11.6.2023 | 12:03
Verðbólgan og verkalýðshreyfingin
Verðbólgan er vágestur heimilanna, og hana verður að kveða niður, því fyrr, þeim mun betra. Hún er hins vegar að stórum hluta innflutt, og þess vegna er ámátlegt að heyra, þegar gamla slitna grammófónplatan er sett á ryðgaðan plötuspilara Viðreisnar, að innganga Íslands í Evrópusambandið og að kasta ISK fyrir róða og taka í staðinn upp EUR, muni leysa verðbólgu- og vaxtavandamál Íslendinga í einu vetfangi. Þau, sem láta sér sér svo einfeldningsleg orð um munn fara, ættu að rýna í verðbólgutölur landanna á evrusvæðinu, t.d. Eystrasaltslandanna. Þær hafa sums staðar farið yfir 20 %, enda geisar stríð í Evrópu, og Pútín beitti orkuvopninu í vanmátta og vanhugsaðri tilraun til að knýja Evrópu til að láta af stuðningi sínum við hetjulega baráttu Úkraínumanna fyrir lífi sínu. Beiting þessa vopns hækkaði verð á raforku til heimila um að jafnaði 69 % og á eldsneytisgasi um 145 % síðast liðinn vetur. "The Economist" reiknar dauðsföll í Evrópu af þessum sökum vera 68.000 síðast liðinn vetur.
Í maí 2023 nam 12 mánaða verðbólga á evrusvæðinu 7,0 %, í Bandaríkjunum 4,9 %, á Bretlandi 10,1 %, í Noregi 6,4 %, í Svíþjóð 10,6 %, en í Sviss aðeins 2,6 %. Af þessu má ráða, að töluverður hluti verðbólgunnar sé innfluttur. Vaxtahækkanir Seðlabanka Íslands minnka spurn eftir vörum og þjónustu bæði hjá skuldurum og sparendum, því að sparendur hafa tilhneigingu til að leggja meira fyrir, þegar vextir eru háir, og nú eru innlánsvextir nálægt verðbólgustiginu, en svo hefur það alls ekki verið síðast liðið ár.
Á meðal launþega eru bæði lántakendur og sparendur, og fer það aðallega eftir aldri, hvorn hópinn fólk fyllir. Viðbrögð verkalýðsformanna hafa verið í þá veru, að í peningastefnunefnd Seðlabankans sitji slæmt fólk, sem vilji gera ungu fólki, skuldurum, lífið leitt. Þetta er algerlega óábyrgt viðhorf og lýsir fullkomnu skilningsleysi á hlutverki bankans, lögunum, sem um hann gilda, og áhrifamætti þeirra tóla, sem bankinn hefur yfir að ráða í baráttunni við verðbólguna.
Kjarasamningar gegna lykilhlutverki í hagkerfinu, bæði á framboðs- og eftirspurnarhlið. Of miklar verðhækkanir geta steypt fyrirtækjunum í glötun og skapað ofþenslu í hagkerfinu. Seðlabankinn telur síðustu kjarasamninga hafa verið of ríflega og skapað ofþenslu, sem nú kyndi verðbólgu. Það er engum til hagsbóta, að almennir kjarasamningar séu umfram framleiðniaukningu fyrirtækja almennt. Það, sem umfram er, mun brenna upp á verðbólgubáli. Út frá gögnum Hagstofunnar er hægt að leggja mat á meðalsvigrúm til launahækkana, en þessi gögn eru vannýtt í undirbúningi verkalýðsins að kjarasamningum. Þar liggur hundurinn grafinn.
Einar S. Hálfdánarson, hæstaréttarlögmaður, skrifaði athyglisverða grein í Morgunblaðið 27. maí 2023 um m.a. samskipti Seðlabankans og verkalýðsleiðtoga undir fyrirsögninni:
"Hefur Seðlabankinn brugðizt fræðsluhlutverki sínu ?".
Hún hófst þannig:
""Seðlabankinn skal stuðla að aukinni fræðslu um peningastefnuna og hlutverk Seðlabankans við að tryggja fjármálastöðugleika og heilbrigði fjármálakerfisins." Fræðslan hefur ekki skilað sér; svo mikið er víst. Og ástæðan er sú, að hún fer alls ekki fram. Á Íslandi er sú skoðun nefnilega nokkuð almenn, að rýrnun sparifjár, með því að vextir séu lægri en verðbólga, sé réttlæti. Og ég er ekki bara að tala um pírata, sem telja sparifé almennings í lífeyrissjóðunum fundið fé til að verja til áhugamála sinna. Nei, verkalýðshreyfingin vill, að vextir séu svo lágir, að sparifé félagsmanna rýrni. Og hún vill meira að segja skattleggja tap sparifjáreigenda alveg sérstaklega; auka stórum við eignaupptökuna. Verkalýðsleiðtogarnir og strætóbílstjórinn Erdogan eru nefnilega sömu skoðunar um vexti."
Það var kominn tími til, að verkalýðsformönnum væri sagt til syndanna fyrir einhliða málflutning sinn og fordæmingu á peningastefnunefnd Seðlabankans, og alveg sérstaklega hefur Seðlabankastjóri þá verið í skotlínu þeirra. Í hvert skipti, sem peningastefnunefnd tilkynnir hækkun vaxta, hefja þeir upp raust sína og láta þá eins og vaxtahækkun fylgi einvörðungu kostnaðarauki, en henni fylgir líka leiðrétting á kjörum sparifjáreigenda, eins og Einar S. Hálfdánarson bendir á. Það er einkennilegt, að þessir forystumenn með marga skjólstæðinga skuli ekki gera sér grein fyrir því, að þeir eru staddir í myrkri skilningsleysis á aðgerðum Seðlabankans, og þeir hafa ekki rænu á að leita eftir samtali við bankann, t.d. peningastefnunefnd, um eðli bankans og hlutverk, til að reyna að öðlast innsýn í sjónarmið nefndarinnar.
Frekar vilja þeir þyrla upp moldviðri sökum lögbundinnar launahækkunar æðstu embættismanna, þingmanna og ráðherra, eins og þessar fáu hræður skipti einhverju máli fyrir verðbólguþróunina í landinu. Hvers vegna ætti að skerða launahækkun til þeirra, sem er ekki einu sinni um samin, heldur lögbundin í víðtækri sátt ? Er brennt fyrir það, að nokkuð uppbyggilegt komi frá ASÍ um baráttuna við verðbólguna ? Fyrir því eru þó fordæmi. Ef minnzt er á þjóðarsátt núna, spyrja leiðtogarnir slefandi, hvers vegna þeirra fólk eigi alltaf að bera byrðarnar af því að keyra verðbólguna niður ? Átta þeir sig ekki á afleiðingunum fyrir skjólstæðinga þeirra, ef verðbólgubálið stækkar. Þær eru kreppa, gjaldþrot og fjöldaatvinnuleysi.
Einar S. spurði réttilega: "Verkalýðsleiðtogar eða talsmenn auðmanna ?":
"Fyrirtækin taka lán. Almenningur lánar fé til rekstrar þeirra. Hagsmunir almennings felast í sanngjörnum afrakstri af takmörkuðu sparifé sínu; atvinnurekendur vilja vexti í lágmarki. Þetta er hin svo nefnda "gírun" í rekstri. Nema hvað; fyrirsvarsmenn almennings gera, óbeðnir, kröfu atvinnurekenda að sinni. Sumir meina líklega vel, en aðrir vilja auka ójöfnuð í þágu byltingarinnar. En engir átta sig á staðreyndum. Núllvextir eru draumur eignamannsins. Ósanngirnin blasir við þeim, sem minna mega sín. Svei svo nefndum verkalýðsleiðtogum, sem bregðast sínu fólki."
Þetta er því miður hlutlægt mat á afstöðu háværra verkalýðsformanna til Seðlabankans og aðgerða hans. Seðlabankinn er vinur verkafólks, en vinnur ekki gegn hagsmunum þess. Óvinurinn er verðbólgan og þeir, sem undir henni kynda. Seðlabankinn hefur látið í ljós, að síðustu kjarasamningar séu þar á meðal. Þessu eiga þeir, sem að kröfugerðinni stóðu þá, erfitt með að kyngja, en þeir verða að bíta í það súra epli, enda lá engin vitræn greining á efnahagslegum afleiðingum þessara kjarasamninga fyrir, þegar þeir voru gerðir. Hvernig væri nú að sjá að sér, ná meiri árangri í þágu umbjóðenda sinna til lengdar í næstu kjarasamningum og láta gera hlutlæga greiningu á því, hversu há almenn launahækkun í landinu má verða án þess að fóðra verðbólguna ?
Jeremy Hunt, fjármálaráðherra Bretlands, gerir sér ljósa grein fyrir skaðsemi og hættum, sem af óhóflegri verðbólgu getur stafað, en ársverðbólga á Bretlandi var 10,1 % fram að maí 2023. Hann sagði í maí 2023:
"Efnahagskreppa í landinu er byrði, sem vert væri að bera, til að ná niður verðbólgu, því að hún orsakar óstöðugleika í þjóðfélaginu."
Með því að beita ráðum, sem duga á verðbólguna, munu landsmenn uppskera ríkulega í kjölfarið. Þetta ber að hafa að leiðarljósi, en ekki hjáróma tækifærissinna, sem fastir eru í hugarfari höfrungahlaups og nöldurs um, að grasið sé grænna hinum megin.
Forystugrein Morgunblaðsins 26. maí 2023 nefndist:
"Vítahring verðbólgu verður að rjúfa".
Þar stóð m.a.:
"Landsmenn allir þekkja áhrif verðbólgunnar, þó [að] ekki væri nema af strimli helgarinnkaupanna. Og lántakendur, þeir sjá víst áhrif vaxtahækkana líka. En verðbólgan er verri en aðeins að þessu augljósa leyti; hún er ömurlegur skaðvaldur, sem sóar og eyðir verðmætum, skekkir verðmætamat bæði fólks og fyrirtækja, gerir allar áætlanir ómarkvissar og nagar rætur lífskjara þeirra og velsældar, sem okkur hefur auðnazt að byggja upp á umliðnum árum."
Þetta er í anda þess, sem haft er eftir Jeremy Hunt hér að ofan og gerir að verkum, að verðbólga og neikvæðir raunvextir sparnaðar eru óalandi og óferjandi. Þeir, sem fordæma verðbólguhamlandi aðgerðir, hvaðan sem þær koma, eru þá um leið óalandi og óferjandi. Allir vita, hvar þá er að finna.
Téðri forystugrein lauk þannig:
"Þá er boltinn eftir hjá verkalýðshreyfingunni. Hún hefur heimt gríðarlegar kaupmáttarhækkanir undanfarin ár, en talar eins og þar sé eftir enn meiru að slægjast. Við blasir, að í þessu árferði er það fráleitt og að barátta launþega á að snúast um að varðveita fenginn kaupmátt. Það gerist aðeins og einvörðungu með því að endurheimta verðstöðugleika."
Varanleg kaupmáttaraukning verður aðeins í kjölfar samsvarandi framleiðniaukningar fyrirtækjanna. Hún fæst með fjárfestingum fyrirtækjanna í nýrri tækni, oftast aukinni sjálfvirknivæðingu, og með skipulagsbreytingum. Hver starfsmaður afkastar meiru eftir breytinguna, en er alls ekki alltaf undir meiru líkamlegu eða andlegu álagi. Þess vegna er auðvitað engin sanngirni í því, að verkalýðshreyfingin geti í samningaviðræðum um kaup og kjör, jafnvel með hótunum um ófrið á vinnumarkaði, hrifsað til sín allan ávinninginn og jafnvel meira til. Það er rán, og refsingin er verðbólga og jafnvel atvinnuleysi.
"Vera má, að verkalýðsforystan skelli við því skollaeyrum og vera má að hún nái að berja í gegn miklar kauphækkanir með ófriði á vinnumarkaði. En þá gildir einu, hvort launahækkanirnar nema 5 % eða 500 %, allt mun það fara í verðbólgu, en ekkert í kaupmátt. Sömuleiðis munu mörg fyrirtæki þá ekki sjá aðra leið en uppsagnir, en önnur munu leggja upp laupana. Það er óhugsandi, að verkalýðshreyfingin vilji hafa það á samvizkunni."
Vinnubrögðin, sem ritstjórn Morgunblaðsins lýsir þarna og verkalýðsforystunni er trúandi til, eru með ólíkindum á 21. öldinni og sýna, að hún hefur ekkert lært af sögunni og að hún er ófær um að tileinka sér vinnubrögð hlutlægrar gagnaöflunar og útreikninga á sjálfbærri skiptingu þjóðarkökunnar (verðmætasköpunar fyrirtækjanna) að teknu tilliti til framleiðniaukningar. Á meðan þetta ófremdarástand varir, algerlega að óþörfu, verða skjólstæðingarnir í herkví óðaverðbólgu og hárra vaxta. Formenn verkalýðsfélaganna verða að sjá að sér og marka leiðina í samstarfi við Samtök atvinnulífsins til betra lífs.
"Við svo búið eru kjaraskerðingar óumflýjanlegar; þær eru þegar hafnar. Valið snýst um að leggja þær tímabundið á sig til þess að ná tökum á verðbólgu og auka kaupmáttinn aftur, eða að láta kaupmáttinn brenna upp á verðbólgubáli stjórnlaust án fyrirsjáanlegs enda.
