25.6.2023 | 16:37
Kommúnisti lætur höggin ríða á verkalýðnum
Sú gerræðislega ákvörðun matvælaráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, að banna hvalveiðar sumarið 2023 (í júní, júli, ágúst), daginn áður en þær áttu að hefjast, bitnar harkalega á verkafólki, allt að 200 talsins, fjölbreytilega saman settu og námsmönnum þar á meðal. Það er lágmarkskrafa á hendur heildarsamtaka verkamanna, ASÍ, að þau komi nú fram í sviðsljósið með einarða afstöðu með verkafólki, og styðji formann Verkalýðsfélags Akraness, Vilhjálm Birgisson, í baráttu hans fyrir réttindum verkalýðsins gagnvart valdníðslu ríkisvaldsins.
ASÍ ber að fordæma ráðherrann, sem þarna á í hlut, og krefjast afturköllunar hennar á banninu og/eða afsagnar ráðherradóms hennar. Þingmenn hljóta að flytja tillögu um vantraust á þennan ráðherra fyrir vikið. Þetta er ekki í fyrsta skiptið á ferli hennar, sem hún gerist brotleg við lög með valdníðslu sem ráðherra. Málatilbúnaður hennar ber óræk merki óhæfni.
Hvernig er það; skyldu þær stöllur, Katrín og Svandís, nú keppast um að hlæja upp í opið geðið hvor á annarri ? Þannig lýsti önnur eða báðar viðbrögðum sínum, þegar vandræði ber að garði, í fjölmiðlaviðtali fyrir nokkrum árum. Hvers konar lið er þetta, sem stjórnar landinu ? Eiga lög ekki að ganga framar tilfinningum ?
Morgunblaðið birti viðtal við Vilhjálm Birgisson 22.06.2023, 2 dögum eftir að því er virðist kolólöglega ákvörðun þessa alræmda ráðherra undir fyrirsögninni:
"Gerræðisleg ákvörðun".
""Þetta mál lýtur ekki að því, hvort fólk sé með eða á móti hvalveiðum, heldur fyrst og fremst að þessari ákvörðun, sem tekin var 5 mínútum áður en vertíðin átti að hefjast. Hún skaðar mína félagsmenn gríðarlega sem og aðra starfsmenn Hvals hf, sem voru að fara að vinna á þessari vertíð", segir Vilhjálmur.
Það liggur fyrir, að tekjutap þessa fólks vegna ákvörðunar matvælaráðherrans nemur mrdISK 1,2, og er ég þá ekki að tala um launatengd gjöld; þetta eru hreinar tekjur, sem starfsmennirnir verða af með.
Að það skuli vera hægt að taka svona ákvörðun með svona miklum afleiðingum fyrir þá, sem eiga undir þessu, er nokkuð, sem ég trúi ekki að standist lagalega séð", sagði Vilhjálmur."
Það er ekkert, sem bendir til, að þessi ósvífna uppivöðslusemi kommúnistans styðjist við lög. Hér er um illkynjaða valdníðslu ríkisvaldsins að ræða gegn fyrirtæki í löglegum atvinnurekstri og starfsmönnum þess. Þess vegna ber heildarsamtökum verkalýðsins að koma viðkomandi starfsmönnum til hjálpar með róttækri yfirlýsingu gegn ráðherranum. Það verður að sproksetja ráðherra, sem hagar sér með svona dólgslegum hætti.
Hún virðist brjóta stjórnarskrárákvæði um atvinnufrelsi. Hún reisir gjörðir sínar á lögum, sem eiga ekki við, heldur gilda sérlög um hvalveiðar. Það er afkáralegt, að ráðherrann hengir hatt sinn á fagráð Matvælastofnunar, þar sem m.a. situr bullandi vanhæfur siðfræðingur og siðferðispostuli, sem margsinnis hefur opinberlega fordæmt hvalveiðar af takmarkaðri þekkingu þó. Orð slíkra lúða vega ekki meira en hlutlægar rannsóknarniðurstöður Hafrannsóknunarstofnunar, sem rannsakað hefur hvalastofna og veitt ráðleggingar um veiðarnar.
Fagráðið rökstyður ákvörðun sína með tilfinningavellu, sem hægt væri að sjóða saman með hjálp fjölmargra jafnstórra hópa úr slembiúrtaki og hefur alls enga lagalega vigt, enda gerir eini lögfræðingurinn í hópnum fyrirvara. Kommúnistinn er á eins veikum ís og hugsazt getur. Dómgreindarleysið er algert. "Svona gera menn ekki."
""Hann [lögfræðingur í fagráði Matvælastofnunar um dýravelferð] er með bókun við álit fagráðsins, þar sem hann segir, að það sé lögfræðilegt álitamál, hvort gildissviði laga um velferð dýra hafi verið ætlað að ná yfir hvali.
Ég spyr því: Hvað ætla Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn að gera, ef það kemur síðan í ljós, að ekki voru lagalegar heimildir fyrir ákvörðun matvælaráðherra, sem skapað getur ríkissjóði milljarða króna bótakröfu ?
Þetta er spurning, sem þingmenn þessara flokka þurfa að svara. Það er alveg ljóst í mínum huga, að Hvalur hf mun fara fram með bótakröfu, verði þetta niðurstaðan, og að sjálfsögðu verða starfsmenn fyrirtækisins þar undir líka vegna tjóns, sem þeir eru að bíða", segir Vilhjálmur."
Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins tók þegar 22.06.2023 af skarið með andstöðu sína við þetta hvalveiðibann. Þar með er ljóst, að ríkisstjórnin er klofin í málinu, og það eru áhöld um, hvort þingmeirihluti er fyrir hendi um málið. Varaþingmaður VG í NV-kjördæmi hefur tjáð efasemdir sínar, og það yrði horft grannt á það, hvernig þingmenn stjórnarandstöðunnar í NV-kjördæmi verðu atkvæði sínu.
Hinn skeytingarlausi ráðherra um velferð manna ber fyrir sig huglæga og jafnvel tilfinningaþrungna niðurstöðu fagráðs, sem líklega er ekki lögformlegur umsagnaraðili í þessu máli, því að sérlög gilda um hvalveiðar. Ólíkt hefði nú verið viturlegra af þessum öfgafulla ráðherra vinstrisins að sigla á milli skers og báru og takmarka veiðitímann við skilyrði, sem auðvelda skyttunni að vinna sitt verk sómasamlega. Þar má t.d. miða við sjólag og birtuskilyrði.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Kjaramál, Stjórnmál og samfélag, Umhverfismál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.