Suðurnesjalína 2 - hryggilegur aðdragandi

Fagna ber þeim tíðindum, að samkomulag skuli loksins vera í höfn á milli Landsnets og sveitarfélagsins Voga á Vatnsleysuströnd um lagningu viðbótar flutningslínu, 220 kV, frá stofnraforkukerfinu og til Suðurnesja. Svo er að sjá, að hvati að samkomulaginu hafi verið fyrirspurnir til sveitarstjórnarinnar um aðstöðu fyrir starfsemi fyrirtækja, sem þurfa meiri raforku en gamla Suðurnesjalína 1 getur bætt á sig. Það er sorglegt, ef eigingirnin gengur svo langt, að reynt er að hindra uppbyggingu annars staðar á Suðurnesjum, þar sem vitað var af eftirspurn umfram flutningsgetu gömlu línunnar. Þetta vekur spurningar um réttmæti þess að leyfa einstökum sveitarfélögum að komast upp með aðrar eins tafir og hér hafa orðið, enda tíðkast slíkt yfirleitt ekki á hinum Norðurlöndunum. 

Nú er þó komin farsæl lausn, sem veitir Vogum og öðrum sveitarfélögum á Suðurnesjum, fyrirtækjum og stofnunum (Isavia) möguleika til eflingar og viðgangs og fjölgar ekki flutningslínum til Suðurnesja, því að gamla 132 kV línan verður grafin niður, þótt Landsnet telji slíkt draga úr rekstraröryggi þessarar flutningsleiðar. 

Morgunblaðið greindi frá þessu 1. júlí 2023 undir fyrirsögninni:

 "Vogar samþykkja Suðurnesjalínu 2".

Fréttin hófst þannig:

"Bæjarstjórn Voga samþykkti samhljóða í gær lagningu Suðurnesjalínu 2 um land sveitarfélagsins á bæjarstjórnarfundi.  Landsnet og sveitarfélagið hafa um árabil deilt um, hvernig eigi að leggja línuna.  Landsnet vildi gera Suðurnesjalínu 2 að loftlínu, en sveitarfélagið vildi breyta leiðinni og hafa línu í jörð.  Samkomulagið, sem samþykkt var í gær [30.06.2023], felur í sér, að Suðurnesjalína 2 verði loftlína, en Suðurnesjalína 1 verði tekin niður og lögð í jörðu."

Það eru raffræðileg og kostnaðarleg rök fyrir þeirri afstöðu Landsnets að miða frá upphafi við 220 kV loftlínu.  Sveitarfélagið hafði ekki næga sérfræðiþekkingu á sínum snærum til að leggja mat á þessi rök, heldur tefldi fram tilfinningum um breytta ásýnd, sem samt var ekki svo mjög breytt vegna Suðurnesjalínu 1, sem uppi hefur verið í áratugi.  220 kV jarðstrengur tekur mikið rými í jörðu vegna öryggislegs  helgunarsvæðis yfir og til beggja handa og talsvert rask verður á yfirborði vegna graftrar og umferðar vinnuvéla.  Strengur af þessu tagi framleiðir sjálfur mikið launafl, rýmdarafl, sem veldur spennuhækkun hans, sem verður að vega á móti með spanafli frá spanspólum, sem þyrfti að raðtengja við strenginn í aðveitustöðvum á báðum endum og líklega á einum stað á leiðinni.

"Guðmundur [Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets] bendir á, að gífurlega mikil eftirspurn sé frá atvinnurekendum, sem vilja hefja uppbyggingu á ýmiss konar rekstri á Reykjanesinu.  Um þriðjungur fyrirspurna, sem Landsneti berast, séu frá fyrirtækjum, sem vilja hefja starfsemi á Reykjanesinu, en slíkt hafi þurft að takmarka vegna rafmagnsöryggis og takmarkana á flutningsgetu án Suðurnesjalínu 2.  Hann segir, að t.d. verði landeldi á svæðinu aukið verulega á næstu árum, eftir að Suðurnesjalína 2 er komin í gagnið.  

"Hér eru aðstæður mjög ákjósanlegar fyrir ýmsa starfsemi.  Landeldi sem dæmi.  Það er lífefnaiðnaður hérna, sem er að þróast, gagnaver og ýmislegt annað, s.s. hleðslustöðvar fyrir rafmagnsbíla."  

Óhætt er að fullyrða, að tafirnar á Suðurnesjalínu 2 hafa valdið tugmilljarða ISK tekjutapi undanfarin 10 ár.  Mikil atvinnutækifæri og þróunarmöguleikar atvinnulífs hafa farið forgörðum vegna veiks stjórnkerfis, sem er berskjaldað gagnvart kærugleði afturhaldssinna og sérvitringa, sem vita í raun lítið, hvað þeir eru að gera, en þykjast vera verndarar náttúrunnar.  Eðli náttúrunnar hérlendis er þó ekki stöðugleiki og varðveizla þess, sem er, heldur stöðugar breytingar, ekki sízt á eldbrunnu Reykjanesinu.  "Náttúruverndarar" eru margir hverjir án jarðsambands. Eiga þeir endalaust að komast upp með að þvælast fyrir sjálfsögðum framförum ?

"Gunnar Axel [bæjarstjóri sveitarfélagsins Voga] segir, að ekki sé um fullnaðarsigur að ræða, en tekur þó fram, að niðurstaða hafi náðst, sem komi til móts við sjónarmið beggja aðila.  Hann fagnar því, að tekizt hafi að verja ásýnd svæðisins."

Hvernig á að verja "ásýnd svæðisins", ef hraun tekur að renna til norðurs í átt að Reykjanesbraut ?  Má þá ekki ryðja upp varnargörðum til að stýra rennslinu ?  Er grundvallarmunur á "ásýnd svæðisins" með eina 220 kV línu um það, en eina 220 kV línu og gamla 132 kV línu, sem er miklu minni en hin.  Þessi málflutningur heldur ekki vatni í ljósi alls herkostnaðarins. Baráttan var glórulaus. 

"Þetta er kjarni samkomulagsins.  Í stað þess, að það verði hér 2 loftlínur, verður aðeins ein, sem kemur til móts við meginsjónarmið bæjaryfirvalda, sem er að draga sem mest úr ásýnd þessa verkefnis.  Þetta er auðvitað svæði, sem er gátt allra erlendra ferðamanna í landið."

Þarna er vitleysan kórónuð.  Milljarðatugir ISK hafa farið í súginn vegna erlendra ferðamanna, sem bæjarstjórnin í Vogum ímyndar sér, að láti sig einhverju skipta, hvort álengdar frá Reykjanesbraut sést ein stór háspennulína eða ein stór og ein lítil.  Þetta fólk, sem kemur til eins dýrasta ákvörðunarstaðar ferðamanna í heiminum, kemur úr umhverfi, þar sem eru ekki 2 háspennulínur inn að þéttbýli, heldur skógur af risastórum 400 kV og þaðan af stærri loftlínum.  Heimóttarskapurinn ríður ekki við einteyming.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband