23.5.2023 | 10:38
Lygar sendiherrans
Rússneski sendiherrann á Íslandi, Mikhail Noskov, leyfir sér á tímamótum að senda Morgunblaðinu til birtingar svívirðilegan samsetning staðlausra stafa, þar sem sannleikanum er snúið á haus og ávirðingum hans eigin landsmanna og stjórnvalda í Kremlarkastala og í neðanjarðarbyrgi Putins, forseta rússneska ríkjasambandsins, er snúið upp á ríkisstjórn Úkraínu í Kænugarði og leiðtoga Vesturlanda. Dæmi um þessa ósvinnu birtist 15. maí 2023 undir fyrirsögninni:
"Hugleiðingar um leiðtogafund Evrópuráðsins í Reykjavík",
sem fram fór dagana á eftir. Þann 24. febrúar 2022 réðist rússneski herinn inn í nágrannaland sitt í vestri, Úkraínu, augljóslega með þá fyrirætlun í farteskinu að velta löglega kjörnum valdhöfum í Kænugarði úr sessi, setja þar til valda Rússadindla, strengjabrúður Kremlar, og hernema allt landið. Ætlunin var að hneppa úkraínsku þjóðina í þrælafjötra, eins og Rússar hafa beitt hana um aldaraðir.
Réttlætingin var fjarstæðukennd og einkenndist af ofsóknarbrjálæði; sem sagt, að nauðsynlegt væri fyrir öryggi Rússa að rífa nazisma upp með rótum í Úkraínu. Með þvættingi á borð við þennan er rússneskur almenningur heilaþveginn, og moldvörpur Pútíns á Vesturlöndum, gamlir STASI-liðar og skoðanasystkini þeirra, hafa síðan hamrað á því, að þessi viðbjóðslega ofstopafulla og ógeðslega hernaðaraðgerð Rússa sé NATO að kenna. Siðblindingjar kunna ekki skil á réttu og röngu, trúa eigin lygum, og eru nógu heimskir til að halda, að þeir geti til lengdar talið almenningi í löndum sínum trú um, að svart sé hvítt og hvítt sé svart.
Það er skemmst frá því að segja, að allt hefur gengið á afturfótunum hjá rússneska hernum í þessum hernaði gegn slavneskri þjóð, sem nú hefur fengið sig fullsadda af hrottafengnum hernaði hins yfirgangssama nágranna í austri. Rússar reka grimmilegan og lágkúrulegan hernað með eldflaugaárásum á varnarlaust fólk í borgum Úkraínu, á meðan Úkraínumenn beina árásum sínum að skotmörkum með hernaðarlegt gildi. Þá eru villimannslegar aðfarir rússneska hersins í Bucha og víðar gegn almennum borgurum fullkomlega fyrirlitlegar. Til að hernema borgir á borð við Mariupol og Bakhmut hafa Rússar lagt þær gjörsamlega í rúst.
Hernaðargeta þeirra er í raun sáralítil. Hernum er illa stjórnað og hann er illa vopnum búinn og bráttuþrekið virðist takmarkað. Að hætti fyrri zara er aðgengi vonlausrar alþýðunnar og vonlausra hermanna Putins að Vodka talsvert. Loftvarnir Rússlands virðast vera í skötulíki. Hernaðargeta þeirra er skrum og lygar herforingja, ólígarka og Kremlverja. Spillingin er allt um lykjandi.
Þann 16. maí 2023 urðu vatnaskil í átökum austurs og vesturs. Þá skaut rússneski herinn 18 eldflaugum á Kænugarð, þar af 6 Kh-47M2 Dagger (r. Kinzhal) hljóðfráum eldflaugum frá 6 MiG-31 K flugvélum í norðri, austri og suðri, sem Putin hafði gortað af og sagt vera "næstu kynslóðar" vopn, sem kæmust í gegnum allar varnir Vesturlanda. Allar 18 flaugarnar með tölu voru þó skotnar niður af 40 ára gömlu Patriot loftvarnakerfi. Af þessu má draga þá ályktun, að MAD (Mutually Assured Destruction) sé úr sögunni og útrýmingin verði einhliða, komi til hennar. Fyrir vikið hefur Putin nú látið ákæra 3 eldflaugavísindamenn fyrir landráð. Fælingarmáttur rússneskra kjarnorkuvopna er úr sögunni, og Rússland stendur allsbert sem frumstætt hagkerfi og her, sem er pappírstígrisdýr. Fyrstu viðbrögð Vesturlanda voru, að Bandaríkjaforseti samþykkti, að úkraínski flugherinn fengi Fálkann - F16 í sína þjónustu, og eftir það verða Úkraínumenn ráðandi hvarvetna í sinni lofthelgi.
Rússneski björninn hefur verið særður í átökunum við úkraínska herinn og má ekki fá tækifæri til að sleikja sár sín, því að þá kemur hann aftur. Þess vegna þarf að ganga frá honum, endurheimta allt land m.v. alþjóðlega viðurkennd landamæri landsins 1991 og síðan að veita landinu hernaðarlega vernd með því að verða við óskum ríkisstjórnar og þings landsins um inngöngu í NATO. Rússum kemur sú innganga einfaldlega ekki við, enda hafa þeir nú brotið allar brýr að baki sér í alþjóðlegum samskiptum. Ekkert tillit á að taka til vælsins frá Moskvu.
Hvernig skyldu fúkyrði sendiherra Rússlands í tilefni fundar Evrópuráðsins í Reykjavík í maí 2023, lygar hans og útúrsnúningar, líta út ?:
"Eini tilgangur hennar [Evrópuráðsins] í dag er að upphefja vestræn nýfrjálshyggjugildi og mála svörtum litum alla þá, sem deila þeim ekki.
Í ljósi þess kemur dagskrá leiðtogafundarins ekki á óvart. Evrópuráðsliðar hafa fyllzt sjálfsaðdáun og geta einfaldlega ekki leyft sér að kasta skugga á afrakstur eigin verka - Kænugarðsvaldið, sem ber án nokkurs efa öll einkenni þess að vera strengjabrúða. Fundarmenn ætla sér enn og aftur að fela fyrir almenningi raunverulegar orsakir Úkraínukreppunnar á hræsnisfullan hátt með því að koma af stað lygaflóði Rússahaturs."
Frá upphafi rússneskrar sögu hefur alræði zarsins tíðkazt. Rússar kynntust aldrei valddreifingu til aðalsins, sem þróaðist til þingræðis Vesturlanda. Úkraínumenn eru hins vegar af öðru sauðahúsi, vilja skera á spillingartengslin við glæparíkið Rússland, og þetta endurspeglaðist í Maiden-byltingunni, þegar Rússadindli var velt úr sessi. Úkraínumenn eru yfirleitt vestrænt þenkjandi eintaklingshyggjumenn, sem vilja varðveita sjálfstæði sitt og menningu og ganga í vestræn bandalög. Þetta er þröngsýnum og heilaþvegnum Rússum fyrirmunað að skilja og þess vegna búa þeir til lygaþvætting um strengjabrúður Vesturvelda í Kænugarði. Úkraína er Rússum að eilífu glötuð, herra sendiherra, og um það geta Rússar sjálfum sér kennt.
"Halda mætti, að glæpir Úkraínuhers gegn óbreyttum borgurum í Donbas hafi orðið svo umfangsmiklir síðan 2014, að ekki væri lengur hægt að forðast sannleikann bak við gluggatjöld ritskoðunar og áróðurs, en fyrrverandi samstarfsaðilar okkar í vestri álíta ekkert vera fyrir neðan sína virðingu í þeim efnum. Gögn rússneskra rannsóknaryfirvalda, sem höfðuðu yfir 2000 sakamál á hendur hermönnum og pólitískum forystumönnum frá Kænugarði, er varða m.a. lagagreinar á borð við hryðjuverk, grimmilega meðferð á óbreyttum borgurum og morð, eru fyrirfram talin vera meðvitaðar "falsanir", enda "skaði" slík vitneskja viðkvæma andlega heilsu Evrópubúa. Yfirlýsingar fjölda alþjóðastofnana og félagasamtaka með ákalli til að veita glæpsamlegu athæfi Úkraínumanna athygli eru bókstaflega hundsaðar. Hvergi er heldur minnzt á stórskotaliðsárásir á friðsamleg íbúðahverfi í Donbas og á það, að Kænugarðshermenn nota óbreytta borgara sem "mannlegan skjöld". Enginn gaumur er gefinn ofsóknum og pyntingum þeirra, sem eru ósammála stefnu stjórnvalda í Kænugarði."
Þetta er nú meiri endemis lygaþvælan. Þarna er einfaldlega sönnuðum glæpaverkum Rússa á hernumdum svæðum þeirra snúið upp á Úkraínumenn. Það er lygi allt frá 2014, að rússneskumælandi íbúar Donbas hafi þurft að grípa til vopna til að verja hendur sínar gegn útsendurum Kænugarðsstjórnar. Það er vitað, að rússneskir hermenn voru sendir þangað 2014 til að leggja fylkin Luhansk og Donetsk undir Rússland með svipuðum hætti og Kremlverjar lögðu Krímskaga undir sig 2014. Rússneski herinn kannaðist við hvoruga aðgerðina, og einkennisbúningar voru falskir.
Rússneski herinn fremur í raun þjóðarmorð í Úkraínu með glæpsamlegu framferði sínu gagnvart óbreyttum borgurum, sem eru skotmörk allra greina hersins, landhers, flughers og flota. Úkraínski herinn beinir hins vegar vopnum sínum að rússneska hernum, vopnabúrum og öðrum birgðastöðvum hans og stjórnstöðvum. Þetta eru fjölmargir stríðsfréttaritarar til vitnis um. Rússar hafa stundað pyntingar á stríðsföngum sínum. Það kom t.d. í ljós við frelsun Kherson héraðs vestan Dnepr árinnar haustið 2022. Þar varð rússneski herinn jafnframt uppvís að því að hafa notað óbreytta borgara og börn sem "mannlegan skjöld" á flótta sínum. Upptalningin á glæpaverkum Rússa í Úkraínu síðan 24.02.2022 er svo viðbjóðsleg og umfangsmikil, að þótt hefur duga til að kalla aðfarirnar þjóðarmorð og ríkið sem að slíkum óhugnaði stendur útlagaríki.
Athugasemdir
Mæltu manna heilastur.
Kveðja fra Úkraínu þar sem loftvarnarflauturnar gefa fölsk skilaboð. - Ekkert nær í mark.
Einar Sveinn Hálfdánarson, 23.5.2023 kl. 20:52
Heigulslegar atlögur rússneskra stjórnvalda og hersins gegn almennum borgurum Úkraínu hafa gjörsamlega keyrt orðstýr Rússa ofan í svaðið. Fyrir vikið mun Rússland ekki eiga sér viðreisnar von lungann af þessari öld. Þeir eru siðblindir, og þeim er ekki treystandi fyrir horn. Fyrir vikið verður ekki hægt að eiga viðskipti við þá af neinu tagi. Þá hafa þeir með ótrúlegu framferði sínu innsiglað þá þróun, sem átt hefur sér stað undanfarna áratugi í hugum Úkraínumanna, að þeir eigi ekki að vera hluti af hinum "rússneska heimi", heldur að deila örlögum með Vesturlöndum. Þetta hefur blundað í þeim um aldaraðir, en við fall Ráðstjórnarríkjanna raungerðist þessi draumur. Þjáningarnar, sem Úkraínumenn hafa liðið fyrir tilverknað Rússa í tímans rás, eru ólýsanlegar.
Bjarni Jónsson, 24.5.2023 kl. 11:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.