Tækifærin í hrönnum, en doðinn veldur stöðnun

Hagkerfi Íslands, eins og annarra landa, er mjög illa leikið eftir "Wuhan-veiruna", sem þó er ofmetnasta veira, hvað hættu áhrærir, sem um getur.  Þótt hún hafi verið viðkvæmum skeinuhætt, er samt barnaleikur að eiga við hana í samanburði við það, sem skotið getur upp kollinum veirukyns, og nægir að nefna hina skelfilegu ebólu, sem olli mörgum fjörtjóni í Vestur-Afríku fyrir nokkrum árum og var með 10-100 sinnum hærra dánarhlutfall sýktra en SARS-CoV-2-veiran, sem fyrst varð vart við í Wuhan-borg í Kína, svo að vitað sé, í nóvember-desember 2019.

Fjármála- og efnahagsráðherra Íslands hefur sagt, að rétta leiðin út úr kreppunni sé að auka tekjur þjóðarbúsins, auka gjaldeyristekjur og verga landsframleiðslu.  Undir þetta er hægt að taka, en vandinn og e.t.v. vonbrigðin eru þau, að ríkisvaldið skuli ekki liðka til fyrir einkaframtakinu, þar sem það liggur beint við og er ríkinu útlátalítið, á heildina litið.

Áliðnaðurinn er einn af þeim geirum, sem býður upp á þetta, þótt það stingi í stúf við ýmsar fréttir að undanförnu.  Álverðið hefur verið að braggast, og vaxandi skilningur er á því á Innri markaði EES, að sanngjarnt og umhverfislega æskilegt á heimsvísu sé að tollleggja vöru með hliðsjón af kolefnisspori hennar.  Er þá ekki að orðlengja, að staða álvera á Íslandi og í Noregi á markaðinum mundi batna, enda verða samkeppnisskilyrðin þar með eðlilegri.

Njáll Trausti Friðbertsson, Alþingismaður, ritaði góða grein í Morgunblaðið 1. september 2020, sem hann nefndi:

"(Ál)iðnaður, ein af grunnstoðum íslensks efnahagslífs".

Það er mjög ánægjulegt, að þingmaður skuli skilmerkilega í blaðagrein vekja athygli á útflutningsgrein, sem moldvörpur hafa af kunnri smekkleysu sinni grafið undan um langa hríð. 

Því miður hefur sá og höggvið, er hlífa skyldi, en fjandskapur ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar við þessa atvinnustarfsemi frá 2010 hefur fáum dulizt.  Á sama tíma og mætir þingmenn benda á fjárfestingar einkaaðila, t.d. í laxeldi, sem eru strandaðar í leyfisveitingafrumskógi hins opinbera, þvermóðskast Landsvirkjun við að hleypa nýju lífi í fjárfestingar í íslenzkum áliðnaði.

Ef samið verður um lækkun orkuverðs til ISAL úr hæstu hæðum, verður hleypt lífi í framkvæmdir í Straumsvík, sem frestað hefur verið í nokkur ár vegna slæms fjárhags, en lágt afurðaverð og mjög hátt raforkuverð hefur sligað fjárhaginn með alvarlegum afleiðingum fyrir stöðu ISAL innan samsteypu Rio Tinto.

  Á Grundartanga eru merkileg fjárfestingaráform á döfinni, sem eru þó skilyrt við endurnýjaðan raforkusamning við Landsvirkjun.  Landsvirkjun hefur dagað uppi með stefnu sína um stórgróða og arðgreiðslur eftir því.  Hvernig stendur á því, að nú, þegar hæst þarf að hóa, skuli eigandinn, ríkissjóður, ekki beita sér fyrir því, að Landsvirkjun liðki með verðlagningu raforku fyrir nýjum fjárfestingum í landinu, eins og hún var stofnuð til að gera ?  Það væri algerlega í anda boðskapar fjármála- og efnahagsráðherra nú um leið landsmanna út úr kreppunni. 

Grípum niður í grein Njáls Trausta: 

"Það er þó staðreynd, hvort sem mönnum líkar betur eða verr, að stóriðjan á Íslandi og raforkuframleiðsla hefur byggt mikilvægan grunn undir íslenzkt efnahagslíf.  Sem dæmi má nefna mikilvægi álframleiðslunnar í framhaldi af bankahruninu, þar sem gjaldeyristekjur af álframleiðslu ásamt vexti í ferðaþjónustu kom okkur Íslendingum á undraskömmum tíma út úr erfiðri kreppu."

Það munaði mjög mikið um fjárfestingar Rio Tinto í Straumsvík á tímabilinu 2010-2013. Þá var þar fjárfest fyrir MUSD 500, sem á núverandi gengi nemur tæplega mrdISK 70.  Fjárfest var í stækkun afriðlastöðvanna þriggja og nýju þétta- og síuvirki til að hækka aflstuðul við inntak aðveitustöðvar yfir 0,98, keyptir voru viðbótar straumteinar til að kerskálar gætu tekið við hærri straumi frá afriðlastöðvum og framleiðslubúnaði steypuskála var umbylt, svo að í stað álbarra (rétthyrningslaga í þversnið allt að 30 t) yrðu framleiddar álstengur (hringlaga í þversnið),  o.fl. var gert til að styðja við aukna og verðmætari framleiðslu. (Hár aflstuðull bætir nýtingu búnaðar virkjana og flutningskerfis.)

Þá voru og reistar 2 nýjar hreinsistöðvar fyrir kerreykinn til að uppfylla nýjar og strangar kröfur um hámarkslosun flúoríðs í ögnum út í andrúmsloftið og vetnisflúoríðs á gasformi á hvert framleitt tonn áls.  Hefur þetta allt reynzt vel, en Rio Tinto hætti við uppsetningu straumteinanna, þótt slíkir hafi verið settir upp í systurverksmiðjunni, SÖRAL, í Noregi, og sú ákvörðun hefur takmarkað framleiðsluaukninguna og þar með þá framleiðniaukningu, sem að var stefnt með fjárfestingunni.  

Þegar ISAL tók til starfa 1969, var síldin horfin, svo að þessar miklu og stefnumarkandi fjárfestingar í Straumsvík og í Búrfellsvirkjun linuðu kreppuna, sem af síldarleysinu leiddi, og iðnvæðingin, sem í hönd fór, bætti lífskjörin og dró úr efnahagssveiflum í landinu.  ISAL hefur þannig alla tíð frá 1967 (framkvæmdir) jafnað hagsveiflurnar á Íslandi. ISAL getur enn stuðlað að viðspyrnu, ef fyrirtækið fær raforkuna á samkeppnishæfu verði, sem er fjarri lagi nú (tæplega 40 USD/MWh með flutningsgjaldi).

Nú skal enn vitna í Njál Trausta:

"Álframleiðslan á Íslandi er í dag um 16 % af heildarútflutningstekjum þjóðarinnar [2019: 214/1344], eins og við þekkjum síðustu árin, og kostnaður álvera á Íslandi í fyrra nam um mrdISK 91 innanlands. Það eru beinharðar gjaldeyristekjur fyrir íslenzkt þjóðarbú.  Samkeppnishæfni íslenzkrar álframleiðslu snýr því einna helzt að tveimur þáttum; annars vegar að því, að Ísland er aðili að Evrópska efnahagssvæðinu og hins vegar að aðgengi að grænni raforku á hagstæðum kjörum."

 Raforkuverðið, sem ISAL býr við, er um þessar mundir hið hæsta í Evrópu, og þótt víðar væri leitað. Það er fjarri lagi, að rafmagnið sé á hagstæðum kjörum fyrir alla stórkaupendur, og það er ekki hagfellt fyrir seljandann heldur, því að kaupendur hafa af þessum sökum dregið úr kaupunum sem mest þeir mega, og í Straumsvík mun eigandinn neyðast til að stöðva verksmiðjuna löngu áður en samningstímabilið rennur út (2036), ef svo heldur fram sem horfir. 

Rio Tinto/ISAL hefur nú fært ágreining sinn við Landsvirkjun til Samkeppnisstofnunar, og það kann að verða aðeins fyrsta skrefið í langvinnri lögfræðilegri þrætuvegferð, sem getur vel borizt alla leið til ESA í Brüssel.  Það er tæplega eftirsóknarvert fyrir einokunarfyrirtækið Landsvirkjun, sem er sem bergþurs á íslenzkum orkumarkaði.  Frá sjónarmiði ESA-Eftirlitsstofnunar EFTA gæti þörfin á að skapa raunverulega samkeppni á íslenzka raforkumarkaðinum blasað við og liður í því verið að búta Landsvirkjun niður, en er það þjóðhagslega hagkvæmt ?  Varla.

Áfram hélt Njáll Trausti:

"Í umræðunni, eins og vill oft gerast, þegar um orkusækinn iðnað er að ræða, gleymist að huga að því, að á bak við framleiðsluna er fólk, sem dregur lífsviðurværi sitt af því að starfa þar.  Árið 2019 voru tæplega 1500 manns, sem störfuðu í álverum.  Þá voru stöðugildi verktaka innan álvera 435 og starfsmenn í stóriðjuskóla 105."   

Á meðal þessara 1500 á launaskrá álveranna eru mjög fjölbreytilegar starfsgreinar, sérhæfðir starfsmenn, iðnaðarmenn, iðnfræðingar, verkfræðingar, viðskiptafræðingar o.fl.  Fjölmargir verktakar starfa einnig utan verksmiðjanna auk þessara 435 innan verksmiðjanna, e.t.v. 200-300 ársverk, svo að alls gætu verið 2200 ársverk unnin hérlendis á vegum álveranna, og til viðbótar eru s.k. óbein störf.  Það munar um minna á íslenzka vinnumarkaðinum, því að meðallaun hverrar starfsgreinar í álverunum eru tiltölulega há.  Vaktavinnufólk hefur þar mjög góð kjör, bæði á tvískiptum og þrískiptum vöktum, og bakvaktir drýgja tekjurnar, en eru oft erilsamar. 

Að lokum skrifaði Njáll Trausti:

"Verkefnið, sem við stöndum frammi fyrir, hlýtur þar af leiðandi að felast í því að treysta samkeppnisstöðu íslenzks áliðnaðar.  Ég vil því taka undir orð fjármálaráðherra, Bjarna Benediktssonar, um, að það er orðið löngu tímabært að fara fram á það í þeirri Evrópusamvinnu, sem Ísland er þátttakandi í, að staðinn verði vörður um [framleiðslu] iðnaðarvöru innan Evrópska efnahagssvæðisins, sem augljóslega fer fram með mun umhverfisvænni hætti en sú framleiðsla, sem seld er inn á svæðið.

Okkar verkefni er að tryggja orkusæknum iðnaði hér á landi sjálfbærar rekstrarforsendur.  Ég mun því á nýju löggjafarþingi, þegar það kemur saman 1. október n.k., leggja fram skýrslubeiðni til utanríkisráðherra, þar sem óskað verður umfjöllunar um stöðu íslenzkrar álframleiðslu á Íslandi gagnvart EES-samningnum, auk umfjöllunar um framleiðslu  og sölu á umhverfisvænni iðnaðarvörum innan Evrópska efnahagssvæðisins."

Evrópusambandið (ESB) er á pappírnum mjög metnaðarfullt f.h. aðildarlanda sinna og samstarfslanda á Innri markaði EES um, að engin nettólosun verði þaðan á gróðurhúsalofttegundum 2050. Vegna hættu á s.k. kolefnisleka til slóða á þessu sviði er sjálfsagt, að ESB leggi á kolefnistolla, eins og Bjarni Benediktsson og Njáll Trausti Friðbertsson eru talsmenn fyrir.  Ef utanríkisviðskiptaráðherra getur ásamt Norðmönnum veitt þessu máli þann stuðning, sem dugir til að leiða þetta mál til lykta í Brüssel, mun það leiða af sér verðhækkun á áli í Evrópu.  Hafa ber í huga, að megnið af áli Kínverjanna í Evrópu fer í umbræðslu, en t.d. ISAL selur einvörðungu vöru, sem er tilbúin til að fara beint í þrýstimótunarverksmiðjur, þar sem alls konar prófílar, pípur, burðarbitar og rammar, verða til.

Þann 2. september 2020 birtist viðtal í Markaði Fréttablaðsins við Gunnar Guðlaugsson, rafmagnsverkfræðing og forstjóra Norðuráls á Grundartanga, undir fyrirsögninni:  

"Tilbúið að fjárfesta fyrir 14 milljarða".

Af þessu viðtali er ljóst, að það er hugur í mönnum í áliðnaðinum, enda vaxandi markaður fyrir ál, sem tengist orkusparnaði.  Það má ekki láta ríkisfyrirtækið Landsvirkjun þursast áfram og eyðileggja þann vaxtarsprota, sem hagkerfinu nú býðst með erlendri fjárfestingu, áhættulausri fyrir Íslendinga, að koma á legg á Grundartanga.  Ef verkefnið fer í vaskinn vegna ósveigjanleika Landsvirkjunar, þá meina stjórnvöld ekkert með fagurgala um að hvetja til sem mestra fjárfestinga í Kófinu til að slá á atvinnuleysið og leggja grunn að framtíðartekjum. Verður það ófagur minnisvarði um feril núverandi ráðherra, ekki sízt nýsköpunar-, iðnaðar- og ferðamálaráðherra:

Viðtalið var mjög fróðlegt. 

Þar stóð m.a.:

""Það er eðlilegt, að það sé tekizt á um þetta mál [verðlagningu raforku til stóriðju]", nefnir Gunnar.  "Við erum í þeirri sérstöku stöðu hér á Íslandi, að fá fyrirtæki eru að kaupa langstærstan hluta raforkunnar í gegnum langtímasamninga.  Það segir sig auðvitað sjálft, að ef eitthvert þessara fyrirtækja hættir starfsemi, þá er enginn til þess að taka við þeirri raforku, sem þá losnar.  Markaðurinn hér á Íslandi gæti ekki tekið við allri þeirri raforku, sem þá losnar.  Markaðurinn hér á Íslandi gæti ekki tekið við allri þeirri raforku með stuttum fyrirvara.  

Við þessu hefur verið brugðizt með því að taka upp ríka kaupskyldu í samningum.  En þá er í sjálfu sér búið að aftengjast hefðbundnum markaðslögmálum.  Það er frumréttur á markaði að geta ákveðið að kaupa ekki þá vöru eða þjónustu, sem verið er að bjóða til sölu.

En þegar þetta hefur verið tekið úr sambandi, þarf að finna einhverja aðra aðferð til að ákvarða verðið.  Við höfum viljað tengja þetta álverði, og ég held, að það hafi gefið mjög góða raun.  Það hefur afar sjaldan gerzt, að álfyrirtæki hér dragi úr framleiðslu, þegar álverð er lágt vegna þesss, að rafmagnsverðið hefur lagað sig að álverðinu. Svo þegar álverð er hátt, þá njóta raforkufyrirtækin þess líka. 

Með þessu kerfi hafa byggzt upp stór og öflug orkufyrirtæki á grunni álverðstengdra orkusölusamninga.  Mín skoðun er einfaldlega sú, að það kerfi hafi reynzt okkur vel, og við eigum að hugsa okkur vel um áður en við köstum því fyrir róða."

Allt er þetta satt og rétt metið hjá Gunnari Guðlaugssyni.  Það fylgdu kaupskyldunni fleiri kostir fyrir orkuseljanda en hann nefnir.  Einn var tekjutrygging yfir allt greiðslutímabil lána vegna fjárfestingar.  Út á hana fengust mun hagstæðari lánakjör en ella, þar sem áhætta lánveitenda var sáralítil. Þar sem kostnaður virkjunar lækkaði umtalsvert við að auka byrðar orkukaupandans með þessum hætti, var og er sanngjarnt að aðilar deili með sér ávinninginum með lækkuðu raforkuverði.  Auk mjög jafns álags álvera á raforkukerfið, sem færir því betri nýtingu fjárfestinganna, má nefna háan aflstuðul álvera, sem eykur framleiðslugetu virkjana á raunafli og þar með seljanlegum MWh (megawattstundum). 

Allt gerir þetta álver að ákjósanlegum viðskiptavinum íslenzkra orkufyrirtækja, en þorri kostnaðar þeirra eru afborganir og vextir af stofnkostnaði, en rekstrarkostnaður er tiltölulega lágur. Á öllu þessu ríkti góður skilningur innan Landsvirkjunar á tímabilinu 1965-2010.  Árið 2010 varð óheillavænleg stefnubreyting innan fyrirtækisins, reist á vanþekkingu á eðli íslenzka orkugeirans og kolröngum viðhorfum til verðlagningar raforku og þar með skilningsleysi á hlutverki Landsvirkjunar frá upphafi.

"Samkvæmt ársskýrslu Landsvirkjunar 2019 var meðalverð til stóriðju 23 USD/MWh; eitthvað í kringum þá tölu yrði ásættanlegt fyrir Norðurál. Þó að Nord Pool-verðið sé lægra en það í augnablikinu, þá værum við reiðubúin að ganga út úr núgildandi samningi við Landsvirkjun gegn því að fá nýjan samning til lengri tíma á þessu bili, t.d. til 20 ára.

Gunnar bætir því við, að ef hægt væri að klára langtíma raforkusamning upp á í kringum 23 USD/MWh, sé Norðurál tilbúið að ráðast í fjárfestingar á Grundartanga." 

 Til að varpa ljósi á hina gríðarlegu mismunun Landsvirkjunar á álversviðskiptavinum sínum, sem Rio Tinto hefur kært til Samkeppnisstofnunar sem markaðsmisbeitingu í skjóli einokunaraðstöðu og mun vafalítið halda áfram með til ESA, ef ekkert vitrænt ætlar að koma frá þessari stofnun, þá er verðið (án flutningsgjalds) til ISAL tæplega 60 % hærra en meðalverðið. Þarna er ríkisfyrirtækið sekt um að skekkja samkeppnisstöðu fyrirtækja í sömu grein herfilega.  

Á Grundartanga bjóðast Íslendingum um 85 störf á meðan framkvæmdir standa yfir við að breyta framleiðslulínum steypuskála Norðuráls, svo að þar verði unnt að framleiða álstengur, eins og nú er gert í Straumsvík.  Við þessar nýju framleiðslulínur verða síðan til 40 ný ársverk hjá Norðuráli.  Hér er enn eitt tækifærið, sem ríkinu stendur til boða að liðka fyrir, að verði að raunveruleika.  Allt hjal ráðamanna, iðnaðarráðherra þar á meðal, um nauðsyn fjárfestinga einkaframtaksins til að skapa ný störf og aukin verðmæti fyrir þjóðarbúið, er út í loftið og aðeins marklaust hjal, ef þau skella skollaeyrum við þessu kostaboði. 

Gunnar nefnir, að álverðstenging við orkuverð sé æskileg, sem er alveg rétt.  Hér hlýtur að vera samningsgrundvöllur með 23 USD/MWh m.v. núverandi markaðsverð og síðan hækkandi raforkuverð með hækkandi álverði eftir umsaminni formúlu.  Ríkisstjórnin getur ekki látið steingervinga í Landsvirkjun koma í veg fyrir stækkun þjóðarkökunnar sem leið landsmanna út úr vandanum.  Það verður að beita Landsvirkjun fyrir vagninn, sem nú er fastur í forarpytti.  Þar er nóg afl.

Gunnar Guðlaugsson er með ákveðna sýn á framtíð álvera á Vesturlöndum í samkeppninni við lönd á borð við Kína.  Hann telur, að gæðaál, framleitt með "grænni" raforku og með eins umhverfisvænum hætti og tæknin leyfir hverju sinni, sé "hugsanlega bezti möguleiki álframleiðenda staðsettra á Vesturlöndum".  Við þetta þarf að bæta, að þessi "græna" orka verður að vera til reiðu á verði, sem endurspeglar kostnaðinn við öflun hennar, en ekki á okurverði, sem einokunarfyrirtæki dettur í hug til að geta skilað eigandanum sem hæstum arði.  Arðurinn á að koma fram "í hinum endanum" til ríkisins, eins og Franklin Delano Roosevelt sagði um "New Deal". 

Í lok viðtalsins sagði Gunnar:

"Ég er sannfærður um það, að orkuverð verði mjög samkeppnishæft hér á Vesturlöndum til frambúðar.  Ég get líka nefnt það, að áliðnaður í Noregi er á mjög góðum stað í augnablikinu; því er þetta líka spurning um það, hvernig ríkisstjórnir einstakra landa búa um hnútana, þegar kemur að samkeppnishæfu orkuverði."

Þarna gæti Gunnar verið að vísa til þess, að íslenzka ríkisstjórnin þarf ekki að óttast viðbrögð ESA-Eftirlitsstofnunar EFTA við ráðstöfunum, sem hér hafa verið viðraðar, því að sambærilegar tilhliðranir hafa átt sér stað annars staðar í EES, m.a. í Noregi, án athugasemda af hálfu ESA, að því bezt er vitað.  Hvers vegna ríkir þessi ægilegi doði í íslenzka stjórnarráðinu ?  Skyldu eyru ráðherranna vera köld ?

  

  

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband