Öfugsnúin náttúruvernd

Það tók Orkustofnun 19 mánuði að rýna umsókn Landsvirkjunar um virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun.  Þetta er meira en eitt ár umfram hefðbundinn afgreiðslutíma.  Orkumálastýran var góð með sig og bar fyrir sig, að vönduð vinnubrögð tækju langan tíma.  Það er þó alls ekki algilt, og nægilega vönduð vinnubrögð reyndust í þessu tilviki alls ekki hafa verið viðhöfð.  Það kom í ljós 15.06.2023, þegar virkjunarleyfi Orkustofnunar var í fyrsta skipti í sögunni fellt úr gildi.  Þetta er líka í fyrsta skipti í sögunni, sem raunvísindalega menntaður maður veitir stofnuninni ekki forstöðu.  Þar hafa verkfræðingar yfirleitt veitt forstöðu og farizt það vel úr hendi.  Það er því óskiljanlegt að taka nú þá áhættu að velja stjórnmálafræðing (með einhver orkumálanámskeið í farteskinu) til að leiða þessa stóru og mikilvægu stofnun. Það kann að koma niður á afköstum og gæðum í starfsemi stofnunar, sem fæst við flókin viðfangsefni. 

Morgunblaðið sagði frá þessum válegu tíðindum fyrir jafnvægið í framboði og eftirspurn raforku í landinu, sem hefur nú þegar verið raskað, strax daginn eftir, 16.06.2023, undir fyrirsögninni:

""Sigur náttúruverndar á Íslandi"".

Fréttin hófst þannig:

"Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi úr gildi virkjunarleyfi Landsvirkjunar fyrir Hvammsvirkjun samkvæmt nýjum úrskurði, sem birtist síðdegis í gær.  Orkustofnun gaf út virkjunarleyfi til Landsvirkjunar í efri hluta Þjórsár [Þetta er rangt orðalag.  Átt er við efri hluta Neðri Þjórsár.] í desember á síðasta ári [2022], sem telst nú ógilt.

Í úrskurðinum eru m.a. gerðar athugasemdir við, að Orkustofnun hafi ekki leitað til rétts stjórnvalds, Umhverfisstofnunar, til að fá frekari leiðbeiningar áður en leyfið var gefið út."

Þetta er alveg dæmalaust sleifarlag af hálfu Orkustofnunar.  Þegar nýr Orkumálastjóri var á sínum tíma gagnrýnd fyrir hangsið yfir þessari leyfisumsókn, bar hún því m.a. við, að leita þyrfti svo margra umsagnaraðila.  Nú kemur í ljós, að stofnunin kunni ekki að spyrja réttu spurninganna.  Þetta hefur aldrei gerzt áður og segir margt um faglega þyngd stofnarinnar núna eða kannski óendanlegan léttleika tilverunnar.  Það er engin afsökun, þótt um sé að ræða innleiðingu á reglu Evrópusambandsins (ESB) um verndun á gæðum vatnsfalla.  Sú regla hefur með góðu eða illu lagagildi á Íslandi, og Landsvirkjun var kunnugt um það, en hefur ekki með fullnægjandi hætti tekizt að sýna fram á, að gæði árinnar verði óröskuð með virkjuninni.  Það getur ekki hafa verið ætlun ESB að koma í veg fyrir nýjar vatnsaflsvirkjanir í EES-löndunum.  Slíkt sjónarmið, ef það er fyrir hendi, verður að víkja fyrir þörfinni á raforku úr endurnýjanlegri orkulind. 

"Í úrskurðinum var tekin afstaða til fjölda kæra. Ein þeirra var borin fram af samtökunum Náttúrugrið, Náttúruverndarsamtökum Íslands og Verndarsjóði villtra laxastofna.  Snæbjörn Guðmundsson er formaður Náttúrugriða og var hæstánægður eftir fyrsta lestur úrskurðarins.  Hann telur þetta vera stærsta sigur náttúruverndar á Íslandi í langan tíma.  Honum þykir úrskurðurinn slá á þær raddir, sem segja, að flýta eigi leyfisferlinu og fækka kæruleiðum.  Meira ríði á að gera bragarbót á stjórnsýslunni í kringum leyfisveitingar.  Úrskurðurinn sýni, að hún sé í miklum ólestri." 

Það eru engin hlutlæg, aðeins huglæg, rök fyrir því, að téður úrskurður, sem er reyndar falleinkunn á vinnubrögð Orkustofnunar, sem nýr forstjóri hennar ber ábyrgð á, eigi nokkuð skylt við náttúruvernd.  Það er kolröng skilgreining á náttúruvernd, að hún skili þá aðeins árangri, ef hún kemur í veg fyrir alla nýtingu auðlinda landsins, t.d. orkulindanna.  Slíkt er útúrsnúningur afturhaldssinna á hugtakinu náttúruvernd. Inngrip í náttúruna við gerð Hvammsvirkjunar verða í algeru lágmarki, þar sem rennsli árinnar breytist aðeins á stuttum kafla, og ekki er þörf á miðlunarlóni, því að Þórisvatn þjónar því hlutverki.  Inntakslónið verður í árfarveginum, svo að umhverfisvænni öflun 95 MW inn á landskerfið fyrirfinnst varla á landinu og þótt víðar væri leitað. 

Úrskurðurinn breytir þannig engu fyrir náttúruna á staðnum, en mun seinka orkuskiptunum í landinu og framlengja orkuskortstímabil, sem leiðir til samdráttar í atvinnustarfsemi, minnkunar útflutningstekna og aukinnar olíunotkunar, m.a. hjá hitaveitum og fiskimjölsverksmiðjuna.  Þegar þessar afleiðingar eru hafðar í huga, sést bezt, hversu öfugsnúin og reyndar glórulaus þau viðhorf eru, að téður úrskurður tákni sigur fyrir vernd íslenzkrar náttúru.  Því er þveröfugt farið. 

Úrskurðurinn er skriffinnskuúrskurður, þar sem aðallega er fundið að því, að ekki hafi verið sýnt fram á, að kröfugerð Evrópusambandsins um framkvæmdir í árfarvegum hafi verið fullnægt, og afturhaldið hefur jafnvel kært leyfisveitinguna til ESA-Eftirlitsstofnunar EFTA með framfylgd EES-samningsins.  Það verður fróðlegt að sjá úrskurð ESA.  Allt er þetta leikur blýantsnagara að formsatriðum, og þessi leikur verður þjóðarbúinu dýr og mun valda aukinni mengun í nærumhverfi aukinnar olíubrennslu.  Sigur afturhaldsins er ósigur náttúrunnar. Nánast allir "sigrar" þessa afturhalds hafa orðið bjúgverpill fyrir hagsmuni hins vinnandi manns og viðleitnina að draga úr mengun á Íslandi og að auka hreinleika náttúrunnar. 

"Ísland er bundið af vatnatilskipun Evrópusambandsins, sem hafi lagagildi hérlendis.  Þar er kveðið skýrt á um, að ásýnd straumvatns megi ekki raska.  "Orkustofnun rannsakaði ekki þann þátt af neinu viti áður en hún gaf út leyfið.  Landsvirkjun sótti um undanþágu frá þessari meginreglu, en hún er ófrávíkjanleg samkvæmt dómafordæmum erlendis frá.  Leitað er svo til Umhverfisstofnunar löngu síðar um það mál.  Þetta er stjórnsýsla, sem gengur ekki upp.  Á þessu er málið fellt", segir Snæbjörn."  

Það skortir ekki dómhörkuna hjá græningjanum.  Málið er, að umrædd úrskurðarnefnd hefur hér gerzt kaþólskari en páfinn við túlkun ESB-tilskipunar. Bakgrunnur þessarar tilskipunar ESB er skortur á neyzluhæfu gæða ferkvatni í Evrópu vegna súrs regns og mengaðs frárennslis út í ár og stöðuvötn.  Súra regnið er ekki fyrir hendi á Íslandi, en mengun af völdum lítt hreinsaðs eða óhreinsaðs frárennslis er fyrir hendi, en ógnar þó ekki vatnsbólum landsmanna alvarlega.  Um þessa mengunarhættu verður alls ekki að ræða frá Hvammsvirkjun, því að þar verða ýtrustu mengunarvarnir viðhafðar.  Það væri saga til næsta bæjar, ef ESB væri að setja upp girðingar til að koma í veg fyrir gerð sjálfbærra virkjana á Evrópska efnahagssvæðinu. Ásýndarbreyting Þjórsár vegna Hvammsvirkjunar verður í algjöru lágmarki og að mestu til bóta, enda kemur bílvegur á stífluna, svo að ákjósanlegt verður að njóta fegurðar umhverfisins eftir gangsetningu virkjunarinnar. Téð úrskurðarnefnd hefur ekki séð skóginn fyrir trjánum, og rétt yfirvöld ,orkuráðherra og/eða dómstólar, verða að leiðrétta þennan búrókratíska misskilning strax.  

"Snæbjörn segir, að kæra þeirra hefði líka byggzt á því, að virkjunarleyfið hefði verið byggt á 20 ára gömlu umhverfismati, sem teldist samkvæmt almennri skynsemi vera úrelt plagg.  Náttúrugrið og fleiri samtök hafa lagt fram kæru fyrir Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) um virkjunarleyfið.  Ekki hefur enn verið úrskurðað í því máli.  Snæbjörn þorði ekki að fullyrða, hvaða áhrif úrskurðurinn í gær hefði á þann málarekstur.  Hefði leyfið staðið óbreytt, væri Ísland brotlegt við vatnatilskipun Evrópusambandsins að sögn Snæbjarnar."

Óttalega er þessi röksemdafærsla græningjans rýr í roðinu.  Almenna skynsemi er ekki hönd á festandi án afmörkunar.  Svo er vafalaust á meðal félaga Náttúrugriða, þegar það hentar þeim, en tæpast er það almennt viðhorf á Íslandi, því að mörgum ofbýður nú orðið botnlaus skriffinnskan, sem alls konar framkvæmdaleyfi útheimta.  Skriffinnskan skilar ekki árangri, sem meta má meiri en kostnaðinum nemur af henni.  Landsvirkjun hefur lögin sín megin í þessu, og það er eina gilda viðmiðið.  

Það er athyglisvert, að græningjarnir reyna að sækja rétt sinn til ESA.  Úr því sem komið er verður að telja afar æskilegt að fá fram skoðun ESA á því, hvort tilhögun Hvammsvirkjunar brjóti efnislaga í bága við téða vatnatilskipun ESB, eða hvort um hreinan tittlingaskít sé að ræða í röksemdafærslu Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband