28.1.2021 | 18:17
Kolin kvödd
Eldsneytiskol innihalda lítið annað en frumefnið kolefni, C, og þess vegna myndast meira CO2, koltvíildi, við bruna hvers tonns (t) kola en t.d. olíu og jarðgass, sem auk C innihalda H, vetni, o.fl. Þrátt fyrir þetta hafa þjóðir ekki skirrzt við að knýja iðnvæðingu sína með kolum, jafnvel eftir að gróðurhúsaloftskenningin varð vel þekkt.
Til eru ljósmyndir af Reykjavík frá um 1930, þar sem kolamökkur grúfir sig yfir bæinn. Á seinni hluta 20. aldar nýttu Íslendingar sér gæði orkuríkrar náttúru sinnar til að afnema að langmestu leyti húshitun með jarðefnaeldsneyti, og nú er komið að afnámi afurða jarðolíunnar, sem knýja vélar fartækja á láði, legi og í lofti.
Við eigum ekki að hika við að leggja Evrópuþjóðunum lið við orkuskipti sín með því að virkja orkulindir áfram hér með sjálfbærum hætti (það eru reyndar grafalvarlegar undantekningar á þessu hjá Reykjavíkurborg, eins og lesa má um í grein Árna Gunnarssonar, fyrrverandi yfirverkfræðings Hitaveitu Reykjavíkur í Fréttablaðinu 29. desember 2020), og framleiða t.d. vetni, aðallega til útflutnings.
Það má greina viss veðrabrigði í orkumálum heimsins um þessar mundir, enda ekki seinna vænna fyrir mannkynið sem heild að hefja minnkun losunar CO2 út í andrúmsloftið. Xi Jinping hefur samþykkt markmið um núll nettólosun Kína á koltvíildi árið 2060, þótt ótrúleg aukning hagvaxtar Kínverja sé sennilega enn knúin með jarðefnaeldsneyti. Það eru þó óljós merki um, að Kínverjar taki þetta fjarlæga markmið alvarlega, enda er mengun í Kína grafalvarlegt vandamál og sennilega pólitísk byrði fyrir kommúnistaflokkinn.
Undir Joe Biden munu Bandaríkjamenn aftur skuldbinda sig til að virða Parísarsáttmálann frá 2015. Á fjármálamörkuðum njóta hreinorkufyrirtæki nú orðið velvildar umfram hin. Hreinorkufyrirtækin munu þó ekki geta vaðið yfir héruð á skítugum skónum, eins og t.d. með uppsetningu 200 MW vindorkuvers í næsta nágrenni höfuðborgarsvæðisins, á Mosfellsheiði, þar sem margir munu þurfa að líða fyrir ljóta ásýnd, flugöryggi verður ógnað og aðstaða til svifflugs yrði eyðilögð. Þótt vindafar kunni að vera hagstætt á Mosfellsheiði, eru þessar fórnir meiri en ávinningurinn í landi hreinorkunnar, þar sem enginn hörgull ætti að öllu eðlilegu að vera á tiltæku vatnsafli til að virkja fyrir komandi eftirspurnaraukningu. Til hvers í ósköpunum ætti þá að samþykkja slíka yfirtroðslu, sem klárlega rýrir lífsgæði íbúanna ?
Í Bandaríkjunum (BNA) og í Evrópu hefur notkun kola, mesta losunarvaldsins, minnkað um 34 % síðan 2009. Samt standa kol enn undir 27 % heildarfrumorkunnar, sem maðurinn nýtir. Frá kolabrennslu koma hins vegar 39 % af árlegri losun frá bruna alls jarðefnaeldsneytis. Þess vegna er árangursríkast fyrir baráttuna gegn of mikilli hlýnun jarðar að draga úr kolabrennslu um allan heim. Íslendingar geta lagt sitt lóð á þessar vogarskálar með virkjunum og orkukræfum verksmiðjurekstri og hafa vissulega gert það, en s.k. umhverfisverndunarsinnar, sem í mörgum tilvikum horfa framhjá þessu heildarsamhengi, vanþakka þetta framlag hérlandsmanna algerlega. Þeir hafa asklok fyrir himin.
Kolanotkunin jókst gríðarlega í iðnbyltingunni, sem knúin var af gufuvél James Watt, og náði hámarki á 4. áratugi 20. aldar eftir tæplega 200 ár. Notkun kola á Vesturlöndum hefur nýlega hrunið. Bretar, upphafsmenn iðnbyltingarinnar, ríða á vaðið við að losna undan oki kolabrennslunnar og munu sennilega loka sínu síðasta kolaorkuveri árið 2022, löngu á undan flestum Evrópusambandsríkjunum. Bretar skjóta nú Evrópusambandinu ref fyrir rass á hverju sviðinu eftir annað.
Peabody Energy, stórt bandarískt kolanámufélag, hefur sent út viðvörun um, að það geti bráðlega farið á hausinn í annað skiptið á 5 árum. Þótt ríkisstjórn Donalds Trump hafi hyglað kolaiðnaðinum leynt og ljóst, fær enginn stöðvað tímans þunga nið.
Í Evrópu hefur koltvíildisskattur ýtt undir aflagningu kolaorkuvera, og þrátt fyrir ýmsa hvata og pólitíska hvatningu Trump-stjórnar BNA til kolaiðnaðarins hefur notkun kola minnkað þar líka. Auðvitað vita Bandaríkjamenn, hvað klukkan slær, hvað sem tautar og raular í Hvíta húsinu. Ein ástæðan er framboð á ódýru jarðgasi, sem framleitt er með leirsteinsbroti í BNA og hefur gert Bandaríkjamenn aftur að nettóútflytjendum jarðefnaeldsneytis .
Skattaafslættir og niðurgreiðslur hafa hvatt orkufyrirtæki til að auka hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa, og með hagkvæmni fjöldans hefur verð þeirra lækkað. Sólarhlöður og vindmyllur á landi geta nú framleitt ódýrasta nýja rafmagnið fyrir a.m.k. 2/3 mannkyns samkvæmt BloombergNEF, gagnasafnara. Þar sem kolin mæta nú samkeppni hreinna orkulinda og þar sem útlit er fyrir stífari reglusetningu fyrir kolanotkun, snúa bankar og fjárfestar nú baki við kolafyrirtækjum. Þau sjá nú skriftina á veggnum, enda eykur slík staða óhjákvæmilega fjármagnskostnað þeirra.
Þetta er áfangasigur, en samtímis hefur snarazt á merinni víða annars staðar. Undanfarinn áratug, þegar Evrópa hefur að nokkru snúið af braut kolabrennslu, hefur notkun þeirra í Asíu aukizt um fjórðung. Í Asíu eru nú notuð 77 % af heimsnotkun kola, þar af brenna Kínverjar nú 2/3, og Indverjar lenda í 2. sæti. Kol eru ríkjandi orkugjafi í nokkrum miðlungs stórum, hratt vaxandi hagkerfum, eins og Indónesíu og Víetnam. Kínverjar, sem eru á leiðinni að verða stærsta hagkerfi jarðar (í kringum 2028), gætu gegnt forystuhlutverki við að snúa ofan af þessari öfugþróun í Asíu með orkuskiptum þar. Annars mun ekki mikið gerast þar í þessum efnum. Með öðrum orðum hafa Kínverjar það í höndum sér að stöðva hlýnun jarðar. Þeir geta ekki orðið forysturíki í heiminum, ef of mikil hlýnun andrúmslofts verður á endanum skrifuð á þeirra reikning.
Sé ætlunin að halda hlýnun andrúmslofts undir 2,0°C frá því fyrir iðnbyltingu, er ófullnægjandi að bíða aðgerðalaus eftir, að kolanotkun minnki í Asíu. Þar eru enn reist kolaorkuver. Mörg nýleg ver eru enn ekki fullnýtt og munu verða nokkra áratugi í brúki að óbreyttu. Það er heldur ekki nóg að búast við lausn frá "hreinkolatækni", sem fangar CO2 úr útblæstrinum og geymir það á öðru formi en gasformi, t.d. neðanjarðar. Sú tækni kann að gagnast iðnaðinum, t.d. stálverksmiðjum, en hún er of dýr fyrir orkuiðnaðinn. Líklega er þessi aðferð líka of dýr fyrir áliðnaðinn. Þar er hins vegar "lokalausn" senn í vændum. Í tilraunaverksmiðju Rio Tinto í Frakklandi mun í ár hefjast rekstur tilraunakera, sem losa ekkert koltvíildi út í andrúmsloftið við rafgreiningu súrálsins. Tilraunakerin eru afrakstur einbeittrar rannsóknarvinnu álfyrirtækjanna Rio Tinto og Alcoa, og verður spennandi að fylgjast með framhaldinu.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Umhverfismál, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Hvað er að frétta af Thorium orkuverum i Kina og Indlandi, eru engin orkuver komin í notkunn.
Hallgrímur Hrafn Gíslason, 28.1.2021 kl. 19:48
Það hefur verið hljótt um rannsóknir á þessu sviði. Þessi ver hljóta að komast í rekstur fyrir 2025 og leysa kolaorkuver af hólmi. Þóríum-orkuver hafa yfirburði gagnvart sólar- og vindorkuverum frá öllum meginsjónarhornum. Ég veit ekki til, að þau séu samt enn á markaðinum.
Bjarni Jónsson, 29.1.2021 kl. 11:27
Mér skilst að einhver vandræði hafi komið upp við Þóríumorkuver sem dregið hafi úr áhuganum á þeim: Atomkraft ohne Risiko? Der Flüssigsalzreaktor | Harald Lesch (Re-Upload)
Hörður Þormar, 29.1.2021 kl. 14:54
Harald Lesch er efasemdarmaður um kjarnorkuver yfirleitt, en rannsóknir halda áfram í Evrópu, fá sennilega byr í seglin nú í BNA frá Hvíta húsinu og bandaríska þinginu. Vitað er um áhuga Kínverja á þóríumtækninni, og Vesturveldin, sem eru í samkeppni við Kínaveldi, kæra sig ekki um, að Kínverjar nái undirtökunum á þessu sviði. Þeir eru með undirtökin á rafgeymasviðinu og framleiða langflestu rafbílana.
Bjarni Jónsson, 30.1.2021 kl. 17:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.