Orkustjórnkerfi í lamasessi

Orkustjórnkerfi Breta (frá dögum Margrétar Thatcher sem forsætisráðherra) og Evrópusambandsins (frá dögum Orkupakka 1 laust fyrir aldamót) er ónothæft við núverandi aðstæður að dómi Úrsúlu von der Layen, forseta framkvæmdastjórnar ESB.  Kerfi þetta lætur aðdrætti frumorkunnar afskiptalausa og gerir bara ráð fyrir því, að eldsneytissalar sjái um að birgja forðabúrin af orku. Þegar stjórnendur Sambandsins og aðildarlandanna í einfeldni sinni og barnaskap veita uppivöðslusömu einræðisríki stöðu forgangsbirgis fyrir frumorkuna, er ekki von á góðu, eins og nú hefur komið í ljós. Nú hafa bæði Nord Stream 1 og Nord Stream 2 verið sprengdar í sundur í lögsögu Danmerkur og Svíþjóðar á botni Eystrasalts.  

Á Íslandi er raforkukerfið ekki háð slíkum aðdráttum, heldur er það náttúran sjálf, sem stjórnar aðdráttum frumorkunnar, þ.e. vatnsrennsli í miðlunarlón og jarðgufustreymi inn í forðabúr gufuvirkjananna.  Þess vegna er markaðskerfi hagfræðinganna ónothæft fyrir íslenzka raforkukerfið, nema Íslendingar vilji verða fórnarlömb spákaupmennsku með raforku úr orkulindum, sem þjóðin á að mestu leyti sjálf. 

Núverandi orkustjórnkerfi hérlendis er líka ónothæft, því að það hefur ekki reynzt þess megnugt að tryggja stækkun kerfisins í tæka tíð og skeikar miklu.  Nú þegar er kerfið þanið til hins ýtrasta, en það eru a.m.k. 5 ár, þangað til næsta miðlungsstóra virkjun kemst í gagnið, og Orkustofnun virðist ekkert liggja á við að afgreiða umsókn Landsvirkjunar um virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun.  Embættisfærslan þar á bæ er orðin hneykslanleg.  

Á forsíðu Morgunblaðsins 21. september 2022 birtist frétt Baldurs Arnarsonar með eftirfarandi fyrirsögn: 

"Skortur á raforku gæti ógnað hagvexti á Íslandi".

Fréttin hófst þannig:

"Vilhjálmur Egilsson, hagfræðingur, segir það geta skapað áhættu fyrir íslenzkt hagkerfi, ef áform um orkuskipti ganga ekki eftir.  Sé krafan um græna orku ekki uppfyllt, geti það bitnað á útflutningi íslenzkra sjávarafurða og á flugsamgöngum. 

Auka þurfi framleiðslu á raforku um 24 TWh/ár, ef markmið um orkuskipti fyrir 2040 eigi að nást.  Í mesta lagi 1/10 hluti þess muni að óbreyttu nást fyrir 2030.  Því geti sú staða komið upp, að orka verði skömmtuð á Íslandi. 

Þá telur Vilhjálmur vandséð, að orkuskiptin geti gengið eftir án þess að nýta vindorkuna.  Ef 20 % orkuþarfarinnar verði aflað með vatnsorku, sem sé raunhæft, en hins hlutans með vindorku, muni það samsvara 800 vindmyllum."  

Á meðan hlutdeild endurnýjanlegrar orku af heildarorkunotkun landsmanna er yfir 85 % og langflestar þjóðir eru með miklu minni hlutdeild, eins og fyrirsjáanlegt er a.m.k. næstu 10 árin, er ímyndarvandi útflutningsgreina Íslands, þótt óraunhæf markmið stjórnmálamanna um orkuskipti náist ekki, ímyndun ein.  Áhættan er fjárhagslegs eðlis.  Þá koma til sektargreiðslur til Evrópusambandsins, sem stjórnmálamenn af ábyrgðarleysi sínu í gáska andartaksins hafa undirgengizt í nafni þjóðarinnar og geta skipt milljörðum ISK.  Þá verða atvinnuvegir og heimili líka áfram undir hæl olíuframleiðenda á sveiflukenndum markaði á leið til sólseturs, sem þýðir tilhneigingu til verðhækkana.  Aftur á móti er líka áhætta fólgin í því, að allur vélbúnaður á Íslandi sé háður raforkuvinnslu í eldfjalla- og jarðskjálftalandi á borð við Ísland. Það er þó með skynsamlegri uppbyggingu og dreifingu mannvirkja minni áhætta en væri fólgin í því fyrir landsmenn að fá hingað aflsæstreng, sem setja mundi orkumarkaðinn hér upp í loft.

Þessi viðbótar raforka, 24 TWh/ár á 2 áratugum, er áætluð heildar viðbótarþörf til vaxtar og viðgangs hagkerfinu ásamt heildar orkuskiptum.  Svartsýni Vilhjálms um orkuskömmtunarástand getur hæglega rætzt á næstu 5 árum, þ.e. fram að fyrstu virkjun í Neðri-Þjórsá, sem virðist verða næsta meðalstóra virkjun (um 100 MW) inn á stofnkerfið.  Þessi staða jafngildir falleinkunn núverandi stjórnkerfis raforkumála.  Það verður þess vegna að hanna nýtt stjórnkerfi orkumálanna hérlendis, ekki síður en í ESB, en þessi 2 stjórnkerfi verða nauðsynlega ólík, því að aðstæður eru gjörólíkar.  

Markaðskerfi raforku fyrir Ísland, sniðið að fyrirmynd ESB, er í hönnun, þótt Úrsúla von der Leyen hafi lýst þetta kerfi úrelt og ónothæft við breyttar aðstæður.  Ástæða þess, að það er ekki þegar tekið úr sambandi, er, að uppsprengt jarðgasverð veldur uppsprengdu rafmagnsverði vegna þeirrar reglu þessa kerfis, að verð til neytenda ákvarðast af jaðarverðinu, þ.e. verði næstu kWh, sem beðið er um, og þar með spara allir notendur við sig gas og rafmagn eftir megni.  

Það er eitthvað brogað við þennan vindmylluáhuga Vilhjálms.  Tölurnar, sem eftir honum eru hafðar þarna, fela í sér stórar vindmyllur, a.m.k. 7,0 MW, sem er aflmeiri vindmylla en nokkur framleiðandi hefur hingað til treyst sér að framleiða fyrir íslenzka markaðinn vegna veðurfarsaðstæðna hér.  Ef draumfarir Vilhjálms Egilssonar um 19 TWh/ár raforku frá vindmyllum rætast (Guð forði viðkvæmri íslenzkri náttúru frá öllu því jarðraski, sem þessi frumstæða og óskilvirka aðferð við raforkuvinnslu útheimtir), þá er sýnt, hvað gerist á íslenzka raforkumarkaðinum, sem dótturfélag Landsnets er að bauka við. Vindmyllueigendur munu stjórna raforkuverðinu, því að vindmyllurnar munu mynda jaðarkostnaðinn á markaðinum.  Þetta eitt út af fyrir sig mun þá valda um 50 % hækkun heildsöluverðs á raforku til almennings.  Hins vegar mun skortstaðan á íslenzka raforkumarkaðinum leiða til miklu meiri hækkana á verðinu til almennings en þetta. Þannig stefnir í algert óefni fyrir íslenzk heimili og fyrirtæki án langtímasamninga um raforkukaup vegna markaðsvæðingar raforkunnar, sem sterklega er mælt með í Orkupakka 3, en verður ekki skylda fyrr en með Orkupakka 4, og sá hlýtur nú að koma til róttækrar endurskoðunar af hálfu framkvæmdastjórnar ESB í ljósi nýlegra orða forseta hennar. 

Hvers vegna í ósköpunum leggur dr Vilhjálmur Egilsson upp með 20 % frá vatnsorkuverum og 80 % frá vindorkuverum af 24 TWh/ár fram til 2040, en 0 frá jarðgufuvirkjunum ?  Raforkan frá jarðgufuvirkjunum er yfirleitt dýrari en frá vatnsaflsvirkjunum, en ódýrari en frá vindorkuverum, og ólíku er saman að jafna um áreiðanleikann, svo að ekki sé nú minnzt á landverndina, kolefnisfótsporið á GWh að byggingarskeiði meðtöldu, notkun fágætra málma og mengun á rekstrartíma. Með því að nýta alla orkustrauma jarðgufuvirkjunar býður hún upp á alls konar starfsemi, bæði tengda afþreyingu, iðnaði og upphitun húsnæðis.  Þær eru yfirburðakostur í samanburði við viðurstyggilegar vindmyllur, sem eru algert neyðarbrauð og óþarfar á orkuríku Íslandi.  

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Flottur pistill Bjarni.

En því miður ráða pólitískir hagsmunir meira

en almanna hagsmunir. Heitir spilling á Íslensku.

M.b.kv. 

Sigurður Kristján Hjaltested, 1.10.2022 kl. 16:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband