Sjálfhelda orkumálanna

Það er búið að afvegaleiða umræðuna um hefðbundna íslenzka virkjanakosti með glópagullsrausi um vindknúna smárafala á himinháum súlum. Nýr orkumálastjóri hefur lagt ruglandanum lið með innantómu sífri um nauðsyn vandvirkni við útgáfu virkjanaleyfa til vatnsaflsvirkjana. Undir hennar stjórn gerðist það þó í fyrsta skipti í sögu Orkustofnunar, að virkjunarleyfi hennar var fellt úr gildi (Hvammsvirkjun) vegna ófullnægjandi umfjöllunar stofnunarinnar um umsókn Landsvirkjunar um virkjunarleyfi.  Samt tók stofnunin sér lengri tíma en nokkru sinni áður (18 mánuði) til að gefa út þetta leyfi og braut þannig setta tímafresti í lögum.  Samt klifar þessi Orkumálastjóri á nauðsyn vandvirkni. Allt leiðir þetta til falleinkunnar þessa Orkumálastjóra, enda vita þeir, sem vita vilja, að innan Orkumálastofnunar er nú hlutfallslega takmörkuð fagleg geta til að rýna umsókn um verkefni á borð við Hvammsvirkjun í samnburði við viðkomandi verkfræðistofur landsins og Landsvirkjun sjálfa. Það er þess vegna borin von, að rýni Orkustofnunar geti bætt einhverju verðmætu við hönnunaráformin.  Ef pulsusjóðari fer að rýna verk Michelin-kokks, er vart mikils að vænta, eða hvað ?

Ábyrgir aðilar samfélagsins vita, hvernig í pottinn er búið í orkumálum landsins og tengsl þeirrar ömurlegu stöðu við montplaggið með háleita nafninu: "Loftslagsstefna Íslands".  Sem betur fer skiptir engu máli fyrir loftslag jarðarinnar, hvernig mál skipast með þessa loftslagsstefnu, en það skiptir mjög miklu máli fyrir efnahag landsins, hvernig gengur að uppfylla raforkuþörf þjóðarinnar á hverjum tíma.  Í þeim málum er mikið raupað, en ekkert gert, sem sköpum skiptir við að höggva á hnútinn að hætti Alexanders, mikla, forðum.

Morgunblaðið hefur eðlilega miklar áhyggjur af því, hvernig stjórnmálamönnum hefur tekizt að leiða þessi mál í slíkt öngstræti, að ekki sér til lands.  Löggjöfin kemur að utan, og hentar einfaldlega ekki aðstæðum hér.  Þá var öldin önnur, er Gaukur bjó á Stöng.  Forystugrein Morgunblaðsins 12. ágúst 2023 bar einfalt og sláandi heiti: 

"Orkuleysi".

Hún hófst þannig:

"Orkumál hafa lengst af verið í góðu horfi hér á landi, eftir að menn báru gæfu til að hefja miklar virkjanir, jafnt vatnsaflsvirkjanir sem jarðhitavirkjanir.  Það var hvort tveggja mikið framfaraskref, og þurfti bæði framsýni og áræði til að ráðast í ýmis stórvirki á þessum sviðum, einkum í upphafi, þegar þetta var algerlega nýtt hér á landi, þekking afar takmörkuð og fjármagn af skornum skammti. 

Með dugnaði hafðist þetta, jarðhitinn var nýttur til húshitunar og síðar raforkuframleiðslu, og vatnsaflið var virkjað til raforkuframleiðslu og orkan flutt til stóriðjuvera, smærri fyrirtækja og heimila.  Þessu fylgdu stórkostlegar breytingar, hvort sem litið er til heimila landsins, atvinnulífs eða efnahags í heild.  Enginn getur efazt um, að hefði ekki verið ráðizt í þær virkjanir, sem gert hefur verið, væru lífsgæði hér allt önnur og lakari en við þekkjum."

Þeir, sem séð hafa ljósmyndir af Reykjavík frá um 1930, þar sem kolamökkinn lagði yfir bæinn, átta sig vel á, hvað höfundur forystugreinarinnar á við.  Að setja núlifandi menn inn í aldargamalt umhverfi er alltaf hæpið, en menn geta ímyndað sér, hvernig gengið hefði að losna við kol og olíu úr eldstónni, til ljósmetis og upphitunar, ef ládeyður núverandi ríkisstjórnar væru við völd, og allt það óskilvirka og að mörgu leyti óþarfa skriffinnskubákn, sem nú er við lýði, hefði þá haft tækifæri til að kasta skít í tannhjólin. 

Á öllum tímum hafa nefnilega úrtöluraddir verið við lýði. Munurinn er bara sá, að þá var ríkisbáknið minna og bremsustofnanir ekki fyrir hendi.  Þegar við nú horfum á framkvæmdir fyrri tíma, hvort sem er í Elliðaánum, Soginu, á Þjórsár/Tungnaársvæðinu eða annars staðar á landinu, verður ekki annað sagt en frábærlega hafi til tekizt án Skipulagsstofnunar, Umhverfisstofnunar, úrskurðarnefnda eða Orkustofnunar í sinni núverandi mynd.  Þingmönnum hefur tekizt, sumpart með tilstyrk Brüsselvaldsins eftir 1993, að flækja lagaumhverfi orkumálanna meira en góðu hófi gegnir, þannig að þar gerist nú lítið yfir 10 MW, nema endurbætur og stækkanir eldri virkjana, sem eru góðra gjalda verðar til að bæta úr aflskorti (toppafl). 

"Hvað svo sem segja má um þau markmið [um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda - innsk. BJo], raunsæi þeirra eða, hvernig þátttöku Íslands í þeim er háttað, þrátt fyrir að hér sé allt með allra hreinasta móti, þá er undarlegt, að á sama tíma og ofuráherzla er lögð á þessi markmið, virðist varla nokkur vegur að koma nýjum íslenzkum virkjunum af stað."

  Þetta er ein mesta þversögn íslenzkra stjórnmála um þessar mundir og stafar af óheilindum stjórnmálamanna, sem sífellt eru með umhverfisvernd og "hamfarahlýnun" á vörunum.  Þau meina ljóslega ekkert með því tali, enda skiptir miklu meira máli fyrir veðurfar og loftslag á jörðunni, hversu mikil jarðeldavirkni er hér en hvað þær hræður, sem á landinu búa, taka sér fyrir hendur.  Öll er loftslagsumræðan blásin út yfir öll eðlileg mörk og koltvíildisstyrk andrúmslofts kennt um skógarelda, flóð og allt þar á milli, þótt um atburð með 50 ára tíðni sé að ræða, eldar hafi verið kveiktir og byggð þanizt út. 

Loftslagspostularnir trúa greinilega ekki tuggunni úr sjálfum sér, því að afturhaldssjónarmið um að koma í veg fyrir verulega aukningu raforkuvinnslu ræður ferðinni. Þeim er alveg sama, þótt sveimhugar séu búnir að skuldbinda landsmenn til að borga nokkra mrdISK 2031 til ESB, ef ekki tekst að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi með innlendu rafmagni. Þetta ástand mála er geggjun og getur ekki viðgengizt lengur, en mun gera það, á meðan fígúran Katrín Jakobsdóttir situr í forsætisráðuneytinu.   

"Ýmsir hafa varað við því um nokkurra ára skeið, að í óefni stefni [sé þegar komið - innsk. BJo] að óbreyttu, og hafa þær áhyggjur farið vaxandi.  Þær áhyggjur snúast ekki aðeins um stórnotendur, heldur [aðallega] um heimilin í landinu, en hætta er orðin á, að þar komi til skerðingar á næstunni, sem er með miklum ólíkindum og sýnir, hve óhönduglega hefur verið á þessum málið haldið á undanförnum árum."

Þetta er hverju orði sannara og er falleinkunn fyrir stjórnmálin og viðkomandi stjórnsýslu.  Þegar heimildir orkufyrirtækjanna til skerðinga stóriðjunnar, en á hverju 5 ára tímabili er yfirleitt aðeins heimilað að skerða 5 % umsaminnar orku, þótt meira megi skerða innan hvers árs, þá kemur að fyrirtækjum án langtímasamninga við sinn orkubirgi og að heimilunum að gefa eftir nokkuð af sínu hefðbundna afli til að forða kerfishruni. Ástandið fer að minna á skelfilegt ástand rafmagnsmála í Suður-Afríku og leiðir auðvitað beint af hreinni vanrækslu við að sinna grunnþörf þjóðfélagsins. 

"Og að nokkru leyti má segja, að athugasemdir Samtaka iðnaðarins hafi fengizt staðfestar í samtali Morgunblaðsins við orkumálastjóra í blaðinu í gær [11.08.2023], þar sem fram kom, að orkumálastjóri hefur ekki miklar áhyggjur af töfum við leyfisveitingar, enda sé mest um vert, að leyfisveitingin sé vönduð.  

Um það er varla ágreiningur, en hitt er verra, að orkumálastjóri virðist ekki telja ástæðu til að liðka til í stjórnkerfinu vegna orkuframleiðslu og vísar í því sambandi til vandvirkninnar."

Þessi Orkumálastjóri er hluti af orkuvanda landsmanna, eins og sumir óttuðust við skipun hennar.  Hana sjálfa skortir alla þekkingu til að leggja gæðamat á fyrirhugaða verkfræðilega tilhögun virkjunar, og það er "tragíkómískt" að sjá og heyra hana klifa á nauðsyn vandvirkni við leyfisveitingu.  Það er sorglegt, því að 18 mánaða meðgöngutími Orkustofnunar fyrir leyfisveitingu fyrir fyrstu virkjun Neðri-Þjórsár verður þjóðinni óhemju dýrkeyptur vagna yfirvofandi orku- og aflskorts.  Það er hlægilegt, því að rýni Orkustofnunar á virkjunargögnum Landsvirkjunar fyrir Hvammsvirkjun hefur engar forsendur til að bæta nokkru vitrænu við hönnun virkjunarinnar; ekki frekar en pulsusjóðari getur bætt einhverju vitrænu við matseld Michelin-kokks. 

Grein Orkumálastjóra í Morgunblaðinu 18.08.2023 er eins og fréttayfirlit um orkumálin, sem sæmilegur blaðamaður hefði getað skrifað.  Það vantar djúpa greiningu á kreppu íslenzkra orkumála, eins og búazt hefði mátt við frá öllum gengnum Orkumálastjórum landsins.  Á grundvelli greiningarinnar hefði síðan mátt vænta traustra ráðlegginga til þjóðarinnar og stjórnvalda til að lágmarka tjónið, en hið eina, sem kom, var yfirborðslegt hjal um nauðsyn bættrar orkunýtni.  Þessi aðferðarfræði getur enga leiðsögn veitt. 

"Með þeim rökum [um nauðsyn vandvirkni - innsk. BJo] getur ríkið jafnan tekið sér drjúgan tíma í afgreiðslu mála, því að flest það, sem fengizt er við, og ekki aðeins á sviði orkumála, krefst vandvirkni.  

En þegar vandvirknin er orðin slík, að mál velkjast árum saman án niðurstöðu eða verður til þess, að ekkert er virkjað og orkuskortur er yfirvofandi innan skamms, þá hlýtur að þurfa að grípa til aðgerða.  Og þá þurfa t.d. talsmennirnir að setjast í ráðherrastólana og gera þær breytingar, sem duga.  Annars hafa þeir ekkert við stólana að gera."

Þetta óskilgreinda tal Orkumálastjóra um vandvirkni sem réttlætingu á mjög seinni afgreiðslu mikilvægustu mála Orkustofnunar, er hreinn fyrirsláttur, eins og bezt sést á því, að síðbúið virkjunarleyfi stofnunarinnar í Neðri-Þjórsá var nokkru síðar fellt úr gildi vegna annmarka á yfirferðinni, og hefur slíkt aldrei áður gerzt í sögu Orkustofnunar.  

Orkumálastjóri, sem skilur ekki þá bráðu nauðsyn, sem er á að fá öflugar virkjanir sem allra fyrst í notkun, er verri en enginn.  

 

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband