15.7.2022 | 10:13
Dregur til tíðinda í orkumálum Evrópu ?
Klukkan 0400 að morgni 11. júlí 2022 var lokað fyrir Nordstream 1 jarðefnaeldsneytis gaslögnina frá Rússlandi (Síberíu) til Evrópu vegna viðhalds. Þar með minnkaði gasflæðið umtalsvert til Vesturveldanna, t.d. um þriðjung til Ítalíu. Þar með verða þau að ganga á forða, sem þau voru að safna til vetrarins. Þau óttast, að Rússar muni ekki opna aftur fyrir flæðið 21. júlí 2022, eins og þó er ráðgert. Næsti vetur verður þungbær íbúum í Evrópu vestan Rússlands, ef vetrarhörkur verða.
Þegar miskunnarlaust árásareðli rússneska bjarnarins varð lýðum ljós 24.02.2022, rann um leið upp fyrir Þjóðverjum og öðrum, hvílíkt ábyrgðarleysi og pólitísk blinda einkenndi kanzlaratíð Angelu Merkel, sem bar höfuðábyrgð á því, að Þjóðverjar o.fl. Evrópuþjóðir urðu svo háðir Rússum um afhendingu á eldsneytisgasi sem raun ber vitni (allt að 50 % gasþarfarinnar kom frá Rússum). Þjóðverjar máttu vita, hvaða hætta þeim var búin, með því að atvinnulíf þeirra og heimili yrðu upp á náð og miskunn kaldrifjaðs KGB-foringja komin, sem þegar í ræðu árið 2000 gerði grein fyrir fyrirætlunum sínum um stórsókn Rússlands til vesturs í anda keisara á borð við Pétur, mikla, og keisaraynjuna Katrínu, miklu.
Otto von Habsburg, 1912-2011, gerði grein fyrir þessu í ræðu árið 2003, sem nálgast má í athugasemd 3 við pistilinn "Þrengist í búi", 09.07.2022.
Björn Bjarnason, fyrrverandi þingmaður og ráðherra, ritaði markverða grein á umræðuvettvangi Morgunblaðsins laugardaginn 9. júlí 2022, enda má segja, að orkumálin hafi nú bein áhrif á framvindu sögunnar. Greinin bar fyrirsögnina:
"Kjarnorka, gas og jarðvarmi".
Hún hófst þannig:
"Á þingi Evrópusambandsins voru miðvikudaginn 6. júlí [2022] greidd atkvæði um mikið hitamál. Meirihluti þingmanna (328:278 - 33 sátu hjá) samþykkti umdeilda tillögu um að skilgreina fjárfestingar í kjarnorkuverum og nýtingu á gasi sem "sjálfbærar"."
Þetta eru stórtíðindi og vitna um öngþveitið, sem nú ríkir í orkumálum ESB. Samkvæmt skilgreiningu á sjálfbærri orkuvinnslu má hún ekki fela sér, að líf næstu kynslóða verði hættulegra eða erfiðara á nokkurn hátt. Þessu er ekki hægt að halda fram um raforkuvinnslu í kjarnorkuverum, sem nýta geislavirka klofnun úrans. Þótt geislavirka úrganginn megi nota aftur til raforkuvinnslu í sama kjarnorkuveri, verður samt að lokum til geislavirkur úrgangur í aldaraðir, sem engin góð geymsla er til fyrir.
Bruni jarðgass við raforkuvinnslu eða upphitun felur í sér myndun CO2-koltvíildis, sem er s.k. gróðurhúsalofttegund, sem margir telja valda hlýnun andrúmslofts jarðar.
Þetta er augsýnilega neyðarúrræði ó orkuskorti, samþykkt til höfuðs kolum og olíu, sem menga meira og valda meiri losun CO2 á varmaeiningu.
Úr því að fjárfesting í kjarnorku er orðin græn í ESB, hlýtur núverandi kjarnorkuverum í ESB að verða leyft að ganga út sinn tæknilega endingartíma, og þar með verða dregið úr tjóni flaustursins í Merkel. Þetta varpar ljósi á glapræði þeirrar fljótfærnislegu ákvörðunar Angelu Merkel 2011 að loka þýzkum kjarnorkuverum fyrir tímann og í síðasta lagi 2022. Um það skrifaði Björn:
"Þegar kjarnorkuslysið varð í Fukushima í Japan fyrir 11 árum, ákvað Angela Merkel, þáv. Þýzkalandskanzlari, á "einni nóttu" að loka þýzkum kjarnorkuverum. Við það urðu Þjóðverjar verulega háðir orkugjöfum frá Rússlandi. Reynist það nú hættulegt öryggi þeirra og Evrópuþjóða almennt. Í aðdraganda stríðsins hækkaði orkuverð í Evrópu [og] nær nú hæstu hæðum."
Með þessari fljótræðisákvörðun, sem kanzlarinn keyrði í tilfinningalegu uppnámi í gegnum Bundestag, sem fundar í þinghúsinu Reichstag í Berlín, spilaði hún kjörstöðu upp í hendur miskunnarlauss Kremlarforseta, sem þá þegar var með stríðsaðgerðir í Evrópu á prjónunum, eins og Otto von Habsburg sýndi fram á, og hugði gott til glóðarinnar að kúga (blackmail") Evrópuríkin til undirgefni með orkuþurrð, þegar hann léti til skarar skríða með sína landvinninga.
Þetta er eins konar Finnlandisering þess hluta Evrópu, sem háðastur er jarðefnaeldsneyti frá Rússlandi. Afleiðingar af óeðlilegu pólitísku daðri austur-þýzku prestsdótturinnar við hinn grimma KGB-foringja í Dresden, sem ábyrgur er fyrir böðulshætti Rússahers í Úkraínu, eru m.a. þær í Þýzkalandi núna, að Þjóðverjar hvetja Kanadamenn til að senda Siemens-gashverfil úr Nordstream 1 úr viðgerð og til sín, og þýzkum almenningi er nú sagt, að fjarvarmaveitur geti ekki hitað ofnana á heimilum hans upp í hærra hitastig en 17°C í vetur.
Orkufyrirtæki með samninga um fast verð við sína viðskiptavini riða nú til falls, og ESB hefur veitt undanþágu frá reglum um fjárhagslegt inngrip ríkisins á orkumarkaði til stuðnings heimilum og fyrirtækjum.
Í Japan eru nú aðeins um 10 % orkunotkunarinnar úr innlendum orkugjöfum að meðtöldum kjarnorkuverum í rekstri, og þrátt fyrir að Japanseyjar séu fjöllóttar með vatnsföll og jarðhita. Hvað skrifaði Björn um Japan ?:
"Í Japan var ákveðið eftir atburðina í Fukushima [2011] að minnka stig af stigi hlut kjarnorku sem raforkugjafa. Nú standa Japanir hins vegar í þeim sporum, að óvissa ríkir um aðgang að jarðefnaeldsneyti, og orkuverð sligar efnahaginn. Vegna kosninga til efri deildar japanska þingsins hefur verið tekizt á um, hvort virkja eigi að nýju kjarnorkuver, sem staðið hafa verkefnalaus [síðan 2011]. Í kosningunum á morgun, 10. júlí [2022], er lagt í hendur kjósenda að breyta japanskri orkustefnu. Við kjósendum blasir sú staðreynd, að orkuframleiðsla Japana sjálfra stendur aðeins undir 10 % af orkuneyzlu þeirra. Stórátak er nauðsynlegt til að auka orkuöryggið."
Sjálfsagt er löngu runnið upp fyrir japönskum almenningi, að viðbrögðin við umræddu Fukushima slysi voru yfirdrifin og aðeins örfá dauðsfallanna vegna geislunar, en hin vegna flóða og óðagots, sem greip um sig. Þess vegna er litlum vafa undirorpið, að íbúarnir munu verða alls hugar fegnir að fá raforku frá nú ónotuðum kjarnorkuverum á lægra verði en nú býðst.
Flutningaskipum með LNG (jarðgas á vökvaformi) hefur undanfarna mánuði verið beint frá Asíu til Evrópu, af því að í Evrópu er hæsta orkuverð í heimi um þessar mundir. Lánið leikur ekki við Þjóðverja að þessu leyti heldur, því að þeir eiga enga móttökustöð í sínum höfnum fyrir LNG og munu ekki eignast slíkar fyrr en 2024, þótt þeir hafi nú stytt leyfisveitingaferlið til muna. Mættu íslenzk yfirvöld líta til afnáms Þjóðverja á "rauða dreglinum" í þessu sambandi.
Þessu tengt skrifaði Björn:
"Þegar litið er til þessarar þróunar [orkumála á Íslandi] allrar, sést, hve mikilvægt er í stóru samhengi hlutanna að festast ekki hér á landi í deilum, sem verða vegna sérsjónarmiða Landverndar og annarra, sem leggjast gegn því, að gerðar séu áætlanir um virkjun sjálfbærra, endurnýjanlegra orkugjafa, sem enginn getur efast um, að séu grænir."
Höfundur þessa pistils hér er sama sinnis og Björn um fánýti þess að ræða íslenzk orkumál á forsendum Landverndar. Svo fráleit afturhaldsviðhorf, sem þar eru ríkjandi, eru að engu hafandi, enda mundi það leiða þjóðina til mikils ófarnaðar að fylgja þeim eftir í reynd. Tólfunum kastaði, þegar Landvernd lagði það til í alvöru að draga úr rafmagnssölu til iðnaðarfyrirtækja með langtímasamninga um allt að 50 % til að skapa svigrúm fyrir orkuskiptin hérlendis. Sönn umhverfisverndarsamtök leggja ekki fram slíka tillögu. Hins vegar gera þeir það, sem færa vilja neyzlustig hér, og þar með lífskjör, aftur um áratugi og koma síðan á stöðnun. Þetta eru s.k. núllvaxtarsinnar, sem spruttu fram í kjölfar bókarinnar "Endimörk vaxtar" á 7. áratugi 20. aldar.
Grein sinni lauk Björn Bjarnason þannig:
"Hér er almennt of lítil áherzla lögð á að efla samstarf opinberra aðila og einkafyrirtækja til að efla grunnstoðir samfélagsins. Við setningu opinberra reglna, eins og nú innan ESB vegna grænna fjárfestinga í kjarnorku og við nýtingu á gasi, eru aldrei allir á einu máli. Skrefin verður þó að stíga og fylgja þeim fastar eftir við aðstæður, eins og myndazt hafa vegna stríðs Pútíns í Úkraínu.
Augljóst er, að ekki er eftir neinu að bíða við töku ákvarðana, sem búa í haginn fyrir stóraukna nýtingu íslenzks jarðvarma. Jafnframt er óhjákvæmilegt að virkja vatnsafl af miklum þunga."
Þarna er á ferðinni snjall samanburður á aðstæðum við ákvarðanatöku um orkumál á tímamótum í ESB og á Íslandi. Þeir, sem um orkumál véla í ESB eru ekki svo skyni skroppnir að skilja ekki, að hvorki jarðgas né geislavirka úraníum samsætan í hefðbundnum kjarnorkuverum eru sjálfbærar og algrænar orkulindir. Þetta eru ósjálfbærar orkulindir, þar sem kjarnorkan að vísu veldur engri losun gróðurhúsalofttegunda, og jarðgasið aðeins minni losun og minni loftmengun en olía og kol.
Í sama anda verða þeir Íslendingar, sem um orkumálin véla, að vinna á þessum alvarlegu tímum. Allar virkjanir náttúrulegra orkulinda hafa einhverjar breytingar í för með sér á virkjunarstað, og það þarf að leiða raforkuna af virkjunarstað og til notenda, en sé þess gætt að nota beztu fáanlegu tækni (BAT=Best Available Technology) við hönnun og framkvæmd verksins og ef framkvæmdin er að auki afturkræf, þá verður umhverfislegi, fjárhagslegi, samfélagslegi og þjóðhagslegi ávinningurinn nánast örugglegi mun meiri en meint tjón af framkvæmdunum. Það er nauðsynlegt, að almenningur, þingheimur, stjórnkerfið og orkugeirinn geri sér grein fyrir þessari raunverulegu stöðu orkumálanna hið fyrsta.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Utanríkismál/alþjóðamál, Viðskipti og fjármál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.