5.8.2023 | 13:31
Hernaðarbrölti Rússlands verður að linna
Með hernaðarbrölti sínu í Úkraínu frá 24.02.2022 hafa Rússar staðfest, hversu frumstæðir þeir eru hernaðarlega og algerlega tillitslausir um örlög varnarlausra borgara og sinna eigin óbreyttu hermanna. Gjörspilltir og siðlausir stjórnendur rússneska hersins og klíkan í Kreml láta sig engu skipta, hversu margir varnarlausir borgarar Úkraínu falla eða særast, og þeir etja hermönnum sínum út í opinn dauðann. Jafnvel er stór stífla vatnsorkuvers sprengd í loft upp, og stærsta kjarnorkuver Úkraínu er í öryggislegu uppnámi mánuðum saman.
Herkænsku eða nútímalegri herfræði er ekki fyrir að fara hjá Rússaher. Allt er þar kunnuglegt frá heimsstyrjöldunum og hernaðinum í Afganistan og Sýrlandi. Flugher Rússa hefur mistekizt að ná yfirráðum í lofti, og herþotur Úkraínumanna eru of fáar og úreltar frá Ráðstjórnartímabilinu til að þær geti haft í fullu tré við þær rússnesku. Þess vegna hafa herirnir grafið sig niður í skotgrafir, eins og tíðkuðust í Fyrri heimsstyrjöldinni.
Öðru máli mun gegna, þegar úkraínski flugherinn tekur að beita hinum öflugu og fjölhæfu bandarísku orrustuþotum, F16. Úkraínumenn munu þá öðlast yfirráð í úkraínskri lofthelgi, og þannig munu þeir geta beitt bryndeildum sínum af fullum þunga, en þeim hefur ekki verið beitt í neinum mæli enn þá. Þá verður rússnesku glæpahyski og drykkjurútum sópað út úr Úkraínu, og landamærin frá 1991 endurheimt. Hvað þá verður um stórrússneska prumpið er óvíst, en það mun þó líklega ekki bera sitt barr eftir þetta. Óþarft er að gera því skóna, að bylting hugarfarsins muni eiga sér stað og að Rússar muni taka upp lýðræðislega stjórnarhætti. Það gætu hins vegar Hvít-Rússar gert hjá sér.
KGB-karlfauskurinn frá Leningrad, nú Sankti-Pétursborg, hefur hótað að beita kjarnorkuvopnum, ef ósigur rússneska hersins blasir við. Það er eintómur derringur fantsins. Bandaríkjamenn hafa látið rússnesku valdaklíkuna vita, að þá muni NATO-flugflotinn taka völdin í rússneskri lofthelgi og leggja í rúst, það sem honum sýnist. Kínverjar munu og hafa varað fantinn í Kreml við slíku athæfi, og hann sjálfur er of huglaus til að þora að storka eigin örlögum með þeim hætti.
Nú hefur þessi sami siðblindingi neitað að framlengja leyfi Úkaínumanna til að skipa matvörum út í hafnarborgum sínum og að tryggja flutningaskipum frið á leiðinni yfir Svartahafið. Hann veit, að afleiðingin verður hungursneyð í Afríku, en hann skeytir engu um mannslíf og hefur aldrei gert. Það, sem fyrir honum vakir, er að skapa flóttamannaöldu til Evrópu, eins og hann gerði um árið frá Sýrlandi með því að sprengja upp borgir þar. Illmennið svífst einskis.
Joschka Fischer, fyrrverandi leiðtogi þýzkra græningja og fyrrverandi utanríkisráðherra Þýzkalands, viðrar mikils verð þýzk sjónarmið til grimmdarlegs hernaðar Rússlands í Evrópu, sem hófst með árás á austurhéruð Úkraínu og Krím 2014 og alls herjar innrás 24.02.2022 með stefnu Rússahers á Kænugarð. Greinin bar vafasama fyrirsögn m.v. efnistökin:
"Aukin hætta er af veikingu Rússlands".
Þessu máli er allt öðru vísi varið. Það mun stafa áframhaldandi stórhætta af útþenslustefnu Rússlands, ef nú verður tekið á þeim með silkihönzkum. Til að tryggja frið og velsæld í Evrópu eftir föngum á næstu áratugum verða Vesturveldin að hrista af sér slenið, hætta að hlusta á bullið úr Kreml og láta Úkraínumönnum hið allra fyrsta í té vopnin og þjálfunina, sem þeir fara fram á, til að gera þeim kleift að hrekja illfyglin heim til sín og endurreisa þar með landamærin frá 1991. Síðan þarf strax í kjölfarið að verða við ósk Úkraínustjórnar um aðild að NATO.
Rússland hefur opinberað ógeðslegt eðli sitt, og þegar hættunni af kínverska drekanum er bætt við, verður ljóst, að lýðræðisríkin verða að vígbúast. Það gera þau bezt með auknum fjárveitingum til landvarna og fjárfestingum í hátæknibúnaði í því skyni.
"Hauslaust stríð Rússa í Úkraínu hefur geisað í nærri 1,5 ár, og glæpsamlegt framferði innrásarinnar hefur ekki breytzt.
Stórt kjarnorkuveldi [gjörspillt með allt í niðurníðslu-innsk. BJo] vill neita nágranna sínum - "bræðraþjóð" um áður viðurkenndan tilverurétt. Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hefur valið að heyja landvinningastríð. Ef hann nær markmiðum sínum, verður Úkraína innlimuð í Rússland og hverfur af kortínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki.
En með hverri vikunni, sem líður, bendir sífellt [fleira] til, að áætlanirnar hafi snúizt í höndunum á honum. Langt frá því að skila skjótum sigri er "sérsök hernaðaraðgerð" Pútíns orðin að blóðugu klúðri og þrautagöngu, sem Rússar gætu allt eins tapað. Þótt "aðgerðin" hafi vissulega kostað stórar fórnir í Úkraínu, hefur hún einnig valdið almenningi í Rússlandi miklu tjóni."
Menn verða að gera sér grein fyrir því, að við miskunnarlausa fasistastjórn í Kreml er að eiga og að þessi lýsing þýzka útanríkisráðherrans fyrrverandi á sér hliðstæðu í Þriðja ríki Adolfs Hitlers. Leifturstríð Þriðja ríkisins voru þó árangursrík í byrjun, en í höndum afturúrkreistinga frumstæðs Rússlands alger bögglingur. Afleiðingin af landvinningastefnu nazistastjórnarinnar í Berlín, sem háð var undir formerkjum þarfar yfirburðakynstofns fyrir "Lebensraum", reyndist alger tortíming þessarar hugmyndafræði, og eftir lá Þýzkaland í rúst.
Rússland þykist nú heyja stríð til að uppræta nazisma í Úkraínu. Þetta bull á sér sögulegar skýringar, sem Pútín hefur kosið að draga fram til að kynda undir þjóðernistilfinningum Rússa, sem misnotaðar hafa verið til að koma því inn hjá þeim, að þeir eigi að ráða yfir öllum slavneskum þjóðum og Eystrasaltsþjóðunum að auki hið minnsta. Þessar sögulegu rætur eru frá 1941, frá upphafi "Operation Barbarossa" í júní það ár. Þá sáu frelsishetjur Úkraínu sér leik á borði að koma ár sinni fyrir borð hjá Wehrmacht og þýzkum stjórnvöld með því að bjóða fram aðstoð sína í hernaðinum gegn Ráðstjórnarríkjunum gegn því, að Úkraína fengi sjálfstæði eða losnaði a.m.k. úr krumlum Moskvustjórnarinnar.
Þetta hentaði þó ekki kynþáttakenningasmiðum Þriðja ríkisins, sem voru algerlega úti að aka, og í hópi herforingja í Wehrmacht voru menn, sem eygðu gagnið, sem Wehrmacht gæti af þessu haft, enda Úkraínumenn alltaf verið orðlagðir hermenn. Pólitískir skussar fengu því svo framgengt, að Abwehr, leyniþjónusta Wehrmacht, handsamaði forystumenn uppreisnar Úkraínumanna.
Sjálfstæðisvitundin hefur alla tíð verið fyrir hendi á meðal Úkraínumanna frá því, að þeir illu heilli rötuðu undir illskeyttan hramm zarsins í Moskvu. Ef andskotinn sjálfur hefði ráðizt á Ráðstjórnarríkin 22. júní 1941, hefðu Úkraínumenn leitað bandalags við hann gegn ógnarstjórninni í Kremlarkastala.
"Á örlagatímum uppreisnar Prígosíns reyndist Rússland Pútíns vera það, sem gagnrýnendur hans höfðu lengi haldið fram: mafíuríki, sem skortir öfluga innviði - en er því miður með eitt stærsta kjarnorkuvopnabúr heims.
Þetta var stund sannleikans, og vísun Pútíns til ársins 1917 og falls keisarans var reyndar mjög viðeigandi. Þessi atburður minnir sannarlega á atburðina það ár, sem leiddu ekki til einnar, heldur tveggja byltinga - fyrst í febrúar og síðan í október."
Saga Rússlands er hörmuleg. Þeir báru aldrei gæfu til að þróa stjórnarfar í átt til lýðræðis, eins og annars staðar í Evrópu, þar sem valddreifing átti sér stað frá konungi/keisara til aðalsmanna, sem smám saman lögðu meiri völd í hendur héraðsþinga og/eða þjóðþings. Í Rússlandi hafði zarinn alla tíð öll völd að hætti Mongólanna, sem réðu yfir Rússum í 300 ár, og aðallinn stóð að skattheimtu fyrir zarinn, en lýðurinn var einskis metinn og valdalaus. Þess vegna voru byltingarnar 1917 ferð Rússa úr öskunni í eldinn, og enn stjórnar zarinn, nú með hjálp ólígarka (auðmanna), rotnu þjóðfélagi, þar sem lýðurinn má síns einskis, enda eru þjóðfélagsvandamálin svakaleg. Rússar eiga mjög erfitt með að fóta sig í nútímanum og eru engan veginn í stakk búnir til að ráða yfir nokkurri annarri þjóð, enda hafa þeir ekkert fram að færa annað en mannhatur og spillt hugarfar.
"Því nær sem [dregur að endalokunum], [þeim mun] meiri verður hættan á, að Kreml grípi til órökrænna aðgerða, eins og að fyrirskipa notkun kjarnorkuvopna. Uppreisn Prígósíns gefur okkur sýnishorn af ringulreiðinni, sem bíður.
Næstum allt er hugsanlegt núna, frá upplausn Rússneska sambandsríkisins til uppgangs annarrar öfgaþjóðernisstjórnar með drauma nýkeisarasinna um endurreisn keisaraveldisins."
Í heimsstyrjöldinni síðari greip nazistastjórnin í Berlín aldrei til gashernaðar, og hún lagði meiri áherzlu á þróun flauga Werner´s von Braun á Penemünde en á að framleiða kjarnorkusprengju. Það er margt sameiginlegt með fyrrverandi einræðisherra í Berlín og núverandi einræðisherra í Moskvu. Báðir bjuggu/búa við algera yfirburði andstæðingsins í lofti með undantekningu fyrstu ára Heimsstyrjaldarinnar síðari. Ógnin, sem þeim stafaði/stafar af miskunnarlausri hefnd úr lofti er svo mikil, að hvorugur þorði/þorir að grípa til gjöreyðingarvopna. Rússar eru þó uppvísir af að beita fosfórsprengjum á óbreytta borgara Úkraínu, svo að ekki sé nú minnzt á klasasprengjurnar, sem þeir hafa beitt á óbreytta borgara, og nú fá rússneskir hermenn að finna til tevatnsins með þeirri sprengjutegund líka, þótt margfalt hærra hlutfall bandarískra klasasprengja (97 %) springi við lendingu en þeirra rússnesku (40 % - 50 %).
Það er rétt hjá J. Fischer, að þróun mála innan Rússneska sambandsríkisins er ófyrirsjáanleg núna. Það á ekki að draga úr einbeitingu Vesturveldanna við það verkefni að efla úkraínska herinn svo mjög, að hann nái að ganga á milli bols og höfuðs á rússneska hernum með lágmarks mannfalli í eigin röðum og reka steppuskrílinn austur fyrir lögmæt landamæri Úkraínu frá 1991. Það yrði mesta friðaraðgerð, sem nú er hugsanleg fyrir Evrópu. Síðan getur rotin yfirstétt Rússlands borizt á banaspjótum.
Stuðningsfólk Kremlverja á Vesturlöndum hafa þar verið nefndir "useful idiots" sem á íslenzku mætti kalla gagnlega grautarhausa - ga-ga. Þeir finnast einnig á Íslandi. Málflutningur þeirra er vellingur úr áróðursvél Kremlar, og undirtónninn er Bandaríkjahatur og fyrirlitning á vestrænu stjórnskipulagi og lifnaðarháttum. Ga-ga halda því fram, að landvinningahernaður Rússa gegn Úkraínu sé NATO að kenna. Það er álíka gáfulegur málflutningur og brennuvargsins, sem reynir að koma sökinni á eldvarnir og slökkvilið.
Yfirleitt er ekki heil brú í málflutningi ga-ga fremur en í söguskýringum siðblindingjans í Kreml. Vilji úkraínsku þjóðarinnar er alltaf sniðgenginn í málflutningi ga-ga. Yfirgnæfandi meirihluti hennar, óháð móðurmáli, vill leggja allt í sölurnar til að losna úr klóm rússneska bjarnarins, sem alla tíð hefur reynt að eyða menningu Úkraínu og kúga íbúana á hinn svívirðilegasta hátt. Mál er, að linni og að Úkraínumenn fái frið og öryggi til að lifa sem frjálsir menn og konur í eigin landi, yrkja hina frjósömu jörð sína og nýta aðrar auðlindir í lögsögu sinni og eigið hugvit til að endurskapa þjóðfélag sitt að eigin höfði með vestræn gildi í öndvegi. Til þess þurfa þeir vernd NATO og til að njóta hennar verður land þeirra að vera þar fullgildur aðili. Það verður verðugt viðfangsefni NATO að að vernda þá og að halda austrænum steppudýrum í skefjum.
Vesturveldin eiga alls ekki að ljá eyra við gjamminu úr Kreml, ekki frekar en ætti að leyfa sjúklegum brennuvargi að leggja orð í belg um eldvarnir, hvað þá að skipuleggja þær. Rússar eru alls staðar til bölvunar, og þeir geta einskis trausts notið.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál | Facebook
Athugasemdir
Var einhver að éta rúv-sveppi?
Guðjón E. Hreinberg, 5.8.2023 kl. 18:08
Smellin athugasemd Guðjón.
Jónatan Karlsson, 6.8.2023 kl. 11:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.