Eru nýjar virkjanir feimnismál ?

Botninn er suður í Borgarfirði í loftslagsumræðunni fyrir þessar kosningar.  Það er alvarlegt, því að botnlaus umræða leiðir ekki til nokkurs áþreifanlegs árangurs. Botninn felst í að uppfylla raforkuþörfina, sem fyrir hendi er, til að leysa jarðefnaeldsneytið af hólmi og jafnframt að standa undir almennt aukinni raforkuþörf vaxandi þjóðar. Þetta knýjandi mál er svo skelfilega vanreifað, að frambjóðendur í þessum þingkosningum fara í kringum það, eins og kettir í kringum heitan graut, hvernig á að afla þessarar orku. Það er algerlega óboðlegt að tala fjálglega um að draga úr eldsneytisnotkun til að uppfylla metnaðarfullt markmið um að draga úr losun CO2 árið 2030 um 55 % m.v. 1990, en þvælast svo fyrir öllum framkvæmdum, sem miðað að því að auka framboð sjálfbærrar raforku og gera kleift að flytja hana til notenda.  

Það er ljóst með nægilegri nákvæmni, hver orkuþörfin er.  Hún er alls um 9,0 TWh/ár og um 1300 MW til að rafvæða með einum eða öðrum hætti allt það, sem nú notar jarðefnaeldsneyti á Íslandi, að meðtöldu millilandaflugi og millilandasiglingum. Þessi orka jafngildir um 45 % af orkugetu núverandi virkjana. Það er ekki eftir neinu að bíða með að hefjast handa við þetta virkjanaverkefni, sem má ekki standa lengur yfir en til 2045, ef stjórnvöld ætla að standa við markmið orkuáætlunar um að losna við allt jarðefnaeldsneyti fyrir 2050.  Það þýðir að taka þarf í notkun 360 GWh/ár eða 65 MW/ár að jafnaði. 

Það er versti ljóður á ráði núverandi stjórnvalda að berja sér á brjóst og lofa öllu fögru til að hægja á hlýnun andrúmsloftsins, en láta lykilatriðið til að gera þetta kleift reka á reiðanum. Loddarar tvíeykisins S&P eru auðvitað ekki hjálplegir heldur.  Stjórnmálaflokkar, sem segja bara A, en berja svo hausnum við steininn og neita að segja B fyrir loftslagið, eru ótraustvekjandi og ótrúverðugir í alla staði.  Þeir meina ekkert með því, sem þeir segja.  Loftslagsstefnan er þar á bæ bara meðal til að fylla upp í tómarúmið, sem er þar, sem réttlæting fyrir tilvist flokksins ætti að vera.  Loftslagsstefnan er þar á bæ með óprúttnum hætti notuð sem réttlæting fyrir aukinni skattheimtu og ríkisumsvifum.  Þessi skattheimta bitnar verst á dreifbýlisfólki og fólki með lágar ráðstöfunartekjur.  Það er tímabært að hefja lækkunarferli á þessum eldsneytissköttum. 

Þann 26. ágúst 2021 birtist í Morgunblaðinu viðtal við Pál Erland, framkvædastjóra Samorku.  Þar á bæ er fullur skilningur á því, hver forsenda orkuskiptanna er, og hversu mikla viðbótar raforkuvinnslu hún útheimtir. Vitneskjan er til um það víða í samfélaginu, en afturhaldsöflin stinga hausnum í sandinn og neita að viðurkenna staðreyndir. Þannig er þeirra pólitík eintóm yfirborðsmennska.

Ef á að takast að standa við markmið ríkisstjórnarinnar og skuldbindingar gagnvart EES/ESB og Parísarsamkomulaginu, verður að fara að hefjast handa við nýjar virkjanir, en þá kemur til kasta Alþingis.  Tíminn til að forða öngþveiti í orkumálum er að renna út. Með stækkun Reykjanessvirkjunar um 30 MW veitist nauðsynlegt svigrúm til að reisa yfir 50 MW virkjun, en Alþingi þarf að taka af skarið með hana.  Með flokkakraðak þar, sem veit ekki í hvora löppina á að stíga í þessum efnum, horfir málið ógæfulega í landi tækifæranna. Samorka kallar á, að "nýtt lagaumhverfi komi í stað rammaáætlunar".  Framkvæmdastjórinn sagði m.a. í téðu viðtali:

"Við þurfum nýja og skilvirkari umgjörð í stað þeirrar, sem við nú búum við í ljósi þess, að það eru 10 ár síðan síðasta rammaáætlun var samþykkt á Alþingi.  Síðan þá hafa 3 umhverfisráðherrar lagt 3. áfanga rammaáætlunar fyrir þingið, en það hefur ekki enn treyst sér til að afgreiða hana.  Það sjá allir, að þetta fyrirkomulag er ekki líklegt til að stuðla að því, að hér verði nægt framboð af grænni orku til framtíðar.  Við getum ekki aðeins horft til okkar kynslóðar, heldur einnig komandi kynslóða."

Það er engum vafa undirorpið, að frekari þróun orkugarða til bættrar orkunýtingar og verðmætasköpunar felur í sér áhugaverð tækifæri fyrir ungt fólk með fjölbreytilegan bakgrunn.  Nú hafa veður skipazt í lofti í álheiminum vegna þurrka í Kína (miðlunarlón í lágstöðu) og fyrirskipunar kommúnistaflokksins að draga úr raforkuvinnslu í kolaorkuverum, þar sem loftmengunin er verst af þeim sökum, svo að eftirspurn áls er orðin meiri en framboðið (Áleftirspurnin eykst um 1,5 Mt/ár, sem er 2/3 meira en álframleiðsla Íslands.)

Þá mun fara að styttast í ásókn álframleiðenda eftir sjálfbærri (grænni) orku í Evrópu og Ameríku. Það kann að styttast í, að álframleiðendur verði tilbúnir til að reisa 1. áfanga álverksmiðju með eðalskautum, sem losar ekkert koltvíildi við rafgreininguna.  Slíkt ál mun seljast á enn hærra verði en ál unnið með hefðbundnum hætti, enda verður framleiðslukostnaðurinn líklega meiri fyrsta kastið þrátt fyrir hátt kolefnisgjald.  Þarna kunna líka að leynast áhugaverð tækifæri fyrir Íslendinga til að skapa tímabundin störf við byggingu virkjana og verksmiðju og varanleg störf við rekstur og viðhald.  Hagkerfið hefur enn ekki skapað næga spurn eftir vinnuafli, sem er á atvinnuleysisskrá. 

Í Morgunblaðinu 30. ágúst 2021 var áhugaverð grein eftir Björgvin Helgason, oddvita Hvalfjarðarsveitar, og Ólaf Adolfsson, bæjarfulltrúa á Akranesi og formann Þróunarfélags Grundartanga um framtíðar tækifæri á Grundartanga:

"Björt framtíð Grundartanga":

"[Þróunar]Félagið hefur staðið fyrir fjölbreyttum þróunar- og framfaramálum.  Þar má nefna skoðun nýrra umhverfisvænna orkukosta, orkuendurvinnslu, hitaveitu og framleiðslu nýrra orkugjafa á borð við rafeldsneyti.  Þá hafa ylrækt og fiskeldi verið skoðuð.  Markmiðið er að fullnýta virðiskeðju framleiðslunnar, forðast sóun verðmæta og byggja upp grænna iðn- og atvinnusvæði í hringrásarhagkerfi í anda sjálfbærnimarkmiða Sameinuðu þjóðanna."

Hér virðist vanta herzlumuninn til að hrinda einhverjum verkefnum í framkvæmd.  E.t.v. vantar fjárfesti til að hleypa lífi í hugmyndirnar, en kannski sýna arðsemisútreikningar ekki næga arðsemi.  Það vantar eitthvað stórtækt.  Það gæti t.d. verið fjárfestir, sem vill kaupa "græna" raforku til að hefja tilraunaframleiðslu á "grænu" áli með eðalskautum.  Til þess þarf að virkja og að efla flutningskerfi raforku að Klafa.  Landsnet er með 400 kV línu frá Blöndu og að Klafa á undirbúningsstigi.

"Tvö þróunarverkefni undir merkjum klasans ber að nefna: 

Nú í sumar kynnti félagið vandaða skýrslu um möguleika á framleiðslu rafeldsneytis, en það er umhverfisvænt eldsneyti, sem byggir á þekktri tækni um framleiðslu vetnis með endurnýjanlegri raforku og glatvarma frá Elkem ásamt því að nýta koldíoxíð, sem þegar er til staðar í vistkerfi svæðisins.  Þannig verði dregið verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda, orkuskipti efld og stuðlað að kröftugri nýsköpun. Með nýtingu þess mikla varma, sem verður til í starfsemi á Grundartanga, væri mögulegt að byggja upp hitaveitu fyrir svæðið og nágrenni þess.  Nú er unnið að undirbúningi og rannsóknum á slíkri hitaveitu.  Takist samningar um verkefnið og tæknilegar áskoranir leystar, er fyrir séð, að hitaveitan gæti tekið til starfa á næstu árum."

Hér eru nokkuð loftkenndar hugmyndir á ferðinni, og kemur þá í hug hið forna orðtak: "kóngur vill sigla, en byr hlýtur að ráða".  Byrinn í þessu tilviki eru einfaldlega lögmál varmafræðinnar.  Hitastig afgasa frá verksmiðjunum á Grundartanga er ekki nægilega hátt til að hægt sé að setja þar upp orkuver, sem framleiðir rafmagn fyrir vetnisverksmiðju með arðbærum hætti.  Svipuðu máli gegnir um hitaveitu.  Hún getur varla orðið samkeppnishæf við hitaveitu, sem nýtir heitt vatn úr borholum.  Ef ætlunin er að reisa vetnisverksmiðju á Grundartanga, þarf hún að kaupa rafmagn um flutningskerfi Landsnets.  Að fanga CO2 úr afgösum verksmiðjanna er dýrt. Styrkur CO2 í afgasi strompa álveranna er tæplega 0,9 %. Að framleiða úr því og vetninu ammoníak er þó ólíkt vitrænna en að dæla fönguðu koltvíildi ofan í jörðina, eins og gert er á Hellisheiði með gríðarlegri vatnsnotkun og orkunotkun að tiltölu. Það verður fróðlegt að fá niðurstöður úr tilraun með föngun koltvíildis úr kerreyk í Straumsvík, þar sem komast á að tæknilegum fýsileika og kostnaði slíkrar aðgerðar.  Skógræktin getur veitt förgun CO2 frá verksmiðjunum harða samkeppni á Íslandi - landi tækifæranna í landbúnaði.  

 burfellmgr-7340

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrossabrestur

Sæll Bjarni, Góð grein hjá þér sem endranær 

Það er alveg hörmulegt hvernig svokallaðir "Umhverfissinnar" hafa unnið gegn virkjun vatnssafls hér sem annarsstaðar.

Vatnsaflsvirkjanir geta alveg verið vel í sátt við náttúruna eins og dæmin sanna en, 

það vekur manni óhug hvernig ásýnd landins yrði með vindmylluskógum í boði þessara sömu "umhverfissinna".

kv. hrossabrestur

Hrossabrestur, 11.9.2021 kl. 09:08

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Algerlega er ég sammála þér, hrossabrestur, um þetta, og vonandi fælir þú sem flest meinlokuumhverfishross með málflutningi þínum, því að þeim gengur augsýnilega ekki umhverfisvernd til, heldur stöðvun hagvaxtar í landinu.  Fyrstu fórnarlömb slíks afturhalds mundu verða þeir, sem sízt mega við kjararýrnun.  Það er gamla sagan.  

Bjarni Jónsson, 11.9.2021 kl. 13:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband