29.10.2021 | 10:05
Einkennilega að verki verið
Stærsta framkvæmd ríkisins um þessar mundir er NLSH (Nýr Landsspítali-Háskólasjúkrahús). Það er kraumandi óánægja innan spítalans með ýmis hönnunaratriði NLSH, og eitthvað virðist á reiki, hver hönnunarstjórinn er. Það er ekki farið að ráðum yfirlækna spítalans um hönnunina, og þeir gagnrýna forstjóra spítalans og framkvæmdastjórn hans fyrir lítilsvirðandi framkomu, þar sem yfirstjórn spítalans hefur ekki tekið mark á ráðleggingum yfirlæknanna, sem ásamt öðrum þurfa að búa við gallaða hönnun, runna undan rifjum einhverra pótintáta, sem telja sig vita betur og vera í stöðu til að sniðganga yfirlæknana. Nú hefur forstjórinn yfirgefið stól sinn, og kunna þessar væringar, sem sennilega eru bara toppurinn á ísjakanum, að eiga þátt í brotthlaupi hans.
Allt vitnar þetta um ófremdarástand á þjóðarsjúkrahúsinu, stærstu ríkisstofnuninni. Heilbrigðisráðuneytinu hefur farizt yfirstjórn hennar illa úr hendi. Það er þörf á að breyta til og innleiða nýtt stjórnkerfi á spítalanum. Þar gefur kostnaðargreining og greiðslur fyrir samningsbundin verk við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) von um hvata fyrir starfsemina, sem e.t.v. bætir vinnuandann og eykur afköst sjúkrahússins (afköst starfsmanna eru mikil nú, en mannskap vantar), en meginmálið er að rjúfa bein stjórnunartengsl ráðuneytisins og spítalans með stjórn, sem þá verður ábyrg gagnvart ráðherra, ræður forstjóra og semur nýtt skipurit, e.t.v. með færri silkihúfum en nú eru.
Þann 21. október 2021 báru 5 yfirlæknar Landsspítalans sorgir sínar og áhyggjur af hönnun NLSH á torg með grein í Morgunblaðinu undir heitinu:
"Um sýndarsamráð við fagfólk á sjúkrahúsi".
Höfundarnir eru yfirlæknar ranssóknardeilda Landsspítalans: Björn Rúnar Lúðvíksson, Ísleifur Ólafsson, Jón Jóhannes Jónsson, Páll Torfi Önundarson og Sveinn Guðmundsson.
Grein þessi hófst þannig:
"Í grein 17. september sl. í Morgunblaðinu vöruðu 4 yfirlæknar læknisfræðilegra rannsóknastofa á Landspítalanum við því, að virt væru að vettugi ráð þeirra við hönnun nýs rannsóknahúss spítalans hvað varðar óæskilega staðsetningu þyrluparls og ófullnægjandi skrifstofuaðstöðu ("opin verkefnamiðuð vinnurými").
Í svörum Gunnars Svavarssonar, framkvæmdastjóra nýs Landspítala ohf. (NLSH) í Ríkisútvarpinu, Morgunblaðinu og netpósti kemur fram, að hönnunin sé byggð á "þarfagreiningu, húsrýmisáætlun og forsendum verksins, sem komi frá notendum LSH". "Um sé að ræða stærsta notendastudda hönnunarverkefni Íslandssögunnar ", sem hátt í 200 "starfsmenn spítalans" hafi komið að og "allir, sem komi að verkefninu, séu vissir um að vera á réttri leið."."
Ef ráðið er í þessi orðaskipti, er téður Gunnar Svavarsson að segja, að skrifstofa forstjóra LSH hafi útnefnt þá, sem vera skuli hönnunarteymi NLSH til ráðuneytis um þarfagreiningu og hönnun rannsóknarbyggingarinnar, og að yfirlæknarnir eigi þar af leiðandi ekki að fetta fingur út í þá vinnu. Hér er eitt dæmið um það, að tannhjól NLSH og LSH grípa ekki saman. Það er ills viti. Hlutverk yfirlækna á LSH samkvæmt lögum og í reynd ætti að valda því, að ábendingar þeirra á hönnunarstigi ættu að vega afar þungt. Í ljósi þessa verður heilbrigðisráðuneytið að taka af skarið um þetta, ef starfandi forstjóri sjúkrahússins hefur ekki gert það nú þegar.
Þyrlupalli sjúkrahússins hefur verið valinn slæmur staður, líklega ónothæfur staður. Breytt staðsetning leiðir sennilega til kostnaðarauka í byrjun, en heppilegri staðsetning gæti lækkað rekstrarkostnað.
Að ætla að setja yfirlæknana í opið vinnurými er fáheyrt tillitsleysi og/eða skilningsleysi á eðli viðkvæmra starfa þeirra. Samtöl þeirra og vinnugögn eiga ekki að vera opin þeim, sem í grenndinni kunna að vera, eða eiga leið framhjá. Hér virðast "þarfagreining og húsrýmisáætlun" NLSH vera í skötulíki. Það er lágmark, að yfirlæknarnir fái þessi gögn í hendur, svo að þeim verði gefinn kostur á að rýna þau og gera gagntillögu til starfandi forstjóra spítalans og ráðuneytisins.
"Á fundi allra fagstjórnenda rannsóknadeilda og röntgendeilda Landspítala 22. september sl. var gerð könnun á afstöðu þeirra til fyrirhugaðra opinna skrifstofurýma. "Töldu 6 af 6 yfirlæknum og 9 af 9 lífeindafræðingum og líffræðingum, að opin skrifstofurými myndu torvelda þeim að rækja störf sín vel. Allir mæltu á móti opnum vinnurýmum stjórnenda og sérfræðinga, sem fara með viðkvæm mál og þurfa næði. Ljóst er, að einhverjir pótintátar hafa verið teknir fram yfir yfirlækna og deildarstjóra í þann hóp 200 starfsmanna, sem hannar bygginguna, og "eru allir sammála". Þrátt fyrir eftirgrennslan hefur ekki tekizt að fá lista yfir þessa 200 starfsmenn."
Einhugur býr að baki þessum mótmælum yfirlækna og sérfræðinga, og að sama skapi virðist vera einbeittur brotavilji forráðamanna LSH og/eða NLSH um að sniðganga þessa lykilstarfsmenn sjúkrahússins við hönnun þess. Þetta flettir ofan af alvarlegri brotalöm við stjórnun spítalans, sem verður afdrifarík, ef hún verður ekki fjarlægð. "Something is rotten in the state of Danemark", var sagt, en þetta rotna sár í stjórnkerfi LSH/NLSH getur lamað hann, á meðan starfsemi fer þar fram.
Það er alveg ljóst, að uppstokkunar er þörf á Landsspítalanum. Neyðaróp starfsmanna undanfarið og hörð gagnrýni á framkvæmdastjórn spítalans eru til vitnis um vandamálið. Nýr heilbrigðisráðherra verður að láta það verða eitt af sínum fyrstu verkum að hreinsa graftarkýli Landsspítalans.
"Lög heimila forstjóra ekki að bera faglega ábyrgð á lækningum. Hans hlutverk er annað. Því síður mega aðilar, sem sitja í framkvæmdastjórn á grunni framselds valds forstjóra bera faglega ábyrgð. Umboðsmaður Alþingis hefur endurtekið áréttað, að vegna heilsufarslegra hagsmuna sjúklinga megi forstjórar ekki að eigin hentisemi færa lögboðna ábyrgð frá yfirlæknum til annarra, "forstöðumanna" eða "framkvæmdastjóra" eða hvaða nafni forstjóri kann að nefna aðstoðarmenn sína. Slíkir aðilar hafa, auk skorts á menntun í viðkomandi greinum, ekki lagalega heimild til þess að stýra lækningum.
Stjórn læknaráðs Landspítala ályktaði gegn opnum skrifstofurýmum fyrir 11 árum og taldi "það vera óviðunandi og mikla afturför, ef sérfræðilæknar verða látnir hafa skrifstofuaðstöðu í stórum opnum rýmum ... , ef til stendur að bjóða læknum lakari vinnuaðstöðu á Landspítalanum en þeim býðst [...] erlendis, mun það aðeins gera mönnunarvandann enn verri"."
Forstjóri LSH og framkvæmdastjóri NLSH geta ekki skotið sér á bak við það, að skoðun læknaráðsins hafi ekki verið fyrir hendi. Rök þess eru réttmæt, og það sætir furðu, að hönnunarstjóri NLSH og/eða framkvæmdastjóri skuli vera svo aftarlega á merinni árið 2021 varðandi aðbúnað starfsfólks að ætla téðum sérfræðingum vinnuaðstöðu í opnu rými, hvort sem þeir eiga sér þar fastan samastað eða eiga bara að taka þann bás, sem laus er hverju sinni, þegar þá ber að garði. Þá geta básarnir verið færri en starfsmennirnir. Þetta er illur fyrirboði um það, sem koma skal (í ljós) á NLSH, og er þó ekki allt fagurt í fortíðinni á þeim bæ.
Lok þessarar þörfu opinberunar yfirlæknanna á stjórnarháttum skrifstofu forstjóra og framkvæmdastjóra NLSH voru þannig:
"Hvers vegna hefur framkvæmdastjórn Landspítala ekki komið sjónarmiðum læknaráðs og yfirlækna rækilega til skila við hönnun spítalans ? Að hlusta ekki á ráð yfirlækna og læknaráð á lækningastofnun er óneitanlega alvarlegt og skondið í senn. En staðreyndin er sú, að sjónarmið yfirlækna og sérfræðilækna hafa verið sniðgengin um árabil. Það getur haft afdrifaríkar afleiðingar, hvað varðar notagildi, og öryggi þessarar stærstu nýbyggingar Íslandssögunnar.
Það er miður, að staðið sé að spítalabyggingu, eins og hér er lýst. Vegna sýndarsamráðsins sáum við okkur nauðbeygða til að vekja athygli á málunum í fjölmiðlum. Þrátt fyrir að greinin vekti athygli í þjóðfélaginu, svaraði enginn, sem ber ábyrgð á hönnun rannsóknarhússins. Þær systur sýndarsamráð og þögnin duga ekki. Einhver aðili hlýtur að þurfa að taka af skarið og leiðrétta mistökin áður en byggt verður."
Yfirlæknarnir eiga þakkir skildar fyrir að fletta ofan af alvarlegri meinsemd innan stjórnkerfis LSH, sem hefur verið leyft að smita yfir í NLSH, þar sem meinsemdin getur valdið miklu tjóni á heilbrigðiskerfi þjóðarinnar næstu áratugina, á meðan miðstöð lækninga verður við Hringbrautina.
Óstjórn heilbrigðisráðuneytisins hefur leyft valdaklíku að grafa um sig á Landsspítalanum, sem sennilega er saman komin í framkvæmdastjórninni. Hana ber að leysa upp samhliða því, að sett verður stjórn yfir spítalann, þar sem hvorki verða starfsmenn ráðuneytisins né spítalans. Völdin þarf að færa þangað, sem þau eiga heima vegna þess, að saman verða að fara völd og ábyrgð. Lögin gera ráð fyrir athafnafrelsi og ábyrgð yfirlækna, og þau ber að virða. Það er ófært, hvort sem er á ríkisstofnun eða í einkafyrirtæki, að starfsmenn, sem gegna lykilhlutverki fyrir viðgang starfseminnar, séu hafðir í spennitreyju. Það leiðir af sjálfu, að við hönnun og tækjaval á NLSH verður að hafa virkt og heiðarlegt samráð við þá, sem starfsemin mun mæða á. Nýs heilbrigðisráðherra bíður mikilvægt hlutverk endurreisnar Landsspítala Háskólasjúkrahúss. Hefur hann þau bein í það, sem þarf ?
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Heilbrigðismál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.