Norskir dómstólar geta endurskoðað mat Stórþingsins á stjórnarskrárákvæði

Hér verður haldið áfram þýðingu á grein Mortens Harpers, lögfræðings hjá "Nei til EU", NtEU, um dómsorð og greinargerðir Lögmannsréttarins í deilumáli NtEU við norska ríkið um atkvæðagreiðsluna um Orkupakka 3. 

"Málið vekur líka upp spurninguna um það, hversu langt dómstólarnir geti gengið í að yfirfara eigið mat Stórþingsins.  Ríkið hefur lagt þunga áherzlu á eigið stjórnarskrármat Stórþingsins sem röksemd gegn málsókninni.  NtEU hefur hins vegar haldið því fram, að rétturinn verði að framkvæma nákvæma og vandaða rýni á því, hvort skilyrðin til að nota stjórnarskrárgrein nr 26.2 í stað gr. nr 115 séu uppfyllt. 

Lögmannsrétturinn fellst að nokkru leyti á þetta viðhorf NtEU:  

 "Að loknu heildarmati sínu hefur Lögmannsrétturinn - í vafa - komizt að þeirri niðurstöðu, að athugun dómstólanna á því, hvort valdframsal sé léttvægt (lítið inngrípandi í þjóðlífið) eigi að vera nokkuð öflugri en það, sem venjulega á við um stjórnarskrárákvæði, sem stýra vinnulagi annarra greina ríkisvaldsins eða innbyrðis valdsviði. Í ljósi kröfu stjórnarskrárinnar, gr. 115, um aukinn meirihluta, og að hér er um að ræða að gera undantekningu við þá stjórnarskrárbundnu reglu, að framkvæmd valds skal vera á hendi norskra valdstofnana, leggur Lögmannsrétturinn meiri áherzlu á að taka tillit til minnihlutaverndarinnar en á þau raunatriði, sem ríkið hefur vísað til. Með vísun til þrískiptingarinnar er Lögmannsrétturinn þannig þeirrar skoðunar, að sannprófunin (rýnin) verði sambærileg þeirri, sem gildir um málefnaflokkinn efnahagsleg réttindi."  (Síður 23-24.)

RÉTTURINN FINNUR TVENNS KONAR VALDFRAMSAL Í OP3

"Samantekið fól samþykkt Stórþingsins 22. marz 2018 í sér tvenns konar valdframsal", skrifar Lögmannsrétturinn og útlistar:

"Í fyrsta lagi var vald framselt til ESA til að gefa RME (orkulandsreglara ESB í Noregi) fyrirmæli um tæknileg viðfangsefni í sambandi við notkun innviða á milli landa, sbr ACER reglugerðina, kafla 8.

Í öðru lagi var framselt fyrirmæla- og sektarvald til ESA samkvæmt reglugerð um orkuviðskipti á milli landa, kafla 20 og kafla 22, nr 2, og þar með dómsvald til EFTA-dómstólsins." (Síður 33-34.)

Lögmannsrétturinn fjallar nánar um valdframsal í ACER-reglugerðinni þannig:

"Samkvæmt ACER-reglugerðinni, kafla 8, hefur ACER/ESA vald í sambandi við innviði á milli landa til að "taka ákvörðun um stjórnunarviðfangsefni, sem voru á valdsviði innlendra stjórnvalda, þ.á.m. um skilyrði fyrir aðgangi og rekstraröryggi". 

(...)

Lögmannsrétturinn undirstrikar, að kafli 8 veiti ekki heimild til að taka ákvarðanir um t.d. að leggja nýja (sæ)strengi, að reisa orkuver, breyta eignarhaldsreglum eða að gefa út framkvæmda- eða rekstrarleyfi.  (...) Rafmagnsverðið verður til á markaði.  Verðmyndun á markaði verður vitaskuld fyrir áhrifum af þátttöku Noregs í innri orkumarkaði ESB.  NtEU hefur rétt fyrir sér um, að ACER/ESA getur óbeint haft áhrif á rafmagnsverðið með framlagi sínu til þess, að þetta sé skilvirkur markaður með virkum innviðum fyrir orkuflutninga milli landa.  Lögmannsrétturinn getur samt ekki séð, að nokkuð sé hæft í, að formleg völd ACER/ESA til ákvarðanatöku sé áhrifavaldur á rafmagnsverðið."  (Síður 27-28.)

Um orkulandsreglarann (RME) er farið eftirfarandi orðum í dóminum:

"Þar sem endanleg ákvörðun, sem varðar Noreg, er tekin hjá RME, sem er norsk stjórnsýslustofnun, eru völd ESA yfir RME bara af þjóðréttarlegu tagi.  Í samræmi við hefðbundin fræði má þess vegna halda því fram, að ekkert valdframsal hafi orðið til ESA.  Að RME - til að uppfylla kröfur EES-regluverksins - er stofnsett sem óháð stjórnsýslustofnun, sem [ríkið] getur ekki gefið fyrirmæli, samtímis sem ESA eru veitt völd til að taka réttarlega bindandi ákvarðanir um fyrirmæli til RME, veldur hins vegar því, að Lögmannsrétturinn - eins og málsaðilarnir - lítur svo á, að átt hafi sér stað formlegt valdframsal til ESA." (Síða 29.)

Lögmannsrétturinn fjallar þó ekki nánar um hlutverk RME sem orkureglara, sem áhrif hefur á hagsmunaaðila í Noregi.  Lögbundna sjálfstæðið gagnvart valdhöfum ríkisins veldur því, að ekki er unnt að telja RME vera venjulega norska stjórnvaldsstofnun, og meta hefði þurft, hvort völd RME sé viðbótar vídd í valdframsalinu. Fyrirmæla- og sektarvaldið, sem ESA hefur, gildir um að afla gagna beint frá orkufyrirtækjunum, í raun frá Statnett varðandi Noreg [Statnett er norska Landsnet]. 

"Það er óumdeilt, að þetta jafngildir valdframsali til ESA", skrifar Lögmannsrétturinn (síða 30) og bætir við, að enn hafi slíkar ákvarðanir ekki verið teknar."

 Hér verður látið staðar numið í hluta 2 af 3 þýðingum á grein Mortens Harpers um nýlegan dóm á millidómsstigi í Noregi um þá kröfu NtEU að fá úrskurði Stórþingsins um að viðhafa einfalt meirihlutaræði við atkvæðagreiðslu um OP3 hnekkt.  Það má hverjum leikmanni vera ljóst, að ýmislegt í málatilbúnaði samtakanna hlaut hljómgrunn í Lögmannsréttinum, þótt niðurstaða hans yrði, að valdframsalið til ESA/ACER væri lítið inngrípandi í þjóðlífið, heldur væri aðallega þjóðréttarlegs eðlis. Í 3. og lokapistlinum um þetta verður einmitt fjallað um það, hvort valdframsalið hafi verið áhrifalítið á þjóðlífið eða ekki.     


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Takk fyrir þetta Bjarni oog gleðilegt ár.

Bíð eftir næsta pistli.

Sigurður Kristján Hjaltested, 1.1.2023 kl. 17:58

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Sigurður Kristján.

Ánægjulegt að frétta af áhuga þínum á þessu.  Umfjöllun um þetta mál hérlendis hefur annars verið afar yfirborðskennd.  Þessi grein MH er reyndar lögfræðileg í meira lagi, en engu að síður fróðleg fyrir marga hérlendis, held ég, eins og þú vitnar um.

Óska þér góðs nýárs og þakka ánægjuleg samskipti á nýliðnu ári.  

Bjarni Jónsson, 2.1.2023 kl. 10:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband