Flokkur laus við hreðjatak Landverndar

Í ríkisstjórn situr stjórnmálaflokkur með afar sérvizkuleg viðhorf í öndvegi til framfaramála þjóðarinnar.  Flokkurinn tapaði í nýgengnum Alþingiskosningum þremur þingmönnum og er með aðeins 12,6 % fylgi.  Samt gerir hann kröfu um að leiða stjórnarsamstarfið á nýhöfnu kjörtímabili, heimtar óbreyttan ráðherrafjölda og þvælist að auki fyrir með sérvizku sína um ríkisbúskap, friðanir,  orkunýtingu og viðurkenningu á óhæfum ráðherraefnum sínum. Hvers vegna nenna formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að þrátta við Katrínu Jakobsdóttur á annan mánuð um þetta, þegar annar stjórnmálaflokkur hefur opnað á raunhæfan samningsgrundvöll við þá um ríkisstjórn ?

Grein Jakobs Frímanns Magnússonar í Morgunblaðinu 28. október 2021 er til vitnis um þetta.  Greinin hét:

"Áskoranir nýrrar ríkisstjórnar í loftslagsmálum".

Þar skrifaði hann m.a.:

"Endurheimt votlendis [orkar tvímælis-innsk. BJo], rafvæðing bílaflotans, vistvæn orka til skipa og aukin skógrækt eru þær mótaðgerðir, sem liggur beinast við, að við Íslendingar ráðumst í.  En hnattrænn umhverfisvandi leysist ekki með því, að hver þjóð hugsi bara um sjálfa sig.  Við hjá Flokki fólksins viljum nýta hreinar orkulindir landsins af skynsemi og ábyrgð, svo [að] draga megi úr mengun, samhliða náttúruvernd.  Þar er mögulegt framlag okkar til loftslagsmála á heimsvísu ekki undanskilið."

Óháð því, hvað líður meintri loftslagsvá, sem er orðin loftslagstrúboðinu sem krossfesting frelsarans er kristnum mönnum, þá sigla þjóðir heims nú inn í tímabil orkuskipta, sem mun einkennast af háu orkuverði vegna framboðsskorts (af völdum minni fjárfestinga (það er nóg til)) og skattlagningar á jarðefnaeldsneyti eða losun. 

Það er þess vegna ekki eftir neinu að bíða að hefja virkjanaframkvæmdir hér til orkuútvegunar í stað jarðefnaeldsneytisins.  Einkaframtakið, erlent og innlent, mun síðan sjá um nýtinguna, eins og það hefur gert hingað til hérlendis, en með áherzlu á að knýja rafmagnsfartæki og að framleiða s.k. rafeldsneyti með "grænt" vetni sem grunnþátt, en einnig lífeldsneyti úr t.d. repju og nepju. Á meðan enginn aflsæstrengur er til Íslands, verður "hin græna" orka nýtt innanlands.  Þrátt fyrir orkukreppuna í Evrópu þurfa landsmenn vart að óttast sæstrengslögn á þessu kjörtímabili, enda er Orkupakki 4 kominn í frysti hjá EFTA, eins og gerð hefur verið grein fyrir hér á vefsetrinu. 

"Loftslagsmál og orkumál eru óaðskiljanlegir málaflokkar. Ég verð seint talinn til ákafra virkjanasinna, en mér virðist sýn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á þessi mál skynsamleg.  Fyrir nýafstaðnar kosningar lögðu báðir flokkarnir til, að Íslendingar hæfu útflutning á grænni orku í formi rafeldsneytis.  Þannig gæti sprottið hér upp nýr og spennandi iðnaður ásamt tilheyrandi atvinnusköpun og ávinningi í loftslagsmálum."

Það verður hlutverk einkaframtaksins að finna markaði fyrir rafeldsneyti og lífeldsneyti, en ekki ríkisins.  Viljayfirlýsingar stjórnmálamanna um nýsköpun atvinnutækifæra og verðmætasköpunar þjóðarbúsins eru þó eðlilegar, en þeir, sem segja A, verða þá að vera tilbúnir til að segja B.  Það stendur virkilega upp á stjórnmálaflokkana og þingheim að setja leyfisferli vegna nýrra virkjana í viðunandi horf, en þau eru nú í algerri kyrrstöðu fyrir tilstilli afturhaldsflokksins með 12,6 % fylgið.

Jakob Frímann býður nú Sjálfstæðisflokkinum upp í dans.  Hann talar væntanlega fyrir hönd 6  þingmanna Flokks fólksins um, að hann er tilbúinn að leiða þjóðina á vit nýrra tíma, sem felst í að skapa tæknilegar og viðskiptalegar lausnir, sem eru raunhæfar til að draga úr losun Íslendinga og fleiri á koltvíildi í stað innantóms blaðurs vinstri grænna um hættuna, sem lífinu á jörðinni stafar af hlýnun jarðar.  Að hafa forsætisráðherra, sem endurómar Grétu Thunberg, en leggst gegn nauðsynlegum umbótum, er ógæfulegt fyrir eina þjóð.

"Ljóst er, að losa verður rammaáætlun úr höftum kyrrstöðu, öfgalaust, og horfa til kosta þess að nýta vindorku.  Eðlilegt virðist jafnframt, að sveitarfélög og íbúar komi í auknum mæli að því að ákvarða, hvar mörkin á milli nýtingar grænna orkukosta og náttúruverndar liggja."

Þarna koma fram heilbrigð og lýðræðisleg viðhorf.  Taka málin úr höndum sérlundaðra skrifborðsmanna, sem falið hefur verið að meta virkjanakosti og drekkt málinu í hreinum aukaatriðum, og færa matið í hendur viðkomandi sveitarfélags og íbúa þess, sem leggi dóm á virkjanakosti til nýtingar eða verndar með lýðræðislegum hætti.  Hljómar þessi tónlist ekki nógu vel fyrir Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk til að slíta erfiðri sambúð við forstokkaða sérvitringa í VG,  og fara nú að stíga dansinn með fólki, sem greinilega er ekki í viðjum Landverndarofstækisins ? 

Að lokum skrifaði Jakob Frímann Magnússon:

  "Það er ekki nóg að viðurkenna loftslagsvandann - við verðum líka að horfast í augu við tækifærin, og hvernig við Íslendingar getum axlað okkar ábyrgð.  Skynsamleg nýting orkukosta og öflug náttúruvernd geta vel farið saman.  Þær áskoranir bíða nýrrar ríkisstjórnar."

Þetta er mergurinn málsins, og ný ríkisstjórn verður að fara inn í næsta kjörtímabil með þetta að leiðarljósi.  Það dugar ekki lengur að ýta þessum viðfangsefnum óleystum á undan sér.  Vinstri hreyfingin grænt framboð er stöðnunarafl með eina hugsjón: að ríkisvæða sem mest af starfseminni í landinu.  Menn hafa afleiðingu þessa úrelta hugsunarháttar nú fyrir augunum í eymdarásjónu  Landsspítalans, sem kominn er að fótum fram undir hroðalegri óstjórn sósíalistans Svandísar Svavarsdóttur, sem keyrt hefur spítalann í þrot með því að hrúga á hann allt of mörgum verkefnum, sem betur eru komin hjá einkageiranum, enda standi Sjúkratryggingar Íslands straum af kostnaðinum, óháð verkaðila.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Málið er að VG er fulltrúi Sir William Henry, Davos og Blackrock og Vanguard, sem eiga þjóðríki heimsins í dag - svo og eiga þau genasprautuðu vaxmjútöntin - svo Ríkisstjórn er aðeins upp á punt.

Guðjón E. Hreinberg, 7.11.2021 kl. 11:31

2 Smámynd: Halldór Jónsson

Þetta rafeldsneyti til útflutnings þarf einhver að skýra út fyrir mér hvað haagkvæmni varðar

E ekki nærtækara virljun og stóriðjuver sem spýr út sem minnstu af co2?

En Jakob Frímann er skynsamari en ég bjóst við.

Halldór Jónsson, 7.11.2021 kl. 14:06

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Halldór;

Rafeldsneyti er eldsneyti á gas- eða vökvaformi úr sameindum, sem aflað er úr vökvum eða lofti, öðrum en jarðefnaeldsneyti, með raforku og blandað saman.  Vetni virðist alltaf koma við sögu, og það er rafgreint úr H2O.  Dæmi um rafeldsneyti er ammóníak og metanól.  Hagkvæmnin veltur á framleiðslukostnaði vetnis.  Hann fellur nú hratt með stækkandi markaði og tækniframförum rafgreiningarbúnaðarins.  Árið 2023 gæti hann numið 1 USD/kg, og þá geri ég ráð fyrir, að markaður verði fyrir rafeldsneyti (á vökvaformi) frá Íslandi, en það verður þá líka markaður fyrir hreint vetni.  Það þarf að kanna, hvort hægt er að nýta ótryggða orku í landinu til vetnisvinnslu.  Stóriðjan hefur mestan áhuga á forgangsorku, svo að þetta hvort tveggja gæti farið saman.  

Bjarni Jónsson, 7.11.2021 kl. 17:32

4 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Heill og sæll Bjarni.

Það er alveg með ósköpum hvað Sjálfstæðisflokkur og Framsókn hafa bitið sig fast við VG. Þetta er eins og að reyna að blanda saman olíu og vatni, það er sama hversu lengi er hrært, það mun aldrei samlagast.

Bændablaðið er með margar fróðlegar greinar, sem jafnan. Í síðustu útgáfu blaðsins er fróðleg grein eftir Kára Gautason, þar sem hann sýnir fram á tengingu við framleiðslu rafeldsneytis og túnáburðar. Nú þekki ég ekki staðreyndir þessa, en þótti greinin góð. Gaman væri ef þú sem rafmagnsverkfræðingur greindir þessa hugsun hjá Kára. Fari hann rétt með staðreyndir má slá margar flugur í einu höggi, ekki síst þegar ljóst er að ástandið á meginlandinu er orðið þannig að flestar áburðarverksmiðjur eru að leggja upp laupana og munu sennilega ekki verða opnaðar aftur, jafnvel þó orkuverð lækki. Þetta eru í mörgum tilfellum gamlar verksmiðjur. En það eru fleiri fyrirtæki á meginlandinu sem eru að loka, t.d. sementsverksmiðjur. Erfitt er og í sumum tilfellum útilokað, að fá sement hér á landi og verðið fer hratt hækkandi.

Tækifærin fljóta um allt, það þarf bara að grípa þau. Orkuverð á meginlandinu er nú í hæstu hæðum. Sjálfsagt mun það eitthvað lækka aftur er líður á veturinn, en það mun sennilega aldrei verða það lágt að orkufrekur iðnaður fái blómstrað þar. Með VG í stýrishúsinu mun öll þessi tækifæri renna meðfram borðstokknum, án minnstu tilraunar til að ná þeim um borð.

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 8.11.2021 kl. 08:22

5 Smámynd: Bjarni Jónsson

Takk fyrir þessa orðsendingu, Gunnar Heiðarsson.  Ég hef ekki kynnt mér téða grein í Bændablaðinu, en það er eðlilegt, að hugmynd um innlenda og græna  áburðarverksmiðju skjóti upp kollinum núna, þegar "græna" vetnið, sem við getum hæglega framleitt, fer að verða samkeppnishæft við vetni unnið úr jarðgasi eða "blátt" vetni, sem unnið er úr jarðgasi með föngun og förgun koltvíildis.  Það eru 2 viðskiptasviðsmyndir, sem þarf að greina: 1) að framleiða ammoníak hér til útflutnings, t.d. til áburðarverksmiðja og 2) að reisa hér áburðarverksmiðju fyrir innanlandsmarkað og til útflutnings. 

Verksmiðja eingöngu fyrir innanlandsmarkaðinn held ég, að verði of lítil til að standast samkeppni.  Hafa ber í huga, að "græna" vetnið hér felur í sér samkeppnisforskot, a.m.k. tímabundið, á meðan fjarfestingin er greidd niður.  

Bjarni Jónsson, 8.11.2021 kl. 11:20

6 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Jakob kemur á óvart í þessu. Hann er greinilega heitur og mun vonandi hafa áhrif til batnaðar í þinginu.

það sem mer finnst hinsvegar að þessu málflutningi er áhersla á orkuframleiðslu með vindmillum og útflutningur á rafalsneyti. Vindmillur skila mjög lítilli orku þegar á heildina er litið og eru fljótar að verða að orkuþegum ef byggja þarf innviði fyrir þær. miklu umhverfisvænna er að leggja áherslu á vatnsafl og jarðvarma meðan hann er fyrri hendi.

Ég á líka erfitt með að skilja hvernig vetnis framleiðsla á að geta keppt við álframleiðslu í hagkvæmni með tilliti til útflutnings orku, bara vegna þess að það er margfalt ódýrar og tæknileg auðveldara að geima og flytja ál.

Álframleiðsla þarf 17.000 KWh/tonn og tonnið er 0,3 rúmmetrar.

Vetnisframleiðsla  þarf 50.000 KWh/tonn  en rúmmála þess er 25 rúmmetrar (@ 700 bar 20°C)

Ég held að sama gildi um áburðarframleiðslu til útflutning, á meðan ál er markaðsvara í heiminum verður það alltaf mjög hagkvæmur kostur til að flytja út orku ef menn vilja vera í því. 

Guðmundur Jónsson, 8.11.2021 kl. 22:36

7 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þú hefur mikið til þíns máls, Guðmundur.  Bendi þó á grein Guðmundar Péturssonar í Mogganum í dag um metanframleiðslu (rafeldsneyti).  Hann er í samstarfi við Svisslendinga.  Ég hef lengi starfað með Svisslendingum og veit, að þeir eru jarðbundnir og flana ekki að neinu.

Bjarni Jónsson, 9.11.2021 kl. 11:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband