28.7.2021 | 18:03
Hvaða leikur er í gangi ?
Formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, sagðist við Valaskjálf á Egilsstöðum (í yfir 20°C) föstudaginn 23. júlí 2021 trúa því, að bólusetning um 90 % þjóðarinnar 16 ára og eldri hefði breytt leiknum, þ.e. baráttunni við SARS-CoV-2 kórónuveiruna.
Ýmsar staðreyndir renna stoðum undir þessa trú og von fjármála- og efnahagsráðherra ríkisstjórnarinnar, sem þarna hittist á fundi til að taka til umfjöllunar enn eitt minnisblaðið frá sóttvarnarlækninum, sem ekki virðist vilja láta á það reyna, hvort landsmenn geti lifað "eðlilegu" lífi "fullbólusettir" með veirunni. Í miklu þéttbýlla landi en Íslandi, Englandi, sem náð hefur langt í bólusetningum gegn C-19, þó ekki eins langt og Íslendingar enn þá, ríkir enn svipað frelsi og hér ríkti 24.06.2021-24.07.2021, þótt smittíðnin hafi rokið upp. Hún hefur reyndar lækkað stöðugt frá því Englendingar fengu "frelsið". Þeir, sem hafa komizt í tæri við greindan jákvæðan á PCR-prófi, sæta sóttkví með vissum undantekningum. Boris Johnson spurði réttilega: Hvenær á að afnema opinberar sóttvarnarhömlur, ef ekki núna ? Íslenzka ríkisstjórnin fylgist nú með framvindunni og myndar sér vonandi þá skoðun að teknu tilliti til heildarhagsmuna að afnema hömlur eigi síðar en 14. ágúst 2021.
Frá Ísrael berast þær rannsóknarniðurstöður, að 80 % bólusettra smiti ekki. Þá dofna áhrif bólusetningar hratt samkvæmt sömu heimildum, og er vörn gegn slæmum einkennum orðin helmingur eftir um hálft ár frá fullri bólusetningu á við upphaflegu vörnina. Þetta vegur á móti miklu smitnæmi delta-afbrigðisins og skýrir lækkandi smittíðni á Englandi og bendir til þess, að halda þurfi áfram bólusetningum, sem skýrir hamstur ríkra þjóða á bóluefnum. Hafa verður í huga, að affarasælla er að öðlast ónæmi án bóluefna og losna þar með við aukaverkanir þeirra, sem vissulega eru alvarlegar. Illskiljanlegt er að hvetja til bólusetninga þegar smitaðra og unglinga 12-16 ára, sem lítið veikjast yfirleitt.
Hvernig vegnar sjúklingunum, sem hérlendis veiktust hastarlega í kjölfar bólusetninga, en lifðu af ? Það hefur verið hljótt um þá og fréttamenn áhugalausir.
Við verðum að hafa þrek til að lifa með þessari veiru, á meðan heilbrigðiskerfið með góðu móti ræður við sjúklingafjöldann. Virtur læknir, Jón Ívar Einarsson, telur, ef rétt er tekið eftir, að PCR-próf bólusettra á landamærum og að senda einkennalaust bólusett fólk í sóttkví sé yfirskot og eins konar barátta við vindmyllur. Höfundur þessa pistils er sammála.
Jens Spahn, heilbrigðisráðherra Þýzkalands, segir, að hvorki sé ástæða til né lagaheimild fyrir setningu opinberra sóttvarnarhafta í Þýzkalandi nú í líkingu við þau, sem tíðkuðust fyrir bólustningu. Leikurinn hefur breytzt við bólusetninguna, og sóttvarnarlæknir og málpípa hans hjá Almannavörnum hljóta að fara að viðurkenna það.
Kolbrún Bergþórsdóttir, sem fram að þessu hefur ekki verið skarpasti hnífurinn í sóttvarnarmálum í skúffunni, sem hýsir leiðarahöfunda Fréttablaðsins, skrifaði 23. júlí 2021 leiðara, sem breytir þeirri sýn. Hann bar fyrirsögnina:
"Gagnrýnisleysi".
Það er ástæða til nú á hásumartíð að vitna rækilega í þennan leiðara:
"Almenningi var á sínum tíma sagt, að aðgerðir á Covid-tímum miðuðu að því, að sjúkrahús fylltust ekki af alvarlega veikum einstaklingum. Þjóðin tók því hertum aðgerðum stjórnvalda með samþykki. Síðan var almenningi sagt, að leiðin út úr Covid væri bólusetning. Fyrir vikið streymdi fólk í bólusetningu.
Nú er sagt, að bólusetningar dugi ekki nægilega vel. Á sama tíma eru sjúkrahús ekki að fyllast af Covid-sjúklingum, fólk er ekki að deyja úr pestinni, og langflestir, sem veikjast, finna fyrir litlum einkennum. Samt þarf að herða aðgerðir. Um leið má búast við mun meiri mótþróa hjá almenningi en áður. Fólk þarf að sjá vit í boðum og bönnum. Ef það sér það ekki, þá brýtur það reglur, sem því finnst vera ósanngjarnar."
Kolbrún finnur ekki heila brú í tillögu sóttvarnarlæknis, og hann virðist vera of laus í rásinni. Það er ekki nóg að smitum fjölgi mikið, hr. sóttvarnarlæknir, til að hefta frelsi fólks til að koma saman og stunda sína vinnu, líkamsrækt, skemmtanir og halda veizlur. Heilbrigðiskerfinu þarf að vera ógnað líka, og sjúkrahúsinnlagnir vegna C-19 benda ekki til, að svo verði, nema sú ákvörðun að stinga bólusettu starfsfólki þess í sóttkví, sem er óþarfi, ef 80 % bólusettra smita ekki. Í Bretlandi hafa lekið út upplýsingar um, að innlögn sjúklings sé vegna C-19, þótt hann greinist þannig eftir innlögn. Er sama tilhneiging hér ? Sóttvarnarlæknir hældi bólusetningum í hástert, þegar hann var að hvetja til bólusetninga, en nú, þegar tæplega 90 % 16 ára og eldri hafa verið bólusett, gerir hann óþarflega lítið úr gagnsemi þeirra. Það er nógu mikið gagn að þeim, til að viðhalda megi því frelsi, sem hér var innleitt 24.06.2021 og afnumið með kjánalegum frelsistakmörkunum mánuði síðar. Sóttvarnarlæknir virkar óþarflega hvatvís fyrir þetta embætti.
"Það er algjörlega ljóst, að skerðingar á frelsi fólks í Covid-fárinu verða að vera eins vægar og mögulegt er. Það er síðan ekki verjandi að viðhalda þeim, þegar smitum fækkar, og veikindi eru ekki alvarleg. Ekki sakar að hafa í huga, að sjúkdómalaust samfélag verður aldrei til. Vonandi þykir það svo ekki dæmi um harðlyndi, þegar bent er á, að dauðinn er óumflýjanlegur hluti af lífinu, en ekki nýtilkomin ógn."
Vælukjóinn í Almannavörnum var 26.07.2021 með fullyrðingar um, að dagleg smit hefðu reynzt færri, ef strangari opinberar hömlur hefðu verið settar á líf fólks, sem sagt enn meiri frelsisskerðingar. Það er nóg komið af innistæðulausum fullyrðingum frá þessum talsmanni Almannavarna í sóttvarnarmálum. Það gæti dregið úr sannfæringu hans um nytsemi frelsisskerðinga að kynna sér það, sem er að gerast á Englandi. Þar voru allar opinberar frelsisskerðingar afnumdar 19.07.2021, og þann 26.07.2021 var tilkynnt um, að 5. daginn í röð hefði nýjum smitum C-19 fækkað. Haftasinnar mega ekki heyra á það minnzt, að gagnsemi hafta í sóttvarnaskyni sé dregið í efa, hvað þá, að bent sé á, að þau hafi gert meira ógagn en gagn, hvort sem mælt er í töpuðum lífárum eða tekjum hins opinbera og fyrirtækjanna, sem undir öllu standa.
Áfram með Kolbrúnu:
"Hinar heftandi aðgerðir á Covid-tímum hafa takmarkað mannréttindi og athafnafrelsi fólks. Engin ástæða er til, að því sé tekið með þögninni einni. Það er líka óþarfi að láta, eins og það sé nánast guðlast að vera ósammála sóttvarnalækni. Á sínum tíma sagði þríeykið, að gagnrýni væri nauðsynleg; ekki væri gott, ef hætt væri að spyrja um nauðsyn aðgerða. Vonandi er þríeykið enn þessarar skoðunar."
Sóttvarnarlæknir hefur haldið svo illa á spilunum, að fólk er orðið ruglað í ríminu um, hvaðan sóttvarnaryfirvöld eru að koma og hvert þau stefna. Sóttvarnarlæknir hvatti mjög til bólusetninga. Dauðsföll af þeirra völdum eru líklega orðin álíka mörg og af sjúkdóminum C-19 sjálfum (30), og margir tugir alvarlegra aukaverkana annarra hafa komið fram, en engar fregnir eru sagðar af líðan þessara sjúklinga, eða hversu margir þeirra eru á sjúkrahúsi. Þeir eru líklega fleiri en C-19 sjúklingar á spítala, því að þeir eru sárafáir eða um 3. Hvernig væri, að s.k. þríeyki sýndi dálitla hluttekningu með þessum sjúklingum og upplýsti um líðan þeirra á upplýsingafundum sínum ?
Nú er sóttvarnarlæknir farinn að tala áhrif bóluefnanna niður og segir virknina aðeins vera 60 % í stað 91 % - 97 % áður. Hvað er hér á seyði ? Er sóttvarnarlæknir algerlega úti að aka, eða eru bóluefnaframleiðendur tilbúnir að játa þetta, og hvernig stendur þá á þessu stóra fráviki frá uppgefnum gildum framleiðendanna ? Þá hafa borizt fregnir frá Ísrael um hraða dvínun ónæmisvirkninnar með tíma eða um helmingun á 1/2 ári. Eitt er þó ljóst: delta-afbrigði veirunnar veldur ekki jafnskæðum veikindum á Íslandi og fyrri afbrigði. Má þakka það bólusetningunum eða því, að delta-afbrigðið, sem er meira smitandi en önnur, er ekki jafnhættulegt og fyrri afbrigði ? Slík er venjuleg þróun veira.
"Einkennilegt er að horfa upp á það, að viðhorf stjórnmálamanna til takmarkana og frelsissviptinga í Covid skuli fara eftir flokkslínum. Sjálfstæðismenn hafa verið ötulastir við að minna á mikilvægi einstaklingsfrelsisins. Í öðrum flokkum hafa menn varla leyft sér að efast og spurt fárra spurninga. Satt bezt að segja hefur verið ömurlegt að horfa upp á það gagnrýnisleysi.
Þegar réttindi almennings eru skert, eins og gerzt hefur í Covid, þá á fólk um leið rétt á að vita, hversu lengi höft verði viðvarandi; sem sagt, hvaða aðstæður þurfi að skapast, til að þeim sé aflétt. Engin tegund hafta á síðan að festa sig í sessi og vera flokkuð sem "eðlilegt ástand".
Bragð er að, þá barnið finnur. Það er óþarfi af Kolbrúnu að verða mjög hissa á mismunandi afstöðu fólks, stjórnmálamanna og annarra, gagnvart opinberum frelsisskerðingum í sóttvarnarskyni. Þar birtist hugsunarháttur fólks og afstaða til ríkisvalds, og hvernig má fara með það. Vinstri menn eru mjög hallir undir valdboð hins opinbera og óskeikulleika embættismanna. Það er rík ástæða til að vara almenning við vinstri slysunum, því að vinstri menn eru sannfærðir um, að valdboð og valdbeiting hins opinbera gegn atvinnulífinu og einstaklingunum, jafnvel á kostnað eignarréttarins, svo að ekki sé nú minnzt á atvinnufrelsið, sé alltaf réttlætanlegt.
Þetta er stórhættulegt og kolrangt viðhorf. Einstaklingurinn á að vera kjarni samfélagsins, Stjórnarskráin staðfestir það. Hugdettur stjórnmálamanna og embættismanna eiga ekki að duga til frelsisskerðinga. Þingið ætti alltaf við fyrsta tækifæri að fá tækifæri til að staðfesta eða hafna því, að næg ástæða hafi verið til frelsisskerðinga, og auðvitað verða þær að styðjast við lög. Eins og nú háttar, leikur mikill vafi á því, að næg ástæða hafi verið til að hverfa frá frelsinu, sem veitt var til persónulegra athafna hérlendis 24.06.2021. Ástæðan er sú, að þjóðin telst nú vera nánast fullbólusett og ríkjandi veiruafbrigði, delta, sem að vísu er mjög smitandi, virðist ekki valda alvarlegum sjúkdómseinkennum.
Höft á mannlegt atferli orka alltaf tvímælis, því að slík höft geta haft alvarlegar neikvæðar afleiðingar. Eins og staðan er núna hafa þau leikið fjárhag margra grátt, en enn þá verra er, að þau hafa orsakað heildarfjölgun dauðsfalla. Neikvæðar heilsufarslegar afleiðingar atferlishafta hafa orðið meiri en gagnið af þessum höftum, eins og lesa má út úr tölfræði Hagstofunnar, sem Jóhannes Loftsson, verkfræðingur, hefur vakið athygli á í Morgunblaðsgrein, 16.07.2021, sbr https://bjarnijonsson.blog.is/blog/bjarnijonsson/entry/2267223 .
Um sama leyti og Englendingar afnámu samskiptahöft hjá sér, 19.07.2021, ákváðu yfirvöldin á Singapúr-eyjunni, að þaðan í frá skyldu íbúarnir umgangast SARS-CoV-2 kórónuveiruna eins og hverja aðra inflúensuveiru. Fjölmiðlar hættu í kjölfarið að birta daglegar fréttir af fjölda smita o.þ.h., enda gefur auga leið, að smittíðnin skiptir litlu máli, ef veikindin eru engu meiri en af inflúensu.
Hérlendis búum við við hvatvísan sóttvarnarlækni, sem stóðst ekki mátið að freista þess að hrekja ríkisstjórnina af frelsisleiðinni, sem hún markaði 24. júní 2021, og setti á 75 % hámark í sundlaugar og þreksali og 200 manna samkomuhámark, svo að eitthvað sé nefnt. Þetta stórskemmdi stutt sumar fyrir mörgu fólki og mótshöldurum og er frumhlaup, en ríkisstjórnin treysti sér ekki til að ganga gegn embættismanninum og bar við, að hún vildi hafa vaðið fyrir neðan sig (varúðarráðstöfun). Allar upplýsingar frá vel bólusettum löndum hafa þó verið á einn veg, að delta afbrigðið valdi tiltölulega fáum sjúkrahússinnlögnum, e.t.v. 0,5 % af sýktum.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Fjölmiðlar, Heilbrigðismál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég á erfitt með að sjá annað en að bólusetningin veiti enga vörn gegn smiti. Jafnvel neikvæða. Ef miðað er við gögn á covid.is í gær höfðu 673 smitast frá 9. júlí, þegar tekið var að greina smitaða í hópa út frá bólusetningu. Ef reiknað er með að bóluefnið veiti 50% vernd gegn smiti, eins og sóttvarnarliðið hélt fram í Mogganum á mánudag, og að engin sérstök leitni sé í þessum greiningum, hefðu þá 35% þessara smita átt að vera meðal fullbólusettra (70% * 50%), eða 230 smit. En þau voru 490. Ef bólusetti hópurinn hefði verið óbólusettur hefðu þessi 70% skilað 460 smitum. Verndin er því neikvæð um 6% samkvæmt þessu.
Þorsteinn Siglaugsson, 28.7.2021 kl. 19:10
Það verður að leyfa Víði að banna smá, svo honum leiðist ekki. Málið snýst sennilega ekki um neitt annað.
Jón Steinar Ragnarsson, 28.7.2021 kl. 20:17
Já, Þorsteinn, þannig koma tölurnar fyrir sjónir, að verndin sé ekki beysin, reyndar engin, nema til að draga úr veikindunum. Allar þessar sýkingar nú munu vera vegna delta, og reynslan af veirum er sú, að þær þróast í þá átt að verða meira smitandi og valda minni einkennum, svo að jafnvel þarna er óvissa með þessi bóluefni. Við vitum, að atferlið hefur mikil áhrif á smitlíkindin. Ekki er ólíklegt, að hinir bólusettu gæti síður að sér.
Ísraelsmenn hafa einna mesta reynslu af þessum bóluefnum, reyndar mest Pfizer-BioNTech. Rannsóknir þar benda til 80 % minni líkum á smiti bólusetts en óbólusetts um mánuði eftir bólusetningu, og þessi tala er komin niður í 40 % eftir 6-7 mánuði. Þetta finnst mér reyndar vera með ólíkindum og verði að taka "med en klybe salt" fyrir heildina, þótt þessi þróun hafi fundizt hjá einhverju rannsóknarþýði.
Bjarni Jónsson, 28.7.2021 kl. 21:24
Jón Steinar: ég játa hér og nú, að umburðarlyndi mitt gagnvart téðum yfirlögregluþjóni hefur trosnað upp. Þegar kom í ljós, að hann predikar eitt og gerir annað, hóf það að rakna upp. Betra er að þegja, ef maður hefur ekkert af viti að segja.
Bjarni Jónsson, 28.7.2021 kl. 21:31
Þakka góðan pistil, eins og þín er von og vísa Bjarni.
Já, það er ekki laust við að trosni úr traustinu á sérfræðingunum, eftir því sem þetta verður farsakenndara. Flestir við það að vera komnir heilan hring í ráðgjöfinni og ef leita á álits á tilskipunum stjórnvalda, samkvæmt ráðleggingum sérfræðinganna, er aðeins talað við einn mann. Sá er útibússtjóri Amgen á Íslandi og að sjálfsögðu mælir hann með því að allir láti sprauta í sig óræðum efnum. Ef tvisvar ekki dugi, þá þrisvar, fjórum sinnum og þar fram eftir götunum.
Heiladofnir, ríkisstyrktir djöfulmiðlar og doðakenndir, opinmynntir fréttasnápar sem þar starfa apa síðan allt upp, án svo mikils sem spyrja einnar einustu spurningar. Almenningur hræddur allan sólarhringinn, alla daga, hvern mánuð nú í hartnær eitt og hálft ár og sér ekki fyrir endann á múgsefjunartaktíkinni.
Nú á að fara að dæla óþverranum í þungaðar konur og ungabörn! Geggjunin er alger orðin! Ég spyr nú bara hvaða þvæla er eiginlega orðin í gangi? Þykir virkilega engum af ráðamönnum þjóðarinnar tilefni til að stíga aðeins á bremsuna og fara yfir stöðuna, áður en ungviðinu og þunguðum konum er byrlaður óræður lyfjakokteill, sem enginn veit hvaða langtímaáhrif hafa? Eru ráðamenn þjóðarinnar lagstir alkul, því framundan eru kosningar? Þvílík dusilmenni!
Afsakaðu langlokuna Bjani, en......andskotinn bara, að horfa upp á þessa geggjun!
Góðar atundir, með kveðju að sunnan.
Halldór Egill Guðnason, 29.7.2021 kl. 00:09
Nú hafa Ísraelsmenn ákveðið að hefja bólusetningu 60+ í 3. skiptið á sunnudaginn 01.08.2021. Er ekki meira vit í því en að bólusetja 12-15 ára unglinga, sem verður yfirleitt mjög lítið um smit C-19, og þungaðar konur, sem vissulega geta farið illa út úr aukaverkunum bóluefnanna.
Bjarni Jónsson, 29.7.2021 kl. 17:00
Ekki er álit mitt á sóttvarnarlækni meira. Hann nýtti sér færið meðan fólk hrundi niður úr þessu og vakti athygli á að hann spilaði í hljómsveit í gamla daga. Spilaði á gítar í sjónvarpssal og var ofboðslega frægur. Sennilega íslandsmet í taktleysi og smekkleysu.
Jón Steinar Ragnarsson, 29.7.2021 kl. 23:47
slóð
Við getum fengið hvaða smit tölu sem við viljum, með því að stilla næmni mælingatækisins. Við lesum um að sé mælitækið stillt á 35 og hærra, mælast margar gerðir af vírusum. Þá er oft sagt að 97 % séu ekki covit-19 veiran.
30.7.2021 | 09:58
Egilsstaðir, 30.07.2021 Jónas Gunnlaugsson
Jónas Gunnlaugsson, 30.7.2021 kl. 11:23
Jón Steinar Ragnarsson: Væg útgáfa af keisaranum Nero, sem lék á fiðlu, á meðan Róm brann.
Bjarni Jónsson, 30.7.2021 kl. 20:57
Sæll, Jónas: Þessi PCR-próf munu hafa verið hönnuð til annars en að greina þessa kórónuveiru í sjúklingum. Ef SARS-CoV-2 greinist ekki við 25 títranir, en t.d. við 35, þá eru líklega engin einkenni og sýnishafinn að öllum líkindum ekki smitberi heldur, því að svo lítið er af veirunni í honum. Slíkum er þó hent í sóttkví hér vor á meðal, og jafnvel þótt viðkomandi sé fullbólusettur. Sóttvarnaryfirvöld eru að gera okkur lífið allt of erfitt með allt of næmu PCR-prófi.
Bjarni Jónsson, 30.7.2021 kl. 21:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.