Ofstæki mun ekki gagnast náttúrunni

Afbrigðileg og herská viðhorf til náttúruverndar hafa tröllriðið Landvernd bæði undir fyrrverandi og núverandi framkvæmdastjóra þessara samtaka, sem ættu ekki að vera vettvangur ofstækisfullrar náttúruverndar, sem setur sig upp á móti nánast öllum framfaramálum í þágu almannaheilla á sviði samgöngumála (vegagerð) og orkumála (nýjum virkjunum og flutningslínum í lofti, einnig DC-jarðstreng yfir hálendið á milli Norður- og Suðurlands ?).

Núverandi framkvæmdastjóri Landverndar er á móti álframleiðslu á Íslandi á þeim grundvelli, að verði álverin á Íslandi lögð niður, þá minnki heildarlosun gróðurhúsalofttegunda í heiminum að sama skapi. Þetta ankannalega viðhorf verður til í hópi sértrúarsafnaðar á Íslandi, sem berst gegn hagvexti og núverandi neyzlumynztri almennings.  Viðhorfið er hvergi annars staðar í Evrópu að finna, og Evrópusambandið (ESB) er með niðurgreiðslur og tollvernd fyrir evrópskan áliðnað í gangi til að draga úr s.k. kolefnisleka frá Evrópu til ódýrari staða, þar sem m.a. ekki er kolefnisgjald. Losunin er svo miklu meiri á hvert framleitt tonn t.d. í Asíu frá nýjum álverum en frá íslenzkum álverum, að aukningin mundi nema tvöfaldri heildarlosun Íslands án jarðvegslosunar, ef framleiðsla álveranna hér flyttist þangað.  Það getur aðeins þjónað þröngum sérhagsmunum að afneita viðteknum "kolefnisleka" með spuna. 

Fyrrverandi framkvæmdastjóri Landverndar varð alræmdur fyrir kærugleði sína á hendur leyfisveitendum og framkvæmdaaðilum orkumannvirkja.  Hann er nú varaformaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og umhverfis- og auðlindaráðherra og heldur sem ráðherra uppi hernaði gegn hagsmunum almennings á sviði orkumála.  Þetta kemur fram í því, að verndar- og nýtingaráætlun er strönduð á Alþingi, og þar var lagt fram frumvarp af þessum ráðherra um einræði ráðuneytisins yfir öllu miðhálendi Íslands, þar með orkulindum, sem þar er að finna. Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins, ritaði um þetta grein í Morgunblaðið 28. ágúst 2021, sem bar heitið:

"Ræðst framtíð hálendis Íslands í miðborg Reykjavíkur ?".

Hún hófst þannig:

"Að vernda náttúruna er göfugt og gott markmið, sem stuðla þarf að með skynsömum hætti. Þessu markmiði þarf að ná í sátt og samlyndi við ferðafélög, bændur og sveitarfélög, sem og aðra náttúruunnendur, en það er einmitt það, sem sárlega vantaði inn í lög [lagafrumvarp] umhverfisráðherra um stofnun hálendisþjóðgarðs; samráð við þá, sem málið varðar.  Það er því mikilvægt að fara aðeins yfir staðreyndirnar."  

Vinnubrögð umhverfis- og auðlindaráðherra, þegar hann hannaði stjórnkerfi miðhálendisþjóðgarðsins, minna á slagorð Leníns um "alræði öreiganna og allt vald til sovétanna (ráðanna)". Í raun fóru öll völd til "nómenklatúru" kommúnistaflokksins í Moskvu.  Ráðherrann hefur búið til samráðsvettvang sveitarfélaganna í stjórnkerfi miðhálendisþjóðgarðsins, en endanlega orðið um öll málefni þjóðgarðsins verður í umhverfisráðuneytinu í Reykjavík.  Þetta er afsprengi hrædds manns í minnihlutahópi, sem óttast nærlýðræði eða grasrótarlýðræði, en treystir því, að með fjarstjórn frá Reykjavík muni takast að koma í veg fyrir öll nýtingaráform á hálendinu. Þessi ógæfulega stefnumörkun ráðherrans strandaði í þinginu. 

Hin eina vitræna nálgun þessa viðfangsefnis er að varðveita ráðstöfunar- og skipulagsrétt sveitarfélaganna óskertan yfir hálendinu; tryggja nærlýðræðið. Ef nærlýðræðið fær að njóta sín, er líklegast, að sáttaleið finnist um jafnvægi á milli nýtingar og verndar.  Það er útilokað með einræðistilburðum úr Reykjavík. 

Fulltrúar sveitarfélaganna á hverju rekstrarsvæði miðhálendisþjóðgarðsins munu skipa meirihluta í s.k. umhverfisráði, sem er hið bezta mál.  Hlutverk umhverfisráðanna á að vera að setja rekstrarsvæðunum, hverju fyrir sig, nýtingar- og verndaráætlun. Stjórn miðhálendisþjóðgarðsins er hins vegar óbundin af samþykktum umhverfisráðanna.  Stjórn þessi er í raun og veru óþörf. Til að bæta gráu ofan á svart hefur ráðherrann heimild til að breyta samþykktum umhverfisráðanna án þess að tala við kóng né prest. Þetta er ósvífin afbökun á nærlýðræðinu og stjórnkerfislegt örverpi í íslenzkri stjórnsýslu, sem á sér hvorki siðferðisgrundvöll né lagahefð. Hugarheimur ráðherrans er hugarheimur minnipokamanns, sem hefur komizt til æðstu metorða, og ætlar að misnota aðstöðu sína þar purkunarlaust í þágu ofstækisviðhorfa sinna.   

Flokkur ráðherrans o.fl. berja sér á brjóst fyrir loftslagsstefnu sína, en hún er algerlega innantóm glamuryrði vegna þess, að flokkurinn, S&P engu skárri, virðist leggjast gegn flestum nýjum virkjunum.  Til að mæta raforkuþörf orkuskiptanna virðast þau vonast til, að starfsemi álveranna á Íslandi verði stöðvuð. Það yrði þó það versta, sem frá Íslandi gæti komið í loftslagsmálum, eins og rakið hefur verið, og yrði meiriháttar efnahagslegt og atvinnulegt áfall. Engar áætlanir standa til þess núna fyrir þann tíma, sem stjórnmálamenn ætla að ná kolefnishlutleysi á Íslandi, 2040.  Þess vegna er holur hljómur í þeim stjórnmálamönnum, sem hæst láta í loftslagsmálum.

Það, sem helzt er hægt að halda sig við varðandi viðbótar orku frá sjálfbærum orkulindum Íslands, fyrir utan smávirkjanir, er 3. áfangi verndar-og nýtingaráætlunar, nýtingar- og biðflokkur (ekki verndarflokkur).  Þar eru 7 vatnsaflsvirkjanir að uppsettu afli 456 MW og orkuvinnslugetu 3241 GWh/ár, 8 jarðgufuver, 730 MW, 6016 GWh/ár og 1 vindorkuver (Blöndulundur), 100 MW, 350 GWh, alls 1421 MW og 10,7 TWh/ár. 

Til að leysa af hólmi alla jarðefnaeldsneytisnotkun á Íslandi (án millilandasiglinga og -flugs) þarf uppsett afl 1000-1200 MW (háð nýtingartíma hámarksnotkunar, snjallmælar lækka aflþörfina) og 6,7 TWh/ár, og að meðtöldum millilandasamgöngunum gæti þurft 1300 MW og 9,0 TWh/ár.  3. áfanginn dugir þannig fyrir orkuskiptunum og aukningu almenns álags á 20 ára tímabili, en ekkert svigrúm verður fyrir eldsneytisframleiðslu til útflutnings, nema virkja eitthvað af þeim orkulindum, sem ekki eru nefndar í nýtingar- og biðflokki "áfanga 3". Það gæti t.d. orðið vindorka, eins og fyrirtækið Qair hefur kynnt til sögunnar, en vegna mikillar fyrirferðar slíkra orkugarða verður að huga vandlega að staðsetningu þeirra út frá náttúruverndarsjónarmiði, og umfram allt verða slíkar framkvæmdir að vera í sæmilegri sátt við íbúa viðkomandi sveitarfélaga, sem sitja munu uppi með svo fyrirferðarmikinn nágranna. 

Iðnaðarráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir,  ritaði hugvekju í sunnudagsblað Morgunblaðsins, 05.09.2021, undir fyrirsögninni: 

"Eitt stærsta hagsmunamál Íslands".

  Hún hófst þannig: 

"Loftslagsváin hefur sent heiminn á hraðferð inn í græna orkubyltingu, og Ísland hefur einstakt tækifæri til að taka þar afgerandi forystu. Það er sjálfbært og loftslagsvænt efnahagstækifæri - risastórt tækifæri - sem við eigum að sækja stíft."

  Þetta má sumpart til sanns vegar færa, en sumpart er þetta ofmælt.  Framleiðsla alrafbíla nemur í ár 4 % af heild nýrra bíla, sem er tvöföldun frá árinu 2020. Þetta er ávísun á umskipti til hins betra.  Öðru máli gegnir um raforkuvinnslu heimsins.  Hún mun fyrirsjáanlega aukast um 5 % í ár og 4 % árið 2022.  Jarðefnaeldsneyti stendur undir 45 % aukningarinnar í ár og líklega 40 % á næsta ári.  Til samanburðar stóð jarðefnaeldsneyti undir fjórðungi aukningar raforkuvinnslu árið 2019. Þetta jafngildir afturför. Vonir bjartsýnismanna um, að samdráttur eldsneytisnotkunar Kófsárið 2020 mundi halda áfram, hafa orðið að engu, enda mun enginn teljandi árangur nást með trúarbragðakenndu orðagjálfri, heldur verða að koma fram raunhæfar tæknilausnir og vaxandi hlutdeild kjarnorku á heimsvísu.

Norðmenn framleiða nánast alla sína raforku, um 150 TWh/ár, með vatnsafli og vindi. Þeir eru með miklu meiri orkukræfan iðnað en Íslendingar og eru komnir lengst alla við rafvæðingu samgöngutækja á láði og legi og eru með áætlanir þar að lútandi fyrir innanlandsflugið.  Þeir leggja þannig miklu meira að mörkum til loftslagsmála en Íslendingar, enda á það ekki að vera neitt keppikefli hér að vera fremstur í röðinni, þar sem sama og ekkert munar um allt það koltvíildi, sem mannleg starfsemi losar hér.  Meira er um vert að grípa tækifærin, eftir því sem tækniþróuninni vindur fram, og nýta þau landsmönnum til efnalegs framdráttar. 

Þannig er t.d. núna verið að þróa hálfleiðara í afriðla til að hækka spennu rafgeymanna úr 400 VDC í 800 VDC.  Þar með léttast bílarnir vegna minni koparþarfar, og hraðhleðslustöðvarnar verða um 350 kW, sem þýðir mikla styttingu hleðslutíma. Þessi þróun ætti að sýna skipuleggjendum innviða, að efla verður dreifikerfið til mikilla muna um allt land til að anna eftirspurninni.

"Til að sækja þetta tækifæri [orkuskiptanna] þurfum við að styðja myndarlega við þróun á þeim nýju lausnum, sem þarf til að skipta út núverandi mengandi orkugjöfum, hafa aðlaðandi og samkeppnishæft umhverfi fyrir fjárfesta, sem vilja byggja upp græna starfsemi og tryggja, að sú orka, sem til þarf, verði til staðar.  Núverandi regluverk stendur í vegi fyrir því, og úr því þarf að bæta án þess að gefa afslátt af kröfum um umhverfisvernd og sjálfbæra nýtingu auðlinda." 

Það, sem virðist liggja beinast við að styðja við, er repjuræktin til að framleiða olíu á dísilvélar og dýrafóður úr afganginum. Athuganir benda til, að þetta sé vænleg viðskiptahugmynd, og einkaframtakið ætti að geta komið þessu á koppinn að mestu ívilnanalaust.  

Það er mjög óeðlilegt, að nú standi ekki yfir framkvæmdir við neina virkjun yfir 50 MW, því að orkuskortur vofir yfir í vetur, nema óvenjumikil hækkun vatnsborðs Þórisvatns verði nú í september, en vatnshæðin þar hefur verið undir sögulegu lágmarki undanfarna 2 mánuði.  Á sama tíma hefur Byggðalína verið þanin til hins ýtrasta í rafmagnsflutningum frá Kárahnjúkavirkjun til Norður- og Suðurlands, en vatnsbúskapur Hálslóns hefur gengið vel í sumar (hlýindi og sólskin), þótt þurrkatíð hafi verið á Héraði.

Ráðherrann virðist kenna regluverkinu um þetta, og víst er, að umhverfis- og auðlindaráðherra hefur í engu reynzt hjálplegur.  Í umhverfisverndinni, sem ráðherrann nefnir, ætti að felast sú verkfræðilega krafa, að umhverfisrask verði eins lítið og tæknin leyfir m.v. virkjanlega orku á staðnum.  Þar með er tryggt, að nýjar virkjanir, eins og reyndar allar á undan þeim, munu falla vel að umhverfinu.  Það hlýtur að verða verkefni umbótaafla eftir komandi kosningar að gera raunhæfa áætlun um nýjar virkjanir, sem gerir mögulegt að losna við jarðefnaeldsneytið fyrir 2050, eins og gildandi orkustefna tilgreinir.  Þá verður að kistuleggja draumóra áhugafólks um bíllausa framtíð og annarra öfgahópa, sem lifir í draumaheimi um hagvaxtarlausa framtíð og Landvernd er gott dæmi um. 

Iðnaðarráðherra orðaði svipaða hugsun þannig í lok téðrar hugvekju sinnar.  Hver, sem kosningaúrslitin verða, verður að bægja afturhaldsöflum frá valdastólunum, ef orkuskiptin eiga nokkurn tíma að verða barn í brók og þar með eitthvað annað en innantómt orðagjálfur afturhaldsins. 

"Spurningin snýst um trúverðuga leið að markmiðinu, og hvort hugur fylgi raunverulega máli um að sækja fram og sækja tækifærin.  Sú spurning er eitt mikilvægasta hagsmunamál Íslands til framtíðar, en henni þarf að svara strax í dag.  Það dugar ekki að segjast vilja orkuskipti og græna nýsköpun, en horfa á sama tíma fram hjá orkunni, sem þarf til.  Hér þarf að fara saman hljóð og mynd."  

    

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Gott væri að sjá gögn um það að Landsnet fallist allt í einu á þá lausn að leggja jarðstreng yfir hálendið. Á síðustu ráðstefnunni sem ég sotti um þessi mál kom fram að þeir þverneita þeirri aðferð, en ætla sér í staðinn að leggja "ósýnilega" loftlínu yfir Sprengisand. 

Ómar Ragnarsson, 7.9.2021 kl. 23:31

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Ómar; Val hefur ekki farið fram um það hjá Landsneti, hvort reist verður öflug (400 kV) loftlína frá Fljótsdalsstöð suðurleiðina að Sigöldu eða þessi 500 MW jafnstraumsstengur á milli Norður- og Suðurlands.  Kostnaðurinn er svipaður, en rafmagnslegi ávinningurinn meiri með DC-jarðstrenginum og umhverfisáhrifin að mínu mati mun minni með jarðstenginum.  Mér finnst líklegra, að jarðstrengurinn verði fyrir valinu.  Hann mun bæta stöðugleika kerfisins mjög mikið.

Bjarni Jónsson, 8.9.2021 kl. 11:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband