18.9.2020 | 10:53
Hræðsluáróður og raunsæi
Það er mikil áherzla lögð á það af hálfu sóttvarnaryfirvalda nú í s.k. Bylgju 2 af COVID-19 að fækka smitum, sem berast inn í landið. Er það skynsamleg stefnumörkun í ljósi kostnaðar af hverju smiti og þeirra gríðarlegu fórna, sem færa þarf til að fækka smitum inn í landið með aðferð stjórnvalda, þ.e. tveimur skimunum með um 5 daga sóttkví þar til upplýsingar berast ferðalangi um neikvæða niðurstöðu seinni skimunar ? Nei, fórnarkostnaðurinn er allt of hár m.v. ávinninginn.
Ferðamönnum til landsins hefur líklega fækkað um 70 % - 80 % við þá breytingu sóttvarna á landamærum að krefjast tveggja skimana og 5 daga sóttkvíar í stað einfaldrar skimunar við komu og smitgátar fram að niðurstöðu eða 14 daga sóttkvíar. Ef notað er lægra hlutfallið og búizt við 3500 farþegum á sólarhring að hausti og vetri (í Kófinu) með einfaldri skimun, þá nemur fækkun ferðamanna 2450 manns á sólarhring. Ef hver ferðalangur, sem hættir við að koma til landsins, veldur nettó tekjutapi íslenzka þjóðarbúsins upp á kISK 100 (100 þúsund krónur), þá nemur nettó tapið 245 MISK/dag (M=milljón).
Hver er ávinningurinn af tvöfaldri skimun ? Hann er háður fjölda smitaðs fólks, sem sleppur inn í landið með einfaldri skimun, en ekki með tvöfaldri skimun. Hér þarf að taka tillit til þess, að samkvæmt Sóttvarnalækni eru 60 % þeirra, sem greinast með virk smit á landamærunum búsett á Íslandi. Sennilega er smithætta frá þeim a.m.k. þreföld að jafnaði á við smithættu frá erlendum ferðamönnum hér innanlands. Þess vegna er rétt, að þessi hópur haldi áfram að fara í tvöfalda skimun við komuna til landsins. Fjöldi þeirra, sem greinzt hafa neikvæðir í fyrra skiptið og jákvæðir í seinna skiptið, kemur fram í neðangreindri tilvitnun í ágæta grein Þorsteins Siglaugssonar í Morgunblaðinu 11. september 2020:
"Þegar fókusinn brenglast",
Þar stendur m.a. þetta:
"Í annarri skimun á landamærum hefur 21 smit greinzt. Því færri ferðamenn, því færri smit greinast. Og því færri ferðamenn, því færri störf. Það er kaldhæðnislegt, að því betri sem "árangur" aðgerðanna verður - færri ferðamenn og færri greind smit - því fleiri dregur atvinnuleysið til dauða fyrir hvert smit, sem forðað er."
Í ljósi fremur lítils álags á heilbrigðiskerfið í s.k. Bylgju 2, þar sem aðeins 1 sjúklingur hefur þurft í senn á sjúkrahúsvist að halda og enginn hefur látizt, orkar mjög tvímælis, að yfirvöld landsins skuli þvermóðskast við að halda íþyngjandi sóttvarnaraðgerðum sínum á landamærunum og innanlands til streitu. Eins og fram gengur af tilvitnuninni hér fyrir ofan, liggur fólk í valnum vegna þarflausra aðgerða stjórnvalda.
M.v. upplýsingarnar hér að ofan um fjölda smitaðra, sem seinni skimun hefur gripið, en ekki sú fyrri, má ætla, að meðalfjöldi þeirra, sem með einfaldri skimun slyppu inn í landið smitaðir sé 3,9 á sólarhring, en af þeim eru aðeins 1,6 erlendir ferðamenn. Miðað við tiltölulega litla smithættu af þeim, mundi daglegum smitum fjölga um 3. Ætla má, að sparnaðurinn, sem það leiðir af sér að komast hjá þessum smitum, nemi 9,3 MISK/dag, en skimunarkostnaðurinn við seinni skimunina er aftur á móti um 15 MISK/dag (sóttkvíarkostnaði á milli skimana sleppt). Tekjutap og auka skimunarkostnaður er að lágmarki 260 MISK/dag og hlutfallið 260/9,3=28 er algert lágmark á milli kostnaðar og sparnaðar af tvöfaldri skimun m.v. einfalda skimun. Þessi ráðstöfun er ekki verjanleg, eins og s.k. Bylgja 2 hefur lengst af þróazt hérlendis.
Grein sína hóf Þorsteinn Siglaugsson þannig:
"Þann 19. ágúst [2020] var Íslandi í raun lokað fyrir ferðamönnum. Ferðaþjónusta hefur nánast stöðvazt. Verzlun og þjónusta verður fyrir miklum skakkaföllum. Fasteignafélög lenda í vanda. Bankarnir fá skuldirnar í fangið. Skatttekjur ríkisins hrynja. Getan til að halda uppi mennta-, heilbrigðis- og velferðarkerfi skerðist. Þúsundir missa vinnuna, enda stór hluti starfa háður ferðaþjónustu. Margir hafa hvatt til, að aðgerðirnar verði endurskoðaðar. Viðbrögðin lofa ekki góðu."
Ríkisstjórnin hefur stórlaskað hagkerfi landsins með ráðstöfunum sínum í sóttvarnarmálum, sem gerðar eru í nafni lífs og heilsu landsmanna, en ógna lífi og heilsu fleira fólks í landinu en þær verja. Þetta blasir við, en forsætisráðherra og heilbrigðisráðherra virðast heillum horfnar og þar með ríkisstjórnin öll, þótt einhverjir ráðherrar maldi í móinn.
Nokkru síðar í greininni færði Þorsteinn rök fyrir skaðsemi ráðstafananna á líf og heilsu fólks. Samtök atvinnulífsins hafa lítið gagnrýnt stjórnvöld nú í s.k. Bylgju 2, og einkum hefur skort á, að samtök launþega taki upp hanzkann fyrir sína félagsmenn. Þar á bæ er talið mikilvægara að berjast við "kapítalismann", sem nú er á hnjánum sums staðar, t.d. í ferðageiranum, og þar af leiðandi hafa mörg störf farið í súginn og öðrum ógnað. Forgangsröðun verkalýðsforkólfa er óskiljanleg, og almennt ræður hjarðhegðun för í þjóðfélaginu á röngum forsendum, eins og oft áður.
"Það er löngu sannað, að atvinnuleysi veldur dauðsföllum. Hjartasjúkdómar eru fyrirferðarmestir. Samkvæmt nýlegri rannsókn veldur 1 % aukning atvinnuleysis 6 % aukningu á dánarlíkum ári síðar. Fjöldi annarra rannsókna víða um heim sýnir slíkt samhengi."
Í júlí 2020 voru 17´100 manns atvinnulaus. Ef hinar vanhugsuðu aðgerðir stjórnvalda í sóttvarnarmálum, einkum á landamærum, valda atvinnumissi 4000 manns, þá vex atvinnuleysið um a.m.k. 20 %. Samkvæmt því samhengi aukningar atvinnuleysis og dánarlíkinda atvinnuleysingja ári síðar, má ætla, að dánarlíkur yfir 20´000 manns á næsta ári aukist um 120 %, ef ekki rætist verulega úr atvinnuástandinu fljótlega. Dettur einhverjum í hug, að dánarlíkur einhvers annars 20´000 manna hóps á landinu meira en tvöfaldist við það að slaka á sóttvarnaraðgerðum í landin, sem sannanlega eru fyrirtækjum svo mikill fjötur um fót, að þau neyðast til að fækka starfsfólki ?
Þorsteinn Siglaugsson hélt áfram:
"Enginn má leggjast á spítala vegna Covid-19. En enginn hefur misst vinnuna til að fækka í þeim 25.000 manna hópi, sem árlega þarf að leggjast á spítala af öðrum orsökum. Enginn krefst allsherjarútgöngubanns til að fækka þeim 2300 dauðsföllum, sem verða af öðru en Covid-19. Hvers vegna þetta hrópandi misræmi ?"
Ætli fjöldi innlagna á spítala af völdum COVID-19 verði ekki undir 100 á árinu 2020. Það er 0,4 % af öllum innlögnum. Dauðsfallahlutfallið af völdum COVID-19 af öllum dauðsföllum verður líklega svipað á þessu ári. Stærsta atvinnugrein landsins er ein rjúkandi rúst, ríkissjóður safnar skuldum, sem nálgast mrdISK 1000, viðskiptajöfnuðurinn er í járnum og nú gengur á gjaldeyrisvarasjóðinn til að verja ISK, sem fallið hefur um næstum fimmtung frá upphafi Kófs. Allt er þetta með miklum ólíkindum og þarfnast sennilega alþjóðlegrar, geðfræðilegrar rannsóknar. Þorsteinn Siglaugsson nálgaðist útskýringu fyrir sitt leyti:
"Ástæðan er, að fókusinn á það, sem máli skiptir, er horfinn. Eitthvað eitt fær skyndilega vægi úr öllum takti við tilefnið. Þetta er ekki í fyrsta sinn. Í galdrafárinu varð galdrakukl, sem miðaldakirkjan leit á sem hindurvitni og fæstir höfðu áhyggjur af, skyndilega undirrót alls ills."
Það, sem máli skiptir hér og það, sem stjórnvöld hafa algerlega misst sjónar af, er að lágmarka hið samfélagslega tjón af þessum veirufaraldri. Í upphafi faraldursins var lítið vitað um hegðun veirunnar SARS-CoV-2 og áhrif hennar á líkamann, og þess vegna hilltust yfirvöld víða til að setja sóttvarnaraðgerðir á oddinn án tillits til alvarlegra efnahagslegra afleiðinga, sem aftur munu hafa alvarlegar afleiðingar fyrir heilsufar og lífslíkur fjölmennra hópa ásamt þjónustugetu heilbrigðiskerfisins. Það ríkti og ríkir enn allt of mikil þröngsýni og skammsýni í þessum efnum með hrikalegum afleiðingum fyrir efnahag hins opinbera og margra fyrirtækja og einstaklinga.
Höfuðábyrgðina á þessum stórskaðlegu stjórnarháttum ber forsætisráðherra. Hún er ekki ábyrg fyrir kreppunni, en hún er ábyrg fyrir því, að ekki náðist viðspyrna í ferðaþjónustunni í sumar, heldur hélt allt áfram að síga á ógæfuhliðina f.o.m. 19. ágúst 2020.
"Yfirlýsingar forsætisráðherra um "meintan" árangur sýna, hvernig stjórnmálamenn geta misst sjónar á ábyrgð sinni gagnvart heildarhagsmunum samfélagsins. Ekkert skiptir lengur máli, nema fjöldi smita. Hið upphaflega markmið að tryggja afkastagetu heilbrigðiskerfisins og verja um leið þá hópa, sem viðkvæmastir eru, er löngu fokið út í veður og vind hérlendis."
Þegar hin göfugu stefnumið, sem Þorsteinn nefnir, fuku út um gluggann, og við tóku óljós stefnumið um "veirulaust" Ísland, þá tók að bera á gagnrýnisröddum, enda blasir við mörgum, að slíku má jafna við baráttu don Kíkóta við vindmyllurnar forðum, nema barátta ríkisstjórnarinnar er bein ógn við fjármálastöðugleikann í landinu, en barátta don Kíkóta fór mest fram í hans ruglaða höfði.
Frásögn Þorgerðar Önnu Gunnarsdóttur í Morgunblaðinu 11. september 2020 af upplýsingafundi Almannavarna um stöðu farsóttarinnar var með óttalegri fyrirsögn:
"Hlutfall virkra smita við landamæri tífaldast"
og hófst þannig:
"Hlutfall þeirra, sem greinast með virk smit við landamærin fer vaxandi, og skýrist það líklega af vaxandi útbreiðslu kórónaveirunnar erlendis. Hlutfall þeirra, sem höfðu virk smit við greiningu á landamærunum í júní og júlí var 0,03 %, en undanfarnar 3 vikur er hlutfallið 0,3 %."
Því ber að halda til haga, að vegna mikillar fækkunar komufarþega frá 19. ágúst 2020 hefur sýktum lítið sem ekkert fjölgað, þótt hlutfall þeirra hafi hækkað mikið. Er 0,3 % sýktra af COVID-19 í þýði hátt hlutfall á íslenzkan mælikvarða ? Því er hæpið að halda fram, því að það er aðeins 1/3 af hlutfalli íslenzku þjóðarinnar, sem talið er hafa smitazt af veirunni.
Ef nýgengið á landamærunum er athugað á tímabilinu 12. ágúst - 11. september 2020, þá hækkar það til 20. ágúst upp í 12,5, en lækkar síðan nánast stöðugt í 6,8 þann 11. september 2020. Þetta er hærra gildi en í júní - júlí, en þarf ekki að skjóta neinum skelk í bringu. Nýgengið á landamærunum er aðeins um helmingur af nýgenginu innanlands. Nýgengið á landamærunum um miðjan september 2020 var orðið svipað og í sumar.
Niðurstaðan er sú, að lítið aukin smithætta stafi yfirleitt af erlendum ferðamönnum, þótt seinni skimun og 5 daga sóttkví verði afnumin, t.d. fyrir þá, sem koma frá og eru frá landi með nýgengisstuðul NG<50, en væri þá haldið til streitu fyrir aðra, og öllum lögmætum ferðamönnum jafnframt heimiluð för til landsins. Einnig er rétt að viðhalda tvöfaldri skimun og sóttkví fyrir þá, sem búsettir eru hérlendis, því að smithættan frá þeim er mun meiri en frá öðrum. Það kom fram í téðri frétt Þorgerðar Önnu, að 60 % þeirra, sem greindir eru með virk smit á landamærunum, eru búsett á Íslandi, og 24 % eru íslenzkir ríkisborgarar. Í fréttinni stóð þetta einnig:
"Að sögn Þórólfs er skynsamlegast að fara mjög hægt í að aflétta takmörkunum á landamærum, og að ekki sé rétt að aflétta ráðstöfunum samtímis innanlands og á landamærum. Vinna við framtíðarútfærslu á skimunum m.t.t. mismunandi hagsmuna þarf að fara fram sem fyrst að sögn Þórólfs."
Það er almenn regla, þegar tilraunastarfsemi á sér stað, að breyta aðeins einni stærð í einu til að geta lagt mat á áhrif þeirrar breytingar. Þegar efnahagslegir hagsmunir landsins eru teknir með í reikninginn, er ekki hægt að skrifa undir það, að skynsamlegast sé að draga á langinn að létta á mest íþyngjandi ferðahömlununum á landamærunum, enda er ekki sama, hvernig það er gert. Það ætti að setja í forgang breytingar á sóttvarnaraðgerðum á landamærunum, og taka þar með aðra mikilvæga hagsmuni með í reikninginn, eins og Þórólfur segir. M.v. hina jákvæðu þróun ferðamannastraums til landsins í ágúst, sem stjórnvöld eyðilögðu með einu pennastriki 19. ágúst 2020, má gera ráð fyrir nettótapi gjaldeyristekna mrdISK 20-30 frá 19.08-31.12.2020. Það er líklegt, að ferðamenn leiti í auknum mæli eftir fámennum áfangastöðum í löndum með tiltölulega litla smithættu. Það er þess vegna ekki hægt að draga ályktanir fyrir Ísland af þróun ferðalaga t.d. til Spánar, eins og sézt hefur bregða fyrir.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Heilbrigðismál, Stjórnmál og samfélag, Kjaramál | Facebook
Athugasemdir
Ákaflega góð samantekt Bjarni. Nú sé ég að kunnáttumenn eru teknir að beina sjónum að þessum málum í samhengi við lyfjaiðnaðinn og gríðarlega hagsmuni hans, sem við erum ekki að fara varhluta af hér.
Sjá hér góða grein Geralds Posner, sem nýverið gaf út merka bók um þetta efni, "Pharma - Greed, Lies and the Poisoning of America."
https://www.newsweek.com/pharma-insiders-are-raking-money-despite-no-guaranteed-covid-19-vaccine-opinion-1531996
Þorsteinn Siglaugsson, 18.9.2020 kl. 12:57
Þakka þér kærlega fyrir, Þorsteinn.
Ég var ánægður að heyra í hádegisfréttum á Gufunni, að kráaeigandi í Reykjavík mótmælti lokunum kráa og fannst skjóta skökku við að loka krám, en ekki veitingahúsum með vínveitingaleyfi. Það hefur komið fram, að þessi kráareigandi uppfyllti skilyrði yfirvalda um sóttvarnir. Þessar geðþóttaákvarðanir heilbrigðisyfirvalda um mjög íþyngjandi inngrip í rekstur og afkomu fyrirtækja standast tæplega Stjórnarskrá. Reimar Pétursson, lögmaður, hefur kveðið fast að orði um þetta. Yfirvöldum væri nær að hafa gagnlegt eftirlit með, að sjúklingar í einangrun brjóti ekki sóttvarnalög og stelist út. Vantar ökklabönd ?
Bjarni Jónsson, 18.9.2020 kl. 13:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.