Það er þess vegna, sem allir verða að leggjast á árar með Seðlabankanum við að ráða niðurlögum verðbólgunnar. Líkt og í þjóðarsáttinni má enginn skerast úr leik."
Verkalýðsforystan hefur ekki að ófyrirsynju fengið harða gagnrýni fyrir óraunsæi og ábyrgðarleysi. Þorsteinn Víglundsson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra, fer ekki með fleipur, þegar hann skýrir frá niðurstöðu sinnar greiningar samkvæmt Staksteinum 1. júní 2023:
"Hann rökstuddi, að vaxtahækkanir og verðbólga hér á landi væru í boði verkalýðshreyfingarinnar: "Raunlaun hafa hækkað hér á landi um meira en 8 % á síðustu 4 árum á sama tíma og raunlaun helztu samanburðarríkja hafa staðið í stað eða lækkað. Á Norðurlöndunum hafa raunlaun t.d. lækkað lítillega. Þar hefur þó mælzt framleiðnivöxtur á sama tíma og framleiðni hér hefur staðið í stað.""
Þetta segir allt um, hver brennuvargurinn er. Hann er nú mættur á slökkvistað og reynir að hindra slökkvistörf.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Kjaramál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ertu ekki að gleyma aðal vágestinum- Verðtryggingunni?
Jósef Smári Ásmundsson, 11.6.2023 kl. 12:46
Hygg fáa sparendur eða lífeyrisþega telja verðtrygginguna vágest. Án hennar væru lífeyrissjóðirnir ekki svipur hjá sjón, og lífeyrisþegar væru þung byrði á ríkissjóði, eins og í mörgum löndum, en ekki hér. Hér greiða þeir stórfé í opinbera sjóði í hvert sinn, sem greitt er úr lífeyrissjóði, nema í undantekningartilvikum hjá ungu fólki, sem geta notað séreignarsparnað til fjárfestingar í fyrsta húsnæði. Nú leita lánþegar í verðtryggð lán til að draga úr greiðslubyrðinni.
Bjarni Jónsson, 11.6.2023 kl. 18:01
Sæll Bjarni.
Hvað stendur ívegi fyrir að taka út húsnæðisliðinn úr neytsluvisitölunni,
Mér skilst að erlendis sé húsnæðisliðurinn ekki reiknaður sem neysla í útreikningi verðbólgu útreikningum
Hallgrímur Hrafn Gíslason, 12.6.2023 kl. 08:25
Sæll, Hallgrímur;
Ég held, að húsaleigukostnaður sé sums staðar veginn inn í neyzlukostnaðarvísitölu, ef ekki er miðað við fasteignaverðið. Hér hefur húsnæðisverð vissulega áhrif á framfærslukostnaðinn, því að fasteignagjaldið er miðað við fasteignamat, sem dregur dám af markaðinum. Fyrir þá, sem eru að kaupa sína fyrstu húseign eða stækka við sig, hefur húsnæðisverð mikil áhrif á afkomuna, en það er hins vegar spurning, hversu mikið húsnæðisliðurinn á að vigta inni í heildarvísitölunni.
Bjarni Jónsson, 12.6.2023 kl. 09:46
https://www.asi.is/frettir-og-utgafa/frettir/almennar-frettir/verdbolga-haekkar-thridja-manudinn-i-rod/
Stundum virðist húsnæðisliðurinn hafa mikil áhrif til hækkunar verðbólgu, Sem skírist af hækkunar húsnæðisverðs vegna vönntunar a húsnæði
Hallgrímur Hrafn Gíslason, 12.6.2023 kl. 10:09
Það er alveg rétt. Húsnæðisliðurinn knýr vísitöluna oft áfram, og nú í um áratug stafar það aðallega af lóðaskorti af völdum óstjórnar í Reykjavík. Verðbólgan í Sviss er núna um 2,5 %. Þar sjá yfirvöld í kantónunum til þess, að lóðaskorti er ekki leyft að myndast.
Bjarni Jónsson, 12.6.2023 kl. 17:48
Takk fyrir þessi góðu skrif, Bjarni:
"Það er engum til hagsbóta, að almennir kjarasamningar séu umfram framleiðniaukningu fyrirtækja almennt. Það, sem umfram er, mun brenna upp á verðbólgubáli. Út frá gögnum Hagstofunnar er hægt að leggja mat á meðalsvigrúm til launahækkana, en þessi gögn eru vannýtt í undirbúningi verkalýðsins að kjarasamningum. Þar liggur hundurinn grafinn."
Hörður Þórðarson, 13.6.2023 kl. 19:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.