Endurskoðun orkumarkaðar

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB), hefur lýst því yfir, að raforkumarkaður ESB sé ónothæfur við núverandi aðstæður.  Bragð er að, þá barnið finnur.  Forsenda markaðarins var alla tíð sú, að nóg bærist til hans af frumorku, þ.e. aðallega jarðefnaeldsneyti í tilviki ESB. 

Aðildarlöndin og bandalagið sjálft hafa hins vegar sýnt skilningsleysi á virkni markaðarins og/eða ábyrgðarleysi með því að veikja framboðshliðina smám saman, þangað til hún hrundi við eina aðgerð einræðisherra austur í Moskvu, sem lokaði smám saman fyrir gasstreymi eftir Nord Stream 1 frá Síberíu til Þýzkalands. Nú eru reyndar eldsneytisgasgeymar í Evrópu um 80 % fullir, og ESB hefur sett Gazprom stólinn fyrir dyrnar með ákvörðun hámarksverðs á gasi, sem mun jafngilda 50 EUR/MWh á raforkuvinnslu úr þessu gasi. Sýnir þessi "gagnsókn" ESB, að "orkuvopnið" hefur snúizt í höndum einræðisherrans og ólígarka hans. 

Með samningum Þjóðverja við Rússa um gaskaup eftir Nord Stream 1 & 2 á tiltölulaga hagstæðu verði myndaðist enginn hvati til að setja upp aðstöðu í höfnum Þýzkalands fyrir jarðgas á vökvaformi, LNG, sem er auðvitað mun dýrara.  Þar að auki var bannað í Þýzkalandi á dögum Merkel sem kanzlara, líklega 2015, að vinna gas úr jörðu með vökvaþrýsingi (fracking), þótt góð reynsla væri af því í Þýzkalandi áður.  Árið 2011 lét þessi sami óheilla kanzlari frá Austur-Þýzkalandi (DDR) draga úr framboði raforku í Þýzkalandi með því að loka kjarnorkuverum og banna alla slíka starfsemi frá árslokum 2022.  Á sama tíma var girt fyrir byggingu nýrra kolaorkuvera með loftslagssköttum (gjaldi á CO2) og niðurgreiðslu úr ríkissjóði á orku frá vindorkuverum og sólarhlöðum.  Af þessum sökum öllum var orkumarkaður Evrópu orðinn óstöðugur 2022, þegar Rússar hófu ólögmæta og grimmilega útrýmingarherferð sína gegn Úkraínumönnum 24.02.2022, og það gerði út um orkumarkað ESB.  Hvað tekur við af honum, veit enginn. 

Í þessu ljósi er afar lærdómsríkt að velta fyrir sér, hvernig þróunin gæti orðið í vatnsorkulöndum Evrópu.  Það eru víða vatnsorkuver í Evrópu, t.d. í Sviss, Frakklandi og í Austur-Evrópu, en stærsta hlutdeild vatnsorku er þó í Noregi, 89,1 %, og Íslandi, 68,8 %. Þrátt fyrir það, að Norðmenn séu sjálfum sér nægir með raforku með sína 155 TWh/ár framleiðslugetu, hafa þeir orðið fyrir barðinu á orkukreppu Evrópu, þar sem orkuverð hefur víða tífaldazt og samkvæmt framvirkum samningum stefnir heildsöluverð í 1200 EUR/MWh í október 2022 í Þýzkalandi og 2500 EUR/MWh í Frakklandi, en þar fer saman lélegt vatnsár fyrir vatnsorkuverin og mikil og brýn viðhaldsþörf í kjarnorkuverunum.  Lág vatnsstaða í miðlunarlónum í Suður- og Austur-Noregi vegna mikillar sölu raforku til Hollands, Þýzkalands og Bretlands, ásamt smitáhrifum um öflugar millilandatengingar við þessi lönd veldur tíföldun raforkuverðs sunnan Þrændalaga m.v. Norður-Noreg.  Þetta hefur valdið ólgu í Noregi og niðurgreiðslu ríkisins á heildsöluverði umfram 0,7 NOK/kWh (=9,6 ISK/kWh).  Hvaða lausnir sjá frændur okkar í Noregi á þessu viðfangsefni ?

Þann 19. september 2022 hélt Samstarfshópur um breytta orkustefnu mótmælafund framan við Stórþingshúsið í Ósló og samþykkti ályktun til þingsins, sem sjá má í viðhengi með þessum pistli. Þessi samtök leggja m.a. fram eftirfarandi rök fyrir því, að Norðmönnum henti ekki gildandi markaðskerfi raforkunnar:

 "Norska vatnsorkukerfið er einstakt með sín miðlunarlón, sem jafna út mismunandi úrkomu eftir árstíðum og jafnvel árum.  Það er svo ólíkt öðrum orkulindum á evrópska orkumarkaðinum, að það eitt og sér er næg ástæða til að krefjast aftengingar [við uppboðsmarkað raforku].  Norsk miðlunarlón er ekki hægt að fylla með tankbílum [eins og eldsneytisgeyma Evrópu - innsk. BJo]." 

Þetta er rétt og á líka við um Ísland.  Þar er enn ekki kominn uppboðsmarkaður raforku, en illu heilli vinnur Landsnet undir stjórn æðsta umboðsmanns ACER (Orkustofu ESB) á Íslandi, sem einnig gegnir starfi forstjóra Orkustofnunar !, að hönnun þessa markaðsfyrirkomulags hefur nú stofnað dótturfélag um tiltækið.  Allt er það tímaskekkja. Ótrúlegt er, að ACER þrýsti á þetta núna eftir yfirlýsingu Úrsúlu von der Leyen um ónothæfni fyrirkomulagsins.  Hér er íslenzkt ríkisfyrirtæki að færa út kvíarnar almenningi til bölvunar.  

Hvað vill téður Samstarfshópur í Noregi fá í staðinn ?:

"Þessar aðgerðir munu gera kleift að koma aftur á verðlagningu raforku, sem notuð er í Noregi, sem reist verði á raunkostnaði við að framleiða og flytja rafmagn með nauðsynlegri viðbót vegna fjárfestinga, endurfjárfestinga [stækkanir - innsk. BJo] og endurbóta ásamt hugsanlegum viðbótum til að hvetja til orkusparnaðar." 

Undir þetta skal taka, og þetta á líka við um Ísland undir samræmdri stjórn.  Raforka er ekki vara, sem hægt er að geyma í umtalsverðum mæli, heldur verður framleiðslan að haldast algerlega í hendur við notkunina. Þess vegna fer illa, ef reynt er að láta lögmál um vörur gilda um rafmagnið. Um vatnsorkuvirkjanir gildir, að vatn í miðlunarlóni kostar og er verðmæti þess fall af vatnsmagni í lóni og árstíma.  Verðmæti þess er ekkert í þessu samhengi, þegar flæðir út úr lóni á yfirfalli, en hátt, þegar það nær ekki að fyllast að hausti.  Þannig er verðmætið háð líkindum á tæmingu lónsins, og ætlunin með þessari verðlagningu að koma í veg fyrir tæmingu án þess að grípa þurfi til skömmtunar.

Í stað þessa fyrirkomulags hefur verið gripið til þess ráðs í langtíma orkusölusamningum við stóriðjuna að skipta orkusölunni í tvennt - forgangsorku og ótryggða orku.  Forgangsorku má ekki skerða, nema í óviðráðanlegu neyðarástandi, en ótryggðu orkuna má skerða um allt að 50 % á ári samkvæmt ýmsum samningum.   Útreikningana á verðgildi vatns í miðlunarlónum er þá hægt að láta stjórna þessum skerðingum, og er slíkt mun gegnsærra fyrir viðskiptavini Landsvirkjunar en nú tíðkast.  Vatnsverðmætin mynda "eldsneytisverð" fyrir vatnsaflsvirkjunina, sem verður hluti vinnslukostnaðar raforkunnar.  

Svipað fyrirkomulag má viðhafa um jarðgufuna.  Þegar tekur að draga niður í gufuforðabúri jarðgufuvirkjana, öðlast gufan verðmæti, og þar með hækkar rekstrarkostnaður viðkomandi virkjunar, sem getur leitt til minni spurnar eftir orku frá henni.  

Til að annast útreikninga á orkukostnaði virkjana þarf embætti með aðgang að fjárhag fyrirtækjanna, vatnsbúskap og gufubúskap þeirra.  Þessu embætti þarf að fela ábyrgð á því að hindra orku- og aflskort til skamms og langs tíma, en nú eru þau mál í lausu lofti og mikil hætta á, að alvarleg skortstaða komi upp áður en næsta miðlungsstóra virkjun kemst í gagnið.  28.07.2019 lýsti höfundur þessa pistils valkosti við markaðskerfi ESB í skjalinu "Orkupakki #4 og afleiðingar hans" á vegum samtakanna "Orkunnar okkar":

"Samkvæmt orkustefnu ESB [meingölluð fyrir vatnsorkulönd og nú í uppnámi alls staðar-innsk. BJo] á raforkumarkaðurinn að sjá um nægt aflframboð á hverjum stað og tíma, og eldsneytismarkaðir eiga á sama tíma að tryggja nægt orkuframboð. Íslenzkur raforkumarkaður getur hins vegar ekki sinnt hvoru tveggja [duttlungar náttúrunnar ráða orkuframboðinu - innsk. BJo]. Hér þarf (nýtt) fyrirkomulag, sem hentar orkulindum Íslands.  Þar er kjarni máls, að ríkið beiti fullveldisrétti sínum til að stofna embætti orkulindastjóra, sem hafi með höndum samstýringu allra virkjana landsins, sem máli verða taldar skipta fyrir orkubúskap landsins, með svipuðum hætti og Landsvirkjun stundar nú innan sinna vébanda. Með vandaðri lagasetningu um embætti orkulindastjóra fái hann í hendur "tól og tæki", sem tryggi, að virkjanafyrirtækin hefji virkjanarannsóknir og virkjanaundirbúning í tæka tíð, svo að nægt framboð raforku verði jafnan mögulegt, vald til að takmarka stærð (uppsett afl) jarðgufuvirkjana á hverju svæði, svo að rýrnun gufuafls verði ekki óhóflega hröð, heldur innan "eðlilegra marka", og jafnframt fái orkulindastjórinn vald til að stýra hæð miðlunarlóna í nafni orkuöryggis. 

Lagasetningin um embættið þarf jafnframt að tryggja því aðgang að nægum upplýsingum um allar virkjanir í þessari samræmdu auðlindastýringu á hverjum sólarhring, til að embættið geti gegnt öryggishlutverki sínu.  Orkulindastjórinn skal tryggja beztu sjálfbæru nýtingu allra virkjana landsins, sem áhrif hafa á orkubúskap þess, með því að hámarka orkuvinnslu hverrar virkjunar til langs tíma.  Lögbundnar ákvarðanir orkulindastjóra skapa orkumarkaðinum ramma, sem hann verður að starfa í frjálsri samkeppni innan.  Eðlilegast er að neita að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara af OP#3, unz færi gefst á að semja um þessa íslenzku útfærslu á réttum vettvangi EES."

Sem kunnugt er var hinum stjórnskipulega fyrirvara létt af samþykki Sameiginlegu EES-nefndarinnar á OP3 haustið 2019 á Alþingi. 21.09.2022 var tilkynnt um ráðningu framkvæmdastjóra nýs dótturfélags Landsnets, sem á að setja á fót og reka heildsölumarkað raforku á Íslandi í anda ESB.  Sagt er í leiðinni, að þetta fyrirkomulag eigi að tryggja þjóðinni hagstæðasta verð á hverjum tíma og orkuöryggi. Það þarf kaldrifjaða ósvífni til að halda þessu fram, á sama tíma og Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, tilkynnir, að smíða verði nýtt og raunhæfara kerfi, því að núverandi kerfi, það sem Katrín Olga Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri raforkukauphallarinnar, ætlar að sjá um hönnun á hérlendis, stenzt ekki kröfurnar, sem gera verður til þess við núverandi aðstæður.  Kerfinu hefur mistekizt að girða fyrir orkuskort og hefur sent raforkuverð til skýjanna í samræmi við jaðarkostnaðinn, sem er kostnaður eldsneytisgasorkuveranna.  

Þá kann einhver að benda á, að íslenzka raforkukerfið sé ósambærilegt við hið evrópska.  Það er einmitt mergurinn málsins.  Framboði raforku á Íslandi stjórna náttúruöflin, og þar er engum stöðugleika fyrir að fara.  Með framboðshliðina í stöðugri óvissu og fákeppnismarkað raforkubirgjanna verður veruleg verðhækkun á raforku hið eina, sem hefst upp úr stofnun heildsölumarkaðar á Íslandi að forskrift ESB í Orkupakka 3. Það er feigðarflan að setja hér upp kerfi, sem valdið hefur stórvandræðum annars staðar.   

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hallgrímur Hrafn Gíslason

Árið 2000 náðu þýska rík­is­stjórn­in og for­svars­menn stærstu orku­fyr­ir­tækj­anna í land­inu sam­komu­lagi um að leggja niður 19 kjarn­orku­ver í land­inu í nokkr­um áföng­um. Reiknað var með að síðasta kjarn­orku­verið yrði lagt niður eigi síðar en árið 2021.

Hallgrímur Hrafn Gíslason, 27.9.2022 kl. 19:42

2 Smámynd: Ólafur Árni Thorarensen

Takk fyrir goda og upplysandi grein ad vanda. 

Bestu kvedjur fra Trondheim, rettu megin Dovre-fjalla.

Ólafur Árni Thorarensen, 28.9.2022 kl. 06:07

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Hallgrímur Hrafn: voru Græningjar búnir að koma ár sinni svona vel fyrir borð um aldamótin ?  Það komst skriður á þessar vanhugsuðu og hættulegu lokanir fyrir orkuöryggi Þjóðverja í kjölfar Fukushima slyssins 2011.  Þýzk stjórnvöld hafa í fádæma blindni veikt framboðshlið orkunnar með hverju axarskaptinu á fætur öðru. 

Bjarni Jónsson, 28.9.2022 kl. 10:31

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Ólafur Árni: Er ekki hiti í mönnum yfir því, hvernig komið er orkumálum Norðmanna, sem sumum finnst minna á fjárkúgun, því að þeir líta svo á, að auðlindin sé þeirra, þ.e. þjóðareign ?  Verkamannaflokkurinn er klofinn í herðar niður í þessu máli, af því að 8 skilyrði hans o.fl. flokka fyrir samþykki Orkupakka 3 hafa ekki verið uppfyllt.  Það eru svik. 

Bjarni Jónsson, 28.9.2022 kl. 10:37

5 Smámynd: Hallgrímur Hrafn Gíslason

Bjarni Jónsson  https://www.mbl.is/frettir/erlent/2022/09/27/haetta_vid_ad_loka_tveimur_kjarnorkuverum/

Ekki lýgur Mogginn 😉

Hallgrímur Hrafn Gíslason, 28.9.2022 kl. 19:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband