6.2.2021 | 15:12
Steinrunninn gúmmídvergur
Almannatengillinn Friðjón R. Friðjónsson er innanbúðarmaður í Sjálfstæðisflokkinum, þótt undarlegt sé m.v. fádæma ruglingslega Morgunblaðsgrein hans í lok janúar 2021, þar sem fram virtist koma djúpstæð óánægja hans með flokkinn. Helzt er á téðum almannatengli að skilja, að hann vilji toga flokkinn í átt að Viðreisn. Það er fádæma heimskuleg ráðlegging. Þar með væri flokkurinn losaður af grundvelli sínum frá 1929, sem er að vinna stöðugt að sjálfstæði og fullveldi Íslands á öllum sviðum í krafti einstaklingsframtaks og frjálsra viðskipta. Ef Sjálfstæðisflokkurinn færi nú að gera hosur sínar grænar fyrir Evrópusambandinu og evrunni, mundi hann daga uppi sem hvert annað viðundur, þegar einn okkar næstu nágranna, brezka þjóðin, hrósar nú happi yfir að hafa losnað úr klóm ESB í tæka tíð til að losna við klúður ESB í bóluefnamálum, sem kostar mörg mannslíf.
5. þingmaður Reykvíkinga, Brynjar Níelsson, átti mjög gott svar við þessari gúmmígrein almannatengilsins með greininni:
"Steintröllin"
í Morgunblaðinu 30. janúar 2021. Greinin hófst þannig:
"Hinn ágæti sjálfstæðismaður, Friðjón R. Friðjónsson, skrifar grein í Morgunblaðið á fimmtudaginn var, þar sem hann lýsir nokkrum áhyggjum yfir stöðu Sjálfstæðisflokksins í nútímanum."
Almannatenglinum varð einmitt tíðrætt um, að flokkurinn væri ekki nógu nútímalegur, en hefur ekkert fram að færa annað en umbúðastjórnmál og froðukennt fimbulfamb. Það örlar ekki á heilli brú. Það er þunnur þrettándi á leiksviði lífsins, en gengur kannski á leiksviði firringarinnar, þar sem allt er falt.
Almannatenglinum mislíkar sennilega, að nokkrir sjálfstæðismenn hafa (fyrir rúmu ári) stofnað með sér félag til að vinna að framgangi mála innan Sjálfstæðisflokksins, sem miða að því að efla fullveldi landsins. Það kann froðusnökkurum að þykja gamaldags pólitík. Margir þessara félagsmanna komu við sögu baráttunnar gegn innleiðingu Orkupakka 3 (OP#3) frá Evrópusambandinu í íslenzka löggjöf. Þeir vildu ekki flokka afurð íslenzkra orkulinda, rafmagnið, sem hverja aðra vöru, sem vinnslufyrirtækin ættu að leitast við að selja á verði, sem gæfi þeim hámarkshagnað án tillits til þjóðarhags. Þannig er OP#3, enda á hann rætur að rekja til allt annars orkuumhverfis en hér ríkir.
Þvert á móti vildi fólkið í "Orkunni okkar"-OO, sem stóð í hugmyndafræðilegri baráttu við stjórnvöld um þetta, að raforkan yrði verðlögð m.v. lágmarksarðsemi á markaði að teknu tilliti til áhættu við fjárfestingu. Hagfræðilegu rökin fyrir því eru að styrkja samkeppnisstöðu allra atvinnugreina, sem rafmagn nota, og hafa jákvæð áhrif á afkomu heimilanna. Slíkt styrkir arðsemi allrar virðiskeðjunnar og heildararðsemin af auðlind íslenzkrar náttúru verður þar með miklu meiri en af dýru rafmagni. Téður almannatengill var á fundi í Valhöll, þar sem þessu sjónarmiði OO var haldið á lofti og hlaut góðar undirtektir, en almannatenglinum var ekki skemmt.
Sjálfstæðismenn sneru bökum saman við fólk af öðru pólitísku litarafti í afstöðunni til raforkusölu til útlanda um sæstreng. Þetta sjónarmið hlaut í raun brautargengi á Alþingi með ýmsum varnöglum í löggjöf gegn samþykki yfirvalda á umsókn hingað um leyfi til lagningar aflsæstengs og tengingar hans við íslenzka raforkukerfið.
Það var rekinn talsverður áróður á Íslandi fyrir beinni raforkusölu til útlanda fyrir innleiðingu OP#3, og ýmsir hagsmunaaðilar, stórir og litlir, koma þar við sögu. OP#3 var talinn geta auðveldað slík viðskipti, enda aðalhlutverk hans að efla raforkuflutninga á milli landa.
M.a. kom í ljós, að sæstrengsfyrirtæki á Englandi hafði mikinn hug á lagningu sæstrengs til Íslands og hafði í þjónustu sinni almannatengslafyrirtæki á Íslandi, væntanlega til að koma ár sinni fyrir borð. Þegar einhver torskiljanlegur málflutningur er á ferðinni, liggur oft fiskur undir steini ("hidden agenda").
Verður nú gripið niður í ágæta grein Brynjars:
"Erfitt er að átta sig á, hvað Friðjóni gengur til, þegar hann gefur í skyn í greininni, að Sjálfstæðisflokkurinn sé á móti breytingum á efnahagslífinu, sjávarútveginum, landbúnaðarkerfinu, orkumálum, stjórnarskránni og samfélaginu sjálfu og flokkinn muni daga uppi og verða að steintrölli með sama áframhaldi. Hefði ekki komið mér á óvart, að þessi grein hefði verið skrifuð í þingflokksherbergi Viðreisnar. Friðjón notar alla sömu frasana, sem þaðan koma, án þess að segja nokkuð um, hverju eigi að breyta, og hvernig, eða af hverju. En eitt er víst, að skrif hans endurspegla djúpstæða óánægju með forystu Sjálfstæðisflokksins."
Almannatenglar eru mjög uppteknir af ímyndinni, og hvernig hægt sé að breyta henni, til að hún höfði til sem flestra. Þeir virðast halda, að stjórnmál snúist um umbúðir, upphrópanir og fyrirsagnir. Ef stjórnmálaflokkur er ekki nógu nútímalegur, er nauðsynlegt, að þeirra mati, að "poppa upp" stefnumálin. Þetta er hins vegar hreinræktað lýðskrum, sem er ekki traustvekjandi. Stjórnmálaflokkur, sem hleypur á eftir slíkum dægurflugum, er ekki á vetur setjandi.
Brynjar telur málflutning almannatengilsins vera skyldan túðrinu í Viðreisn. Hún er einmitt með aðra stefnu en Sjálfstæðisflokkurinn á þeim sviðum, sem Brynjar nefnir, þ.e. í sjávarútvegsmálum, landbúnaðarmálum og orkumálum. Í sjávarútvegsmálum rekur hún dauðvona stefnu, sem allir, sem reynt hafa, hafa gefizt mjög fljótlega upp á, og eru Færeyingar nýlegt dæmi. Hagur minni útgerðarfyrirtækja varð óbærilegur, og aflaheimildir söfnuðust á stórfyrirtækin, eins og fyrirsjáanlegt var. Uppboðshald af þessu tagi virkar á fyrirtækin sem stóraukin skattheimta, sem grefur undan samkeppnishæfni og fjárfestingargetu. Slíkur fíflagangur endar bara með bæjarútgerðum og ríkisafskiptum.
Með veikan íslenzkan sjávarútveg verður auðveldara fyrir Viðreisn að semja um inngöngu Íslands í Evrópusambandið, sem krefst þess, að togaraflota ESB verði hleypt inn í íslenzka lögsögu. Þá fer nú að þrengjast fyrir dyrum íslenzkra útgerða og íslenzks almennings. Auðlindastjórnun af þessu tagi er nýnýlenduvæðing. Nútímaleg ? Kannski, en samt gamalt vín á nýjum belgjum.
Í landbúnaðarmálunum rekur Viðreisn bara stefnu Evrópusambandsins. Ef hún yrði við lýði hér, yrði ekki lífvænlegt fyrir íslenzka bændur á jörðum sínum. Gríðarleg nýsköpun fer nú fram í sveitum landsins, og framleiðniaukning bænda með tæknivæðingu búanna er aðdáunarverð. Gæði og hreinleiki afurðanna eru hvergi meiri. Landbúnaðurinn íslenzki er á réttri braut, og það verður að veita honum starfsfrið fyrir ágengni niðurgreiddrar framleiðslu risabúa Evrópu með þeim sýklavörnum, sem þarf að viðhafa í slíkum rekstri.
Sennilega situr stefnumörkun síðasta Landsfundar Sjálfstæðisflokksins í orkumálum í almannatenglinum. Alþingi afgreiddi Orkupakka 3 með varnöglum, sem sennilega sitja sem fleinn í holdi hans. Það fá engir gróðapungar að tengja Ísland við erlend raforkukerfi og flytja út raforku héðan og flytja inn erlent raforkuverð að viðbættum gríðarlegum flutningskostnaði um aflsæstreng. Brynjar skrifaði eftirfarandi ádrepu um orkumálin:
"Ómögulegt er að átta sig á, hvert Friðjón er að fara, þegar hann segir, að Sjálfstæðisflokkurinn sé á móti breytingum í orkumálum. Við værum yfirhöfuð ekkert að tala um raforkumál, ef Sjálfstæðisflokkurinn væri ekki til. Hann hefur nánast staðið einn fyrir því, að auðlindir séu nýttar til raforkuframleiðslu með skynsamlegum hætti og samhliða því að byggja upp öflugt og öruggt flutningskerfi raforku.
Við værum ekki að tala um orkuskipti og græna framleiðslu, ef ekki væri fyrir framsýni sjálfstæðismanna. Í því felst framtíðin, alveg óháð "nútímahyggju" Friðjóns."
Hér er Sjálfstæðisflokkinum hælt upp í hástert, en þeir, sem fylgdust með pólitíkinni, þegar tekizt var á um s.k. stóriðjustefnu á 7. áratugi 20. aldarinnar, vita, að Brynjar fer með rétt mál. Að vísu skal ekki draga úr því, að Alþýðuflokkurinn var ódeigur í baráttunni við hlið Sjálfstæðisflokksins í Viðreisnarstjórninni gegn Framsóknarflokki og Alþýðubandalagi. Stóriðjustefnan, sem kenna má við dr Bjarna Benediktsson, forsætisráðherra, dr Gylfa Þ. Gíslason, formann Alþýðuflokksins, og dr Jóhannes Nordal, Seðlabankastjóra, snerist um að virkja stórfljót og framleiða rafmagn með eins hagkvæmum hætti og unnt væri til orkukræfra verksmiðja, sem sköpuðu þjóðinni gjaldeyri og stóðu í raun undir uppbyggingu raforkukerfisins. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar, en eftir stendur, að stefna þessi reyndist farsæl og efldi hag þjóðarinnar gríðarlega.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Evrópumál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Að flytja ,,hrátt" rafmagn úr landi, án þess að láta það framleiða verðmæti áður, er glapræði. Það er álíka gáfulegt og flytja fiskinn út óunninn. Verðmætið verður til í meðhöndlun vörunnar. Útflutt rafmagn er hrávara og verðmæti þess eftir því.
Birgir Loftsson, 8.2.2021 kl. 08:37
Alveg sammála. Rafmagnsvinnslu á Íslandi á að nýta til að skapa vinnu og framleiða vöru. Það er mjög dýrt að senda rafmagn til útlanda um sæstreng. Slík viðskipti geta ekki keppt við framleiðslu á vöru, sem spurn er eftir erlendis. Ef framleiðsla á vetni skapar virðisauka í landinu, á að fara inn á þá braut. Það væri kostur að geta framleitt vetni að nokkru leyti með ótryggðri orku, sem á að vera á verði 30 % - 50 % af verði forgangsorku, og nýta innrennsli í miðlunarlónin, eftir að þau hafa fyllzt. Til þess þarf öfluga geymslutanka við vetnisverksmiðjurnar.
Bjarni Jónsson, 8.2.2021 kl. 17:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.