umfram tekjur, að öðru óbreyttu, því um 18 % af landsframleiðslu eða rúmlega mrdISK 500 á tveimur árum.  Þetta er lítillega lægri fjárhæð en nemur raunhækkun útgjalda hins opinbera á síðustu 20 árum."

Gert mun vera ráð fyrir, að skuldasöfnun ríkissjóðs 2020-2023 muni nema mrdISK 850.  Hana má rekja til sóttvarnarráðstafana gegn COVID-19 innanlands og utan (Schengen-aðild Íslands og tréhestaleg ákvarðanataka þar á bæ). Ef ekki tekst að blása lífi í atvinnustarfsemina, munu þessar ráðstafanir skilja eftir sig eyðimörk gjaldþrota fyrirtækja og heimila, og ríkissjóður verður berskjaldaður fyrir næsta áfalli.  Það gæti verið barnaleikur að fást við SARS-CoV-2 í samanburði við næstu nýju veiru, sem fer á kreik, og er þá skemmst að minnast hinnar bráðsmitandi ebólu-veiru, sem orsakaði innri blæðingar og 60 % smitaðra á sjúkrahúsum féllu í valinn fyrir. 

Það er lífsnauðsynlegt að stöðva þessa skuldasöfnun og hægt og sígandi að greiða niður skuldir.  Hættan er líka sú að lenda í vítahring lítils hagvaxtar og skattahækkana vegna skuldabyrðarinnar. Óráðsíufólk hefur haft sitt fram um gagnslitlar sóttvarnir gagnvart komufarþegum til landsins, en þessar ráðstafanir hafa þegar valdið gríðarlegu efnahagstjóni og ógæfu fjölda manns. 

"Ekki verður hins vegar séð, að hallarekstur ríkisins hafi dregið úr kröfum um aukin útgjöld.  Kröfurnar eru til staðar, líkt og ríkið sé uppspretta verðmæta og velmegunar.  Þeir eru fáir (eða a.m.k. ekki háværir), sem beina sjónum að meðferð opinbers fjár - spyrja, hvort samhengi sé á milli aukinna útgjalda og bættrar opinberrar þjónustu.  Í velgengni síðustu ára hefur sinnuleysi náð að festa rætur og við leyft okkur þann munað að líta á hagkvæma ráðstöfun og meðferð sameiginlegra fjármuna sem aukaatriði.  Og aukning útgjalda hefur orðið mælikvarði á pólitíska frammistöðu einstakra þingmanna og stjórnmálaflokka."

Nú eru gjörbreyttar aðstæður í ríkisbúskapinum og í þjóðfélaginu öllu.  Geigvænleg skuldasöfnun á sér stað hjá hinu opinbera, þannig að öll útgjaldaaukning er tekin að láni hjá þeim, sem í framtíðinni munu standa undir hinu opinbera.  Að stíga ekki nú þegar á útgjaldahemilinn er siðlaus óráðsía; í einu orði sagt stjórnleysi.  Þetta stjórnleysi mun framkalla hér viðvarandi óstöðugleika og varnarleysi gagnvart næsta áfalli.  Þingmenn Sjálfstæðisflokksins eiga ekki að láta svefngengla og vingla teyma sig inn á þá þjóðhættulegu braut. Nú er góðum þingmönnum nauðsyn að hafa bein í nefinu.  Lánshæfismat sveitarfélaga og ríkisins mun lækka, sem auka mun við fjármagnskostnað þeirra.  Svo illa hefur verið haldið á málefnum Landsvirkjunar, að við blasir lækkun lánshæfismats þar.  Nýleg skuldabréf fyrirtækisins eru í uppnámi, af því að útgáfa þeirra var tengd ákveðinni lágmarkssölu á rafmagni, sem ekki hefur náðst vegna okurálagningar fyrirtækisins á rafmagn, einkum til ISAL og PCC á Bakka, og öðrum viðskiptavinum hefur einnig verið sýnd óbilgirni.

"Í heild var rekstrarkostnaður 2019 um mrdISK 500 hærri, og þar af var launakostnaður um mrdISK 195 meiri en aldamótaárið.  Raunhækkun kostnaðar [hins opinbera] var liðlega 87 % á þessum 20 árum.  Launakostnaður hækkaði um 86 % [að raungildi].  Rekstrarkostnaður ríkisins hækkaði að raungildi um nær mrdISK 387; þar af laun um mrdISD 209."

 

 Hér hefur óheillaþróun átt sér stað, sem í senn hefur lækkað ráðstöfunartekjur heimilanna, dregið úr samkeppnishæfni atvinnulífsins og minnkað mótstöðuafl hins opinbera, því að skattahækkanir til að mæta mótlætinu munu hafa mjög neikvæð á hagkerfið.  Eina ráðið í stöðunni, sem hrífur vel, er sú leið, sem fjármála-og efnahagsráðherra hefur boðað, er að vera með öll spjót úti til að stækka þjóðarkökuna, auka verga landsframleiðslu, en þá, eins og skrattinn úr sauðarleggnum, stekkur forsætisráðherra fram og þrífur  í neyðarhemil lestarinnar og dregur viljandi úr gjaldeyrisöflun þjóðarinnar. Svona gera menn ekki, en  það er margt skrýtið í kýrhausnum. Afstaða verkalýðshreyfingarinnar til þeirrar grafalvarlegu stöðu, sem uppi er á vinnumarkaði, styrkir ekki atvinnuöryggi launþega og gefur atvinnulausum enga von.  Hún er óábyrg með öllu, því að hún tekur ekkert mið af raunveruleikanum.  Málflutningur mannvitsbrekkna í hópi verkalýðsforkólfa minna á sögu Münchhausens af því, þegar hann togaði sig upp á hárinu.

"Í raun skiptir engu, hvaða tölur um útgjöld hins opinbera eru skoðaðar.  Sameiginlegur kostnaður landsmanna hefur hækkað gríðarlega á síðustu áratugum. Aukning útgjalda hefur verið nauðsynleg og skynsamleg, s.s. í uppbyggingu heilbrigðiskerfisins, þar sem verið er að tryggja aðgengi sjúkratryggðra - okkar allra - að nauðsynlegri þjónustu.  En jafnvel innan heilbrigðiskerfisins eru fjármunir ekki nýttir, eins og bezt verður á kosið.  Framlög til almannatrygginga hafa stóraukizt, og hið sama á við um menntakerfið." 

 Þannig hefur spilazt úr heimsfaraldrinum COVID-19, að við eigum ekki lengur fyrir útgjöldum hins opinbera.  Gríðarlegur halli er á rekstri sveitarfélaga og ríkissjóðs.  Við þær aðstæður verður ríkisvaldið að víkja til hliðar pólitískum kreddum um rekstrarform; þess í stað verður að leita allra leiða til aukinnar skilvirkni fjármagns og framleiðni vinnuafls á öllum sviðum þjóðlífsins.  Þetta leiðir einfaldlega til þess, að virkja verður markaðsöflin og frjálsa samkeppni eftir föngum í þeirri þjónustu, sem greidd er af ríkissjóði og sveitarfélagasjóðum. Innantóma frasa á borð við það, að ekki megi græða á heilbrigðisþjónustu, verður að grafa í jörð. Tvískinnungur íslenzka ríkisins er alger í þessu sambandi, því að það sendir sjúklinga á einkaklínik í Svíþjóð út af kreddum í garð innlendra fyrirtækja, sem eru fullkomlega hæf til sambærilegrar þjónustu með miklu minni kostnaði fyrir ríkissjóð.  Hvers konar eintrjánings hugmyndafræði getur búið að baki slíkrar meðferðar opinbers fjár ? 

Engum dylst, að þegar í stað er hægt að bæta þjónustu við sjúklinga, stytta biðlista og minnka kostnað við ýmsar bæklunaraðgerðir.  Þetta væri hægt að gera með einu pennastriki í heilbrigðisráðuneytinu, en þar skortir bæði skilning á viðfangsefninu og pólitískan vilja til að hætta að fjandskapast út í einkaframtakið innanlands undir því pempíulega slagorði, að ekki megi græða á heilbrigðisaðgerðum.  Af hverju má það ekki ?  Hvað er ósiðlegt við, að í raun allir græði ?  Hagnaður er uppspretta fjárfestinga og framfara.  Sú pólitíska stefna, sem glæpavæddi gróða, er löngu gjaldþrota.  Kínverski kommúnistaflokkurinn gekk í endurnýjun lífdaganna með því að lögleyfa fyrirtækjagróða.  Íslenzkir harðjaxlar (e. "die-hards") af þessu sauðahúsi verða að víkja úr valdastólum, því að við höfum ekki lengur efni á þeim þar.  Nú þarf ráðdeildarfólk í ráðherrastóla.  

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband