Stríð í Evrópu 2022-202?

Vladimir Putin skáldar upp söguskýringar í fortíð og nútíð til að reyna að réttlæta gjörðir sínar og rússneska hersins, sem hann er æðsti yfirmaður fyrir (commander in chief). Þessar fáránlegu söguskýringar ná ekki máli og réttlæta auðvitað hvorki eitt né neitt, nema í hugum siðblindra og vanheilla.  Hann heldur því fram, að innrás Rússlands í stórt nágrannaríki sitt, Úkraínu, hafi verið óhjákvæmileg 24. febrúar 2022, til að bjarga rússnesku mælandi fólki í Úkraínu frá þjóðarmorði nazista, sem væru við stjórnvölinn í Kænugarði. 

Þessa endemis vitleysu og lygaþvælu telur hann þjóð sinni, Rússum, trú um í krafti alræðis síns og lokunar á öllum frjálsum fjölmiðlum.  15 ára fangelsisvist liggur við því að láta aðra túlkun í ljósi, sem nær væri sannleikanum. 

Tal forseta Rússlands um nágranna sinn í vestri er fyrir neðan allar hellur og vitnar um glámskyggni hans, mannfyrirlitningu og botnlausan hroka, sem viðgengizt hefur í Kreml um aldaraðir.  Hann segir, að Úkraína sé ekki til sem land og því síður nokkurt ríki úkraínskrar þjóðar, heldur sé um að ræða hérað í Rússlandi. 

Þetta ömurlega viðhorf er grundvöllur landvinningastefnu Rússlands, sem birtist með innrás Rússlandshers í Úkraínu 24.02.2022. Þetta vitfirringslega mat forsetans hefur síðan þá orðið sér rækilega til skammar, því að Úkraínumenn hafa sýnt og sannað, að þeir eru ein þjóð, hvort sem móðurmál þeirra er úkraínska eða rússneska.  Þeir eru fúsir til að berjast til þrautar fyrir fullveldi lands síns og sjálfstæði til að taka með lýðræðislegum hætti ákvarðanir í innanríkis- og utanríkismálum. 

Sízt af öllu vilja þeir lenda aftur undir hrammi rússneska bjarnarins.  Þegar forseta Rússlands varð þetta ljóst, skipaði hann rússneska hernum að refsa fyrir þessa "þrákelkni", og svívirðilegar aðgerðir rússneska hersins eru mjög alvarlegir stríðsglæpir, sem jafna má við þjóðarmorð.  Rússar munu ekki komast upp með þennan glæp gegn mannkyni, heldur munu gjalda með útskúfun og haldlagningu rússneskra verðmæta til að nota við uppbyggingu Úkraínu með vestrænni tækni. Úkraína mun njóta aðstoðar Vesturlanda við uppbyggingu, og lífskjör þar munu fara hratt batnandi, en versnandi í Rússlandi.  DÝRÐ SÉ ÚKRAÍNU !

Það er ljóst, að Rússar lúta nú alræði siðblindingja, dómgreindarlauss fants.  Hér verða nefnd til sögunnar 20 atriði, sem vitna um þetta:

#1 Viðskiptaþvinganirnar bíta mun meir en Putin bjóst við: 

 Putin gæti hafa búizt við kraftlausum viðskiptaþvingunum á svipuðum nótum og eftir töku Krímskagans 2014.  Samt vöruðu Bandaríkin við því, að þær yrðu ósambærilegar að styrk.  Putin er alræmdur fyrir hótanir sínar og hefur túlkað þessa viðvörun BNA sem innantóma hótun ráðvilltra Vesturvelda.

Síðla janúar 2022 var honum einnig tjáð, að þvinganirnar mundu einnig beinast að einstaklingum.  Putin hefur ekki búizt við, að öll helztu ríki heims, nema Kína og Indland, mundu koma sér saman um fordæmalausar efnahagsþvinganir.  Það er nægilegt bit í þeim, til að nokkrir ólígarkar vinna nú að því að fjarlægja Putin frá völdum.  Árangursríkar efnahagsþvinganir munu draga úr getu Rússa til að halda úti þessu stríði, og þær munu þess vegna vonandi stytta stríðið.

Nú hafa borizt fregnir af því, að forysturíki Evrópusambandsins, Þýzkalands og Frakklands, hafi selt Rússum vopn fyrir hundruði milljóna EUR á tímabilinu 2015-8. apríl 2022, þegar ekki mátti einu sinni selja þeim íhluti, sem nýtzt gætu í vopnabúnað.  Þetta vitnar um ótrúlega hálfvelgju og tvískinnung ESB í afstöðunni til Rússa allt fram til þessa. Aðeins fyrir árvekni og harðfylgi Eystrasaltsríkjanna og austur-evrópskra aðildarríkja tókst að binda enda á þessi skammarlegu viðskipti.  Einfeldningsháttur friðþægingarinnar ríður ekki við einteyming.

#2 Zelenski-stjórnin gafst ekki upp:

Allt bendir til, að Putin hafi fastlega reiknað með snöggri uppgjöf úkraínsku ríkisstjórnarinnar, og að hún mundi flýja land.  Þá ætlaði Putin að koma á leppstjórn í Úkraínu og færa hana þannig undir yfirráð Rússa.  Þetta varð afdrifaríkur misreikningur Putins, og hann hefur í kjölfarið kennt FSB um mistökin og leyst starfsmenn´FSB, sem áttu að undirbúa jarðveginn og safna réttum upplýsingum þaðan, frá störfum.  Siðblindir alræðisherrar viðurkenna aldrei eigin mistök.  Adolf Hitler kenndi í lokin þýzku þjóðinni um ósigur Wehrmacht. 

#3 Úkraínski herinn er mun öflugri en búizt var við:

Rússland hefur ranglega reitt sig á vonlausan úkraínskan her, aðeins 1/5 af innrásarhernum í fjölda hermanna og með lakari vígtól.  Úkraínski herinn er í raun vel þjálfaður (að hluta af Vesturveldunum), og hann er bardagavanur eftir að hafa fengizt við rússneska herinn í austurhéruðunum í 8 ár.  Hann er einbeittur að verja land sitt, beitir góðri herstjórn og er búinn öflugum léttum vestrænum varnarvopnum. 

#4 Hernaðarleg frammistaða rússneska hersins hefur ekki verið upp á marga fiska:

Fyrir innrásina í Úkraínu var það hald manna, að rússneski herinn væri öflugur, tæknilega þróaður og skilvirkur.  Ekkert af þessu hefur gengið eftir, og er það sennilega vegna rótgróinnar spillingar í hernum.  Honum hefur verið beitt skefjalaust gegn óvopnuðum almenningi til þess gagngert að valda sem mestri skelfingu og sem mestu tjóni til að draga kjarkinn úr Úkraínumönnum.  Þessi hegðun hefur gjörsamlega lagt orðstír rússneska hersins í rúst og er líkleg til að grafa undan siðferðisþreki hans og baráttugetu. 

#5 Fæstir nýliðar rússneska hersins, sem gegna herskyldu, eru fúsir til að berjast í Úkraínu:

Þetta er alvarlegt vandamál, þar sem herskyldumenn mynda 80 % hersins.  Sumir hafa gefizt upp, bardagalaust, og tæki þeirra, vopn og skotfæri eru nú í höndum úkraínska hersins, sem beitir þeim gegn rússneska hernum, sem er martraðarkennt ástand fyrir rússneska liðsforingja. 

#6 Rússar hafa ekki náð fullum yfirráðum í lofti:

Rússar hafa á undirbúningsstigum talið sig strax mundu ná fullum yfirráðum í lofti, og þar með yrði þeim eftirleikurinn auðveldur.  Þetta hefur ekki gengið eftir, og eiga Úkraínumenn enn einhverja tugi orrustuþota og herþyrlna.  Mest hefur þó munað um léttu varnarvopnin á landi, eins og Stinger, sem leita fórnarlambið uppi með hitanema.  Rússar hafa tapað hundruðum orrustuþota og herþyrlna, og hefur tapið örugglega komið þeim í opna skjöldu. Vandi BNA í þessu sambandi er hins vegar, að fyrir nokkrum árum var hætt að framleiða Stinger-varnarbúnaðinn. Rússar eiga greinilega einnig í erfiðleikum með að fylla upp í eyður herbúnaðarins eftir gríðarlegt tap.

#7 Almenningur í Úkraínu tekur á móti rússneska hernum sem svörnum óvinum sínum:

Rússnesku hermönnunum var tjáð fyrir innrásina af yfirmönnum sínum, að Úkraínumenn mundu taka á móti þeim sem frelsurum.  Þetta mat Rússa hefur reynzt vera fjarstæða.  Úkraínskur almenningur í borgum og sveitum lítur á rússneska herinn sem svæsinn óvinn, sem ætli að svipta þá frelsinu og leggja á þá rússneskt helsi.  Í minnum er Mólotoff-kokkteilgerð almennings, sem myndir birtust af í upphafi stríðsins. Úkraínska þjóðin er einhuga um að berjast gegn rússneska einvaldinum, enda er saga rússneskra yfirráða í Úkraínu hrikaleg og ekkert framundan annað en eymd og volæði undir rússneskri stjórn. 

#8 Tjón rússneska hersins er mikið:

Rússneski herinn hefur með grimmdaræði valdið miklu óþörfu tjóni í Úkraínu, en hann hefur líka mætt harðri mótspyrnu úkraínska hersins, og líklega hafa yfir 20 þús. rússneskir hermenn fallið síðan 24. febrúar 2022, en mun færri úkraínskir hermenn.  Hergagnatjón Rússa er og gríðarlegt.  Birtingarmynd þessa er flótti Rússa úr stöðum sínum við Kænugarð, þar sem í ljós hafa komið hryllilegir stríðsglæpir rússneska hersins.  Fyrir vikið mun Rússland verða útlagaríki í mörg ár á kafi í eigin foraði og mega horfa fram á stóreflt NATO vegna eigin gerða.   

#9 Tugþúsundir erlendra hermanna á eigin vegum til Úkraínu til að berjast við hlið Úkraínumanna:

Um 40 þús. menn erlendis frá hafa bætzt í raðir úkraínska hersins hvaðanæva að úr heiminum.  Þetta hefur áhrif á gang stríðsins og var að sjálfsögðu óvænt fyrir Rússa.  Úkraína hefur lofað hverjum þeim, sem kemur til að berjast fyrir Úkraínu, úkraínskum ríkisborgararétti.  Eitthvað mun vera um málaliða Rússamegin, t.d. frá Tétseníu og Sýrlandi.  Stóra spurningin er hins vegar um kínverska hernaðaraðstoð.  

#10 Rússum hefur reynzt erfitt að halda unnum landsvæðum:

Dæmi um þetta eru borgir í norðurhlutanum og flugvöllur, sem Rússar nýttu strax til að geyma þyrlur og orrustuþotur á.  Úkraínski herinn gerði gagnárás, náði flugvellinum og eyðilagði allar þyrlurnar og orrustuþoturnar.  

#11 Birgðaflutningar hafa reynzt Rússum erfiðir:

Herinn hefur sums staðar orðið uppiskroppa með mat, eldsneyti og skotfæri, og varahluti hefur vantað í búnaðinn.  Við hlustun á samskiptarásum á milli hermanna og liðsforingja þeirra hefur komið í ljós, að hermenn þjást af kali og sulti.  Matarskammtar, sem fundust í teknum tækjum, voru árum frá ráðlögðum neyzludegi.  Margir rússneskir hermenn hafa leiðzt út í rán og gripdeildir, m.a. á mat, en aðrir hafa stöðvazt fjarri mannabyggð.

#12 Rússneskir hermenn eru að komast að sannleikanum:

Hægt og sígandi komast nú rússneskir hermenn að því, að orðfæri einræðisherrans í Kreml og hershöfðingja hans, "sérstök hernaðaraðgerð" til frelsunar Úkraínu er helber þvæla og að aðgerðin, sem þeir hafa verið skikkaðir í, er innrás, framkvæmd úr a.m.k. 3 áttum.  Nú er lygalaupurinn Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, tekinn að hóta 3. heimsstyrjöld, af því að rússneska hernum gangi svo illa á vígstöðvunum í Úkraínu, og væntanlega er þessi heimskulega hótun merki um gremju út af væntanlegri inngöngu Finnlands og Svíþjóðar í NATO í júní 2022.  Er hann svo skyni skroppinn að halda, að einhverjum á Vesturlöndum detti í hug, að Rússum muni ganga betur í hernaði gegn NATO og bandamönnum bandalagsins en gegn Úkraínumönnum einum ? Til hvers að fara í kjarnorkustríð ?  Rússar hafa ekki roð við NATO, og líkur þeirra á einhvers konar sigri í kjarnorkuátökum eru engar, núll. 

#13 Mótmæli gegn Úkraínustríðinu í Rússlandi eru sterk og viðvarandi:

Einvaldur Rússlands líður engin mótmæli.  Þrátt fyrir þungar refsingar á borð við fangelsisvist og sektir hafa Rússar haldið áfram að mótmæla stríðsrekstrinum.  Daglega fara margir út á strætin í 60 borgum í mótmælaskyni, enda eiga ýmsir Rússar vini og ættingja í Úkraínu, sem þeir hafa haft símasamband við. 

#14 Rússland hefur þegar tapað "fjölmiðlastríðinu":

Nú á dögum eru stríð ekki einvörðungu háð á vígvöllunum.  Sérhver með alnetsaðgang getur tjáð skoðanir sínar.  Orðspor Rússlands hefur verið lagt í rúst í fjölmiðlum, aðallega með því að varpa myndum af illvirkjum Rússa á netið.  Núna eru alþjóðlegir miðlar á borð við Facebook og Twitter aflæstir og bannaðir í Rússlandi, en ríkisstjórnin sviðssetur þess í stað lygaþvælu um atburðarásina.  Spurning er, hversu lengi almenningur gleypir við áróðri rússneskra yfirvalda.

#15 Rússnesk yfirvöld hafa festst í eigin lygavef:

Rússar réðust á Úkraínu með áform um að setja lygaáróður sinn í stað sannleikans og villa um fyrir eigin þegnum með rangnefninu "sérstök hernaðaraðgerð" til frelsunar Úkraínu undan helsi nýnazisma. Öllum heiminum utan Rússlands er nú ljóst, að um lygaþvætting Kremlverja er að ræða, og sannleikurinn er tekinn að síga inn í Rússland m.a. með særðum hermönnum, sem sennilega nema um 60 þúsund um þessar mundir.  Þetta grefur um síðir undan trausti almennings á stjórnvöldum með slæmum afleiðingum fyrir skrímslið í Kreml.

#16 Heimurinn er að töluverðu leyti sameinaður í andstöðu við rússnesku innrásina í Úkraínu:

141 ríki Sameinuðu þjóðanna greiddi atkvæði með fordæmingu á Rússum vegna innrásarinnar.  Þetta er sjaldgæf samstaða á alþjóðavettvangi og sýnir, að Rússar hafa með ofbeldi og glæpaverkum gegn mannkyni í Úkraínu svert eigið mannorð svo mjög, að það mun liggja í svaðinu næstu áratugina, og Rússa bíður ekki annað en eymd og volæði fjárhagslegrar, viðskiptalegrar og menningarlegrar einangrunar. Núverandi Rússlandsstjórn getur engan veginn lagað þá stöðu, því að hún á aðeins heima á sakamannabekk alþjóðlegs glæpadómstóls. 

#17 NATO er sterkara og sameinaðra en áður:

Putin hefur rembzt, eins og rjúpan við staurinn, síðustu 15 árin eða lengur við að sá óeiningu innan NATO og hefur rekið hræðsluáróður gagnvart ríkjum Evrópu utan NATO gagnvart því að leita inngöngu þar.  Hann kom með hræðsluáróðri í veg fyrir inngöngu Úkraínu í NATO um 2007, og þess vegna þorði hann að taka Krímskagann og sneiðar af Austur-Úkraínu 2014, svo að ekki sé nú minnzt á ósköpin 2022. Hlutur Austur-Þjóðverjans Angelu Merkel er þar sérstaklega bágborinn. 

Mörg NATO-ríkin hafa fórnað töluverðu til að setja harðar viðskiptaþvinganir á Rússland, en Þjóðverjar hafa þó ekki enn losað um hramm rússneska bjarnarins á eldsneytisgaskaupum sínum, þótt þeir stöðvuðu NORD STREAM 2.  Gerhard Schröder, krati og fyrrverandi kanzlari, er orðin þjóðarskömm Þjóðverja. 

#18 Nú sjá þjóðir sitt óvænna að æskja ásjár NATO:

Þjóðir á borð við Finna og að sjálfsögðu Úkraínumenn líta nú svo á, að NATO-aðild þeirra sé nauðsynleg fyrir tilveru sína sem fullvalda og sjálfstæðra þjóða til langframa.  Nú bendir margt til þess, að þjóðþing Finna og Svía muni samþykkja aðildarumsókn fyrir fund forystumanna NATO í júní 2022, og umsókn þeirra verður að sjálfsögðu samþykkt eins fljótt og verða má. Þetta verður verðskuldað kjaftshögg á fjandsamlega utanríkisstefnu Rússa, sem hafa hingað til þvingað Finna til undirgefnihlutleysis, sem hlotið hefur heitið "Finnlandisering". 

Rússar hafa haldið hótunum sínum áfram, nú með kjarnorkuvopnavæðingu Eystrasaltsins, en hvað hafa þeir haft um árabil í Kalíningrad, hinni fornu "Königsberg der Dichter und Denker", annað en vígtól, sem borið geta kjarnaodda ? Það er kominn tími til, að útþenslustefnu þessa grimma, víðlenda ríkis verði settar skorður.  Að venju munu Rússar og málpípur þeirra æpa um sókn NATO upp að vesturlandamærum Rússlands, en þetta rotna ríki mafíunnar í Kreml á ekki lengur að komast upp með að ráða utanríkis- og varnarstefnu nágrannanna.  Það er stórhættulegt. 

#19 Áður hlutlaus ríki hafa nú snúizt gegn Rússlandi:

Rússar hafa misreiknað viðbrögð Vesturlanda á fjölmörgum sviðum, þ.á.m. hlutlausu þjóðanna.  Þeir hafa ekki átt von á því, að Svisslendingum yrði nóg boðið og mundu taka afstöðu í þessum átökum, enda er það saga til næsta bæjar.  Rússnesku ólígarkarnir hafa orðið fyrir áfalli, þegar svissneskum bankareikningum þeirra var lokað.  Svíþjóð hefur líklega í um 200 ár staðið utan við vopnuð átök, en nú aðstoða Svíar Úkraínumenn með vopnasendingum og þjálfun. 

Hinum siðmenntaða heimi blöskrar villimannleg framganga Rússa í Úkraínu, sem nú fylla í skörð rússneska hersins með íbúum frá Síberíu, sem minni tengsl hafa við Úkraínu en íbúar Rússlands vestan Úral.

#20 Þjóðareining Úkraínumanna hefur aldrei verið meiri en nú:

Heimskulegur, hrokafullur og fasistískur rússneskur áróður um, að Úkraína sé ekki til sem land, hefur nú skolazt niður um skolpræsið með montinu um "mikilleika Rússlands", sem fyrir víst er ekki fyrir hendi nú, hafi hann einhvern tíma verið það. Baráttuandi og baráttuþrek Úkraínumanna á vígvöllunum og þrautseigja og þolgæði almennings þrátt fyrir svívirðilegar árásir rússneska hersins á varnarlausa borgara í húsum sínum, í skólum, á sjúkrahúsum og á götum úti, hefur fært umheiminum heim sanninn um, að Úkraínumenn eru samheldin og samstæð þjóð með eigin menningu, sem einræðisherrann í Kreml vill feiga. Þessi yfirgengilegi fruntaháttur frumstæðra Rússa má ekki verða til þess, að Úkraínumenn missi land og fullveldi sitt í hendur kúgaranna. Hvort sem móðurmál Úkraínumanna er úkraínska eða rússneska vilja þeir í lengstu lög forðast að verða undir beinni eða óbeinni stjórn Rússlands.  Það hafa þeir sannað með frækilegri vörn sinni, og allt annað er ekki annað en ómerkileg, rússnesk lygi, sem meira en nóg hefur verið af í þessu stríði.  Beztu lyktir þessa stríðs væru, að rússneska herliðið verði hrakið til baka yfir landamærin til Rússlands, einnig frá Krímskaga, og að frystar eignir ólígarka og rússneska ríkisins á Vesturlöndum verði síðan notaðar til endurreisnar Úkraínu.   

ukrainian-cloth-flags-flag-15727   

 

 

 

   

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

15 #Margur heldur mig sig# það á við undirferli ESB,sem er nákvæmlega það sama frá Biden stjórn kemur og nú kemst ekki hnífur á milli þeirra.Lygaáróður Glóbalista um vísvitandi árásir á almening hefur verið hnekkt og sannað með myndum frá gervitungli. Hver vill frið hér sem sendir drápstól á svæðið, hreint ógeðslegir sem stjórna hér.

Helga Kristjánsdóttir, 29.4.2022 kl. 13:37

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Endemis bull er þetta um "glóbalista" og gervitungl.  Það þarf hvorugt til að sýna svart á hvítu á jörðu niðri, að Rússar beita kvikindislegum árásum á varnarlausan almenning í sjúklegri von sinni um að geta þannig knúið Úkraínu til uppgjafar.  Kremlverjar eru ómenni, sem hvergi annars staðar eiga heima en á sakamannabekk fyrir stríðsglæpadómstóli.  Mér er gjörsamlega hulin ráðgáta, hvernig nokkur hérlendis getur borið blak af þessu rússneska hyski, sem nú stundar grímulausa útþenslustefnu í Evrópu og vill leggja undir sig fullvalda ríki þjóða, sem ekkert vilja með Rússa hafa, heldur lifa í friði í sínu landi.  Að sjálfsögðu reyna Vesturveldin að koma í veg fyrir slíkt ofbeldi, enda veit enginn, hvenær að honum sjálfum kemur að verða fyrir höggi ofbeldismannsins í Moskvu, sem hefur þá geðveikislegu köllun að endurreisa veldi zarsins.  

Bjarni Jónsson, 29.4.2022 kl. 17:35

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Ja hérna ertu ekki enn farin að þekkja þá sem sækja að Íslandi? Þú varst ekki svo blíðmáll við þennan lýð sem fyllir það sem almennt er í fréttum farið að kalla glóbalista.Ekki beint hæstvirtir að ásælast í orkuna okkar..þeir sækjast í völd og sameinast um að flytja áróður fréttamiðla og Rúv étur eftir þeim. Mér er jafn óskyljanlegt að þú af öllum mönnum sjáir ekki lymskuna og lygina sem fylgir þessu stóru sameiningar útþennslu hervaldi. Nægir ekki að sjá miskunarlausa smölun í réttirnar? þetta er allt sömu ófétin í mínum huga.   

Helga Kristjánsdóttir, 29.4.2022 kl. 21:40

4 Smámynd: Jónatan Karlsson

Ekki skil ég Bjarni, afhverju þú ert að skrifa þessar fordæmingar lannglokur þínar um þetta stríð, þegar þú horfir aðeins á málið frá annari hliðinni. Þú hlýtur að kannast við málsháttinn sem segir að sjaldan valdi einn þá tveir deili og skyldi raunsæismaður á borð við þig að gera sér grein fyrir að einhliða hryllings áróðurinn sem bylur á okkur hér, er þvert á hann, hinumeginn.

Jónatan Karlsson, 30.4.2022 kl. 08:53

5 Smámynd: Bjarni Jónsson

Atburðirnir, sem hófust 24. febrúar 2022, með innrás Rússlands í fullvalda nágrannaríki sitt, Úkraínu, eru í voveiflegustu atburðarás í Evrópu síðan 1945.  Skárra væri það nú að reyna ekki að setja sig örlítið inn í bakgrunn atburðanna og það, sem raunverulega er að gerast.  Þessir atburðir munu móta Evrópusöguna næstu áratugina.  Það hvarflar ekki að mér að lepja upp lygina, sem út úr munnvikum mafíunnar í Kreml vellur.  Þetta er einfaldlega barátta á milli einræðis og ógnarstjórnar annars vegar og lýðræðis og frelsis hins vegar, nákvæmlega eins og 1939-1945.  Ef einhverjir finna þörf hjá sér til að skrumskæla  þá mynd, þá þeir um það, og þeir hafa vafalaust sínar ástæður til að bregðast þannig við.  

Bjarni Jónsson, 30.4.2022 kl. 11:13

6 Smámynd: Theódór Norðkvist

Flott færsla, tek undir hvern punkt, en því miður eru athugasemdirnar hingað til í öfugu hlutfalli við gæði færslunnar.

Sjaldan veldur einn þá tveir deila - þvílíkt bull. Ekki orðtakið sjálft, heldur í þessu samhengi. Rússland réðist inn í Úkraínu. Hvað er næst? Allar nauðganir eru ekkert síður fórnarlambinu að kenna, því sjaldan veldur einn þá tveir deila?

Kannski hafa aldrei verið neinar líkamsárásir í miðbænum, eða bara örfáar, því sjaldan veldur einn þá tveir deila? Þeir handleggsbrotnu, fótbrotnu, eða heilasködduðu voru bara staddir þar sem hnefi árásarmannsins var á ferð. Fórnarlambið var kannski í hallærislegum buxum, sem fóru í taugarnar á árásarmanninum og þar með hafði hann réttmætt tilefni til að smassa gaurinn?

Án gríns, það þarf að skoða hvort einhverjir einstaklingar í þessari fimmtu herdeild Pútíns hér á landi hafi ekki gerst sekir um brot gegn almennum hegningarlögum.

[100. gr. c.
Hver sem með liðsinni í orði eða verki, fortölum, hvatningum eða á annan hátt styður refsiverða starfsemi eða sameiginlegt markmið félags eða hóps, sem framið hefur eitt eða fleiri brot gegn 100. gr.[um bann við hryðjuverkum - innskot TN] a eða 100. gr. b, og starfsemin eða markmiðin fela í sér að eitt eða fleiri slík brot séu framin, skal sæta fangelsi allt að 6 árum.] 1) - Úr almennum hegningarlögum

Theódór Norðkvist, 30.4.2022 kl. 14:38

7 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Ég hef lengi getið mér þess til að gamla sovétið hafi skilið eftir mynd lúsifers í huga margra Evrópubúa og yfirfært á alla rússnesku þjóðina. Ég þarf ekki neina sérstaka ástæðu til að minnast seinni heimsstyrjaldarinnar eða líkja henni við neitt viðlíka sem er i dag,allra síst að Evrópubúar séu hvítþvegnir englar.,en á þessum tíma hlustaði ég á fréttir gufunnar og var komin til vits og ára og þekkti óvininn svo langt sem það nær.....  

Helga Kristjánsdóttir, 30.4.2022 kl. 16:54

8 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll Theódór;  Putin er búinn að gera mörg mistök í sambandi við þetta landvinningastríð Rússa, og samheldni Vesturlanda og einörð afstaða vestrænna ríkisstjórna, þó misjafnar séu, hefur líklega komið honum í opna skjöldu, en hann hefur sennilega ímyndað sér, að almenningur á Vesturlöndum yrði ginnkeyptur fyrir lygaþvælunni um nauðsyn "sérstakrar hernaðaraðgerðar" til að frelsa Úkraínumenn undan oki nazismans og að þessir nazistar gengju í skrokk á rússneskumælandi mönnum Úkraínu. Þetta ber hann á borð, þótt forseti Úkraínu sé rússneskumælandi Gyðingur frá austurhéruðunum.  Slíkt gerir enginn, sem er með öllum mjalla.  Þetta átti að "réttlæta" hina svívirðilegu innrás í fullvalda Úkraínu, en það er ekki flugufótur fyrir þessum skáldskap Putins.  Látbragð hans heitir að kasta steinum úr glerhúsi, því að hann hagar sér alveg eins og fasisti, sem lætur her sinn stunda þjóðarmorð í Úkraínu með svívirðilegum illvirkjum.  Að vísu verður að halda því til haga, að hann gengur líka í skrokk á Úkraínumönnum með rússnesku að móðurmáli, og er Mariupol, hafnarborg við Svartahaf, dæmi um það.  Aftur eiga lýðræðisþjóðir undir högg að sækja vegna ásóknar hatursfullra grimmdarseggja með fasistískan boðskap.  

Bjarni Jónsson, 30.4.2022 kl. 20:24

9 Smámynd: Theódór Norðkvist

Þakka svar. Því miður eru sumir Íslendingar ginkeyptir fyrir þessum lygaáróðri, sést á athugasemdum hér og á öðrum umræðuþráðum. Var að horfa á þátt á SVT - sænska sjónvarpinu - um tónlistararf Úkraínu og þar kom fram að Rússar hafa í raun verið að fremja menningarlegt þjóðarmorð á Úkraínumönnum í u.þ.b. 200 ár ef ekki lengur.

Samt hefur orðið til  þar sterkur tónlistararfur, þó úkraínsk tónskáld hafi ýmist verið send til Síberíu eða drepin. Rætt var við úkraínskt tónskáld en forfeður hans í þrjár síðustu kynslóðir á undan honum voru sendir til Síberíu.

Til dæmis er Carol of the bells, sá frægi jólasálmur byggður á úkraínsku tónverki. Bara þetta eitt og sér ætti að gera út um bábiljuna að Úkraína sé ekki til sem sérstök þjóð eða land.

Theódór Norðkvist, 30.4.2022 kl. 20:57

10 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Það er aðeins varasamt að blanda sér í umræðuna.

Við ýmsir höfum lesið söguna, og reynt að skilja málefnið. 

Eitt er ég nokkuð viss um, að enginn Úkraínu maður eða Rússi vill að fólkið sitt sé gert að fallbyssu fóðri.  

Þeir hefðu báðir viljað koma í samvinnu með Evrópu í að vinna að því að bæta Evrópu og heiminn allan.

Ýmsir eru nokkuð vissir að þeirra skoðun sé rétt. 

Ekki veit ég hvað er rétt.

Ég hef nefnt að stríðsæsing er varasöm.

https://jonasg-egi.blog.is/blog/jonasg-egi/entry/2277474/

Hvaða val höfum við?

Stríð eða sambúð.

Stríð getur farið úr böndunum, og svarta moldin í Úkraínu og Rússlandi gæti orðið geislavirk.

Þá hverfur af markaði 18% af matvælum sem er á heimsmarkaði.

Ef geislavirkni verður yfir Evrópu verður mikill skortur í Evrópu.

Ef geislavirkni yrði í Bandaríkjunum, yrði mikil aukning til viðbótar.

Til hvers er stríðið sett af stað.

Er þá hugsanlega rétt að áætlunin sé að eyða 90 % af mannfólkinu.

Svindl lokanirnar settu 100 milljónir manna í atvinnuleysi og var vinnustöðvunum lokað.

Við öll missum af framleiðslu þessara manna og þeir gætu lent í að eiga ekki fyrir mat. 

Eru líkindi til að þeir í öðrum heimsálfum, geti tekið við geislavirku fólki.

Og aftur,  er þá hugsanlega rétt að áætlunin sé að eyða 90 % af mannfólkinu.

Bæði pestin með lokununum og stríðið eru til að eyðileggja framleiðslu kerfi þjóðanna.

Bílasmiðjurnar kaupa í dag þvottavélar til að eignast tölvu kubbana til að nota í nýju bílana.

000

Talað er um að leita sátta.

Allir fari að leita leiða til að sætta aðila.

Evrópa er aðeins smá sneið af heiminum.

Ekki hefði veitt af að styrkja þessa sneið, og reyna að minnka stríðshættu í álfunni.

Þarna er í raun ekkert val.

Árhundruðin, hugsuðu þeir lærðu, við sjáum að ekki er hægt að framleiða nóg í fólkið, tæknin leyfir það ekki.

Ríkara fólkið í Bretlandi sagði Benjamín Franklín 1750 ca. að þeir gætu ekki borgað meiri skatt til að halda uppi svona mörgum verkamönnum.

Þá skildu þeir ekki að það voru þeir sem unnu með huga og hönd sem sköpuðu allt.

Peningurinn var aðeins bókhald, og verkamaðurinn, fólkið sem vann með huga og hönd, skapaði allt og náði í allt sem gagnaðist fólkinu.  

Ef einhver var án vinnu, þá tapaði þjóðfélagið.  

slóð

Við gefum út okkar eigin pappírspeninga. Þeir eru kallaðir - nýlenduseðlar - Colonial Scrip. Við gefum þá út til að borga umsaminn kostnað og framlög eins og ríkisstjórnin ákveður.

Jónas Gunnlaugsson | 12. janúar 2021

 

slóð

 

Er þá enn meiri fækkun á fólkinu? Hver stendur fyrir því að búa til skort og þá hungur á jörðinni? Höfum við misst vitið? Við settum viðskifta bann á Rússland, og þá erum við alslausir. Settum við viðskiftabann á okkur sjálfa?

Jónas Gunnlaugsson | 12. apríl 2022

 

Slóð

A person wearing a hat
</p><br />
<p>
</p><br />
<p>Description automatically generated

Þú veist, illskan kemst ekki ínn í ljósheimana hans Nikola Tesla, eða himnaríkið hans Jesú. Þú verður að sleppa skítnum sem hangir við þig frá efnis heiminum. Þá fáum við rándýrin ekki að slátra og drepa, nei hann Jesú má ekki taka lýðinn frá okkur.

Jónas Gunnlaugsson | 3. mars 2022

En heyrðu, þið gömlu hjónin, bráðum 90 ára, farið með faðirvorið á hverju kvöldi, Það gengur ekki. Þið eltið girndir ykkar, sykur og sex, en að fara með faðirvorið, það nær engri átt. Þá getið þið sloppið frá okkur, RÁNDÝRUNUM, eins og ræninginn á

Egilsstaðir, 30.04.2022   Jónas Gunnlaugsson

000

Egilsstaðir, 30.04.2022   Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 30.4.2022 kl. 23:19

11 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Theódór, og þakka þér þessar upplýsingar.  Engum vafa er undirorpið, að Úkraínumenn eru þjóð með eigin menningu, hvað sem geðveikislegum áróðri kúgaranna í austri líður.  Rússar hafa um aldaraðir kúgað þessa þjóð og reynt að svelta hana til hlýðni og uppgjafar sinnar menningarlegu sérstöðu.  Nú síðast eru þeir af einskærri illmennsku teknir til við að koma í veg fyrir, að þeir yrki jörðina með því að dreifa jarðsprengjum um akrana með eldflaugum sínum.  Fasistainnræti Kremlverjanna leynir sér ekki.  Rússneski herinn stelur matvælum af herteknum svæðum og kemur í veg fyrir ræktun á öðrum svæðum.  Enn er reynt að svelta Úkraínumenn til uppgjafar.  Þetta rússneska hryðjuverkaríki er fyrirlitlegasta fyrirbæri Evrópu samtímans.  Kúgunarfyrirbæri í sinni fyrirlitlegustu mynd.  

Bjarni Jónsson, 1.5.2022 kl. 10:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband