Raforkuyfirvald án innlends eftirlits

Eftir fólskulega innrás rússneska hersins í friðsamt lýðræðisríki, Úkraínu, eru veður válynd. Þing og ríkisstjórn landsins voru vel meðvituð um, hversu berskjaldað landið væri, og biðluðu þess vegna ítrekað um þá vernd, sem þjóðir fá við inngöngu í NATO, en úkraínska þjóðin var skilin ein eftir á köldum klaka, svo að hinn kaldrifjaði forseti Rússlands stóðst ekki mátið, heldur gerði allsherjar árás á Úkraínu 24.02.2022 og reyndi þannig með svívirðilegum aðferðum og voveiflegum blóðsúthellingum að svæla landið undir kúgunarvald rússnesku stjórnarinnar. Þorparastjórn auðklíku í Kreml má ekki verða kápan úr þessu klæðinu nú á 21. öldinni. Árásarríki má ekki takast að virða viðurkennt fullveldi Evrópulands að vettugi og fara yfir nágrannaland með blóði og brandi, eldi og brennisteini.  Þessi hegðun er fullkomlega óásættanleg, og þess vegna Rússar nú óalandi og óferjandi.   

Hagkerfi heimsins mun gjörbreytast til hins verra við þennan geðveikislega gjörning.  Vígbúnaður mun magnast í Evrópu og víðar.  Verðbólga mun magnast og hagur þjóða mun versna, m.a. vegna orkuverðshækkana og matvöruverðshækkana.  Frændur vorir, Norðmenn, munu vegna afltenginga sinna (í eigu Statnett) verða fyrir barðinu á hækkunum raforkuverðs, en olíusjóður þeirra mun fitna ótæpilega af sölu gass og olíu á þessu ári og lengur. Þrýst er á Norðmenn að framleiða nú þessa vöru undir skóslit og beinbrot.

Innrásin í Úkraínu hófst skömmu fyrir birtingu 24.02.2022.  Daginn eftir kostaði hver kWh 24 % meira í Ósló en 5 dögum áður og 7 % meira í Þrándheimi, og hækkunin var þá rétt að hefjast.

Eðlilega er að sama skapi vaxandi óánægja með raforkuverð í Noregi (Norðmenn hita húsnæði sitt yfirleitt með rafmagni), sem er margfalt hærra en Norðmenn hafa átt að venjast og þeir telja, að þeim beri réttur til sem eiganda vatnsorkunnar.  Þeir kenna Orkupakka 3 (OP3) um þessa stöðu.  Morten Harper hjá samtökunum "Nei til EU" ritaði 24.02.2022 fróðlega grein í Klassekampen um þá staðreynd, að "Statnett" lýtur nú stjórn Orkulandsreglarans og ACER-Orkustofu ESB:

"Raforkuyfirvald án eftirlits".

"Forstjóri Statnetts, Gunnar G. Lövås, skrifar í grein um rafmagnsverð og rafmagnskauphöll, að "norsk yfirvöld með RME-deild NVE (orkulandsreglari innan Orkustofnunar Noregs) fari með eftirlitshlutverk með raforkukauphöllinni" (Klassekampen 7. febrúar 2022).  Hvernig getur Lövås haldið því fram, að "norsk yfirvöld" stundi slíkt eftirlit, þegar regluverk EES segir, að RME, orkulandsreglarinn, sé óháður stjórnkerfi ríkisins ?

Fyrrum Raforkumarkaðseftirliti var breytt í RME (Reguleringsmyndighet for energi) áður en Orkupakki 3 var leiddur í lög í Noregi. Þótt RME sé hluti af skrifstofuhaldi NVE, er RME óháð valdeining, sem stjórnar og ákvarðar skilmála fyrir flutnings- og dreififyrirtækin, virkjanafyrirtækin og raforkumarkaðinn.  RME ber að hafa eftirlit með, að reglum orkupakka ESB sé framfylgt, og RME á að framkvæma í Noregi samþykktir frá ESB-orkustofunni ACER, sem koma til Noregs [og Íslands] með milligöngu ESA-Eftirlitsstofnunar EFTA.

Í Raforkumarkaðstilskipun OP3 er slegið föstu í kafla 35, að RME skuli vera algerlega óháð norskum yfirvöldum og taki ekki við fyrirmælum frá þeim.  Þetta er njörvað niður í orkulögunum, gr. 2-3, 2. lið: Orkulandsreglarinn og úrskurðarnefnd deilumála um orkumál eru óháð, og viðkomandi yfirvald getur ekki gefið þeim fyrirmæli um tilhögun mála.

Það er EES-regluverkið, sem stjórnar RME.  Norsk yfirvöld [og íslenzk] hafa með lögleiðingu OP3 afsalað sér möguleikanum til áhrifa eða yfirstjórnunar.  Það er bæði villandi og rangt að lýsa RME sem "norsku" stjórnvaldi.  Til að endurheimta stjórnunar- og eftirlitshlutverk ríkisins þarf að endursemja um orkuregluverkið í EES-samninginum."  

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband