26.12.2022 | 10:44
Ný skattheimta veldur kollsteypu í strandbyggðum Noregs
Nýlega bárust fregnir af fáheyrðri fyrirhugaðri viðbótar skattheimtu norsku ríkisstjórnarinnar undir forsæti forríks krata, Jonasar Gahr Störe, af atvinnustarfsemi, sem hefur verið hryggjarstykkið í byggðum meðfram endilangri strandlengju Noregs. Fyrir vikið varð strax fjármagnsflótti úr greininni, fyrirtæki lögðu fjárfestingar á ís og gerðu áætlanir um að draga úr starfsemi og fækka starfsfólki. Þetta mun valda atvinnuleysi í byggðunum, ef úr verður, og fólksflótta. Þannig er þetta skólabókardæmi um skaðleg áhrif ríkisvaldsins, þegar það verður of gírugt og gengur of hart að fyrirtækjunum.
Þetta sýnir líka vanþekkingu embættismanna og stjórnmálamanna á atvinnustarfseminni, samkeppnishæfni hennar og burði til að bera miklu meiri skattheimtu en fyrirtæki í annars konar starfsemi þurfa að búa við. Hið opinbera verður að gæta jafnræðis og meðalhófs. Ef kýrin er ofmjólkuð, eyðileggst júgrið strax, kýrin veikist og hættir að gefa nokkuð af sér, og fólkið á bænum lepur fyrir vikið dauðann úr skel. Vönduð greining verður að vera undanfari nýrrar skattheimtu.
Gunnlaugur Snær Ólafsson, blaðamaður, tók saman fróðlega fréttaskýringu í 200 mílum Morgunblaðsins 1. desember 2022 um það, hvernig ríkisstjórn Noregs virðist fara offari í skattheimtu á sjókvíaeldi við Noregsstrendur. Ofurskattheimta á aldrei við og sízt, þegar samkeppnisgreinar á alþjóðlegum mörkuðum eiga í hlut, og tímasetningin er alslæm, því að nú harðnar á dalnum á matvælamörkuðum Evrópu og víðar. Það gæti leitt til lækkunar á dýrum matvælum, ef ódýrari staðgönguvara er fyrir hendi. Fréttaskýring Gunnlaugs bar fyrirsögnina:
"Ringulreið vegna auðlindagjalds".
Hún hófst þannig:
"Óhætt er að segja, að tillaga norsku ríkisstjórnarinnar um að innleiða nýjan auðlindaskatt, s.k. grunnleigu, á sjókvíaeldi hafi fallið í grýttan jarðveg í samfélögunum meðfram strandlengju landsins. Skattahækkunin, sem lögð er til, hefur haft ýmsar hliðarverkanir, sem ekki virðist hafa verið gert ráð fyrir við mótun tillögunnar. Fyrirtæki hafa hætt við fjárfestingar, gripið til uppsagna, og norska ríkisstjórnin hefur þurft að minnka gjaldstofn nýs auðlegðarskatts sem og [að] bæta upp hundruða milljóna tap norska fiskeldissjóðsins, "Havbruksfondet"."
Hér er hrapað ótrúlega að viðbótar gjaldtöku, og jafnvel vafamál, hvort nokkur þörf var á einhverri viðbótar gjaldtöku. Fyrir vikið og vegna orkumálanna koma nú norsku stjórnarflokkarnir afar illa út í fylgisathugunum á landsvísu, og má segja, að Miðflokkurinn hafi beðið afhroð, en hann er dæmigerður dreifbýlisflokkur, og fjármálaráðherrann er formaður hans. Fylgi Verkamannaflokksins hefur rýrnað minna, en tæp 3 ár eru í næstu Stórþingskosningar, og stjórnarflokkarnir gætu náð vopnum sínum á kjörtímabilinu.
"Norska ríkið gerir ráð fyrir, að grunnleigan, ásamt tekjuskatti lögaðila, geri það að verkum, að jaðarskattar fiskeldisfyrirtækja verði 62 %, en að skatthlutfallið verði 51,3 %. Á móti benda fiskeldis- og vinnslufyrirtækin á, að grunnleigan, sem lögð er til, bætist við hækkun auðlegðarskatts á framleiðsluleyfi, sem hafa verið út gefin, hækkun tekjuskatts lögaðila, hærra framleiðslugjald og hærri auðlindaskatt. Það sé því í raun verið að leggja 80 % skatt á sjókvíaeldið."
Hér hefur norsku ríkisstjórninni orðið alvarlega á í messunni. Enginn heiðarlegur atvinnuvegur getur staðið undir þvílíkri ofurskattheimtu, og þess vegna er ríkisstjórnin í raun að kippa fótunum undan blómlegri atvinnugrein, og um leið munu sjávarbyggðir víða hrynja. Þetta eru ótrúlegar aðfarir Trygve Magnus Slagsvold Vedum, sem verið hefur fjármálaráðherra síðan í október 2021 og formaður Miðflokksins síðan 2014. Vedum er garðyrkjumaður frá Stange í Innlandet og hefur setið á Stórþinginu síðan 2005.
Fylgi Miðflokksins hefur nú hrunið niður í "bjórstyrk". Vedum verður að leiðrétta mistök sín. Fyrirtæki eru ekki mjólkurkýr fyrir hið opinbera. Þau eru til að skapa verðmæti og atvinnu. Ef þau hagnast og geta þar af leiðandi borgað tekjuskatt, er það jákvætt. Gjaldheimta af auðlindanotkun og framleiðslu er vandmeðfarin, og þar verður að gæta sanngirni og jafnræðis, svo að stjórnvöld skekki ekki samkeppnishæfni um fjármagn, starfsfólk og markaði.
"Í kjölfar tilkynningar norsku ríkisstjórnarinnar um nýja grunnleigu af sjókvíaeldi hófu hlutabréf fiskeldisfyrirtækjanna, sem skráð eru í kauphöllina í Ósló, að falla. Verðmæti þeirra dróst á einum degi saman um mrdNOK 44, um mrdISK 632, eins og gengið er nú. Samhliða hafa fyrirtækin sett fjárfestingar fyrir um mrdNOK 24 á ís."
Þetta sýnir, hvað tilkynningar ráðherra um fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar geta verið afdrifaríkar fyrir fjárhagsstöðu fyrirtækja og atvinnuöryggi launþega. Þetta á alveg sérstaklega við, þegar fyrirætlun ráðherra er íþyngjandi fyrir fyrirtæki, sem skráð eru í kauphöll. Þau verða að stíga varlega til jarðar, og það verða líka viðkomandi stjórnvöld og gagnrýnendur þessara fyrirtækja að gera. Hérlendis hafa fyrirtæki ekki þurft að þola kollsteypur af þessu tagi af hendi fjármálaráðherra frá dögum "einu hreinu vinstri stjórnarinnar" 2009-2013, en sum hafa mátt þola miklar ágjafir og jafnvel herferðir í fjölmiðlum og af hendi fjölmiðla. Er þar oft hátt reitt til höggs af mismikilli fyrirhyggju og ígrundun.
"Um miðjan nóvember [2022] sagði fiskeldisfyrirtækið Salmar upp 851 starfsmanni í vinnslustöðvum félagsins á Fröya og Senja. Ástæða uppsagnanna var í fréttatilkynningu sögð tillaga ríkisstjórnarinnar um auknar álögur á greinina, "sem hefur eyðilagt markaðinn fyrir langtíma samninga á föstu verði. [...] Slíkir samningar eru venjulega gerðir löngu fyrir afhendingu, og eru þeir algjörlega nauðsynlegir til að fylla aðstöðuna af nægri vinnslustarfsemi", sagði í fréttatilkynningunni."
Axarskapt norsku ríkisstjórnarinnar hefur haft hrapallegar afleiðingar fyrir atvinnuöryggi starfsmanna fiskeldisfyrirtækjanna á strönd Noregs. Áður en einhverjum hérlendum stjórnmálamanni dettur næst í hug að fara fram með vanhugsaðar tillögur um auðlindagjald, framleiðslugjald eða hvaða nöfnum, sem tjáir að nefna gjaldtökuhugmyndir þeirra, ættu þeir að leiða hugann að alvarlegum afleiðingum slíkra gjörða hjá frændum vorum, Austmönnunum.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.