3.9.2020 | 10:54
Hvernig á að mæla árangur ?
Forsætisráðherra heldur því fram, að árangur hafi náðst af aðgerðum þeim, sem hún fór í fylkingarbrjósti fyrir, að teknar yrðu upp á landamærunum og kynnti með brauki og bramli 14. ágúst 2020 og tóku gildi 19. ágúst 2020.
Þá (14.08.2020) var fjöldi COVID-19 sjúklinga 112, þar af 1 á sjúkrahúsi og enginn í gjörgæzlu. Nýgengi innanlands var NGi=21,0 og á landamærum NGl=5,5 eða alls NG=26,5. Þann 1. september 2020 eða 13 dögum síðar var fjöldi sjúklinga 99 og enginn á sjúkrahúsi. NGi=16,9 og NGl=8,2 eða alls NG=25,1. Þetta er í rétta átt, en það er hæpið að halda því fram, að batinn stafi af tvöföldun skimana og sóttkví komufarþega. Þær aðgerðir eru aftur á móti dýrar í framkvæmd og hafa valdið íslenzka þjóðarbúinu gríðarlegu tekjutapi, sett mörg fyrirtæki í mikinn rekstrarvanda og svipt fjölda manns atvinnu sinni. Ef reynt er að leggja mat á kostnað og sparnað aðgerðanna, kemur í ljós, að hlutfall gjaldeyristaps vegna fækkunar ferðamanna og sparnaðar af völdum færri COVID-19 sýkinga er 30-40. Af þessu má draga þá ályktun, að hrapað var að þessari ákvörðun með hrapallegum afleiðingum fyrir hag þjóðarbúsins. Forsætisráðherra og heilbrigðisráðherra bera hina stjórnmálalegu ábyrgð, þótt ríkisstjórnin öll hafi dregizt með.
Nú hefur fjármála- og efnahagsráðherra skipað starfshóp, sem á að reyna að koma vitinu fyrir stjórnendur landsins við framtíðar ákvarðanatökur í sóttvarnarmálum. Sóttvarnarmál eru efnahagsmál, því að allar sóttvarnaraðgerðir eru samfélaginu dýrar og sumar þungbærar. Hlutverk stjórnvalda er ekki að velja á hverjum tíma, það sem Sóttvarnarlæknir telur vænlegast til árangurs, heldur að lágmarka samfélagslegt tjón af faraldrinum, sem við er að etja. Það er nóg af tölulegum gögnum fyrir hendi til að unnt sé að gera þetta af skynsamlegu viti. Það er búið að valda þjóðfélaginu allt of miklu tjóni með rangri aðferðarfræði og þröngsýnu sjónarhorni í andrúmslofti óttans. Nú er mál að linni.
Hörður Ægisson sá, hvað verða vildi, og ritaði strax 21. ágúst 2020 gagnmerka forystugrein í Fréttablaðið undir heiti, sem lýsir skoðun hans á þeim, sem fóru fyrir þessari ákvörðun:
"Farið á taugum".
Hún hófst þannig:
"Það hefur orðið óskiljanleg kúvending í stefnu stjórnvalda. Fyrr í sumar, eftir að ákveðið var að taka það sjálfsagða skref að liðka fyrir frjálsri för fólks til og frá landinu og reyndist afar vel, var ráðizt í fjárfestingar, svo [að] mögulegt væri að auka skimunargetuna á landamærunum í 5 þúsund manns. Flestir stóðu í þeirri trú, að það væri gert til að halda áfram á sömu braut. Hægt yrði að halda landamærunum opnum með varúðarráðstöfunum, þannig að ferðafrelsið - sem telja má til mikilvægra mannréttinda í opnu, frjálsu lýðræðisríki - væri ekki skert, og ferðaþjónustan gæti aflað þjóðarbúinu gjaldeyristekna. Þetta reyndist allt vera misskilningur."
Ísland er nú með mest íþyngjandi sóttvarnir á landamærum sínum, sem þekkjast innan Schengen, e.t.v. þó að Noregi undanskildum. Þetta var þó ekki lagt til af Sóttvarnarlækni að þessu sinni, heldur tók hann það fram, að þetta væri öflugasta sóttvarnaraðgerðin á meðal þeirra 9 valkosta, sem hann tíndi til og afhenti heilbrigðisráðherra. Engu að síður virðist engum detta í hug að leyfa öðrum en Schengen-þjóðunum og örfáum öðrum, sem Schengen-stjórnin í Brüssel taldi "örugg", komur hingað. Þetta er stórfurðulegt, því að hvorki íbúum á Íslandi né annars staðar á Schengen-svæðinu getur stafað smithætta af fólki, sem farið hefur í tvöfalda skimun við SARS-CoV-2 og 5 daga sóttkví á milli. Það er ekki heil brú í því, að við séum með miklu strangari sóttvarnir á okkar landamærum en Schengen miðar við, en séum samt bundin við að taka einvörðungu við fólki frá löndum, sem Schengen telur örugg. Hér er utanríkispólitískt vandamál á ferðinni, en ekki lýðheilsulegt vandamál, sem veldur landinu stórtjóni.
"Ísland, sem á hvað mest undir ferðaþjónustunni af öllum ríkjum Evrópu, framfylgir nú einna hörðustu aðgerðum við landamærin í allri álfunni. Þeir, sem vonuðust til, að þessar nýju reglur myndu vara í skamman tíma, urðu fljótt fyrir vonbrigðum, þegar sóttvarnalæknir lýsti yfir, að þær ættu að gilda í marga mánuði. Enginn ráðherra hefur séð ástæðu til að mótmæla þeim ummælum.
Gríðarlegur fjöldi fyrirtækja á nú ekki annarra kosta völ en að fara í tímabundið greiðsluskjól eða óska eftir gjaldþrotaskiptum. Þúsundir munu bætast við á atvinnuleysisskrá. Það er frostavetur í vændum."
Sóttvarnarlæknir hefur enga heimild til slíkrar yfirlýsingar. Hafi hann lýst þessu yfir, sem Hörður Ægisson heldur fram, varpar það ljósi á, að sóttvarnarmálin eru komin út í öfgar. Þegar um tiltölulega vægan veirufaraldur er að ræða, eins og á við um COVID-19 sjúkdóminn, þótt veiran sé bráðsmitandi, þá eru sóttvarnir ekki lýðheilsumál, heldur efnahagsmál. Aðgerðir þarf þá að vega og meta kostnaðarlega. Sé það reynt, kemur strax í ljós, að tvöföld skimun og sóttkví á milli er algerlega óverjandi úrræði m.v. stöðuna, sem var hér á faraldrinum, þegar til þess var gripið. Tekjutap og kostnaður, sem þetta úrræði leiddi til, er líklega á bilinu 30-40 sinnum meira en nemur sparnaði af völdum færri smita og sóttkvía, sem úrræðið hefur í för með sér. Úrræðið er þess vegna fráleitt, nema við mun alvarlegri aðstæður, miklu hærra nýgengi og álag á heilbrigðiskerfið.
"Efnahagslegar afleiðingar þessarar misráðnu ákvörðunar hafa strax komið fram. Fyrir utan þúsundir afbókana ferðamanna til landsins hafa erlendir fjárfestingarsjóðir, stærstu eigendur íslenzkra , ríkisskuldabréfa, í vikunni selt þær eignir fyrir marga milljarða [ISK] með tilheyrandi gengisveikingu krónunnar - sem Seðlabankinn reynir að sporna við með sölu gjaldeyris - og verðbólguvæntingar hafa snarhækkað. Ekki er að sjá, að sú atburðarás hafi verið tekin með í þeim dæmalausu útreikningum, sem voru að baki þeirri ákvörðun, byggðri á minnisblaði fjármálaráðuneytisins, að það væri efnahagslega skynsamlegt að skella landinu í lás."
Ekki er að sjá, að nokkurt vitrænt fjárhagslegt mat á aðgerðum hafi legið að baki ákvörðun ríkisstjórninnar, heldur örvænting út af því, að nýgengið væri komið yfir 10 og að Norðmenn settu Ísland þess vegna á rauðan lista hjá sér, eins og önnur lönd, þar sem svipað var ástatt. Enn er nýgengið um 25 (í septemberbyrjun 2020), og það er mun lægra við landamærin en innanlands. Það er vandséð, að hinar einstæðu og dýru sóttvarnaraðgerðir á landamærunum hafi skipt nokkrum sköpum um þróun faraldursins hérlendis, en hins vegar blasir við hverjum manni, að þær hafa valdið efnahag landsins stórtjóni, og það er auðvelt að sýna fram á, að tjónið er meira en einni stærðargráðu meira en líklegur sparnaður vegna færri smita. Í dag, 3. september 2020, er afar fróðleg grein í prentútgáfu Morgunblaðsins um dánarlíkur af völdum SARS-CoV-2 og inflúensu í ljósi sóttvarnaraðgerða yfirvalda, og er öllum áhugasömum bent á að lesa þá grein í viðleitni til að mynda sér skoðun um þessi mál. Kunna þá að renna 2 grímur á marga varðandi réttmæti núverandi meðhöndlunar yfirvalda á þessum málaflokki.
Það er bráðnauðsynlegt, að Alþingi taki þetta mál til alvarlegrar umfjöllunar í viðleitni til að víkka sjóndeildarhring stjórnvalda. Þannig þyrfti þingumræðum að ljúka með þingsályktunartillögu, sem yrði yfirvöldum leiðarljós í aðgerðum þeirra.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Heilbrigðismál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Frábærar greinar hjá þér! en gætir þú vinsaml. útskýrt þessa setningu. Ef reynt er að leggja mat á kostnað og sparnað aðgerðanna, kemur í ljós, að hlutfall gjaldeyristaps vegna fækkunar ferðamanna og sparnaðar af völdum færri COVID-19 sýkinga er 30-40.
Guðjón Bragi Benediktsson, 3.9.2020 kl. 11:33
Eins og Kolbrún Bergþórsdóttir víkur að í ágætum leiðara í Fréttablaðinu í morgun kann að vera að hinn raunverulegi faraldur sem við þurfum að varast sé faraldur ótta, ekki veiru.
Í gær var haft eftir lækni nokkrum í frétt á mbl.is að hann tryði því ekki að nokkrum manni fyndist það í lagi að fólk legðist inn á spítala. Með öðrum orðum er maðurinn að segja að það sé allt réttlætanlegt, bara til þess að hindra að einn einasti einstaklingur þurfi að leggjast á sjúkrahús vegna flensu.
Þetta sjúka viðhorf þessa læknis er væntanlega almennara en maður hefði búist við, enda virðist meginhluta landsmanna einfaldlega þykja það sjálfsagt að fórna lífsafkomu, lífi og heilsu þúsunda til að koma í veg fyrir að nokkur maður fari á sjúkrahús vegna veirunnar.
Það sem hér er á ferðinni er að vissu leyti líkt því sem átti sér stað í galdrafárinu á 17. öld. Þá varð til það sjúklega viðhorf að það eina sem skipti máli væri að útrýma galdranornum, vegna þess að allt illt stafaði frá þeim.
Einhverjum öldum síðar varð til það sjúklega viðhorf að útrýma þyrfti heilum kynþætti, sem ætti sök á öllu illu í veröldinni.
Nú ríkir hið sjúklega viðhorf að það eina sem skipti máli sé að útrýma tilteknum flensuvírus - ekkert annað skipti máli.
Ekki að fólk lendi unnvörpum á vonarvöl.
Ekki að fjöldi fólks undir hungurmörkum í heiminum tvöfaldist og níu milljón manns til viðbótar deyi úr hungri.
Ekki sjálfsvígin sem hefur stórfjölgað og eru að miklu leyti afleiðing veirubrjálæðisins.
Ekki allt fólkið sem þorir ekki á spítala eða fær ekki þjónustu vegna hins sjúklega markmiðs.
Ekki börnin og unglingarnir sem framtíðin er eyðilögð fyrir með lokunum skóla og skemmdarverkum á námi.
Ekki öll dauðsföllin og heilsuleysið sem vitað er að á sér beina orsök í atvinnuleysi.
Ekkert annað en hið heilaga, en um leið fáránlega óraunhæfa og sjúklega markmið, að "lifa í veirulausu samfélagi."
Þorsteinn Siglaugsson, 3.9.2020 kl. 12:00
Sæll, Guðjón Bragi;
Þakka þér fyrir spurninguna. Þegar meta þarf kosti og galla ákvörðunar eða aðgerðar, þarf fyrst að finna sameiginlegan mælikvarða. Hann er í mörgum tilvikum peningar og svo er hér. Það er vandkvæðum háð að leggja peningalegt mat á harmleiki, og þess vegna verður þessi aðferðarfræði aðeins nálgun að sannleikanum, en ekki sjálfur sannleikurinn. Ef hins vegar munur kostnaðar og sparnaðar er mjög mikill, eins og reyndist hér, má álykta með vissu um niðurstöðuna með þeim fyrirvara þó, að mikilvæg atriði hafi ekki orðið útundan.
Það er vitað, hverju hver ferðamaður skilar í þjóðarbúið, þegar búið er að draga frá kostnað af honum. Það er líka vitað, hversu mikið ferðamönnum fækkaði við hina umdeildu aðgerð tvöfaldrar skimunar og sóttkvíar. Þannig má leggja mat á tapið.
Það má áætla meðalkostnað af hverri sýkingu, hversu marga hver sýktur ferðamaður er að jafnaði talinn smita, kostnað af sóttkvíum hans vegna og síðan eru fyrir hendi nýlegar upplýsingar frá Íslenskri erfðagreiningu um það, hversu margir hafa greinzt jákvæðir í seinna skiptið, en neikvæðir í fyrra skiptið.
Á grundvelli þessa reiknaði ég hlutfall tekjutaps og sparnaðar á bilinu 30-40. Um þetta er líka fjallað í grein eftir mig, sem bíður birtingar í Morgunblaðinu. Ályktun mín er sú, að ákvörðunin var röng. Hún skapar miklu meiri vanda en hún leysir.
Bjarni Jónsson, 3.9.2020 kl. 13:57
Sæll, Þorsteinn;
Ég er alveg sammála þér um þetta. Það eru sömu öfl í manninum að verki núna, eins og grasseruðu í galdrafári 17. aldar. Í kjölfar siðaskiptanna ærðu prestar lýðinn af ótta við helvíti. Yfirvöldin urðu móttækileg fyrir álognar sakir um samneyti af ýmsu tagi við satan sjálfan og friðuðu lýðinn með grimmdarlegum aftökum til að sýna mátt hins góða, svo öfugsnúið sem það er. Kolbrún Bergþórsdóttir hittir naglann á höfuðið í forystugrein Fréttablaðsins í dag og kennir ástandið Á Spáni og hér við sálfræðihugtakið "hysteríu". Það hefur verið nefnt móðursýki á Íslandi. Múgsefjun af þessum toga virðist hafa gripið um sig. Að breyttu breytanda eru galdrakindur nútímans komufarþegar frá útlöndum. Þeir, sem við erlenda ferðamenn hafa samneyti af einhverju tagi, þ.e. ferðaþjónustufyrirtækin, eru nú brennd á báli. Það mætti halda áfram með þessa samlíkingu og líta til yfirvaldanna, en ég læt hér staðar numið.
Bjarni Jónsson, 3.9.2020 kl. 14:24
Já, þetta gerist þegar fókusinn beinist í ranga átt. Markmiðið er bjagað og þá verða allar athafnir bjagaðar. Ég bíð spenntur eftir að sjá greinina þína.
Þorsteinn Siglaugsson, 3.9.2020 kl. 16:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.