Heilbrigðiskerfi í andþröng

Það má flestum vera alveg ljóst, að heilbrigðiskerfið á Íslandi á við verulega erfiðleika að etja, svo að ekki sé nú dýpra í árinni tekið.  Ekki þarf að vera tíður viðskiptavinur þessa risakerfis til að gera sér þetta ljóst, heldur er nóg að lesa yfirlýsingar heilbrigðisstarfsfólks, sem innan þess starfar, en það er sumt hvert að þrotum komið.  Ástandið á Landsspítalanum er ósamboðið háskólasjúkrahúsi og gæti ekki komið upp með réttri verkaskiptingu ríkisspítalans og einkageirans í heilbrigðiskerfinu og meiri valddreifingu innan spítalans. Þar eru nú þverbrestir að boði heittrúaðs heilbrigðisráðherra og því er nú ófremdarástand á háskólasjúkrahúsinu, svo að læknar hafa varað við, að öryggi sjúklinga geti orðið í uppnámi. 

Það er líka ljóst, að ekki er við mannauðinn að sakast.  Hann er fær um að leysa flókin og vandasöm verkefni og faglega einfaldari verkefni, sem útheimta góða skipulagshæfni og öguð vinnubrögð.  Dæmi um hið síðara  er frábær frammistaða sjúkrahúsa landsins og heilsugæzlustöðva í C-19 faraldrinum og við bólusetningu landsmanna, sem í júní 2021 náði því langþráða takmarki að framkalla hjarðónæmi hérlendis gegn leiðinda kórónuveiru SARS-CoV-2, sem í mörgum tilbrigðum veldur C-19 sjúkdóminum, sem reyndar yfirleitt olli aðeins vægum flensueinkennum, en hefur leitt 30 manns til dauða hérlendis. 

Því verður þó að halda til haga, að 20-30 manns hafa látizt í kjölfar bólusetningar, flestir þeirra í sömu áhættuhópum og gagnvart C-19.  Það er einnig þannig, að bólusettir geta sýkzt og smitað aðra, en með vægari hætti en ella. 

Hlutfallslegur fjöldi dauðsfalla hérlendis af völdum C-19 er aðeins um 80 ppm (af milljón), sem eru lítil dánarlíkindi gagnvart faraldri og sennilega þau lægstu í heimi gagnvart C-19.  Orsakir eru lágur meðalaldur þjóðarinnar, tiltölulega gott heilsufar hennar þrátt fyrir alls konar "skavanka", og góð þjónusta heilbrigðisstarfsfólks við þá veiku.

Í kjölfar hjarðónæmis innanlands aflétti ríkisstjórnin öllum samkomu- og nándarhömlum á miðnætti aðfararnótt 26. júní 2021 við mikinn fögnuð, en áfram er strangt eftirlit á landamærunum, þótt ferðamannastraumurinn hafi aukizt mjög og eru nú lendingar farþegaflugvéla á Keflavíkurflugvelli um 25 á sólarhring.  

Það, sem hrjáir heilbrigðiskerfið, er framar öðru heilbrigðisráðuneytið. Þar situr nú og stjórnar aðgerðum ríkisvaldsins á heilbrigðissviði fólk, sem fórnar hagsmunum skjólstæðinganna og starfsfólksins fyrir úreltar stjórnmálalegar kreddur um nauðsyn miðstýringar ríkisvaldsins, þ.e. stjórnmálamanna og embættismanna, á stóru og smáu, og valddreifing og einkaframtak eru bannfærð þar.  Þetta er beinlínis stórhættuleg stefnumörkun, því að hún framkallar stjórnleysi, öngþveiti og gríðarlega óánægju skjólstæðinga og starfsfólks auk sóunar á fjármunum almennings. Þetta var staðfest í yfirlýsingu 985 lækna nýverið, sem er í raun "rautt spjald" á ráðherra.  

Þetta kom t.d. hastarlega í ljós, þegar heilbrigðisráðherra ákvað með einu pennastriki að færa krabbameinsskimanir kvenna frá Krabbameinsfélaginu til hins opinbera.  Þarna var um að ræða skrifborðsákvörðun af verstu sort, sem sýnir, að ráðherrann er utan gátta og fer illa með vald sitt, og í því er stórhætta fólgin fyrir skjólstæðingana. 

Landið ber aðeins eitt háskólasjúkrahús.  Það er óumdeilt, en þar er nú hins vegar alls konar starfsemi, sem ekki á heima á háskólasjúkrahúsi og þarf að létta af Landsspítalanum með því að útvista henni til sjúkrahúsa á landsbyggðinni, og einnig er vel hægt að útvista margs konar starfsemi Landsspítalans til einkarekinna læknastofa.  Valddreifing og verkaskipting ólíkra staða og stjórnunarfyrirkomulags geta létt álagi af yfirkeyrðum Landsspítala og skapað heilbrigðan samanburð á milli fagfólks og fyrirkomulags, bætt þjónustuna við skjólstæðingana og auðveldað kerfinu að laða til sín íslenzkt starfsfólk, sem lokið hefur námi sínu hérlendis og/eða erlendis.  Þetta er vandamál núna, og þarf engan að undra. Starfólkið þarf að geta valið á milli fleiri vinnustaða og vinnuveitenda.  Mönnunin mun þá reynast mun auðveldari viðfangs. 

Hin dauða hönd heilbrigðisráðuneytisins (ríkisins) er búin að ýta heilbrigðiskerfinu fram á heljarþrömina, og það er nú bara seigla og þrautseigja starfsfólksins, sem heldur því gangandi frá degi til dags, en við svo búið má ekki standa.  Það verður strax að stokka spilin upp, hætta að stjórna samkvæmt úreltri og löngu fallinni hugmyndafræði og hleypa heilbrigðri skynsemi á sviði rekstrar að, sem er fordómalaus og nýtir allar góðar leiðir til úrbóta.  Ein slík leið er að hlíta ráðum starfsfólksins.  Morgunblaðið birti 28. júní 2021 viðtal við dr Theódór Skúla Sigurðsson, lækni, undir fyrirsögninni:

"Þurfum svigrúm til að mæta stórslysi".

Það hófst svona:

""Sjónarmið okkar lækna eru ákall úr grasrótinni", segir Theódór Skúli Sigurðsson, svæfingalæknir á Landspítalanum.  Hann er í forsvari þeirra 985 lækna, sem í síðustu viku afhentu fulltrúum heilbrigðisráðuneytisins undirskriftir sínar, þar sem skorað er "á stjórnvöld að axla ábyrgð á stöðunni í heilbrigðiskerfinu", eins og komizt var að orði.

Læknar telja mikilvægt, að gefin fyrirheit um aukið fjármagn til alls heilbrigðiskerfisins verði efnd.  Mikilvægt sé að koma með varanlegar lausnir á öldrunarþjónustu, sbr að á hverjum tíma dvelst á Landspítalanum fólk, sem lokið hefur læknismeðferð, en ekki er hægt að útskrifa, því [að] ekki er í önnur hús að venda.  Í raun stífli þetta allt gangvirki spítalans."

Það er í raun og veru að fara í geitarhús að leita ullar að senda bænaskrá til silkihúfanna í heilbrigðisráðuneytinu og biðja þær um að "axla ábyrgð" á því, að undir yfirumsjón sama ráðuneytis er búið að ofkeyra Landsspítalann með nýjum verkefnum, sumpart verkefnum, sem einkaframtakið hefur sinnt fram til þessa, án þess að ganga úr skugga um, að spítalinn sé í stakk búinn til að leysa ný verkefni sómasamlega.  Það er tómt mál að ætlast til aukinnar þjónustu Landsspítalans fyrr en hann kemst í nýtt húsnæði.  Starfsemi hans er komin yfir þolmörk húsnæðis og starfsfólks.  Ríkisvæðingarstefna Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs á heilbrigðiskerfinu er óboðleg, enda er hún dæmd til að mistakast.  Kerfi ráðstjórnarinnar er vanhugsað og reist á þekkingarleysi og ranghugmyndum. Ríkisvæðingin er ein meinloka og gengur þar af leiðandi hvergi upp. Það mun leiða til verri og dýrari þjónustu og sennilega til tvöfalds heilbrigðiskerfis, þar sem hægt verður að snara út úr eigin vasa til að fá framúrskarandi þjónustu strax.

Sjálfstæðisflokkurinn vill allt annað fyrirkomulag.  Háskólasjúkrahúsið verður áfram ríkisrekið og á þess vegum verður áfram bráðadeildin og verkefni, sem hefðbundið er að hafa á háskólasjúkrahúsum.  Hins vegar er hægt að nýta kosti einkaframtaksins til að létta byrðar háskólasjúkrahússins, svo að það geti betur sinnt sínu hlutverki.  Læknastofur sérfræðinga fái greiðslusamning við Sjúkratryggingar Íslands, enda geta þær veitt ódýrari gæðaþjónustu en opinberar stofnanir.  Til að leysa fráflæðisvanda Landspítalans verður ríkisvaldið að horfast í augu við hækkun verðlags í landinu, aðallega vegna kjarasamninga, svo að eftirsóknarvert verði að reka hjúkrunar- og dvalarheimili fyrir aldraða. 

""Þó [að] fjárveitingar til Landspítalans séu auknar, sjáum við þess ekki stað. Því teljum við, að hugarfarsbreytingu þurfi um rekstur spítalans.  Læknar eru leiðtogar með hugmyndir og mikilvægt er að virkja þá til meiri áhrifa.  Læknar eru langþreyttir og tilfinningin sú, að ekki sé hlustað á sjónarmið okkar, þegar varað er við hættulegu ástandi", segir Theódór Skúli og áfram:

Ýmis mál eru í ólestri, s.s. leghálsskimanir og rannsóknir á þeim, sem voru fluttar til Danmerkur með slæmum afleiðingum.  Því miður virðist stefna stjórnvalda í heilbrigðismálum vera sú, að gefnar eru út tilskipanir á efstu stöðum; skilaboð, sem virðist eiga að fylgja umyrðalaust.  Sjónarmið lækna hafa ekki skilað sér til stjórnvalda.  Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra. 

Erfið staða á bráðadeild Landspítala s.s. mannekla og langur biðtími sjúklinga eftir þjónustu hefur verið til umfjöllunar að undanförnu.  Í þeim efnum bendir Theódór á, að í heilbrigðiskerfinu haldist allt í hendur.  Engin heildstæð framtíðarstefna sé í öldrunarmálum, þrátt fyrir mikla fjölgun eldra fólks, sem alltaf þarf margvíslega þjónustu heilsugæzlu og sjúkrahúsa."

Læknirinn lýsir þarna afleiðingum skefjalausrar miðstýringar og ríkisrekstrar.  Reksturinn er orðinn svo umsvifamikill, að æðstu stjórnendur hafa mjög ófullkomnar upplýsingar um stöðuna, þar sem þjónustan er veitt, enda fjöldi stjórnunarlaga á milli, og framlínufólkið er vonsvikið og uppgefið.  Stefna vinstri grænna í heilbrigðismálum býður hættunni heim í þessum efnum.  Það verður að draga úr þessari ráðstjórnarlegu miðstýringu, útvista verkefnum og minnka þannig umfangið, svo að hægt sé að sinna betur þeim verkefnum, sem háskólasjúkrahúsið á að sinna.  

Í lokin kom hörð ádrepa á stjórnendur Landspítalans, en undirstrika verður, að um kerfisvandamál er að ræða, þannig að ábyrgðin liggur í heilbrigðisráðuneytinu:

"Núverandi stjórnendur Landspítalans hafa setið lengi, hið bezta fólk, sem vill vel, en nær ekki þeim árangri, sem þarf.  Maður fær á tilfinninguna núna, að þeir séu algjörlega ráðþrota gagnvart vandanum og finni ekki neinar alvöru lausnir, sem haldi til langframa.  Sé staðan þannig, að ekki verði komizt lengra í sparnaði, þyrftu stjórnendur að koma þeirri staðreynd til stjórnvalda.  Nái þau skilaboð ekki í gegn, ætti stjórn Landspítalans að íhuga að segja sig frá verkinu til að undirstrika mikla alvöru málsins."

Þegar svona er komið, þ.e. starfsfólkinu finnst stjórnendur spítalans vera búnir að gefast upp gagnvart viðfangsefnunum, þá er komið að leiðarenda þess ríkisbákns, sem hér er um að ræða.  Það verður að stokka spilin upp í samráði við starfsmenn, fá einkaframtak heilbrigðisstarfsfólks til að létta undir og sníða Landsspítalanum stakk eftir vexti. 

 Núverandi heilbrigðisráðuneyti mun aldrei grípa til þeirra róttæku úrræða, sem nú er þörf á, enda skilar það auðu í yfirlýsingu vegna ofangreinds neyðarkalls læknanna. Þar skilur fólk ekki rót vandans, enda hefur það skapað hann með forstokkaðri ríkisrekstrarafstöðu sinni og beinni fjandsemi við einkaframtak á þessu sviði.  Morgunblaðið tíundar eftirfarandi viðbrögð ráðuneytisins, sem greinilega kemur af fjöllum:

"Skilaboð lækna um erfið starfsskilyrði eru grafalvarleg, sé litið til aðstöðu starfsfólks og þess, að núverandi ástand veldur stöðnun og jafnvel afturför.  Þetta segir í yfirlýsingu heilbrigðisráðuneytisins um yfirlýsingu og undirskriftir læknanna.  Sjónarmið læknanna eru sögð tekin alvarlega, þótt þau séu ekki algild lýsing á heilbrigðiskerfinu."

Heilbrigðisráðuneyti Svandísar Svavarsdóttur fær falleinkunn.  Lifi Landsspítalinn !

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Heyr, heyr!

Sósíalisminn hefur engan læknað. Aðeins dregið dauða og djöful yfir öll sín fórnarlömb, meðan kommisararnir graðka í sig valdið og horfa í hina áttina. 

Þakka góðan pistil.

Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 1.7.2021 kl. 01:14

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Það stappar nærri vitfirringu að hrúga verkefnum á stofnun, sem er langt frá því að anna eftirspurninni (biðlistar) og er í úreltu og úr sér gengnu húsnæði.  

Bjarni Jónsson, 1.7.2021 kl. 16:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband